Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Kaldur róður fyrir 50 árum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
EYJÓLFUR GÍSLASON SKIPSTJÓRI:


Kaldur róður fyrir 50 árum


Eyjólfur Gíslason á sínum duggarabandsárum.

Veturinn 1918 hefur oftast verið kallaður frosta- eða gaddaveturinn mikli. Grimmdargaddar voru oft fyrri hluta vertíðar, og voru þá allar klappir og klettar, þar sem snjór náði til að slettast á, hvítar af gaddi. Fraus stundum klakabrynja á bátana, sem lágu við festar í höfninni.
Þessa vertíð reri ég á mb. Goðafossi VE 189, sem var mældur 11,22 rúmlestir. Var hann þá þriðji stærsti bátur í höfn. Formaður var Árni G. Þórarinsson, Eystri-Oddstöðum, 22 ára gamall, og var þetta önnur vertíð hans með Goðafoss. Dregið var út 28. desember 1917 og var róið alla dagana fjóra, sem lifðu af árinu. Minnist ég, að á gamlársdag var blíðusjóveður, en þá vorum við á sjó austan við Stórahraunið, suður af Súlnaskeri. Línulengdin var 11 bjóð, 6 strengja, og 3 strengir (stubbar), samtals 4230 önglar. Fiskuðum við þennan dag 750 af þorski og löngu og var þetta mest allt þorskur.

Frostharður á vetrarvertíð 1968.

Mesti harðindakafli þessarar vertíðar hér í Vestmannaeyjum var 6. til 22. janúar, og er mér einn róður sérstaklega minnisstæður frá þeim tíma. Verður nú sagt frá honum.
Það var 14. janúar, að kallað var til róðurs kl. 4 um morguninn. Frostið var þá full 17 stig, norðan kaldi og bjartviðri austur um sjó. Vorum við með þeim fyrri á sjóinn, en ekki mun hafa róið nema um helmingur báta sökum gaddhörkunnar, og sumir þeirra, sem fóru af stað, sneru aftur heim til hafnar.
Við vorum ekki nema fjórir á Goðafossi í þessum róðri, því að fimmti maðurinn, Guðni Sveinsson frá Norðfirði, var ekki kominn til vers vegna samgönguerfiðleika hingað frá Austfjörðum. Mótoristi á bátnum var Guðmundur Kristjánsson, ósérhlífinn og góður félagi. Hann var Vestfirðingur og búsettur hér um nokkur ár. Fjórði maðurinn hét Kristján. Hann var frá Ísafirði, óhraustur, en myndarlegur piltur, 21 árs.
Það gekk vel að koma bjóðunum í skjöktbátinn og út í Botn. Voru bjóðin að venju látin niður í lest, en það var föst og ófrávíkjanleg venja, hvernig sem veður var og hvort sem fara átti langt eða stutt. Man ég ekki til að hafa farið nokkra sjóferð svo með línu í bjóðum, að þetta væri ekki gert. Línan var beitt með þorskhrognum og „ljósabeitu“, ýsu, steinbíti og smálúðu, oftast einu til tveimur stykkjum á bjóð, en síldin var spöruð. Þótti óhóf, ef beitt var meiru en 5-6 stykkjum á bjóð. Á fyrstu árum línunnar og mótorbátanna var skammturinn 3 síldar á bjóð.
Beitan var nú öll samfrosin í eina hellu, og þegar farið var út Leiðina, fór ég niður í lest með olíuluktartýru, hníf og seilarnál, til að losa og pikka í sundur beituna. Ég var að paufast við þetta, þar til hægt var á vélinni og byrja átti að leggja, en þá vorum við komnir austur í miðjan Leir. Heldur hafði aukið kaldann, en engin ágjöf var, enda vindur og bára aftan til á miðsíðu. Línan var lögð í austur, sunnan við Eystri-Mannklakk.
Mitt verk var að leggja línuna. Var það ekkert sældarverk, þó að ekki væri kólgugaddur, því að maður varð að vinna berhentur, hverju sem viðraði. Þegar vel gekk úr bjóðunum, kom það venjulega út á mönnum svitanum, því að oft var keppni við aðra báta. Aukalaunin fyrir að leggja voru oftast heill strengur (60 önglar), og höfðu menn oft drjúgan kaupbæti á „stubbann“ sinn. Lagningsmenn beittu stubbann sjálfir og vönduðu það verk sem allra bezt með því að velja beztu beitu, sem völ var á, t.d. karfaslóg, sem þótti tálbeita fyrir þorsk. Sæmilega gekk að koma línunni í sjóinn, þó að margir krókarnir færu berir og uppréttir, og einn og einn yrði að slíta eða skera. Ekki fengum við í skrúfuna, sem var þó algengt, þegar lagt var til hlés og línan gekk illa út. Ekki höfðu allir sömu sögu að segja þennan morgun. Vigfús Sigurðsson frá Pétursborg (nú sjúkrahúsráðsmaður) var þá lagningsmaður á mb. Helgu hjá Árna Finnbogasyni, og kól hann svo illa, að hann varð handlama í rúmar þrjár vikur. Þeir voru á sjónum við Holtshraun og fengu þrisvar í skrúfuna á lögninni.

Línudráttur. Eftir málverki Kristins Ástgeirssonar, Miðhúsum. Þetta er einn af fyrstu mótorbátunum. Hver maður er við sitt verk. Formaðurinn er í andófi, einn dregur bólfærið, þriðji er að blóðga, vélstjórinn goggar af rúllunni og í lægra seti dregur háseti af spilinu.
Goðafoss VE 189.

Þegar línan hafði legið eina og hálfa klst., var byrjað að draga. Mun klukkan þá hafa verið rúmlega 9 og kominn steytingsstormur, sem fór heldur vaxandi og frostharður svo mikill, að hvergi sá til lands, og ekki nema skammt út frá bátnum. Var svo allan daginn.
Línan var dregin kinnungshallt á móti veðrinu. Kristján sat í dráttarstólnum, sem var stutt framan við dráttarspilið, út við stjórnborða. Dró hann alla línuna, en við það verk sneri hann undan veðrinu.
Gvendur stóð við rúlluna með gogginn og bar í, en ég blóðgaði og dró inn fyrsta bólfærið. Bjóðin voru látin niður í lest jafnóðum og dregið hafði verið í þau. Þegar við höfðum dregið 2 bjóð, veitti ég því eftirtekt, að Guðmundur var kalinn á annarri kinn og höku. Var þá hætt að draga um stund og andæft á línunni, á meðan haldið var klaka og krapa við kalið á Gvendi og það nuddað þar til kominn var á það eðlilegur holdslitur. Eftir þetta skiptumst við Gvendur á að gogga, afhálfu bjóði hvor, og úr því gekk þetta þolanlega. Var ekki sparað að nudda sig í framan með kröpuðum sjóvettlingum, þegar tóm gafst til. Fylgdumst við hvor með öðrum, svo að okkur kæli ekki á andliti. Drátturinn gekk frekar seint, enda ekki dregið eins hratt og nú tíðkast. Oft var „kóplað frá“ á drættinum til þess að hlífa línunni, og svo var stoppað við hver bjóðaskil og stjórakomu. Venja var að hafa hálft annað bjóð á milli bóla (9 strengi). Var línudrættinum ekki lokið, fyrr en að áliðnum degi, og þegar við komum upp undir Bjarnarey, var farið að bregða birtu. Er við komum í höfn, var frostið orðið nær 20 stigum og komst nokkuð yfir það seint um kvöldið og næstu nótt. Aflinn í þessum róðri var 380 af þorski og löngu, auk annars fisks, sem aldrei var talinn.

Ísaður bátur.
Lending. Hlaupið með kollubandið.

Þeir bátar, sem reru þennan dag, voru líkastir klakaklumpum, þegar þeir komu í höfn, og ég held, að enginn þeirra hafi farið í róður daginn eftir, enda þótt veður væri þá betra. Varð að berja allan ísinn af bátunum og dóa þá til, og var margt að lagfæra.
í þessum róðri kól formanninn, Árna, svo á báðum eyrum, að hann bar þess ekki bætur. Enginn kolaofn (kabyssa) var þá í Goðafossi, en mótorlampi (prímus) var þar, og var hitað á honum kaffi að loknum drætti. Aldrei var látið loga á prímusnum til að hita upp lúkarinn, nema maður væri niðri að gæta hans.
Á Goðafossi var hnéhátt „rekkverk" með 12 þumlunga skjólborði niður við þilfarið (lunning var sett á bátinn haustið 1919), og áttum við fullt í fangi með að halda auðu, svo að sjódrifið gaddaði ekki slétt yfir dekkið, milli skjólborðs og lestarkarms. Af fyrirhyggju formannsins var ný sementsskófla í bátnum, og kom hún í góðar þarfir við þetta verk.
Eftir þennan umgetna róður skrifaði Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir auglýsingu og lét festa upp í auglýsingakassa bæjarins, semvar á austurgafli verzlunarhússins Vísis (nú Þingvellir).
Ráðlagði hann mönnum að maka vel andlit og hendur með koppafeiti, sem væri þeim nærtæk, ef þeir lendi í þvílíku frostveðri, og myndi þetta verja þá kali. En upp frá þessu fór að draga úr frosthörkunum, og engan róður man ég þessum líkan vertíðina 1918 eða síðar.
Á þessum árum þekktust ekki kuldaúlpur eða annar sérstakur skjólfatnaður, sem síðar varð. Flestallir sjómenn klæddust ullarnærfötum, -ökklasíðum nærbuxum og heilerma nærbolum. Sjófötin voru þá með öðru sniði og skjólbetri en nú er. Yzt fata voru buxur úr seglastriga íbornar fernisolíu. Buxurnar voru tvöfaldar, þar sem mest mæddi á, og voru þær með breiðum smekk, sem náði vel upp á brjóstið. Í hvoru horni smekksins voru hnappagöt, sem axlaböndum var hneppt í, en þau voru úr sama efni og buxurnar, olíuborin og saumuð vel föst í buxnastrenginn að aftan. Einstaka menn létu sauma sjóbuxur úr sauðskinnum. Utan yfir buxur og buru var klæðzt sjókápu, sem var úr þynnri striga, en öll var kápan tvöföld og oft með slitbót á olnbogum. Sjókápurnar voru á sídd við síðan jakka og hnepptar með 4 hnöppum að framan. Efsti hnappurinn var hnepptur út úr kápunni tvöfaldri, en hinir huldir í kápubarminum. Á sjókápunum var hálskragi. Sjóhattar voru með stífum börðum, hlýju fóðri og stórum eyrnasneplum, sem skýldu vel. Sjóstakkar komu ekki hér til notkunar fyrr en eftir 1920. Allir sjómenn voru þá í vatnsleðurstígvélum, hnéháum. Einstöku menn voru þó í svokölluðum stígvélabússum, en þær voru úr sama efni og náðu upp á mitt læri eða vel það. Bússurnar þóttu stirðari til að vinna í á þilfari, þó þær hlífðu mönnum betur við setning skjöktbátanna, en algengt var, að menn færu upp fyrir hnéháu stígvélin við það verk.

Enn gerast kraftaverkin! Eins og skrýtlumynd Sigmunds ber vitni um, lagði flóa og firði veturinn 1968.png

Flestir Eyjasjómenn létu skósmiði hér smíða sér sjóstígvél. í verzlunum fengust útlend sjóstígvél, en þau þóttu reynast misjafnlega. Gúmmístígvél komu ekki í verzlanir hér fyrr en eftir 1920.
Það var föst venja sjómanna hér allt fram til 1930 að klæðast sjófötum („galla sig“), þegar þeir komu í beituskúrana að taka bjóðin fyrir róðra. Klæddust menn sjókápu og settu upp sjóhatt, ef regn var eða gaddur - eða ef búast mátti við ágjöf á leiðinni út á Botn í skjóktbátnum. Ekki var farið úr gallanum, fyrr en aftur var komið í beituskúrinn að afloknum róðri. Veitti enda ekki af að vera sjóklæddur, þó að menn hölluðu sér upp við súð eða á milli banda í litlu lúkörunum. En á margan hátt voru menn viðbúnir slíkum kuldaróðrum sem hér var lýst, því að komið var úr köldum, óupphituðum húsum í kolaleysi fyrra stríðsins. Viðbrigðin voru því ekki eins mikil og ætla mætti.

Eyjólfur Gíslason