Ritverk Árna Árnasonar/Pétur Lárusson
Kynning.
Jóhann Pétur Lárusson bóndi, verslunarmaður og fiskimatsmaður á Búastöðum fæddist 16. desember 1876 og lést 18. október 1953.
Foreldrar hans voru Lárus Jónsson bóndi og hreppstjóri og formaður á Búastöðum, f. 30. janúar 1839 að Dyrhólum í Mýrdal, drukknaði af Hannibal í innsiglingunni 9. febrúar 1895 og kona hans Kristín Gísladóttir húsfreyja, f. 13. janúar 1843, d. 30. desember 1922.
Kona Péturs var Júlíana, f. 19. júlí 1886, d. 29. október 1976, Sigurðardóttir snikkara í Nýborg Sveinssonar, en móðir hennar var Sigríður, d. 1901, Sighvatsdóttir frá Vilborgarstöðum.
Þau Júlíana voru barnlaus, en hjá þeim var fóstraður
1. Þorvaldur Ólafsson frá Bakka, vélstjóri, vélvirkjameistari, verslunarmaður, heildsali í Reykjavík, f. 5. júní 1921 á Bólstað, d. 27. febrúar 2009.
Hjá þeim bjó Lárus Árnason bifreiðarstjóri, í fyrstu í uppeldi ömmu sinnar, Kristínar.
Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.
Pétur var mjög stór maður vexti, og vel þrekinn, skolhærður, nokkuð langleitur með beint nef og há kinnbein. Hann var sterkur maður og beinastór, breiður um axlir, en niðurmjór, sem tíðkast um kraftamenn. Hann var skapléttur og söngvinn og kátur, vel fróður og góður heim að sækja, ræðinn og veitull.
Veiðimaður var hann góður, en hætti snemma og gerðist verslunarmaður, fiskmatsmaður og bóndi, ásamt ýmsum fleiri störfum. Hagleiksmaður mikill, smiður prýðilegur, drátthagur og útlærður skósmiður. Heilsuveill var hann síðustu árin, en sálarlega hraustur fram á síðasta dag. Vellátinn og drengur hinn besti.
Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Pétur Lárusson
Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
- Heimaslóð.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.