Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1956/ Aflakóngur Vestmannaeyja 1955
Á undanförnum sjómannadögum hefur það verið venja að heiðra þann formann, sem mestan afla hefur fært á land á undangenginni vertíð. Í ár, sem og tvö undanfarin ár, er það hinn valinkunni sjósóknari og aflamaður, Benóný Friðriksson frá Gröf. Benóný er fæddur 7. jan. 1904, sonur hinna góðkunnu Grafarhjóna, Oddnýjar Benediktsdóttir og Friðriks formanns og dýralæknis Benónýssonar frá Núpi undir Eyjafjöllum.
Snemma hneigðist hugur Benónýs að sjónum, enda mun vart ofsagt þó sagt sé að sjósóknarferill Binna frá Gröf sé einstakur og óslitinn frægðarferill. Vart mun hann hafa náð fermingaraldri, þegar hann hóf róðra á opnum bátum með þeim félögum sínum, Þorgeiri frá Fögruvöllum og Magnúsi frá Nýjahúsi. Ekki mun ellin hafa verið þeim félögum farartálmi, ekki létu þeir sér allt fyrir brjósti brenna og mun mörgum hafa, sem eldri voru, fundizt fangbrögð þeirra við Ægisdætur heldur óvægin. Formennsku í róðrum þessum önnuðust þeir til skiptis Benóný og Þorgeir. Síðan má segja, að formannsferill Benónýs sé óslitinn fram á þennan dag.
Fyrsti vélbáturinn, sem hann var á, hét Nansen, eign föður hans, og annaðist hann þar vélgæzlu, en varð þó oft að annast formennsku í forföllum formannsins. Var honum síðan boðin formennska á m/b Gullu, sem hann var með í þrjár vertíðir og mun hann eiga margar minningar tengdar við þessi fyrstu formennskuár sín. Næst var hann með enskan bát, Newcastle, síðan með Gulltopp, Sjöstjörnuna o. fl. og nú síðast með m/b Gullborgu, sem hann er eigandi að, að hálfu á móti Einari Sigurðssyni.
Á þessum bát hefur Benóný í þrjár undangengnar vertíðir hlotið nafnbótina aflakóngur Vestmannaeyja, og mun á engan hallað, þó að sagt sé, að fáir hafi betur til þeirrar nafnbótar unnið en hann. Þrjú undanfarin ár sem og svo mörg önnur munu skrá nafn hans gullnum stöfum í útgerðarsögu þessa bæjar.
Á síðastliðinni vertíð aflaði Benóný 953 tonn miðað við slægðan fisk og skilaði hásetahlut að upphæð 48.000 kr.
Framan af netavertíð sótti hann stóran hluta af afla sínum á fjarlæg mið og við þær aðstæður, að fáir munu hafa eftir leikið.
Benóný hefur ávallt haft valinn mann í hverju rúmi, og hefur hann beðið Sjómannadagsblaðið að færa þeim þakkir fyrir vel unnin störf og margar góðar samverustundir.
Að lokum óskar sjómannadagurinn Benóný og skipshöfn hans til hamingju með titilinn og biður þá lengi lifa.
- S.Ó.