Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1959/ Sjóminjasafn í Eyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sjóminjasafn í Eyjum


Við höfum áður á það minnzt í Sjómannadagsblaðinu, hversu mikil nauðsyn það væri að koma hér upp víðtæku sjóminjasafni. Þessi hugmynd hefur fengið mjög góðan byr hjá sjómönnum Eyjanna, og vísir að safni þessu er þegar myndaður. Fiskideild Vestmannaeyja (en stjórn hennar skipa: Helgi Benónýsson, form., Guðni Grímsson, gjaldkeri, Páll Þorbjarnarson, ritari, og meðstjórnendur Guðjón Jónson í Hlíðardal og Jón Guðmundsson í Miðey) hefur tvívegis lagt fram kr. 1000,00 í hvort sinn til kaupa á munum í sjóminjasafnið hér, sem verður deild í Byggðarsafninu sjálfu. Vissulega erum við þakklátir fyrir þann stuðning við þessa hugsjón okkar og höfum eftir megni reynt að launa þann góða skilning og stuðning með auknu starfi.
Það hefur orðið að ályktun okkar, að við segðum Eyjabúum frá starfi því hér í blaðinu, hvað áunnizt hefur í því starfi að safna sjóminjum.
1. Ágúst Árnason, sem hér var kennari og smiður um margra ára skeið, og einnig sjómaður og réri lengi á opna skipinu Ísak, smíðaði eitt sinn líkan af því, sem þótti og þykir sérlega vel gert. Þetta bátslíkan hafði hann ánafnað minjasafninu hér eftir sinn dag. Það er nú geymt hér.
2. Við létum á sínum tíma flytja hingað úr Landeyjunum feræringinn Farsæl, sem var bygður árið 1872 af Jóni Tómassyni bónda að Arnarhóli í Vestur-Landeyjum. Við nutum velvilja og hjálpsemi Einars GíslasonarArnarhóli hér til að ná í bátinn. Við höfum látið gera við hann og bíður hann nú þess að bæjarfélagið eignist safnhús, svo að hann verði til sýnis þar öllum almenningi. Báturinn er með því lagi, sem algengast var hér á opnum skipum um langt skeið, enda mörg hin farsælustu opnu skip Eyjabúa byggð í Landeyjum, svo sem Gedion, Trú, Ísak o. fl.
3. Svo sem kunnugt er, þá eru hér mjög færir menn í netagerð. Þeir hafa haft í læri hjá sér efnilega nemendur, sem hafa tekið sín sveinspróf. Þrjú slík sveins„stykki“ höfum við keypt í sjóminjasafnið, þ. e. botnvörpulíking, herpinót og dragnót. Þessir hlutir allir þykja vel gerðir.
4. Engin hákarlaveiðitæki hafa fundizt hér, enda þótt Eyjabúar stunduðu hákarlaveiðar um aldir, að álykta má. Við urðum þess vegna að láta búa til öll hákarlatækin. Það gerði Austfirðingur, sem stundað hafði hákarlaveiðar fram á efri ár.
5. Þá erum við að verða því vaxnir að sýna bæjarbúum þróun færisins, handfærisins frá fyrstu tíð, vaðsteininn og útbúnaðinn við hann, járnsökkuna, blýsökkuna með einteiningnum, blýsökkuna með tvíteiningnum, og svo nú nælonfærið með sérkennilegu sökkunni og fjölkrækinu, slóðanum.
6. Heilt safn höfum við eignast af seilarnálum, bæði úr beini og tré.
7. Töluvert höfum við eignast af fiskiönglum ýmissa gerða, og sumir þeirra smíðaðir hér heima. Þeir eru verðmætastir, því að á þeim er íslenskt handbragð.
8. Þá hafa safninu borist nokkrir hákarlaönglar, flestir smíðaðir hér í Eyjum, svo og ífærur, bæði til lúðuveiða og hákarlaveiða.
9. Svo sem eldri kynslóðinni er enn í minni, var línan til skamms tíma beitt í bjóð en ekki stamp. Fyrir nokkrum árum eignaðist minjasafnið bjóð, vel lagað og gert frá einni af kunnustu útgerðinni og happasælustu hér í Eyjum. Þá höfum við einnig náð í stokktré, stærri og smærri, frá fyrstu árum línuveiðanna.
10. Fegurstu hlutirnir á minjasafninu verða myndirnar, sem þar eru nú og eiga eftir að safnast þangað. Má þar nefna myndina af v.b. Sigríði, sem Engilbert Gíslason, málarameistari, gerði fyrir þá Holtsbræðtir og þeir gáfu síðan safninn til minningar inn sjósókn og útgerð föður síns í þessu bæjarfélagi. Þessa hefur verið getið áður í blaði hér í bæninu. Í fyrra höfðum við kr. 8000,00 í hagnað af vorsýningunni í Gagnfræðaskólanum. Fyrir helming þeirrar upphæðar keyptum við vel gerðar vatnslitamyndir, sem Kristinn Ástgeirsson málaði. Þær myndir gefa okkur hugmynd um starfið við aflann, þegar að landi kom, bæði hlutverk sjómannsins að seila fiskinn og draga upp í sand, setja skipin, afla ýmissa hluta, sem nauðsyn var á til þess að gera vöru úr aflanum o. s. frv. Þá veita þær myndir okkur hugmynd um hlutverk kvennanna, þegar aflinn hafði verið dreginn í Sand, störf þeirra við að draga fiskinn úr Sandi upp að krónum, þar sem gert var að honum o. s. frv. Þá sýna þessar myndir tilhögun á athafnasvæði Eyjaskeggja, eins og það var frá fyrstu tíð til síðustu aldamóta og fram yfir, eða hart nær í 1000 ár, þ. e. Lækinn, eins og það svæði var kallað, og svo Hrófin þar suður og austur af. Allt hefur þetta ómetanlegt gildi fyrir alla framtíð. Nú er allt þetta athafnasvæði, eitt ltið merkasta á landinu, hulið undir mannvirkjum.
Fyrir ágóðann af vorsýningu Gagnfræðaskólans, s.l. 7. maí, keyptum við þrjú málverk af Engilbert Gíslasyni, og þykja þau með afbrigðum vel gerð. Þau eru gerð eftir rissum af kauptúninu fyrir og eftir síðustu aldamót. Þau riss gerði Engilbert sjálfur. Málverkin sýna okkur afstöðu ýmissa gamalla húsa og annarra mannvirkja hér niðri við höfnina, og þau verða sett upp í minjasafninu með bestu skýringum, sem kostur er að fá. Engilbert Gíslason hefur þegar gefið okkur þær. Vonumst við til að geta sýnt Eyjabúum þessar fallegu myndir uppsettar næsta vor.
Segja má, að rétt horfi fyrir okkur í þessu starfi. En mest er okkur vert um það, að Eyjabúar séu sjálfir og allir með og hver og einn leggi hér hönd á plóginn eftir beztu getu. Satt að segja finnst okkur, að skilningur Eyjabúa og vilji til þessa verks hafi farið ört vaxandi þessi síðustu ár og árangur starfsins sé þess vegna furðu mikill og góður.
Við munum í þessum efnum gera okkar ýtrasta til að skuturinn liggi ekki eftir, ef okkar kæru bæjarfélagar vilja róa vel í framrúmunum. Þannig vinnum við bæjarfélaginu ómetanlegt gagn, svo og öllum komandi kynslóðum, því að minning feðranna er framhvöt niðjanna.

Byggðarsafnsnefndin

Erlendir togarar í vari austan við Eyjar.
Vestmannaeyjahöfn um 1954.
Besta leiðin til að forða landbroti á Eiði er brimbrjótar, sem verðar upphaf að norðurhöfn, með hafnarmannvirkjum á Eiðinu. - B. J.