Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Draumfurða Tómasar og Björgvinarmanna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Draumfurða Tómasar og Björgvinarmanna.


(Eftir handriti Sig. Jónssonar, ættfræðings, Ámesings, 1914)


Maður er nefndur Tómas Brynjólfsson, frá Sitjanda undir Eyjafjöllum. Hann var ungur maður, greindur vel og skáldmæltur. Hann dreymdi haustið 1913, áður en hann fór til sjóróðra í Vestmannaeyjar, að hann væri staddur í Holtskirkjugarði. Hann þóttist þá byrja á þeim gamanleik, að vega salt á ás, sem honum þótti liggja yfir kirkjugarðsvegginn. Honum þótti Kjartan prófastur í Holti, Einarsson, vera á móti sér, og sitja á endanum, sem snéri inn í garðinn. Ekki gekk leikurinn lengi slysalaust, því allt í einu þótti honum prófastur steypast ofan í garðinn og hverfa niður í hann. Þá snérist ásinn hálf hring og varð hans endi innangarðs. Þóttist hann þá falla ofan í djúpa gröf, er í var sjór og streymandi vatn. Átti hann erfitt að standa af sér strauminn og gat eigi borgið sér. Kolniðamyrkur var og enginn maður nærri. Loks þóttist hann gefast upp og leið honum þá mjög illa. Þetta réð Tómas fyrir því, að hann mætti skjótt vænta dauða síns, ef hann frétti lát séra Kjartans. En hann huggaði sig við það, að hann fengi að deyja heima. Veturinn 1913 dó séra Kjartan í Holti. Þegar Tómas frétti lát hans, orti hann fögur erfiljóð, þótt þau verði hér eigi skráð. Þar í gat hann þess, að skammt mundi verða milli þeirra.
Um þessar mundir réru fjórir menn úr húsi í Vestmannaeyjum, er Björgvin heitir. Halldór Runólfsson hét formaðurinn, annar var Ólafur Ólafsson, þriðji Jón Jónsson, fjórði Jóhann Stefánsson úr Péturshúsi. Tómas Brynjólfsson gerðist nú sá fimmti.
Um haustið sagði Halldór við Jóhann: „Heldurðu að við fiskum vel í vetur?“ „Já,“ segir Jóhann, „en undarlegan draum dreymdi mig.“ „Fyrir hverju hyggur þú hann verða?,“ segir Halldór. Jóhann efar að hann kunni að ráða hann. „Hvernig var hann?,“ segir Halldór. „Það er föst ákvörðun mín, að segja hann ekki fyrr en á lokadaginn, og það vil ég enda,“ mælti Jóhann.
Gagnvart Björgvin, allnærri, stendur hús, sem kallað er Eyjólfshús.
„Veturinn 1913,“ segir sögumaður minn (Sigurður Jónsson), „var ég fiskaðgerðarmaður í Eyjunum hjá Árna Jóhannssyni Johnsen. Á gamlárskvöld gekk ég upp sundið á milli Eyjólfshúss og Björgvinar, - í myrkri. Mér varð snöggt litið upp í glugga á Björgvin. Var eins og ég væri dreginn til þess, því það var ekki siður minn, því ég áleit það ósið. En mér til mestu undrunar sé ég nú fjögur karlmannaandlit stara þar út um glugga á glugga beint á móti í Eyjólfshúsinu. Þau voru svo þétt saman, að ég sá ekkert bil á milli þeirra.
Ég leit ósjálfrátt upp í gluggann á Eyjólfshúsinu, en sá þar ekkert. Enda áttaði ég mig nú á því, að þá var of dimmt til þess, að ég gæti séð andlit í hvorum glugganum sem var, því í hvorugum glugganum var ljós. Þá greip mig ónotahræðsla, því mig grunaði, að ég hefði þarna séð svipfurður bátsverjanna í Björgvin, en ekki þá sjálfa. Hraðaði ég för minni heim til mín. Ég var lengi síðar að velta þessu fyrir mér, og reyndi að gera mér það skiljanlegt á einfaldan og eðlilegan hátt. En það tókst mér eigi, og svo sofnaði ég.
Klukkan vel tvö um nóttina vakna ég við það, að mér heyrist gengið inn í forstofuna og staðið utan við svefnstofudyrnar. Ég fer að horfa gegn um rifu, sem var á hurðinni. Sýndist mér þá þar komnir þeir sömu menn, sem ég sá í glugganum í Björgvin. Og á sama augnabliki sló í nasir mér svo megnri nályktarfýlu, að ég hefi aldrei fundið aðra eins. Varð mér hverft við og ýtti í rekkjufélaga minn. En ég gat ekki vakið hann. Lá ég svefnlítill það sem eftir var nætur. En nályktin hvarf eftir lítinn tíma.
Fáum nóttum síðar tekur mig enn að dreyma um bátsverjana í Björgvin. Ég þóttist staddur á lítilli eyju. Mér þótti sem ger væri rammger garður kring um hana. Ég þóttist standa innan við garðinn að norðan og horfa í austur og landnorður. Sá ég þá Eyjafjallajökul og Austureyjar báðar, sunnan við Bjarnarey. Þá sé ég koma brotinn bát siglandi með kolsvörtum voðum. Hann bar óðum að og stefndi á garðinn þar, sem ég stóð innan við hann. Ég varð undrandi yfir flýtiferð báts þessa, því mér þótti hvítt brimlöðrið freyða framundan honum og vera sem brotgarður stór. Þegar báturinn kom nærri, þóttist ég þekkja alla mennina í honum, nema einn. Þegar mér þótti báturinn eiga að eins ofurlítinn spöl eftir að garðinum, varð mér að orði: „Illa fer nú, ef bátnum verður stýrt á garðinn, sem út lítur fyrir.“
Hér varð skammt á milli orðs og atviks, því í sama bili rak báturinn hnýfilinn í hábrún garðsins og endabyltist inn fyrir garðinn, þar sem ég stóð, og brotnaði. Það, sem í honum var, hvarf ofan í hið freyðandi djúp við ströndina. Þó vissi ég nú, að einn þeirra félaga mundi hvíla kyrr á grunni utangarðs. En ekki fékk ég að sjá hann. Þegar ég þóttist hafa séð atburð þennan til enda, snéri ég heim og sagði við sjálfan mig. „Ég hefi sannarlega séð feigðarfurður og svipi þessara manna á þessum síðasta degi ársins.“ Ekki var þessi draumur lengri.
Fullum 8 vikum síðar rættist þessi draumur, að áliti mínu og annarra, sömuleiðis draumur Tómasar og líklega Jóhanns, ásamt vökufyrirburðum mínum. Smábátar réru fremur seint þann dag, sem það skeði. Hvessti þá snögglega, á svo sem 10 mínútum, svo að allir á smærri bátunum yfirgáfu línur sínar í sjó, nema Halldór frá Björgvin.
Þá hafði viljað svo til í landi, áður þeir fóru, að Jóhann hafði orðið litlu seinni en hinir með sitt bjóð til bátsins, og voru hinir komnir á flot, þegar hann kom niður að lendingu. Því var nú Jóhann í landi og þeir að eins fjórir á bátnum. Má vera, að draumur Jóhanns hafi borgið honum, þótt menn þekki hann ekki. Hann hafði aðeins orðið 2—5 mínútum of seinn.
Vélbátar sáu það seinast til Björgvinarfélaganna, að þeir voru að draga línuna, áður en veðrið var þó fullharðnað. Meira fengu menn aldrei að vita um þá. En daginn eftir rak bátinn upp í svo kallaðar Urðir, austan á eyjunni, og var hann mikið brotinn. Þótti mega sjá á segli og stögum, að þeir hefðu komizt á siglingu.
Tíu dögum eftir þetta slys fannst Tómas Brynjólfsson rekinn óskaddaður á fjörur, uppi undir Eyjafjöllum, fram undan heimili hans. Hann hafði verið í sundvesti. Rættist þannig grunur hans, eftir draumnum, að hann fengi að deyja heima, er lík hans rak þar á land. Var hann sá fyrsti og næsti á eftir prófasti, er þar var grafinn. Guðmund í Hólakoti dreymdi, að Tómas kom að honum í Holti og bað hann ganga fjörurnar, því sér væri svo kalt á öðrum fætinum. Guðmundur fór og fann hann þegar. Var hann þá í öllum fatnaði, nema berfættur á öðrum fæti.
„Maður sá, af þeim félögum, sem ég þekkti ekki í draumnum, var Jón Jónsson. Var hann nýkominn frá Ameríku, og hafði ég aldrei séð hann,“ segir Sigurður.
Garðurinn í draumnum á auðsjáanlega við ströndina. En þar sem Sigurði þótti einn maðurinn liggja á grunni utan garðs, þá mun það benda til þess, að Tómas rak eigi í Vestmannaeyjum, heldur á meginlandi uppi undir Eyjafjöllum, og því var hann utan við garðinn.
(Sigf. Sigfússon: Ísl. þjóðsögur II, 41—44)