Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Fiskikóngur Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
FISKIKÓNGUR VESTMANNAEYJA


Hilmar Rósmundsson „Fiskikóngur 1967“

Það er alltaf nokkur viðburður, þegar stór verstöð eins og Vestmannaeyjar eignast nýjan fiskikóng í röðum aflamanna sinna.
Þetta gerðist nú að lokinni vetrarvertíð, þegar Hilmar Rósmundsson skipstjóri á Sæbjörgu VE 56 varð aflahæstur skipstjóra Vestmannaeyjabáta vetrarvertíðina 1967 með rúmlega 1000 tonna afla til 13. maí að telja, en þá hætti Sæbjörg róðrum.
Það hlaut næstum að koma að þessu með mann eins og Hilmar, þó að við harðar kempur væri að etja eins og Hörð á Andvara og Óskar á Leó VE og fleiri þekkta aflamenn. Hilmar Rósmundsson hefur verið sívaxandi aflamaður undanfarin ár. Þessi vertíð var sérstaklega glæsileg hjá Hilmari, og var hann alla vertíðina aflahæsti bátur í höfn, frá því að hann hóf róðra 2. janúar.
Hilmar Rósmundsson er fæddur á Siglufirði 16. október 1925, sonur hjónanna Rósmundar Guðnasonar og konu hans Maríu Jóhannsdóttur. Eru forfeður Hilmars Skagfirðingar. Rósmundur Guðnason var þekktur sjómaður hér í Vestmannaeyjum á fyrri tíð og tók hér skipstjórapróf árið 1924, en afi Hilmars, Guðni, var þekktur bjargveiðimaður í Drangey í Skagafirði. Hilmari er því sjómennska og veiðimennska í blóð borin. Hann átti sín bernsku- og uppvaxtarár á Siglufirði og lauk þar gagnfræðaprófi. Sjóróðra frá Vestmannaeyjum byrjaði hann vetrarvertíðina 1947 með Páli Ingibergssyni í Hjálmholti, fyrst á Hilmi, en síðar á Reyni. Hilmar Iauk hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1949 með glæsibrag. Tók hann skólann á einum vetri, sem sagt er, og varð annar hæsti á burtfararprófi með ágætiseinkunn, 7,46. Varð hann síðan stýrimaður á bátum héðan frá Eyjum með nokkrum þekktustu sjósóknurum og aflamönnum Vestmannaeyinga eins og Jóhanni Pálssyni á Hannesi lóðs, og Helga Bergvinssyni á Stíganda.

Skipshöfn á aflaskipinu Sæbjörgu. Fiskikóngurinn annar frá vinstri. Ljósm.: Sigurgeir
Hjónin Þóra Sigurjónsdóttir og Óskar Matthíasson, skipstjóri á LEÓ. Óskar Matthíasson hefur í áraraðir verið einn bezti fiskimaður Eyjanna. Þau hjónin eiga 7 mannvænleg börn og hafa 3 synir þeirra lokið meira fiskimannaprófi frá stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum með prýðisvitnisburði. - Hafa þau hjónin stutt skólann með góðum gjöfum og velvilja.- Myndin er tekin við skólaslit 1966.

Hilmar gerðist formaður árið 1958 og tók við skipstjórn á m/b Gylfa. Var hann skipstjóri á þeim báti í 3 ár.
Haustið 1960 fór Hilmar í útgerð með mági sínum, Theódóri Ólafssyni, sem er vélstjóri á Sæbjörgu. Keyptu þeir m/b Sigrúnu, 50 tonna Svíþjóðarbát, og skírðu hann Sæbjörgu, en það nafn er myndað úr nöfnum dætra þeirra mága, Sædísar og Þorbjargar, og hefur gefizt vel.

Stefán stýrimaður á Sæbjörgu ber í fisk.

Útgerð þeirra Hilmars og Theódórs varð fyrir miklum byrjunarörðugleikum fyrsta árið, enda var vertíðin 1961 ákaflega léleg. Þennan fyrsta bát sinn misstu þeir haustið 1964, þegar óstöðvandi leki kom að bátnum í róðri.
Góðu heilli héldu þeir samt útgerð sinni áfram, þrátt fyrir mikla erfiðleika. Keyptu þeir vélbátinn Sigurfara frá Akranesi. Var hann við kaupin skírður Sæbjörg, og er það nú skip fiskikóngsins vertíðina 1967.
Sæbjörg VE 56 er 67 tonn brúttó, búin 495 hestafla Lister Dieselvél. Líkar Hilmari mjög vel við þennan bát og telur hann hafa marga mjög góða kosti, þó að hann sé burðarminni en fjöldi vertíðarbáta í Vestmannaeyjum í dag. Sæbjörg stundaði eingöngu veiðar með línu og net vertÍðina 1967. Byrjuðu þeir með línu, en tóku netin 7. marz og voru með þau í tvo mánuði, til 7. maí. Tók Hilmar þá aftur línu og rótfiskaði síðustu dagana fyrir lok hér úti í Háfadýpi. Fékk hann t.d. 17 tonn þann 9. maí, 18 tonn þann 10., en samtals aflaði hann 70 tonn síðustu vikuna. Fór Sæbjörg yfir 1000 tonna vertíðarafla síðasta róðurinn, laugardaginn 13. maí. Nákvæmlega talið varð aflinn 1000, 275 kg.
Hilmar sækir sjóinn af kappi og festu, en þó gætni. Hann er ákveðinn í skoðunum, en yfirlætislaus og félagi góður. Við vetrarvertíðarlok segir hann, að sér sé efst í huga þakklæti til góðrar og samvaldrar skipshafnar sinnar og náist svona árangur ekki nema með samhentum úrvalsdrengjum, en sumir skipverja hafa verið með Hilmari í margar vertíðir. Það hefur löngum þótt mikil sæmd að verða aflakóngur á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum og hljóta heiðurstitilinn „Fiskikóngur Vestmannaeyja“. Hefur sá heiður sízt rénað við minnkandi fiskafla og vaxandi erfiðleika að ná í þann gula.
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja og allir Eyjamenn óska Hilmari Rósmundssyni og skipshöfn hans til hamingju með þann sigur, sem þeir unnu svo glæsilega á erfiðri vetrarvertíð 1967.
Hilmar Rósmundsson er sómi stéttar sinnar og ber með mikilli prýði sæmdarheitið „Fiskikóngur Vestmannaeyja 1967“.