Sigurveig Sigurðardóttir (Presthúsum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sigurveig Sigurðardóttir.

Sigurveig Sigurðardóttir frá Presthúsum, húsfreyja, félagsmálafrömuður fæddist þar 9. ágúst 1920 og lést 9. maí 2008.
Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson frá Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri, V.-Skaft, sjómaður, síðar rafvirkjameistari, borgarfulltrúi, f. 10. apríl 1894, d. 4. júní 1938, og kona hans Vigdís Anna Gísladóttir frá Suður-Vík í Mýrdal, húsfreyja, síðar matráðskona, f. 6. janúar 1893, d. 24. febrúar 1972.

Börn Önnu og Sigurðar:
1. Sigurveig Sigurðardóttir frá Presthúsum, húsfreyja, félagsmálafrömuður, f. 9. ágúst 1920, d. 9. maí 2008. Maður hennar Hjalti Þorvarðsson.
2. Gísli Þór Sigurðsson frá Höjdahlshúsi, rafvirki, f. 3. mars 1922, d. 26. október 2009. Kona hans Jónína Sigrún Skúladóttir Jónsdóttir.
3. Jóhanna S. Hansen Sigurðardóttir húsfreyja, aðstoðarmaður tannlæknis, þerna, matsveinn, f. 9. apríl 1926, d. 13. febrúar 2007. Maður hennar Guðmund Axel Hansen frá Færeyjum.
4. Jón Sigurðsson rafvirki, f. 27. febrúar 1930, d. 2. júní 2010. Fyrrum kona hans Guðfinna Erla Jörundsdóttir.
5. Sigurður Sigurðsson lögreglumaður, f. 1. ágúst 1932, d. 20. maí 2011. Kona hans Sigríður Ása Guðmundsdóttir.
Fóstursonur þeirra:
6. Gísli Ólafur Guðmundsson veggfóðrarameistari, f. 9. nóvember 1912 í Bjarnaborg í Reykjavík, d. 7. október 1985.
Barn Sigurðar og Elínar Þorláksdóttur:
7. Halla Sigurjóns Sigurðardóttir tannlæknir, f. 15. nóvember 1937, d. 31. mars 2002. Maður hennar Sigurgeir Kjartansson.

Sigurveig var með foreldrum sínum í æsku, í Presthúsum og Höjdahlshúsi, flutti með þeim til Reykjavíkur 1923.
Sigurveig var þrjú sumur í kaupavinnu á ættarslóðum sínum í Skaftafellsýslu, þar af tvö sumur á bænum Söndum, sem stóð á eyju í Kúðafljóti.
Þau Hjalti giftu sig 1940, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu í fyrstu í Reykjavík, fluttu á Selfoss 1946 og bjuggu þar síðan, lengst í húsinu, sem þau byggðu 1958, að Kirkjuvegi 3.
Sigurveig tók mikinn þátt í félagsmálum og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hún starfaði lengi í Kvenfélagi Selfoss og var formaður þess um árabil. Hún var formaður Sambands sunnlenskra kvenna frá 1966-1975, kosin í stjórn Kvenfélagasambands Íslands árið 1971 og var varaformaður sambandsins frá 1975-1984. Hún var gerð að heiðursfélaga sambandsins árið 1987. Hún var formaður stjórnar Sjúkrahúss Selfoss frá 1969-1981, sat í stjórn Sjúkrahúss Suðurlands á Selfossi frá 1981-1982. Þá var hún í skólanefnd Húsmæðraskóla Suðurlands og Skálholtsskóla. Einnig var hún í stjórn Húsmæðrasambands Norðurlanda (Nordens Husmorforbund). Sigurveig var formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu um tíma.
Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að félagsmálum.
Á síðustu búskaparárum sínum keyptu þau Hjalti íbúð í húsi aldraðra við Grænumörk á Selfossi og bjuggu þar í nokkur ár uns þau fóru á hjúkrunardeildina á Ljósheimum þar.
Hjalti lést 2006.
Sigríður dvaldi að síðustu á sjúkradeildinni Fossheimum, nýrri sjúkradeild aldraðra hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Hún lést 2008.

I. Maður Sigríðar, (8. júní 1940), var Hjalti Þorvarðsson rafvirki, rafveitustjóri, sveitastjórnarmaður á Selfossi, f. 13. febrúar 1915 á Skriðu í Breiðdal, S.-Múl., d. 2. júní 2006. Foreldrar hans voru Þorvarður Helgason frá Gautavík í Berufirði, bóndi, f. 12. júlí 1874, d. 18. desember 1949 í Reykjavík, og kona hans Þórunn Sigríður Þórðardóttir frá Berufirði, húsfreyja, f. 4. janúar 1885, d. 29. september 1956 í Reykjavík.
Börn þeirra:
1. Sverrir Hjaltason, f. 5. maí 1941. Kona hans Guðrún Eyja Erlingsdóttir.
2. Sigurður Hjaltason, f. 17. júní 1944. Kona hans Aagot F. Snorradóttir.
3. Vigdís Anna Hjaltadóttir, f. 8. júlí 1948. Maður hennar Guðmundur Þorsteinsson.
4. Þorvarður Hjaltason, f. 21. ágúst 1951. Kona hans Ólafía Sigurðardóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.