Sigríður Benónýsdóttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigríður Guðrún Benónýsdóttir.

Sigríður Guðrún Benónýsdóttir húsfreyja fæddist 2. nóvember 1915 á Sveinseyri í Dýrafirði og lést 17. október 2005 á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni.
Foreldrar hennar voru Benóný Stefánsson frá Meðaldal í Dýrafirði, stýrimaður í Reykjavík, f. 28. nóvember 1880, d. 17. desember 1952, og kona hans Ólöf Guðmunda Guðmundsdóttir frá Keldudal í Dýrafirði, húsfreyja, f. 15. ágúst 1886, d. 12. maí 1961.

Sigríður var skamma stund með foreldrum sínum. Móðir hennar veiktist af berklum og heimilið var barnmargt, fjögur hálfsystkini og fjögur alsystkini. Sigríður fór í fóstur til Jónasar Halldórssonar frá Hnífsdal, framkvæmdastjóra í Reykjavík, og Elísabetar Kristjánsdóttur frá Meðaldal í Dýrafirði, frænku sinnar.
Hún nam í Kvennaskólanum í Reykjavík.
Sigríður vann ýmis störf, m.a. við sauma í Vinnufatagerðinni og eftir lát Magnúsar vann hún verslunarstörf og síðan var hún safnvörður á Þjóðminjasafninu til 1990.
Þau Magnús giftu sig 1939, eignuðust tvö börn og Magnús átti áður tvö börn. Magnea dóttir hans ólst upp hjá þeim. Þau bjuggu við Kirkjuveg 26 í Eyjum.
Magnús lést 1976 og Sigríður 2005.

I. Maður Sigríðar, (8. apríl 1939), var Magnús Guðmundur Guðbjartsson vélstjóri, forstjóri, f. 17. mars 1899 að Gemlufelli í Dýrafirði, d. 14. júní 1976.
Börn þeirra:
1. Elísabet Sigríður Magnúsdóttir næringarfræðingur, næringarráðgjafi, f. 30. ágúst 1940. Fyrrum maður hennar Eysteinn Sigurðsson.
2. Gylfi Þór Magnússon viðskiptafræðingur, framkvæmdastjóri, f. 20. desember 1942 í Eyjum, d. 6. nóvember 1998. Kona hans Sigríður Dóra Jóhannsdóttir.
Barn Magnúsar og fósturbarn Sigríðar:
3. Magnea Sveinsína Magnúsdóttir, húsfreyja, vann við umönnun, f. 21. september 1932, d. 9. mars 2015. Maður hennar Guðni Ólafsson.
Barn Magnúsar, fóstraður annarsstaðar var
4. Kristberg Maris Magnússon vélfræðingur, f. 20. mars 1927, d. 13. janúar 2003.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.