Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1965/ Slysavarnadeildin „Eykyndill”

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
SIGRÍÐUR MAGNÚSDÓTTIR


Slysavarnadeildin Eykyndill


Ritstjóri Sjómannadagsblaðsins. Guðjón Ármann Eyjólfsson skólastjóri, hefur beðið mig að segja nokkuð frá stofnun og störfum Slysavarnadeildarinnar „Eykyndils“ og er mér ljúft að verða við því.
Slysavarnadeildin „Eykyndill“ var stofnuð 25. marz 1934 og hefur því starfað hér 31 ár. Þá var í nokkrum kaupstöðum byrjað að koma á fót kvennadeildum, sem voru í samstarfi við S.V.F.Í. í Reykjavík og þóttu þær þá strax efla mjög starfsemi félagsins. Aðalhvatamaður að stofnun „Eykyndils“ var Páll heitinn Bjarnason skólastjóri og kona hans, frú Dýrfinna Gunnarsdóttir, Ólafur Ó. Lárusson héraðslæknir og kona hans frú Sylvía Guðmundsdóttir ásamt Jóni heitnum Bergsveinssyni, sem lengi var erindreki hjá S.V.F.Í. Hann kom hingað til Eyja og skipulagði starf þessarar deildar og fjölmargra annarra víðs vegar um landið. Sá hann það, sem síðar hefur komið í Ijós, að konur voru mjög áhugasamar að vinna að slysavarnamálum og frá fyrstu tíð ötular í starfi.
Fyrstu stjórn „Eykyndils“ skipuðu þessar konur: Sylvía Guðmundsdóttir formaður, Dýrfinna Gunnarsdóttir ritari, Katrín Gunnarsdóttir gjaldkeri. Meðstjórnendur voru: Magnea Þórðardóttir. Elínborg Gísladóttir, Þorgerður Jónsdóttir og Soffía Þórðardóttir.
Deildin setti sér strax það markmið að vinna af alefli að öllu sem til öryggis væri hér í bæ og einnig að safna peningum til almennra slysavarna, sem sendir yrðu S.V.F.Í. Þetta hefur alltaf verið gert, en fyrir 20 árum var hér ekki mikið um peninga og litlu hægt að safna, þó að viljinn væri nógur. Þó var vélbátaeigendum hjálpað að fá talstöðvar í báta sína, keyptir Ijóskastarar til að hafa á bryggjunni, gefið til sundlaugarinnar hér ásamt ýmsu fleiru.
Arið 1950 gengumst við í „Eykyndli“ fyrir því að ljósdufl var sett hér við Eiðið, svo að bátar gætu Iegið við það í vondum veðrum, þegar þeir komust ekki inn í höfnina. Duflið var í nokkur ár fyrir Eiðinu og sá deildin um að endurnýja ljós í því og varð sá kostnaður 14.000 kr., sem var drjúgur skildingur þá. Um líkt leyti var komið hér upp miðunarstöð, sem lengi var eitt af aðalmálum okkar í deildinni og starfræktum við hana í nokkur ár. Kostnaður við hana varð um 30.000 kr. Þá má minna á skýlið á Faxaskeri, sem deildin sá um að reisa.
Arið 1958 voru gefnar 5000 kr. til barnaleikvallar hér. 1960 afhentum við Björgunarfélagi Vestmannaeyja 25.000 kr. til kaupa á björgunartækjum. Þegar hafnarbáturinn „Lóðsinn“ kom 1961 afhenti deildin bæjarstjóra bankabók með 50.000 kr., sem varið skyldi til tækjakaupa á bátinn. Síðan höfum við gefið hlífðarföt og ýmsan fatnað á „Lóðsinn“ og nemur sú upphæð 10.000 kr.
20.000 kr. höfum við gefið í sjúkrabílinn hér. Í tilefni af 20 ára afmæli deildarinnar gáfum við 10.000 kr. í sjúkraflugvél Björns Pálssonar og á 30 ára afmæli „Eykvndils“, síðastliðið haust, afhentum við bæjarstjóra bankabók með 25.000 kr. til Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, sem þá var nýtekinn til starfa. Margt fleira mætti nefna. svo sem gjafir í sjóslysssöfnunina, þegar Hermóður og Júlí fórust o. fl., o. fl., en ég læt þetta nægja.
Allra þessara peninga hefur verið aflað með hlutaveltum, merkjasölu, bazar og síðustu árin með kaffisölu á sjómannadaginn. Bak við þetta er mikil vinna, en í deildinni eru mjög áhugasamar konur, sem ávallt eru reiðubúnar að vinna fyrir málefni slysavarnanna. Þannig hefur starf „Eykyndils“ verið og mun verða í framtíðinni, en áhugamál allra slysavarnadeilda er að vera traustur hlekkur undir forystu aðalfélagsins S.V.F.Í., og óskar deildin að sem mestur og beztur árangur verði af starfinu. Þó að mikið hafi áunnizt eru alltaf ný og ný verkefni, sem leysa þarf.

Núverandi stjórn Slysavarnardeildarinnar „Eykyndils“.

Núverandi stjórn Slysavarnadeildarinnar „Eykyndils“ skipa:
Sigríður Magnúsdóttir formaður.
Þórunn Sigurðardóttir ritari.
Katrín Árnadóttir gjaldkeri.
og meðstjórnendur:
Klara Friðriksdóttir,
Þórdís Guðjónsdóttir,
Anna Halldórsdóttir,
Sigurbjörg Guðnadóttir.

Öllum bæjarbúum þakka ég fyrir hvað þeir hafa alltaf tekið okkur vel og verið rausnarlegir Við okkur þegar við höfum kvabbað á þeim, sem auðvitað hefur verið oft, enda hefði árangurinn ekki verið svona góður án þess.
Að lokum óska ég sjómannastéttinni til hamingju með sjómannadaginn og allra heilla í framtíðinni.