Ritverk Árna Árnasonar/Sigurður Helgason (Götu)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigurður Helgason.

Kynning.

Sigurður Helgason sjómaður í Götu fæddist 11. desember 1888 í Batavíu og lést 24. júlí 1935, hrapaði úr Miðkletti.
Foreldrar hans voru Helgi Eyjólfur Jónsson, þá verslunarstjóri í Garðinum, síðar bankaritari í Reykjavík, f. 31. október 1852, d. 6. júní 1905, og Guðríður Sigurðardóttir frá Búastöðum, f. 13. ágúst 1867, d. 1918, dóttir Sigurðar Torfasonar hreppstjóra á Búastöðum.

Sigurður var eins árs tökubarn í Elínarhúsi hjá ekkjunni Margréti Þorsteinsdóttur 1890. Hann var 12 ára hjá Jóni Péturssyni og Rósu Eyjólfsdóttur í Þorlaugargerði 1901.
Sigurður var vinnumaður í Þorlaugargerði 1910, stundaði „sjómennsku og fuglaveiði“.
Þau Elínborg Guðný voru leigjendur á Seljalandi 1916 með Oddnýju Ólafíu nýfædda, á Hjalla 1920 með barnið Oddnýju Ólafíu 4 ára hjá sér.

Kona Sigurðar var Elínborg Guðný Ólafsdóttir, f. 9. nóvember 1893 að Kirkjufelli í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, d. 15. desember 1944.
Börn þeirra:
1. Oddný Ólafía Sigurðardóttir húsfreyja, verkakona, f. 15. ágúst 1916 í Hlíðarhúsi, d. 7. desember 2003, gift Tryggva Gunnarssyni vélstjóra og útgerðarmanni, f. 29. apríl 1916, d. 22. mars 2001.
2. Björn Helgi Sigurðsson, f. 4. janúar 1920, d. 14. janúar 1920.
3. Guðni Pétur Sigurðsson skipstjóri, f. 30. júlí 1921 á Hjalla, d. 16. mars 2012, kvæntur Guðríði Ólafsdóttur húsfreyju að Heimagötu 20, Karlsbergi, f. 21. október 1919, d. 21. október 1984.
4. Unnur Lea Sigurðardóttir húsfreyja, f. 9. ágúst 1922 á Hjalla, d. 30. maí 1998, gift Helga Bergvinssyni skipstjóra, f. 26. ágúst 1918, d. 16. maí 1989.
5. Helgi Sigurðsson sjómaður og verkamaður á Siglufirði, f. 11. júní 1925, d. 17. janúar 2008, kvæntur Söru Símonardóttur húsfreyju, f. 30. ágúst 1923, d. 27. ágúst 2004.
6. Sigríður Sigurðardóttir, f. 25. desember 1926, d. 2. apríl 1927.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Sigurður Helgason var maður meðalhár vexti, fremur grannur en samsvaraði sér vel, fremur liðlega vaxinn, ljós yfirlitum, en dökkskolhærður, sérstaklega hægur maður og stilltur, daufgerður mjög í daglegri almennings umgengni, en gat þó verið ræðinn í fámenni, orðvar og prúður. Sjaldan sást hann brosa svo að efalaust hefir skapgerð hans verið yfirleitt þung, þótt af honum bráði stöku sinnum.
Veiðimaður var Sigurður ágætur, einn af þeim betri, iðinn, stilltur og rólegur að veiði, en gat þó orðið kappsfullur, ef tilefni gafst og elti stundum grátt silfur við t.d. Norðurgarðsbræður vestri í kappveiði, sem hann sigraði ávallt auðveldlega.
Sigurður var annars sjómaður að lífsstarfi og naut þar almennrar vinhylli sem og við önnur störf sín.
Sigurður var prúðmenni og drenglyndismaður.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
  • Garður.is.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðip 5. júní 1998.
  • Morgunblaðið 13. desember 2003.
  • Morgunblaðið 26. janúar 2008
  • Morgunblaðið 24. mars 2012.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.