Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Örnefni (JGÓ)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Örnefni.


Silfurbrunnar. Eins og kunnugt er af þjóðsögunni, varð bær Herjólfs landnámsmanns undir skriðu, sem féll úr Blátindi. Fórst Herjólfur þar og allt hans skyldulið, nema Vilborg dóttir hans, sem bjó á Vilborgarstöðum. Við skriðufallið myndaðist mikill grjóthaugur yfir bænum, og hefur hann til þessa dags verið nefndur Herjólfshaugur. Í skorningum, sem lágu ofarlega í hauginum, voru til skamms tíma tvær lindir, sem menn nefndu Silfurbrunna. Var talið, að þar undir lægi silfur Herjólfs, og var það trú manna, að aldrei mundi vatn þrjóta í Silfurbrunnum, þó langþurrkar gengi. Margar tilraunir voru gjörðar til þess að ná silfri Herjólfs, en það fór jafnan svo, er menn höfðu grafið nokkuð niður, að þeim sýndist Landakirkja standa í björtu báli, og hættu þeir þá að grafa og hlupu af stað til þess að bjarga kirkjunni. En þegar þeir komu að Landakirkju, var þar enginn eldur uppi. Héldu þeir, að þeim hefði verið gjörðar þessar sjónhverfingar af haugbúanum, sem ekki vildi láta ræna sig silfri sínu og hættu þeir því við gröftinn og er silfur Herjólfs enn í hauginum, en lindirnar eru þornaðar.

Friður. Sunnan við Nýjabæ í túni jarðarinnar, er grjóthóll, að mestu grasi gróinn, sem nefndur hefur verið Friður. Í hóli þessum er talið að huldufólk hafi átt byggð um langan aldur. Ábúendur í Nýjabæ hafa aldrei látið slá hólinn, og sumir þeirra hafa ekki viljað láta vera með hávaða í námunda við hann, og dregur hann nafn af því. Kristín, dóttir Einars Sigurðssonar bónda á Vilborgarstöðum, ekkja þeirra Magnúsar Austmann, stúdents og Þorsteins Jónssonar, alþingismanns, bjó um langt skeið í Nýjabæ. Var henni mjög á móti skapi, að háreysti væri höfð í frammi nálægt Frið og hastaði oft á börn, sem voru þar að leikjum. Vildi hún ekki láta raska húsfriði hjá huldufólkinu.

Ókindarbás. Norðan í Heimakletti er allstór skúti inn í bergið, sem nefndur hefur verið Ókindarbás. Verpa þar nokkrir fýlar, en nú er mjög langt síðan að sigið hefur verið þangað til fýla. Sig er allhátt ofan í básinn, og eftirtekjan lítil. Það er sögn manna, að þarna hafi einhver illvættur haft hæli sitt, og hafa menn þess vegna ekki þorað að fara í básinn. Einhverju sinni fyrir löngu, þegar verið var til fýla norðan í Heimakletti, seig sigamaður í Ókindarbás. Er hann var kominn fyrir munna bássins, kom handleggur fram úr berginu með sveðju í hendi og skar á vaðinn. Þegar sigamaðurinn sá hendina, kallaði hann upp: „Hann er þríþættur, í drottins nafni!“ Brá svo við, að aðeins tveir þættir vaðsins skárust sundur, og bjargaðist sigamaðurinn á teininum, sem heill var. Var hann þegar dreginn upp, án þess að hafa farið í básinn. Síðan hefur aldrei verið gjörð tilraun til þess að fara í Ókindarbás.
(Sögn Sigurðar Sigurðssonar og Kristjáns Egilssonar).