Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Strand Þurfalings
Séra Jón Austmann fékk Ofanleiti í Vestmannaeyjum 1827 og hélt lengi síðan. Hann var sonur séra Jóns, er kallaður var köggull og þjónað hafði Meðallandsþingum, Jónssonar, Jónssonar og Guðnýjar, dóttur Jóns prófasts Steingrímssonar að Kirkjubæjarklaustri og konu hans, Þórunnar Hannesdóttur sýslumanns Lárussonar.
Séra Jón Austmann átti Þórdísi Magnúsdóttur, klausturhaldara í Þykkvabæ, Andréssonar. Elzta barn þeirra séra Jóns var Lárus. Var það nafn tekið úr Schevingsættinni og hafði eigi ávallt þótt reynast happasælt í síðari tíð. Höfðu þau hjónin eigi orðið á eitt sátt um nafnið. En þá sagði prestur: „Það stendur á sama, hvað menn eru skírðir. Gæfan felst ekki eingöngu í nafninu. En konan á að ráða nafni síns fyrsta barns.“
Sagt er, að Þórdís hefði ráðið öllum nöfnum barna sinna. Hún unni mest Lárusi og ólst hann upp í miklu eftirlæti þar, unz hann var 18 ára.
Vinnudrengur sá var á Ofanleiti, er Einar hét Torfason, vel ættaður og afbragðs vel gefinn, fáorður, kjarnyrtur, dulur og óhlutsamur, manna fóthvatastur, hugrakkur og nokkuð óbilgjarn. Hann vann mikið úti og inni, en helzt þó að því, að sækja nauðsynjar niður í kaupstaðinn. Fór hann stundum tvær og þrjár ferðir á dag og það þótt brúna myrkur væri og óveður. Laugardagskvöldið næst fyrir jól 1835 fór Einar niður í kaupstað. Á leiðinni þangað urðu margir menn á vegi hans og staðnæmast allir norðanvert við kirkjuna. Þar á meðal sér hann formann þann, er Jónas hét Björnsson*, kallaður hinn heppni. Hann var frá Miðhúsi, sjómaður ágætur, vel fær og syndur ágætlega. Það sér Einar, að hinir allir sækja hart að Jónasi, og á hann þar í vök að verjast. Engin heyrði Einar orðaskil. Hann hugsar, að þeir muni vera dukknir og sneiðir hjá þeim og rekur erindi sitt. En þegar hann kom í búðina, varð honum bilt við, því fyrsti maður, er hann rakst á, var Jónas heppni. Hugsar hann nú, að það hafi verið einhver annar, er sótt var að hjá kirkjunni.
Jónas í Miðhúsum hafði jafnan verið hæstur maður að hundraðatali í Eyjum. Nú var hann formaður á tírónum bát, teinæringi, stærsta fiskiskipi í Eyjunum, er „Þurfalingur“ hét, en sumir kölluðu Tyrfing. Hafði Jónasi aldrei hlekkst á, enda hafði hann nú bæði gott skip og valið lið. Þóttist hver sá heppinn, er hlaut skiprúm hjá honum. Kepptu margir um það.
Einn dag kom séra Jón að máli við Jónas og spyr, hvort hann hafi fullráðið á skip sitt. „Svo má það heita, en þó vantar mig raunar einn mann.“ „Viltu taka Lárus son minn hlutgengan?,“ mælti séra Jón. „Hann er nú að eins 18 ára. Kysi ég honum helzt rúm í skipi þínu.“ Jónas kvað svo verða mega. Væri fyrir góðan mann að gera, þar sem prestur væri.
Séra Jón varð glaður við, og skilja þeir vingjarnlega. Klerkur sagði konu sinni frá ráðningu Lárusar og lét vel yfir. Þórdís lét sér fátt um finnast, kvað Lárus of ungan til að róa þungum árum, en fyrst hann vildi það sjálfur, þá væri bezt að láta svo búið standa.
Þegar Einar Torfason frétti ráðningu Lárusar, reyndi hann af öllum mætti að hindra það, að hann yrði á „Þurfaling“ með Jónasi. Þótti honum vænt um Lárus leikbróður sinn. Tekur hann Lárus tali og segir: „Ætlar þú að róa með Jónasi heppna í vetur?“ „Já, ég er ráðinn hjá honum,“ svarar Lárus. „Kvíðir þú ekki fyrir vertíðinni?,“ segir Einar. „Ég hlakka til hennar, eins og barn til hátíðahalds,“ svarar Lárus. „Þú skalt nú samt ekki róa í vetur,“ segir Einar. „Hvers vegna?,“ spyr Lárus. „Því er fljótsvarað,“ kvað Einar, „svo þú verðir gamall maður.“ „Hyggur þú,“ spyr Lárus, „að ég drukkni í vetur, ef ég ræ?“ „Það er annað hvað ég hugsa, eða hvað verður,“ segir Einar. „En verður það, sem ætlað er.“ „Ekki ert þú gerður til að verða sjómaður, samt er ekki víst, að þú verðir gamall maður fyrir því,“ sagði Lárus í hálfgerðum styttingi. Að svo mæltu skildu þeir talið, og sýndist sitt hvorum, sem oft verður. En fer orð, er um munn líður. Orð Einars: „Svo þú verður gamall maður“, voru orðin að orðtaki í Eyjunum, áður en hann varði, en féllu þá að mestu leyti niður, þegar spáin rættist, sem lá í þeim fólgin.
Á góu um veturinn létu öll skip úr vörum til fiskjar, því veður voru hin beztu, og kyrr sjór. En er á leið, brimaði stórlega, svo skipin urðu öll að liggja til laga utan Leiðarinnar, er að landi kom. Þótti þá tvísýnt um lendingu.
Maður er nefndur Þorbjörn, er þar stýrði einu skipi. Hann var skyggn og ófreskur og kallaður Skyggni-Tobbi. Hann lá næstur til lags og sagði fyrir, hvenær róa skyldi, og hlýddu því allir.
Þegar þeir Jónas heppni á „Þurfalingi“ réru, snéri Skyggni-Tobbi frá aftur — en þeir héldu áfram að óvilja hans. Skyggni-Tobbi kvað alla þessa menn feiga vera, enda færu þeir gálauslega.
Þegar „Þurfalingur“ kom móts við Steininn svo nefnda, kom afarstórt ólag og skall á Klettsnefi og flúðinni og gerði skakkafall og ólgu mikla. „Þurfalings“-menn réru knálega, en urðu fyrir því óhappi, að Jónas stýrði á svo kallaðan Hnykil (flúð eða skernaggur, er flaut yfir). Í því reið ólagið mikla undir bátinn. Hrökk stýrið upp af krókunum. Snérist skipið þá flatt fyrir og veltist um á svo snöggu augabragði, að undrum þótti sæta. Þar drukknðu þeir félagar átján saman, en þrjá rak á land upp og var þeim borgið.
Eftir þetta lægði sjó og öll skip komust hiklaust inn. Jónas heppni fannst síðar rekinn undir svonefndri Löngu. Þóttust menn sjá, að hann hefði sprungið á sundi. Var álitið, að einn eða fleiri félaga hans hefðu haldið í hann, því föt hans voru mjög sundur rifin. Hann hafði verið talinn ágætur sundmaður og færastur allra á Suðurlandi og vel að sér um flesta hluti.
Lárus, son séra Jóns, rak seinna um daginn og nokkra menn með, og alla rak þá um síðir.
Sama dag, sem „Þurfalingur“ fórst, sat séra Jón Austmann í skrifstofu sinni og var að semja ræðu. Mun hafa verið laugardagur. Þegar hann lauk við að skrifa, heyrist honum barið ofur hægt á dyr. „Kom inn!,“ sagði prestur. Enginn kom þó. Leið örstuttur tími þar til barið var aftur, harðara en fyrr. Prestur kippti upp hurðu. Sér hann þá hvar nokkrir skinnklæddir menn standa í göngunum, er voru fremur þröng og skuggsýnt í þeim. Sá hann því óglöggt andlit þeirra. Kallar hann þá til þeirra og segir: „Gangið allir inn í stofuna. Ég kem þangað undir eins til ykkar.“ Enginn svaraði, en prestur hljóp til svefnherbergis síns og sagði konunni frá gestakomunni, og að mennirnir hefðu allir verið í sjóklæðum. Þórdís vissi, að eigi þurfti að efa orð manns síns, en undarlegt þótti henni það, að menn hefðu farið að ganga neðan frá sjó, nær hálfrar
stundar göngu, í öllum sjóklæðum. Datt henni þegar í hug, að annað hvort væri hér að ræða um missýni, eða að þar hefðu birzt svipir sædrukknaðra
manna, sem ei þótti óvanalegt. Greip hana nú undarlegur óttageigur og taugatitringur, er hún lét ei á bera. Prestur fór nú að vitja gestanna. En þegar
hann kom í stofuna, var þar enginn maður. Honum datt í hug, að mennirnir hefðu eigi kunnað við að fara í stofuna í sjóklæðnaði sínum og því vikið
út. Gekk hann þá út á hlaðið og kringum allan bæinn, en varð þar einkis var. Hann mætir þá Einari Torfasyni vinnumanni sínum og spyr, hvort hann
hafi orðið þar var við nokkra menn í sjófötum. Einar kvað nei við. „Hér voru þó áðan nokkrir menn í skinnklæðum. En allskyndilega hafa þeir horfið,“
mælti prestur ennfremur. Einar innti eftir, hvað hann hefði séð. Prestur sagði það. Einar mælti: „Hér hafa engir sjómenn komið, því megið þér trúa. Þeir
eru allir á sjó í dag, eftir því, sem ég veit bezt. Munu þetta hafa verið huldumenn af sjó komnir og vitjað góðs manns húsa.“ „Það mun svo hafa verið,“ segir prestur, „því hvorki var þetta draumur né hugarburður.“
Rétt á eftir kom þangað fregnin um skipskaðann, átján manna lát og þar á meðal Lárusar, sonar prests. Hafði það gerzt á sömu stundu og sýnina bar fyrir klerk. Þóttust menn þá skilja, að hann hefði séð svipi hinna drukknuðu, er leitað hefðu heim að Ofanleiti, einmitt á þann stað, er þeir voru jarðaðir á, og birzt þeim manni, er jarðsöng þá og mælti eftir þá.
Jórunn hét dóttir séra Jóns Austmanns, og var ung mjög, er þetta gerðist. Hún sagði sögu þessa Sigurði Jónssyni, ættfræðingi, Árnesingi, sem hún er hér höfð eftir.
Einar Torfason er haldið að hafi verið bróðir Sigurðar hreppstjóra í Eyjunum. Minnir þá, er Sigurði sögðu sögu þessa, að Einar hafi hvorki búið, kvænzt né átt börn, og dáið ungur í Eyjunum. Hefir þá fyrirsögn Lárusar líka ræzt á honum.
Skipið „Þurfalingur“ var síðasta svo kallað konungsskip hér á landi.
*Á að vera Jónas Einarsson Vestmann.
(Sigf. Sigfússon: Ísl. þjóðsögur III, 32—35)