Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1959/ Rætt við Sigurð Ingimundarson áttræðan
Niður við höfnina má oft sjá gamlan mann á stjái. Stundum situr hann á steinpollanum á enda Bæjarbryggjunnar og horfir lengi út á sjóinn. Trúlega hvarflar þá hugur þessa aldna sægarps til löngu liðinna daga, þegar hann stóð í fylkingarbrjósti þeirra, sem fastast sóttu sjóinn og lét sér fátt eða ekkert fyrir brjósti brenna.
Maðurinn er Sigurður Ingimundarson í Skjaldbreið, en hann varð áttræður 22. maí s.l.
Margt hefur drifið á daga Sigurðar á langri ævi, oft hefur syrt í álinn, verið tvísýn landtakan, en kominn er hann fram á þennan dag og líklega er það einmitt fyrir það, að hann hefur mótazt í hörðum skóla reynslunnar og hugurinn aldrei bilað á hverju sem valt.
Ég hitti Sigurð að máli og inni hann eftir ýmsu, er á daga hans hefur drifið.
— Ert þú einn af þessum „innfæddu“ Vestmannaeyingum, Sigurður?
— Nei, ég er Landeyingur. Ég er fæddur í Miðey í Austur-Landeyjum árið 1879. Foreldrar mínir bjuggu við lítil efni. Það var mikil fátækt í Landeyjum fyrir aldamótin. Nú, heimilið leystist upp og ég fór til hans Þórðar í Stóru-Hildisey. Ég var orðinn stálpaður, en hann vildi ekki borga mér kaup, svo ég fór frá honum til Lofts á Tjörnum. Hann borgaði mér 80 krónur í árskaup, en ég var ekki ánægður með það; vildi fá 100 krónur, en hann gekk ekki að því, svo ég segi við hann: Þá er ég farinn. Þá fór ég vinnumaður til Jóns á Seljalandi og Guðnýjar, en ég var þar ekki lengi.
— Hvað tókstu þér þá fyrir hendur?
— Ég varð lausamaður, sem kallað var, en maður varð að hafa lausamennskubréf, annars voru þessir höfðingjar alltaf að andskotast í manni. Það mun hafa verið rétt fyrir aldamótin sem ég fór hingað út í Eyjar, en Sigurður hreppstjóri kærði mig fyrir sýslumanni fyrir óleyfilega lausamennsku. Hann var að djöflast í öllum hérna, hann Sigurður hreppstjóri. En ég sá við þeim: þótti vissara að vera við öllu búinn, svo ég bað hann Ingvar í Yztabæli að láta skrifa mig hjá sér sem vinnumálin næstu þrjú ár og láta mig hafa það skriflegt, að ég væri vistráðinn hjá honum. Nú, svo er ég kallaður í yfirheyrslu hjá sýslumanni, en ég segi honum, að ég sé heimilisfastur að Yztabæli. — Getið þér sannað það? spyr þá sýslumaður. Dreg ég þá upp úr vasa mínum plaggið frá Ingvari í Yztabæli og rétti sýslumanni. Hann las þrisvar það sem á blaðinu stóð og fékk mér það svo steinþegjandi. — Og nú sauð hláturinn í Sigurði, svo hann hristist.
— Jæja, þú munt hafa farið að slunda sjóinn þegar þú komst hingað eins og aðrir ungir menn á þeim árum?
–– Já, ég reri hjá Hannesi lóðs. Hann var ágætur formaður, já, mikill sjómaður Hannes.
— Nú, svo fór ég að fara austur á sumrin. Ég var átta sumur austur á Norðfirði hjá honum Ingvari Pálmasyni, sem seinna varð þingmaður. Hér féll vel við Ingvar. Hann vildi fá mig fyrir formann með bát og það varð úr, að ég tók við formennskunni. Ég var átta sumur með bátinn og þrjú sumur varð ég aflahæstur í Firðinum.
Það var einu sinni, þegar við vorum að berja inn fjörðinn í myljandi roki, að við fórum inn á Hundsvíkina og ætluðum að bíða þar stundarkorn. Kemur þá Ingvar húsbóndi minn og biður mig að lofa sér að fljóta með heim, sem var ekki nema sjálfsagt. Bjóðin voru í barkanum ofan á aflanum og Ingvar hoppar niður í bátinn, ofan á bjóðahrúguna. Skrika þá bjóðin eitthvað til og Ingvar steypist í sjóinn. Ég hafði þá snör handtök, þó ég segi sjálfur frá, næ taki á kápulafi Ingvars og held honum uppi. Ég náði honum ekki einn inn í bátinn. En strákarnir brugðu fljótt við og við hjálpuðumst að því að innbyrða húsbóndann. En þess bað hann okkur lengstra orða, að segja ekki frá þessu atviki heima.
— Lentir þú nokkurntíma í svaðilförum fyrir austan?
— Ó, nei, ekki get ég sagt það. Vestanrokið var verst. Þegar hann rauk út fjörðinn. Þá var ógerningur að berja á móti. Við lentum einu sinni í Sandvík í vitlausu vestanroki. Við vorum þar um nóttina. Það var ekki þurr þráður á okkur og húsfreyjan vildi ekki heyra annað nefnt en að fötin okkar yrðu þurrkuð; við yrðum að bíða á meðan. Ég sagðist far vinnumaður til Jóns á Seljalandi og Guðnýjar, en ég var þar ekki lengi.
— Hvað tókstu þér þá fyrir hendur?
— Lentir þú nokkurntíma í svaðilförum fyrir austan?
— Ó, nei, ekki get ég sagt það. Vestanrokið var verst. Þegar hann rauk út fjörðinn. Þá var ógerningur að berja á móti. Við lentum einu sinni í Sandvík í vitlausu vestanroki. Við vorum þar um nóttina. Það var ekki þurr þráður á okkur og húsfreyjan vildi ekki heyra annað nefnt en að fötin okkar yrðu þurrkuð; við yrðum að bíða á meðan. Ég sagðist fara klukkan níu. Þá mættum við bát, sem var á leið út að leita okkar.
— Varst þú ekki formaður á opnu skipi hérna í Eyjum?<br — Jú, ég var með Skrauta vertíðina 1906. Það gekk vel, en nú að verða mikil breyting, því fóru mótorbátarnir koma.
— Þú varst með þeim fyrstu, sem fengu mótorbát?
— Já, ég fór að gera út Vestmannaey árið 1907. Ástgeir í Litlabæ smíðaði bátinn, sem var tæp 10 tonn, súðbyrðingur. Ég átti 3/10, en við vorum fimm sem áttum bátinn og ég var formaðurinn. Guðrún gamla á Sveinsstöðum átti tíunda partinn, en Jón á Gjábakka átti jafnt og ég. Hinir áttu einn tíunda hver. Það þætti ekki mikil útgerð núna. Ojá, það voru aðrir tímar. — Það var átta hesta Danvél í Vestmannaeynni, en svo var sett í hana átta hesta Hoffmannsvél árið eftir. Nú er ég með bátinn næstu vertíð og ekkert ber til tíðinda fyrr en sunnudaginn annan í sumri, sem bar upp á 3. maí. Mig vantaði tvo af hásetum mínum þegar ég fór ! róður að kvöldi 2. maí. Þeir höfðu skroppið til landsins og tepptust þar. Því var það, að ég tók með mér í þennan róður unglingspilt, sem var í aðgerðinni hjá mér. Hann var að nauða á mér alla vertíðina að lofa sér að fara einn róður, en ég var búinn að taka það í mig, að fara aldrei með hann á sjó, því mig dreymdi hann oftar en einu sinni fvrri part vertíðarinnar og alltaf var með honum kerlingardjöfull, svo ljót og illúðleg, að mér stóð stuggur af henni. En nú vantar mig menn og ég tek strákinn með.
Við lögðum línuna suður og vestur af Geirfuglaskeri. Það var ágætt veður um kvöldið, en versnaði þegar leið á nóttina, en var þó ekki mjög vont. Um morguninn kemur svo óstöðvandi leki að bátnum. Hefur líklega rifnað að framan. Strákarnir stóðu í austri, en sjórinn streymdi inn í bátinn jafnt og þétt. Ég sá, að það var vonlaust að ná heim, svo ég sigldi út í von um að hitta skútu, en ég sá margar skútur um kvöldið. En þær settu djúpt út um nóttina, svo það liðu víst um fjórir klukkutímar þangað til við hittum einn Franzmanninn.
— Skilduð þið vel hvor annan. þú og Franzmaðurinn?
— Já, hann kunni eitthvað í íslenzku. — Hann spurði hvað væri að. Ég opna þá lestina og sýni honum ofaní, en hún var þá full af sjó. Ég fór síðastur upp úr bátnum og það mátti ekki seinna vera. Einn hásetinn var búinn að gefa frá sér, lá eins og dauðyfli á dekkinu. Þetta var harðduglegur maður, en taugarnar biluðu. Það var mitt að sjá um að allir kæmust upp i skútuna. Ég vissi, að það duga engar góðar bænir ef illt á að ske, svo ég segi við hann — og nú hefst Sigurður upp í sætinu, slær saman hnefunum og augun gneistuðu —: Ef þú ekki ferð upp og það á stundinni, þá fleygi ég þér í sjóinn!
Og það hreif. Hann fór upp og ég á eftir. Það gildir sko ekkert nema harkan í vissum tilfellum, og ég er viss um að hann hefði sokkið með bátnum ef ég hefði ekki drifið hann upp.
— Jæja, hvað gerði svo Franzmaðurinn við ykkur?
— Við fórum hingað til Eyja og stönzuðum, en engum datt í hug að við værum í skútunni, sem ekki var von. Við vorum taldir af þegar við komum ekki heim um kvöldið. Ég stakk upp á því við skipstjórann að flagga í hálfa stöng til að vekja eftirtekt á okkur, en hann vildi það ekki. — Svo var þá haldið til Reykjavíkur og við kvöddum lífgjafa okkar með virktum.
Nú erum við þarna í Reykjavík, peningalausir og í okkar sjóarafötum. Ég frétti af strandferðaskipi í Hafnarfirði, sem mundi fara til Eyja. Við fórum þangað gangandi, því engir peningar voru fyrir hestalán eða vagn. Við vorum þá búnir að vera viku í þessu óvenjulega ferðalagi þegar við komum heim.
— Hvernig var það, Sigurður, fauk ekki húsið ofan af þér?
— Það var haustið áður í vitlausu austanveðri. Húsið var í smíðum, gluggalaust, og sviptist af grunninum. Það var ekki nokkurt vit hvernig smiðirnir höfðu þetta í þá daga. Húsið er sett á steyptan grunn og ekkert fest, engir boltar í múrinn. Húsið var ein rúst, en ég notaði mikið af efninu í hitt húsið. Það var mikið verk að rífa fokna húsið í sundur. Margir komu og unnu hjá mér fyrir ekkert, og það má Gísli Johnsen eiga, að hann sendi mér fimm menn, sem unnu hjá mér heila viku og hann tók ekki eyri fyrir.
— Fengið þið tjónið bætt, þegar Vestmannaey fórst?
— Það gekk nú brösótt með það. Assúransinn neitaði að borga. Svo fengum við Gnoðina næsta vetur og þeir neituðu að taka hana í assúrans. Svo ég segi mig úr róðrarsamþykktinni, fór á sjó á hvaða tíma sólarhrings sem mér sýndist, og ég tapaði ekki á því. Það kom sér hálfilla að fá ekki úr assúransinum fyrir Vestmannaeyna, en við keyptum Gnoðina samt. Guðrún á Sveinsstöðum lánaði mér þúsund krónur þegar ég festi kaupin á bátnum. Svo var haldinn fundur í bátaábyrgðarfélaginu og samþykkt að taka Gnoðina í trygginguna og bæta hinn bátinn eitthvað.
— Var Gnoðin gott sjóskip?
— Já, Gnoðin var sterkur bátur. Hún var hálft tíunda tonn á stærð, smíðuð úr eik og furu í Danmörku. Ég var víst einar tólf vertíðir með Gnoðina. Svo var hún seld til Austfjarða árið 1919. — Já, Gnoðin var góð, en við vildum fá stærri bát.
— Komstu aldrei í hann krappann á Gnoðinni?
— Nei, ekki er orð á því gerandi. Reyndar varð vélin stopp einu sinni fyrir vestan Eyjar í blindbyl og ruddasjó. Ég setti upp fokku til þess að skæri innyfir, að við lentum ekki á Dröngum. Sumir gáfu alveg frá sér. Ég dreif mig í að rífa upp vélina og einhverjir hjálpuðu mér. Það var ekki annað að gera. Og í gang fór hún klukkan 2 um nóttina og við komum heim um morguninn.
— Og svo fékkstu þér stærri bát?
— Já, við Árni Sigfússon fórum að gera út Atlantis árið 1920. Ég átti einn þriðja, Árni tvo þriðju. Ég var formaður á Atlantis þrjár vertíðir. Þá tek ég Blikann og er með hann tíu vertíðir. Þá seldi ég hann. Blikinn var tæp 22 tonn. Þótti stór í þá daga. Magnús á Flötunum smíðaði Blikann. Ég átti þann bát hálfan. Blikinn fórst norðvestur af Eyjum á vertíðinni 1942. Hann var ekki sérlega gott sjóskip. Það mátti fjandi vara sig á honum og þá helzt að keyra hann ekki of mikið.
— Hvað manstu frásagnarverðast um tíu ára formennsku þína á Blikanum?
— Ekki neitt sérlegt. Ég var reyndar einn í útilegunni miklu 11. febrúar 1928, þegar 19 bátar lágu fyrir Eiðinu, en það er ekkert um hana að segja, og ég hef líka lent í þeim fleirum.
— Þú munt hafa aflað vel á Blikanum?
— Jú, ég aflaði oftast heldur vel, og fimm vertíðir var ég víst hæstur um lokin. En það er nú lotterí hver verður hæstur.
— Er það satt, að þú hafir róið einskipa í viku?
— Jú, það mun vera rétt. Við áttum þrjár trossur vestan við Mannklakkinn. Við fylltum bara lestina alla þessa daga. Það mátti ekkert setja á dekk. Þá var ekki komið í móð að hafa fiskikassa eða stíur á dekkinu. — Nei, veðrið var ekki mjög vont. það var austanstormbelgingur. — Við höfðum náttúrlega talsvert fram yfir hina þessa viku. Hann kemur ekki sjálfur í land, sá guli, segir Sigurður og hlær við.
— Jú, ég var heppinn í minni útgerð. Ég hafði oftast góða menn á sjónum og ég sleppti aldrei duglegum manni ef ég gat haldið honum. — Bankinn hljóp alltaf undir baggann, ef ég þurfti á peningum að halda, og ég sveik aldrei bankann.
— Nokkuð sem þú vilt taka fram að lokum, Sigurður?
— Mér finnst ótrúlega mikill munur á aðstöðunni við sjósóknina nú og í gamla daga. Nú er komin þessi góða höfn og þessar miklu bryggjur. Áður var lent við klappirnar, kvenfólkið dró fiskinn upp í krærnar, enginn hafnargarður. Já, þvílíkur munur. — En ég er ekki hrifinn af öllu, sem nú er að gerast. Mér líkar ekki þessi kjördæmabreyting. Ég vil að sýslurnar haldi sínum gamla rétti og ekkert samsull. Og ég held, að landinu sé ekki vel stjórnað. Það er eitthvað bogið við þetta allt. Við höfum þessi góðu skip og fabrikkur í landi, en samt er allt á hausnum. —
Ég kveð hinn aldna sjósóknara og þakka honum fróðlegt spjall um liðna daga.
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja árnar honum allra heilla áttræðum.
H.G.