Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1952/ Úr syrpu Eyjólfs á Búastöðum: Margt skeður á sæ.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ÚR SYRPU EYJÓLFS Á BÚASTÖÐUM:


Margt skeður á sæ.


Svo segir máltækið, og mun það vera orð að sönnu.
Margar sögur og sagnir munu vera til af afburða snjöllum sjómönnum og þeirra hreystiverkum og margar þeirra verið skráðar; en þó munu fleiri þeirra hafa fallið í gleymskunnar djúp.
Margir sjómenn eru þannig, að þeim finnst það ekki frásagnarvert, þó að illa liti út um stund og óvíst, hvort fljóta myndi eða sökkva.
Hér verður sagt frá tveimur atburðum, sem gerðust á sjónum hér við Eyjar vertíðina 1908. Þá vertíð urðu hér tvær útilegur og það, sem hér er sagt frá, mun hafa gerst í þeirri seinni, 9. mars.
Flestir bátar munu hafa verið út á „Landsuður“, sem kallað er S. SV. af ,,Ledd“. Þennan dag voru þeir á m.b. „Hansínu“, sem var ca. 7 rúmlestir, að veiðum þar.
Þegar þeir voru að enda við að draga inn línuna, tókst svo illa til að línan ásamt uppistöðuendanum og smáakkeri, sem allir bátar brúkuðu þá fyrir enda stjóra, fór í skrúfuna.
Kominn var rokstormur á SA með snjókomu og stórsjó, þegar þetta skeði. Ekki tókst þeim að ná þessu úr skrúfunni og var vélin því ónothæf, svo útlitið var ekki gott.
Þessa vertíð var Guðjón heitinn Eyjólfsson bóndi á Kirkjubæ háseti á Hansínu. Þegar svona var komið bauðst hann til að fara niður og reyna að skera úr skrúfunni. Er svo ekki að orðlengja það, að hann var vel bundinn, fór hann síðan út fyrir með hníf í hendinni og eftir nokkrar tilraunir tókst honum að hreinsa allt og skera úr skrúfunni.
En mikið sagðist hann hafa sopið hveljur, því Guðjón var ekki syndur.
Ekki varð honum meint af þessu volki, þó þeir á „Hansínu“ fengju langa og vonda útilegunótt undir Eiðinu, ásamt fleiri bátum. Formaður með „Hansínu“ var hinn þekkti og reyndi formaður og aflamaður Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum.

—o—

Hin sagan gerðist á m.b. „Portlandinu“, sem var ca. 8 rúmlestir.
Formaður með það var hinn vel þekkti sómamaður Friðrik heitinn Benónýsson í Gröf. Þeir komust í var við Eiðið að kvöldi þessa dags, var þá komið SA stórviðri með mikilli snjókomu. „Portlandið“ lagðist fyrir akkeri vestur af [[Kambur|Kambinum, og lágu fleiri bátar þar.
Legufærið á „Portlandinu“ var mjótt grastóg og varð reynslan sú, að það þoldi ekki veðurofsann og slitnaði. Vélin var í ólagi hjá þeim og algjörlega stopp, þegar þetta kom fyrir. Ljóslausir voru þeir líka, því að fæstir bátanna höfðu þá ljósker, sem loguðu þegar komið var rok.
Þegar þeir á „Portlandinu“ ráku þarna í iðulausri stórhríðinni og rokinu, strukust þeir fram hjá ljóslausum bát, sem lá fyrir „föstu“. Hrópuðu þeir þá af öllum kröftum hvernig ástatt væri hjá þeim og báðu um hjálp.
Þessi bátur var „Austri“, ca. 7 rúmlestir. Formaður með hann var Helgi heitinn Guðmundsson í Dalbæ, sérstakur hæglætismaður, en ágætur og ákveðinn formaður. Hann skipaði mönnum sínum strax til verka: Að losa legufærið og setja við það belg og holbaujuna. Þetta var allt framkvæmt með miklum flýti. Því næst héldu þeir í áttina að hinum rekandi nauðstadda bát, sem bar ört upp að Hettugrjótunum, og með því að fara landmegin við hann, sem var áhætta mikil, tókst þeim að koma dráttartaug milli bátanna. Þegar þessi saga gerðist, var háseti á „Portlandinu“ Guðjón Jónsson á Heiði, hinn alþekkti dugnaðar formaður og sjógarpur.
Þegar „Austri“ renndi fram hjá þeim og dráttartauginni var kastað milli bátanna, höfðu þeir „Portlands“-menn ekki ráðrúm til að setja fast á annan hátt en þann, að Guðjón brá tógendanum um herðar sér og spyrnti við, og félagar hans héldu einnig við með honum af öllum kröftum og þannig var báturinn dreginn út úr hörslunum.
Ekki þorði áhöfn Portlandsins að setja dráttartaugina fasta, þó færi gæfist til þess, á eftir að þeir voru sloppnir úr mestu og bráðustu hættunni. Álitu, að hún myndi ekki þola átök bátsins. Voru því hafðir menn við hana, fram til birtu um morguninn, sem gáfu út taugina í hörðustu hviðunum, en drógu inn þess á milli. Við þetta verk voru hásetarnir til skiptis, nema Guðjón, sem var uppi alla nóttina. Það má nærri geta, hvernig líðan þeirra Portlandsmanna hefur verið þessa nótt í slíku veðri, ljóslausir og engin hlýja þó í „lúkarinn“ væri komið.

E.G.