Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Þrídrangavitinn og bygging hans
Þegar hætt var að leggja línu á höndum og lagningsrennan var tekin í notkun hér árið 1928, jókst línulengd hjá flestöllum bátum um einn þriðja eða meira, frá 72 til 84 strengjum (12—14 bjóðum), sem var algengust línulengd hjá flestum bátum fyrri hluta línuvertíðar, uppí 100—120 strengi (20—24stampa).
Eftir að línulengd var orðin þetta mikil, var farið að stunda meira veiðar á Vestur- og Norðvestursvæðinu, vestan Dranga (Einidrangs og Þrídranga), því að flestir kusu að leggja línuna sem beinast og öllum þótti gott að sækja þangað, þar eð fiskirí var þar oft ágætt og miðin sléttur sandbotn á afar stóru svæði, straumlítið og línulétt, enda dýpið lítið, 40—50 faðmar.
Einn vondur annmarki þótti þó á sjósókn á Vestur- og Norðvesturslóðina, en það var landtakan. Var hún mjög erfið og hættuleg í dimmviðrum og náttmyrkri, áður en vitinn kom á Þrídranga, því að þá voru ekki komnir dýptarmælar, hvað þá heldur ratsjá til hjálpar og öryggis sjómönnum. Urðu formenn því alfarið að treysta á áttavitann og klukkuna. Helzt varð að hitta og sjá Drangana, Einidrang eða Þrídranga, því að á þá var stefnan sett, en eins og allir sjómenn vita er mikið hættusvæði milli Dranga, t. d. Blindskerin, Litliboði og fleiri hættuleg grunn.
Affararstaður til landtöku var oft æði óviss, þar sem hann var oftast frá endabauju línunnar, en hana gat oft og tíðum hafa rekið langan veg.
Fljótlega fóru því að heyrast raddir um, að mikil þörf væri á sterkum Ijósvita til Ieiðbeiningar þeim bátum, sem fiskuðu á Drangaslóð, þar eð Stórhöfðavitinn var ekki svo sterkur, að hann gagnaði til þessa, enda á þessum tíma lýstur með olíulampa.
Þegar Skipstjóra- og- stýrimannafélagið „Verðandi“ var stofnað 27. nóvember 1938, varð vitabygging á Þrídröngum eitt af fyrstu baráttumálum þess.
Árni G. Þórarinsson, skipstjóri og hafnsögumaður, fyrsti formaður „Verðandi“, fylgdi því máli fast eftir og af mikilli röggsemi. Hafði hann alla verkstjórn á hendi með flutning á efni til vitans, meðan á byggingunni stóð, ásamt fleiru því tilheyrandi, svo sem útvegun manna er við það unnu o. fl.
Árni Þórarinsson skrifar mér á þessa leið um byggingu Þrídrangavitans, og birtist það orðrétt með hans leyfi:
„Það var gaman að sjá myndina af Þrídrangavitanum í Sjómannadagsblaðinu, það rifjar upp gamlar minningar. Þær byrja á því, að ég fór til Jóhanns Gunnars, sem þá var bæjarstjóri og bað hann að skrifa áskorun til Vitamálaskrifstofunnar um að byggður verði viti á Þrídröngum og gjörði hann það eins og síðar kom í ljós, að hann er fyrstur manna til að tala fyrir þessu máli og það með réttu.
Ég taldi það réttara og árangursríkara að svo áhrifamikill maður færi af stað með þetta bráðnauðsynlega mál og benti honum á margt til að rökstyðja það. Því næst var unnið að þessu á öllum sviðum að sameina alla krafta um að þetta öryggismál næði fram að ganga. Ég minnist með ánægju þeirra stunda, sem fóru í að vinna að þessu máli, ég hafði frá upphafi samband við Vitamálastjóra, Emil Jónsson, og bauð honum aðstoð mína og allra sjómanna í Vestmannaeyjum við þetta mál. Það var líka svo, að allir sem unnu við vitabygginguna voru Vestmannaeyingar, nema verkstjórinn, Sigurður Pétursson, framúrskarandi samvizkusamur dugnaðarmaður, og svo trésmiðurinn Eiríkur.
Það var ánægjulegt að sjá og finna áhugann og vinnugleðina hjá öllum, sem að þessu unnu, þó að þrældómurinn væri oft fram úr hófi, til dæmis sóttum við alla steypumöl í Stafnes, bárum hana í pokum á bakinu út í skjöktbát, sem var haldið á floti og fluttum út í mótorbát, allir holdvotir og fórum beint til Dranga án þess að hafa fataskipti og selfluttum úr mótorbátnum til að draga það upp þar.“
Árni hélt dagbók meðan á byggingu vitans stóð, og fer hún hér á eftir ásamt stuttum inngangi hans og síðan lýsingu Hjálmar Jónssonar á uppgöngunni.
Inngangur að dagbók Árna Þórarinssonar yfir vitabygginguna á Þrídröngum:
„Það fyrsta sem varð að gjöra var að Ieggja veg upp í dranginn, því það var ófært öllum, þó þeir væru fjallamenn. Til þess voru valdir góðir fjallamenn, þeir voru: Þorsteinn Sigurðsson Melstað Vestm., Hjálmar Jónsson Dölum og Svavar Þórarinsson Suðurgarði, allir Vestmannaeyingar. Það var farið með grjótbora, hamra, keðju og klemmur til að setja keðjuna fasta með. Þetta höfðu þeir allt með sér og ströng fyrirmæli um að fara varlega og bolta sig áfram upp ef með þyrfti. Svo leggja þeir af stað upp og gengur allt vel þar til þeir eru komnir upp undir brún, þar slútir bergið framyfir sig og því engin handfesta og lítil fótfesta. Bjóst ég nú við að þeir tækju til við að bora fyrir boltum til þess að hafa þó að minnsta kosti fast fyrir fæturna, en þeir voru nú ekki að tefja sig á því, heldur leggst einn af þeim á fjóra fætur utan í bergfláann, svo skríður annar uppá bakið á honum og stendur með fætur á öxlunum á honum, svo klifrar sá þriðji upp þessa tvo, sem búnir voru að stilla sér upp, þá tekst honum að ná handfestu upp á brúninni og vega sig alveg upp. Ég ætla ekki að lýsa því hvernig mér leið meðan þeir voru að þessu glæfraspili, en það eitt er víst að mér hefur aldrei liðið eins illa á ævinni, því ég bjóst við að allir þrír kæmu hrapandi niður. Mér fannst ég einn bera alla ábyrgð á þessu ferðalagi og hafði enga afsökun aðra en þá, að ég bað þá að fara öðruvísi að þessu, en það er eins og oft fyrr og síðar, að það er hulinn verndarkraftur sem er hér að verki, ef menn gefa sér tíma til að hugsa um það.“
Hjálmar Jónsson frá Dölum, hinn góðkunni Vestmannaeyingur og frægi fjalla- og veiðimaður, hefur góðfúslega lánað til birtingar glögga lýsingu á uppgöngu þeirra félaga, sem hann skrifaði daginn eftir uppgönguna.
Fer hér á eftir lýsing Hjálmars:
Lagður vegur í Þrídranga
23. júní 1938, kl. 22 fór vélbáturinn Veiga frá Vestmannaeyjum til Þrídranga. Á bátnum voru: skipstjóri: Árni Þórarinsson (Lóðs), Helgi Guðlaugsson vélstjóri, Jón Ísak Sigurðsson háseti ásamt þremur fjallgöngumönnum, sem áttu að leggja veg á Stóradranginn, ef hægt væri að komast þar upp. Það voru: Þorsteinn Sigurðsson, Svavar Þórarinsson, Hjálmar Jónsson.
Uppgangan gekk frekar greitt. Þegar við komum upp undir efsta bringinn, þá urðum við að styðja hvern annan, þannig að ég stóð neðstur. Svavar stóð fyrir ofan mig þannig, að hann tyllti öðrum fæti í bergið, en stóð með hinn á öxl minni, svo varð Þorsteinn að klífa upp bakið á Svavari og komst hann þannig upp á brún. Hann hafði tó fast við sig, svo að við komumst upp á því strax og hann var kominn upp.
Síðan fórum við rannsóknarför um dranginn, þar fundum við tvær fallbyssukúlur, 30 kg þungar, sem við náðum, og eru þar margar kúlur af sömu gerð kafreknar í bergið.
Stærð drangsins: Áætluð breidd 17—20 metrar, hallar frá vestri til austurs, ea. 5—7 metr. halli, lengd gangfær alls 40—50 metr. ca. 28—34 mtr. hallar suður ca. 3—4 metr. (hæð þar sem helzt er vitastæði ca. 30—40 metr.) nyrzt skerst upp hyrna, sem myndar egg efst. ca. 0—10 metr. hærri en flötur drangsins, sú hyrna er ókleif.
Við lögðum járnkeðju ofan af brúri á miðjum drang að vestan og skáhallt niður að sjávarmáli móti SV. Iengd keðjunnar er ca. 45 metr., festum við keðjuna með járnboltum, sem við urðum að bora fyrir í bergið og reka þá síðan í holurnar.
Á drangnum er mjög lítill glóður; dálítið skarfakál, fuglalíf einhliða, ca. 80—90 fýlungar.
Komum til Eyja kl. 6.30 24. júní. Vorum í túrnum 8,30 klst.
Hefst þá dagbók Árna Þórarinssonar yfir vitabyggingu á Þrídröngum árið 1939:
12/6 1939. Farið að undirbúa flutninga til Þrídranga. Mb. Ófeigur VE 217, eigandi Jón Ólafsson, Hólmi, Vestmannaeyjum, tekinn á leigu. Fengnir tveir menn til að setja hann í stand fyrir flutningana, látið í hann vatn, olía og ýmisl. lagfært.
16/6. Lagt af stað til Stokkseyrar kl. 10 fr.m. til að sækja verkfræðing Axel Sveinsson, verkstjóra Sigurð Pétursson og trésmið ásamt áhöldum og timbri frá Knarrarósvita. Komið frá Stokkseyri kl. 1:30 um nóttina, ferðin gekk vel. Gott veður.
17/6. Kl. 6 að morgni, farið að undirbúa ferð til dranga. Farið af stað kl. 2 e.m. Þá settir uppí dranginn verkfræðingur Axel Sveinsson, verkstjóri Sigurður Pétursson og trésmiður ásamt 6 mönnum úr Eyjum. Að því búnu farið að draga upp efni og mat, með viðleguútbúnaði öllum. Þetta var mjög erfiður dagur, því enginn útbúnaður var kominn til að draga upp með. Kl. 11:30 e. m. sama dag var hætt að draga upp, þá fóru bátsmenn til Eyja að sækja augabolta og grjótbora til að festa niður mastri og bómu til að draga upp með.
18/6. Kl. 3 f. m. kom báturinn til Eyja aftur, þá farið að láta í hann sement, sand, möl og timbur o. fl. sem með þurfti. Þá höfðu verið menn að draga að efni alla nóttina, farið af stað til Dranga kl. 12 á hádegi. Allt dregið upp úr bátnum, enda þá komið spil til að draga upp með. Þetta var handsnúið spil og þar af leiðandi mikið erfiði að draga upp svo mikið af þungri vöru: svo sem sement, möl, sand, steypustyrktarjárn, timbur o. fl. Vinnan gengur mjög vel. Gott veður.
19/6. Kl. 12 á hádegi farið til Dranga með alls lags efni og 4 menn til að hjálpa til að draga upp. Þeir teknir aftur um nóttina. Það kom í ljós að ekki er hægt að ná í góða steypumöl hér við höfnina, þess vegna var í heimleiðinni þessa nótt farið að Stafsnesi, sem er vík vestan á Heimaey. Þar var ágæt möl og er það í fyrsta sinn sem tekin er möl þar, en erfitt var það, því við urðum að bera hana á bakinu og vaða uppí mitti til að koma henni í léttbátinn, sem flutti hana út í mótorbátinn. Síðan farið til Dranga og losað þar. Þessu öllu Iokið kl. 4 fr. m. 20/6. Gengur allt vel. Stillt og bjart veður.
20/6. Kl. 10 fr. m. farið af stað með efni og 4 menn til að draga upp í Dranginn, þeir teknir aftur um nóttina og farið til Eyja. Gengur allt vel. Gott veður.
21/6. Farið með sand o. fl. Dálítið brim. Gekk allt vel. Gott veður.
22/6. Vestan stinningskaldi, talsverð bára. Ekki hægt að athafna sig við Dranginn.
23/6. Farið til Dranga með kvars o. fl. seni kom með Es. Hermóði frá Reykjavík, en þegar komið var að Dröngum vantaði möl og var því farið til baka strax að sækja hana. Það kom nú í Ijós að það er bæði kostnaðarsamt og óþægilegt að hafa ekki talstöð í Dröngunum, fyrir utan öryggið sem í því er ef slys ber að höndum. Allt dregið upp úr bátnum. Komið til Eyja kl. 12 á miðnætli. Gengur allt vel. Gott veður.
24/6. Farið til Dranga með ýmislegt. Drangabúar komu heim nema 2 menn sem gæta bús þar. Stillt og bjart veður.
25/6. Búið að fá talstöð á leigu og setja hana í stand, fengum 2 menun til að selja hana upp í Dröngum. Farið til Dranga í annað sinn í dag með menn þá er koniu heim á laugardagskvöld og til að sækja þá sem voru að setja upp talstöðina. Komið heim kl. 11 e. m. Gengur allt vel. Skýjað loft, stillt veður.
26/6. Ekki farið til Dranga.
27/6. Farið með möl, sand og sement, einnig var með í þessari ferð múrari Óskar Kárason. Nú er talsamband komið á milli Dranga og Eyja, þar með geta Drangabúar pantað eftir þörfum það sem þá vantar og sparar það bæði tíma og peninga. Gott veður, ládauður sjór.
28/6. Kl. 9 fr. rn. farið til Dranga með kvars og sement sem var hér í Eyjum frá Knarrarósvita. Farið aftur kl. 7 e. m. til að sækja Óskar Kárason múrara. Komið til Eyja kl. 10:30 e. m. Búið að pússa vitabygginguna að utan og er hann mjög fallegur af sjó að sjá. Allt gengur vel. StiIIt og bjart veður.
29/6. Farið til Dranga með sand, möl og sement. Ennfremur voru með í þessari ferð bæjarstjóri og nokkrir fulltrúar úr bæjarstjórn og hafnarnefnd. Þeir fóru allir upp í Dranginn og leizt hið bezta á bygginguna; því næst bar matsveinninn, Jóhann Stígsson, gestunum kaffi uppá þaki vitabyggingarinnar. Voru gestir mjög hrifnir af gestrisni Drangabúa og svo af því hvað fallegt er að sjá til Eyja og upp til lands í svona góðu veðri úr þessu eyðiskeri. En þó allt hjálpist að til að gjöra slíkar stundir ánægjulegar, fylgir þó á þessum stað alltaf skuggi, þegar maður lítur yfir blindskerin og boðana sem eru hér skammt frá, og hugsar um afdrif þeirra sjómanna sem hafa komið þar of nærri. Ennfremur beinist hugurinn með þakklæti til allra þeirra manna sem átt hafa einhvern þátt í að þetta blessaða leiðarljós er komið hér upp, sem mun lýsa sjófarendum um alla framtíð. En fyrst og fremst á herra Emil Jónsson vitamálastjóri þakkir og heiður skilið fyrir þann mikla áhuga og skilning á þessu nauðsynlega slysavarnamáli. Til dæmis lagði hann það á sig að láta draga sig upp 90 feta hátt standberg eins og vanur fjallamaður, til þess að athuga vitastæðið. Það var ánægjulegt að vera með í þessu verki, því áhuginn fyrir því að þetta gengi sem allra bezt hjá hverjum einstaklingi var alveg einstakur og er þar enginn undanskilinn. Þeir gengu þar fremstir í flokki: Axel Sveinsson verkfræðingur og Sigurður Pétursson verkstjóri, sem var sérstaklega áhugasamur og samvizkusamur verkstjóri.
30/6. KI. 11:30 fr. m. farið til Dranga með sand, möl og sement. Jóel Eyjólfsson kom heim lasinn í fæti. Sigurjón Friðbjörnsson fór í hans stað. Stillt og bjart veður.
1/7. Kl. 11:30 fr. m. farið til Dranga með ýmislegt. Tekið í bátinn afgangur, svo sem járn, sement, hvítur salli o. fl. Öllu ekið í hús til geymslu. Nú er verkinu að mestu lokið og verður haldið áfram að flytja heim með hverri ferð. Gengur allt vel. Stillt og bjart veður.
2/7. Ekki farið til Dranga. Norðan stormur.
3/7. Kl. 2, e. in. farið til Dranga að sækja Drangabúa og alla búslóðina. Er þar með lokið að byggja vitahúsið, en eftir er að setja ljósabúnað allan sem ekki er fyrir hendi eins og er. Þessi ferð gekk mjög vel eins og allar ferðir og heimtum við Drangabúa glaða og heila.
Allur ljósaútbúnaður átti að koma hingað með E.s. Gullfoss um miðjan apríl árið 1940, en þá var Danmörk hernumin og GuIIfoss kyrrsettur þar í landi og korn hér aldrei meir.
Í maímánuði 1942 komu svo loks Ijósatækin í vitann til Reykjavíkur.
Heldur hér áfram dagbók Árna frá árinu 1942:
4/6. Kom E.s. Hermóður frá Reykjavík til Vestmannaeyja með ljósabúnað í Þrídrangavitann.
8/6. Farið að undirbúa flutninga til Dranga. Til þess voru ráðnir þeir Jóel Eyjólfsson og Jóhann Stígsson.
18/6. Kl. 4 e. in. m.b. Skíðblaðnir fenginn til að flytja til Dranga það sem þarf til að draga upp ljóshús og það sem því tilheyrir. Frá Vitamálaskrifstofu kom hr. Sigurjón Eiríksson, sérfræðingur í að ganga frá vitaljósum og öllu, sem því tilheyrir. Hann er sérstakt prúðmenni, áhugasamur og duglegur í þessu starfi. Með honum fóru þeir Jóel Eyjólfsson, Jóhann Stígsson og Kjartan Jónsson vélsmiður. Þeir verða i vitanum þar til verkinu er lokið. Þessi ferð gekk mjög vel. Austan gola, rigning öðru hvoru, brimlaust.
21/6. M.s. Skaftfellingur með nótabát til að flytja ljóshúsið og það sem því tilheyrir.
Þetta var erfiður flutningur og varð að hafa marga menn, sem allir voru úr Eyjum. Ferðin tók 10 klst. Allt gengur vel. Gott veður.
27/6. M.b. Skíðblaðnir fór til Dranga með ýmislegt. Var 4 klst. í ferðinni. Gott veður.
2/7. M.b. Skíðblaðnir var 3 klst. í ferðinni. Gott veður.
4/7. M.b. Ingólfur fór til Dranga með ýmislegt smávegis. Var 4 klst. í ferðinni. Gott veður.
5/7. M.b. Ingólfur fór þessa ferð til að sækja Drangabúa og er hér með búið að ganga frá Ijósabúnaði og öllu sem því tilheyrir og allir, sem unnið hafa að því, fluttir heim, ásamt öllum viðleguútbúnaði. Þessi ferð tók 8 klst. Það var gleðilegt að sjá vitann kveðja okkur með Ijósmerkjum sínum í þessari síðustu ferð í byggingasögu þessa vita, sem allt hafði gengið svo vel og slysalaust.
Mótorbátar, sem koma við byggingasögu þessa vita eru: M.b. Ófeigur, sem var leigður allan tímann við að byggja vitahúsið. Svo þeir sem voru við að ganga frá Ijósinu: M.b. Skíðblaðnir: 35 kr. fyrir klukkutímann, M.b. Skaftfellingur: 40 kr. fyrir klukkutímann, M.b. Ingólfur: 30 kr. fyrir klukkutímann.
Þegar ljósatækin voru sett í Þrídrangavita árið 1942 var tímakaupið: Dagvinna: 2,45. Eftirvinna: 3,84. Næturvinna: 4,93.
Sennilega er vitabyggingin á Þrídröngum ein hin allra erfiðasta, sem framkvæmd hefur verið við Íslandsstrendur.
Hún mun því ávallt teljast þrekvirki, sem ekki hefði unnizt nema af úrvalsmönnum, undir öruggri og góðri stjórn.
Saga vitans á því að geymast en ekki gleymast.
Þeir sæfarendur, sem hjá Þrídröngum fara á myrkum óveðursnóttum, senda þeim mönnum hugheilar þakkir.