Saga Vestmannaeyja I./ VIII. Þjóðlífslýsingar, 1. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


VIII. Þjóðlífslýsingar
eða ýmislegt um siðvenjur og háttu og annað úr daglega lífinu hér, — einkum frá 19. öld
(1. hluti)


Var sumt í þessum efnum hér allfrábrugðið því, er annars staðar gerðist, og olli því mest afskekkt lega eyjanna og fjarlægð frá öðrum héruðum. Hinar sérstæðu atvinnugreinar, fuglaveiðarnar og úteyjasóknin, sem ásamt sjósókninni voru mjög háðar samvinnu og samtökum einstaklinganna, settu svip sinn á hið daglega líf og háttvenjur. Í sumu tilliti mátti nær segja um Vestmannaeyjar, að þær væru sem eitt stórt samgróið heimili.
Hinir gömlu brúðkaupssiðir voru að mestu horfnir hér á landi um 1800, nema brúðargangurinn.¹) Brúðargangur, þó í nokkuð sérstakri mynd, var viðhafður við brúðkaup í Vestmannaeyjum á síðustu áratugum 19. aldar, og mun því hafa haldizt hér einna lengst. Morgungjöfin, er helzt virðist vera leifar hins gamla siðar að bjóða í brúðarsængina, tíðkaðist í eyjum fram um 1870.

Brúðkaupsveizlur, brúðargangur og fleira.


Brúðkaupsveizlur munu lengi hafa verið helzti og mesti mannfagnaður ársins í Vestmannaeyjum, eins og víðar hér á landi. Metnaðarsök var hjá flestum, að veizlurnar yrðu sem eftirminnilegastar, enda vel til þeirra vandað. Í stærstu brúðkaupsveizlurnar var boðið nær öllu búandi fólki, að minnsta kosti bændum og þeirra liði. Gift var venjulega á haustin, enda var þá og hægast að afla veizlufanganna, og úti helztu annir, svo að allir gátu tekið þátt í að skemmta sér.
Í matarveizlunum var höfð stórsteik af vænum, fullorðnum sauðum úr úteyjum eða hangikjöt. Stundum voru farnar aukaferðir eftir skilarétt í úteyjar til að sækja veizlusauði. Komið gat fyrir, að brúðkaupi varð að fresta sökum þess, að eigi var hægt að komast í úteyjar í tæka tíð til að sækja féð, sökum brims og storma.
Tveir frammistöðumenn eða jafnvel fleiri voru í hverri veizlu. Þótti virðing í því að vera frammistöðumaður og til þess oft valdir hreppstjórar, meðhjálparar eða helztu bændur. Frammistöðumennirnir sáu og um margt, er að veizlunni laut, og voru ráðunautar brúðguma um ýmsan undirbúning. Þeir munu og oft hafa átt þátt í því að útbúa boðslistann og réðu ætíð töluverðu um, hverjum var boðið, og einkum var þeim ætlað að sjá um, að enginn væri undanskilinn, sem vegna stöðu sinnar og mannvirðinga mátti með engu móti setja hjá. Þeir gengu og um bæina með boðslistann. Fór þessi boðsferð fram með mikilli kurteisi og viðhöfn. Frammistöðumennirnir gerðu boð fyrir sjálfan bónda og húsfreyju, og flutti frammistöðumaður þeim hátíðlega með löngum kurteisisformála kveðju brúðhjónanna og bón þeirra um, að þau vildu sýna brúðhjónunum þann sóma, velvild og lítillæti að prýða brúðkaup þeirra tiltekinn dag með nærveru sinni. Oftast var boðið daginn áður. Þótt frammistöðumennirnir skiptu sér og annar færi um vesturhluta Heimaeyjar, en hinn um austurhlutann, urðu þeir samt oft seint fyrir þetta kvöld, svo að fyrirvarinn var lítill, sem þó ekki kom að sök, því að flestir munu hafa vitað hvað til stóð.
Undir eins og lýsingar byrjuðu af stólnum með hjónaefnum, byrjaði fólk að skeggræða um veizluna og hverjum mundi boðið, og var furðu glöggsætt á þetta, og vissu flestir um það áður en boðið kom, en frammistöðumanna með boðskveðjuna var samt beðið með mikilli eftirvæntingu á bæjunum. Öll vinna hætti í baðstofunni, kambar og rokkar þögnuðu, meðan hin hátíðlega boðskveðja var flutt. Konur huguðu enn á ný að fatakistum sínum, en búið var að viðra og bursta sparifötin undanfarna daga, svo að ekkert var áfátt í þeim efnum.
Veizlurnar voru oft haldnar í þinghúsi eyjanna og stundum í einhverju af vörugeymsluhúsum kaupstaðarins, er stóðu tóm. Var veizlusalurinn allur tjaldaður innan og skreyttur. Á seinni hluta 19. aldar, meðan hinir viðhafnarmiklu brúðkaupssiðir voru í gildi, kom boðsfólkið á veizlustaðinn þegar klukkan 10 að morgni og settist að borðum, snæddi morgunverð áður en farið var til kirkjunnar, smurt brauð með kjöti og öðru ofanálagi og drakk kaffi. Að borðhaldi loknu var farið af stað til kirkjunnar og genginn brúðargangur þangað, um 10—15 mínútna veg, og farið mjög hægt. Allt boðsfólkið gekk brúðarganginn og var því raðað niður. Í broddi fylkingar gengu brúðhjónaefnin og leiddust, en á undan þeim fóru tveir brúðarsveinar, ungir piltar 12—16 ára gamlir. Þegar brúðarfylkingin nálgaðist kirkjuna var kirkjuklukkunum samhringt og brúðhjónin hringd inn. Brúðarsveinarnir staðnæmdust utan kirkjudyra og gengu brúðhjónin fyrst inn kirkjugólfið og settust í innstu kirkjustólana fram af kórnum, brúðurin hægra megin og brúðguminn vinstra megin og svaramennirnir hjá þeim. Hófst nú hjónavígslan og voru brúðhjónin leidd upp að altari og fór nú allt fram á venjulegan hátt. Fólk veitti því sérstaka athygli, hversu brúðhjónunum fórst, er þau risu frá grátunum og leiddust frá altarinu, og var oft mikið um það talað á eftir, ef þau fylgdu eigi nákvæmlega settum reglum hér um, og þótti sem eftir þessu færi um að halda skyldureglur hjónabandsins. Að lokinni messugjörð gekk boðsfólkið til brúðhjónanna til að taka í hönd þeirra og óska þeim til hamingju. Nú var kirkjuklukkunum samhringt og brúðhjónin hringd út.

ctr


Brúðhjónin Kristján Ingimundarson og Sigurbjörg Sigurðardóttir við Landakirkju. Á myndinni, sem er frá 1892, sjást m.a. (talið frá vinstri): Þorsteinn Jónsson, Gísli Bjarnasen, Sigurður Sveinsson, séra Oddgeir Guðmundsen, Hjalti Jónsson skipstjóri og Jón Magnússon sýslumaður, síðar forsætisráðherra.


Um leið og brúðhjónin gengu út úr kirkjunni, dundu við skot frá byssunum á Skansinum, litlum fallbyssum, og var skotið mörgum skotum til virðingar við brúðhjónin. Úti fyrir kirkjudyrum skipaði fólk sér aftur í fylkingu. Gengu brúðarsveinarnir fyrir eins og áður og brúðhjónin næst á eftir og hitt fólkið í langri halarófu, tveir og tveir í röð. Brúðurin bar jafnan hinn íslenzka hátíðabúning.
Þegar komið var aftur á veizlustaðinn, voru frammistöðumennirnir þar fyrir, tóku þeir á móti fólkinu og skipuðu því í sæti. Brúðhjónin tóku sæti fyrir miðju háborði og presturinn næst brúðinni, síðan aðrir virðingarmenn, svaramennirnir og nánustu ættingjar til beggja hliða. Var þannig skipað niður báðum megin eftir virðingu. Háborðið var sporöskjulagað og gengu borð og bekkir til beggja hliða út frá því, tvísett eða fjórsett eftir fólksfjölda. Fyrir háborð var lengi notað borðið úr þinghúsi eyjanna, og var það flutt á veizlustaðinn, ef veizlan var haldin annars staðar. Yfir háborðinu fyrir gafli var hengt upp flagg Herfylkingar Vestmannaeyja, stórt silkiflagg með gullnum stöfum. Veggir voru tjaldaðir flöggum og dúkum. Háborðið var dúklagt. Á neðri borðin voru lögð léreft.
Þegar allir voru setztir las annar frammistöðumaðurinn faðirvorið og hóf að syngja borðsálminn og sungu nokkrir aðrir með honum og stóðu frammi við dyr. Að enduðum borðsálmi báðu frammistöðumennirnir í nafni brúðhjónanna gesti að taka til matar.
Stórsteik af völdum sauðum var í flestum stórveizlum. Kjötið var steikt í útieldhúsi daginn áður. Búrkonur voru við framreiðslu, smurðu brauð og hituðu kaffi og bjuggu í hendurnar á frammistöðumönnunum, er báru inn kjötið á stórum fötum. Voru kjötstykkin borin inn heil, en maður gekk með borðum og skar fyrir. Gerðist nú glaumur og gleði, er menn voru setztir að borðum, því að eigi vantaði heldur hressingu af víni og var það veitt óspart, oftast brennivín og koníak. Dæmi voru þess, að heil brennivínstunna var lögð til veizlu auk annars víns. Kvenfólki var veitt rauðvín og portvín. Mælt var fyrir minni brúðhjónanna og hjónaskálin drukkin, sungnir ættjarðarsöngvar og fleira. Eftir steikina var borinn inn rúsínugrautur eða kjötsúpa eða vínsúpa. Loks var brúðarkakan sett á borðið fyrir framan brúðhjónin. Var hún afarstór og ætlast til, að sem flestir fengju bita af henni. Við háborðið höfðu allir hnífapör og skeiðar. Sjálfskeiðingar og spænir voru stundum notaðir við óæðri borðin.
Áður en staðið var upp frá borðum var sunginn sálmur og lesin bæn. Síðan voru borð tekin upp, nema háborðið, er alltaf var látið standa og þangað borin vínföng, kaffi og kökur, og gat fólk setzt þar og drukkið eftir vild.
Var nú tekið að skemmta sér, einkum við söng og spil. Um dans var lítið, því að það kunnu mjög fáir, en fólki þótti ágæt skemmtun að horfa á dans. Spilað var undir á fiðlu eða harmóníku. Langspil var notað í eyjunum fram um 1870. Frammistöðumennirnir gengu um með romm- og koníakspúns handa karlmönnum og rauðvínspúns handa kvenfólki. Neyttu konur þess mjög hæversklega og kom það naumast fyrir, að vín sæist á kvenfólki. Karlmenn drukku óspart og voru margir ölvaðir, slöngruðu menn milli borða og skoruðu á aðra í kappdrykkju og hólmgöngur. Urðu af þessu stundum smáskærur og tusk, en sjaldan áflog. Fólk hnappaði sig saman og hófust fjörugar samræður um það markverðasta innan héraðs og úr nærsveitunum, er fyrir hafði komið. Sumir sögðu hreystisögur af sjálfum sér úr fjallaferðum og sjóferðum. Hlýddi fólk á þetta og sögur og skrítlur, og þótti heldur en ekki skemmtun af þessu og oft lengi um þetta talað á eftir. Konur héldu sig oft í smáhópum og ræddu um búskapinn, börn sín, vinnuhjú, saumaskap o.s.frv. Sumir karlar tefldu eða spiluðu á spil.
Kaffi var drukkið tvisvar eða þrisvar. Þegar komið var fram um miðnótt var borið fram brauð og kjöt, rúgbrauð og hveitibrauð og flatkökur.
Katlaberi svonefndur hafði á hendi þann starfa að bera í stórum kötlum heitt vatn frá útieldhúsi, til þess að hafa í kaffi og púns. Var þetta eftirsótt, því að margt draup af. Gummi gamli, vinnum. lengi í Frydendal, var katlaberi í mörgum veizlum.
Fólk, sem eigi var boðið, einkum unglingar og lausafólk, safnaðist úti fyrir dyrum á veizlustaðnum og horfði á gleðskapinn. Voru ýmsum gefnar leifar.
Sá var hér siður, að ef einhver af þeim, sem boðnir voru, gat eigi komið, t.d. annað hjóna, þá var talið sjálfsagt, að börn hjónanna færu í staðinn og þurftu eigi að óttast að vera sett á bekk með boðflennum. Um leið og boðskonur kvöddu brúðina gaf hún þeim, er börn áttu heima, smápinkla með kökum og góðgæti handa börnunum.
Aðalveizlan stóð venjulegast um sólarhring. Næstu nótt eftir var eftirveizlan og í hana boðið öðru fólki, mest unglingum. Sumir aðalveizlugestirnir tóku og þátt í henni.
Brúðargjafir voru sjaldan miklar, smá peningaupphæðir venjulegast og afhentar brúðinni sem hennar eign um leið og kvatt var.
Í sumum veizlum var höfð kjötsúpa eða súkkulaði og kaffi og á eftir smurt brauð með sírópi og síðan drukkið púns.
Um fjárskilmála hjóna hélzt lengi, og þar til fram yfir aldamótin 1800, að vísað var til gildandi laga eða Norsku laga. Margir ánöfnuðu konu sinni fjórðungsgjöf sem séreign eða einhvern kjörgrip úr búi hjónanna, og fóru samningar hér um fram um leið og hjónaband var stofnað. Morgungjöf til brúðarinnar, frá 10—25 spesíur og stundum meira, tíðkaðist hér almennt fram undir 1870.
Á síðustu áratugum 18. aldar var að jafnaði sagt, að hjónaefnin væru trúlofuð til þess tíma, er þau voru gefin saman, en síðar að brúðarefni væri fastnað brúðgumaefni eftir lögmætar lýsingar. Opinber trúlofun fór venjulegast fram á undan giftingum. Var hún afnumin með lögum 1799, og komu þá lýsingar í staðinn.
Trúlofunarhringir tíðkuðust eigi fyrr en á 18. öld. Í sambandi við trúlofanir hafði verið venja að halda heimilisfólki smáglaðning. Síðasta formbundna trúlofunin eftir hinum eldra hætti, er hér fór fram, hefir verið trúlofun þeirra Halldóru, dóttur séra Ara Guðlaugssonar á Ofanleiti, er hún var trúlofuð studioso Tómasi Guðmundssyni þann 20. nóv. 1799 og föstnuð honum 20. des. s.á.²)
Börn voru hér eins og annars staðar fyrrum færð snemma til skírnar. Skírnarveizlur voru á síðari tímum almennt haldnar, og í þær boðið vinum og vandamönnum. Siður var að gefa börnum í tannfé og stundum nafnfestugjafir.
Fermingarveizlur var lítið um. Er það ólíkt því, sem nú er.
Jólaboð hafði lengi tíðkazt að menn héldu hver öðrum og afmælisveizlur. Var mikið um þetta í Vestmannaeyjum fyrrum.
Erfisdrykkjur voru haldnar eftir alla heldri menn og efnabændur og konur þeirra. Í erfisdrykkjurnar var boðið mörgu fólki. Í erfum var í Vestmannaeyjum á síðari hluta 19. aldar venjulega haft smurt brauð með kjötofanálagi, osti og rúllupylsum, kaffi og brennivín, þó eigi mikið. Í erfisdrykkjurnar fór fólkið beint frá greftruninni. Líkmenn báru kistuna alla leið til kirkju. Þeir tóku gröfina daginn áður en jarðað var eða í bítið um morguninn, sem jarðað var, og var venjulegast jarðað á rúmhelgum degi. Meðan á líksöngnum stóð gengu líkmenn út úr kirkjunni og yfir í kirkjugarðinn, sem er nokkuð frá kirkjunni, til að athuga gröfina og leggja á hana síðustu hönd. Nokkuð var algengt að sjá konur víkja úr sætum og bæna sig við kistuna á kirkjugólfi og gera krossmark yfir henni.
Erfisdrykkjur eru lagðar niður að mestu. Enn tíðkast samt að gefa líkmönnum kaffi.
Fram yfir 1880 var það siður, er lík voru jörðuð á sunnudögum, að láta kistuna standa inni í kirkju, meðan messað var, og þá jarðað eftir messu. Eftir að þetta var lagt niður og tekin upp sú nýbreytni í tíð séra Stefáns Thordersens að jarða fyrir messu, beiddist margt gamalt fólk þess, að lík sitt fengi að standa í kirkjunni undir messunni eins og áður hafði verið siður.
Eins og kunnugt er voru prestaköllin tvö í Vestmannaeyjum fram til 1837 og prestarnir aldrei færri en tveir, er var talið nauðsynlegt meðal annars vegna þess, að er prestur dó, varð annar að vera til að ausa hann moldu. Þegar séra Brynjólfur Jónsson deyði, var um tíma prestslaust og náðist eigi í prest af landi til að jarðsyngja hann. Var lík hans greftrað með venjulegri viðhöfn og talað yfir moldum hans, en líkið var staursett, sem kallað var, þannig, að staur var rekinn ofan í gröfina og látið bíða svo, þar til næsti prestur kom, er framkvæmdi yfirsönginn og varpaði moldarrekunum á kistuna.

Glaðningar ýmis konar. Veizlur.


Skipshöfnum á róðrarskipum voru á hverri vertíð haldnir glaðningar eða veizlur. Veizlur og fagnaði höfðu og veiðimenn sín á millum að enduðum veiðitíma, er allt hafði gengið vel. Þessir siðir eru allgamlir í Vestmannaeyjum. Veizluna til sjómanna, er var bundin við sömu atriði í sambandi við sjómennskuna, bar að skoða sem kvöð, er hvíldi á skipseigendum. Áður var þessi eða lík kvöð innt af hendi með sérstöku fiskgjaldi, eins og sjá má af dómum um drykkjufiskana svokölluðu. Af óskiptu máttu og hásetar fyrrum taka sér 2—3 fiska fyrir tóbaki. Er svipað um þetta eins og þegar fuglamenn velja sér keppfýla úr fuglakös.
Hér voru veitingar, er látnar voru sjómönnum í té, kallaðar veizlur, að minnsta kosti í seinni tíð, og héldust fram um aldamótin síðustu.
Hrófveizla var haldin skipverjum, þegar skip voru sett í hrófin fyrir vertíð. Stundum slógu skipshafnir sér saman til þess að setja í hrófin, oft um alllangan veg að fara, t.d. frá Skiphellum, þar sem skipin höfðu verið til viðgerðar. Þá var gefin hrófflaskan. Var hér um hressingu eða smávegis glaðning að ræða. Hrófveizlan er gömul. Var það siður fyrrum, að skipseigendur gáfu til veizlunnar m.a. tóbak og brennivín, sem svaraði andvirði 30 fiska, og greiddu hásetar aftur með hrófölsfiskinum. Hrófölsfiskurinn var dæmdur af með dómi 17. júní 1685, staðfestum á Alþingi sama ár.³) Samt mun hafa haldizt lengur að greiða hásetum hrófölsfiska, en það voru 3 beztu fiskar handa hverjum háseta af fyrstu róðrum, en féll þó alveg niður seinna. En samt hélzt áfram, að gefin var hrófölsflaskan. Drykkjufiskanna svokölluðu er getið í dómum, sjá dóminn frá 1685 og áður í dómi Kláusar Eyjólfssonar 16. apríl 1635. Segir í hinum síðarnefnda dómi, að siður hafi verið í Vestmannaeyjum að gefa hásetum drykkjufiska, svo að þeir gætu fengið sér „þorstadrykk“. Fiskgjaldakvaðir þessar til hásetanna voru af óskiptum afla. Þær munu að mestu hafa lagzt niður eftir að dómurinn frá 1685 var kveðinn upp.
Útdráttarveizla var haldin hverri skipshöfn hér á útdráttardaginn, fyrsta róðrardaginn á vertíðinni. Skipseigendur héldu útdráttarveizluna. Var þá veitt kaffi með brauði og vín gefið með. Stundum gengu sjómenn í öllum skinnklæðum, er þeir komu af sjónum og urðu naumt fyrir, í útdráttarveizluna. Auk útdráttarveizlunnar héldu skipseigendur sjómönnum svipaðan glaðning tvisvar og oftar á vertíð. Voru veitingar oft ríflegar, einkum ef vel hafði gengið. Veizlurnar voru haldnar hjá skipseigendum eftir röð. Í veitingahúsi eyjanna fyrst eftir að það var stofnað.
Sumardagsveizlan var haldin fyrir bátshafnirnar á sumardaginn fyrsta, oft heima hjá formanni. Í sumardagsveizlunum voru góðar matarveitingar og kaffi og vín, og oft drukkið fast. Í þessum veizlum var glatt á hjalla, spilað, sungið, teflt og í seinni tíð dansað. Hér var tóm til að minnast ýmsra atburða úr sjósókninni og hreystisögur sagðar. Þegar fleiri skipshöfnum lenti saman, sló í kappræður um það, hver væri mestur sjósóknari og formaður og hvaða skip bezta sjóskipið. Siður var, að formaður falaði háseta í sumardagsveizlunum fyrir næstu vertíð og skyldu þeir þá segja til, hvort þeir vildu vera áfram í sama skiprúmi. Fyrr var í sumardagsveizlum veittur grjónagrautur þykkur með sírópi út í, en í seinni tíð hangikjöt, saltkjöt eða steikt kjöt. Veizlan var kostuð af skipseigendum, en hásetar lögðu og til hennar af sínu, ef þeir á vertíðinni höfðu orðið fyrir sérstökum höppum, svo sem fengið hákarl eða hámeri, fundið rekatré á sjó o.s.frv.
Uppsátursveizla. Þegar skip voru sett upp að lokinni vertíð var skipshöfninni haldinn smáglaðningur og gefið kaffi með brennivíni út í. Frá æfagamalli tíð hafði það verið venja að flytja báta, er þurftu aðgerðar við, alllangan veg undir svokallaða Skiphella, sem er móbergshamar vestur af Botninum, núverandi skipalægi. Bátar, er eigi skyldu ganga lengur til sjós, voru fluttir upp úr hrófunum og hvolft uppi á landi. Var það kallað að setja á hólana. Heyrðist og sagt hið sama um gamalt fólk, er eigi var lengur orðið vinnufært, að það væri komið á hólana.

Fuglamannafagnaðir.


Fýlaveizla. Að afstöðnum fýlaferðum héldu veiðimennirnir í sama leigumála sér skemmtun, er nefnd var fýlaveizla. Á borðum var reyktur fýlungi, er jafnan þótti hér hátíðamatur, rúsínugrautur með sírópi eða kjötsúpa af nýju kjöti og jafnvel kindasteik. Fýlaveizlurnar stóðu venjulega alla nóttina og fram á morgun. Kaffi var drukkið óspart og brennivín og koníak út í. Fýlaveizlan var haldin hjá bátseigendum, er leigðu fýlamönnum bát til að sækja á fýlinn, er veiddur var í úteyjum. Var það talið jafnan happ að fá að leggja til bát til sóknar í úteyjar og greitt í skipshlutinn sóknarhlutur með vissri tölu af fugli.
Julsaveizla. Þeir, sem höfðu á hendi „sóknina“ á lunda í úteyjar til viðlegumanna, fengu fyrir það vissa fuglatölu af hverri fuglakippu (100 fuglum). En sú kvöð hvíldi á sókningsmönnum, að halda lundamönnum, sem lögðu hinum veiðina í hendur, glaðning eftir lundatímann með líkum hætti og fýlaveizluna, og var það kallað julsveizla.
Lundaveizla. Hana héldu lundamenn sjálfir, er höfðu verið saman í sömu útey, þegar heim var komið. Stóð lundaveizlan oft fram á næsta dag með miklum gleðskap og góðum veitingum í mat og víni. Skemmtu menn sér við söng og kveðskap og bar margt á góma frá samverustundunum í viðlegunni í úteyjunum.
Útlátaveizla. Fuglamenn, er fóru í fyrsta sinn í hin stærri björg, svo sem Súlnasker, urðu að halda hinum veiðimönnunum, er með þeim fóru, stórveizlu þegar heim var komið, er kölluð var útlátaveizla. Þótti það hinn mesti frami að klifra upp á sumar úteyjarnar, enda eigi heiglum hent. En þeim, er þessar farir fóru í fyrsta sinn, oftast unglingar, er þóttu efni í fjallamenn, var talið sjálfsagt að minnast þess afreks og mannskapar, er þeir höfðu sýnt með förinni, og mennirnir með þessu útlátamenn, er svo var kallað, og skylt að kosta veizluna. Útlátamennirnir voru stundum fleiri en einn í senn og slógu þeir þá saman í veizluna. Þeir, sem í fyrsta sinn fóru upp á Súlnasker, máttu og færa Skerprestinum dálitla peningagjöf sem offur. Voru peningarnir látnir í steinþró uppi á Skerinu. Skerpresturinn var bjargvættur Súlnaskers, en á Skerinu höfðu eyjamenn mesta dálæti fyrir þá miklu björg, sem þeir drógu þaðan í bú sín. Þaðan gælunafnið á Skerinu: „Skerið góða“.

Heimildir neðanmáls í þessum hluta:
1) Jónas Jónasson: Ísl. þjóðhættir, Rvík 1934.
2) Kirkjubók Vestmannaeyjaprestskalls.
3) Alþ.b. 1685, nr. 6.


2. hluti


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit