Ritverk Árna Árnasonar/Veiðistaðir í Ystakletti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Veiðistaðir í Ystakletti



1. Lögmannssæti. Tveir veiðistaðir, syðri og nyrðri staður.
a. Syðri staðurinn er mitt á milli Norður og Suðurbrúnarinnar, setið niður við flána. Veiðiátt SA, (af Bjarnarey).
b. Nyrðri staðurinn er á NA-horninu. Veiðiátt S-gola.
Í syðri-staðnum er best, ef áttin er rétt sunnan við Bjarnarey, gola eða kaldi, en í þeim nyrðri sunnan gola eða kaldi.
2. Heyhællinn. Veiðiátt SA, best, að vindur standi milli Bjarnareyjar og Heimalands.
3. Háaflá er sunnan Heyhæls. Veiðiátt Háufláar er sú sama og við Heyhælinn.
4. Föstuhlíðarnef. Veiðiátt SSA, standi af Flúðinni við Heimaey, best slík vindstaða, gola eða kaldi. Þarna veiddi Árni Diðriksson líklegast fyrstur, og sat hann öfugur, þareð hann gat ekki veitt upp á vinstri hönd fram á skafti. Veiðistað þennan hefir hann þá fundið snemma í tíð háfsins.
5. Lognflá í Föstuhlíð rétt suður við bónda. Veiðiátt logn.
6. Brauðtorfa fyrir sunnan Lognflá. Veiðiátt SA-átt eða nær austri, helst af Bjarnarey.
7. Faxi. Átt austan gola eða kaldi. Þetta er við austurbrún.
8. Háhausinn. Veiðiátt A.
9. Í miðri brekku upp af Lögmannssæti er staður, sem Ólafur Ástgeirsson fann og bjó til. Veiðiátt SA eða vindar standi með Bjarnarey að sunnan.
10. Slakki. Vestan og sunnan til í Háhaus. Átt S-gola. Þarna veiddi Jón Ingimundarson oft vel.
11. Sandtorfan. Veiðiátt sunnan gola. Setið austur á brún í sandtorfunni upp af ,,gamla bóli“. Þarna veiddi Hannes Jónsson á Miðhúsum eitt sinn 8 hundruð nokkru eftir að háfur var tekinn í verkun hér 1876. Veiðiátt má vera S eða SV-gola.
12. Undir hendinni. Veiðiátt S-gola, en þolir ekki meir en góðan kalda. Setið er vestan undir brúninni. Þarna veiddi Jón Ingimundarsson í Mandal oft.
13. Dritnef, vestan við skriðurnar. Veiðiátt er logn.
14. Langafles. Þar eru 3 staðir í logni
a. Í brúnninni upp yfir Gyltustig.
b. Í miðju flesinu nyrst á brúninni.
c. Uppundir Réttarhaus, fundinn af Ólafi Ástgeirssyni.
15. Djúpafles. Veiðistaður í SV-átt. Setið alveg niðri við brún syðst.
16. Réttarfles. Þar eru 2 veiðistaðir í logni.
a. Setið norður í bring í miðju flesinu.
b. Setið um einni háfslengd neðar.
17. Vestur í Klettsnefi er veiðistaður í NV-golu
18. Sunnan í Klettsnefi er veiðistaður í vestan golu. Það er efst á Klettsnefi á hryggnum.

Auk nefndra veiðistaða eru svo margar veiðisetur hingað og þangað ónafngreindar. Þar hafa menn ,,holað sér niður” og stundum veitt þar allvel.

Veiðikofi var fyrst byggður í Ystakletti 1907/08. Var grindin smíðuð heima í bæ af Jóni Ingimundarsyni, Mandal, og var hún síðar flutt austur. Áður var legið þar við í tjaldi sem í öðrum úteyjum. Kofinn var að sjálfsögðu með hlöðnum veggjum og fyrst óþiljaður, en klæddur innan með mottum. Síðar var hann svo þiljaður innan, sem þótti mikil bót og stór framför. Tjaldstaður var á ,,jaðrinum“. Þar lá t.d. Árni Diðriksson alltaf í tjaldi sínu. Áður var legið við í gamla bólinu, sem var neðan við Sandtorfuna. Oft voru 7-8 menn að veiðum í Ystakletti samtímis og öfluðu ávallt vel.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit