Ritverk Árna Árnasonar/Menn, sem hafa bjargast í úteyjunum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Menn, sem hafa bjargast
í úteyjunum


Eins og skráin um hrapaða menn í Eyjum ber með sér, eru það ekki neinir smáskattar, sem björg Eyjanna hafa krafið Eyjaskeggja um. En samt er það svo, að þó nokkrir menn hafa hrapað og komist lífs af úr þeim háska, sumir að vísu slasaðir, en aðrir sloppið allvel eftir aðstæðum.
Fyrst mætti nefna Hannes Jónsson á Miðhúsum, er hann hrapaði í Bjarnarey. Hann var þar við lundaveiðar í ungdæmi sínu, staddur allfjarri veiðifélögum sínum. Var hann með net til veiðanna eins og þá var siður, þ.e. yfirlagningsnet. Var Hannes tæpt að brún og vildi þá svo til, að hann féll fyrir brún niður, festi fót sinn í netinu, en það festist í berginu. Þarna hékk hann í hengifluginu, en tókst svo að lesa sig upp eftir netinu á hillu eina í berginu. Við fallið hafði hann farið úr liði um ökklann.
Eftir að hafa athugað möguleika á því að sleppa lífs úr þessum voða, sá hann enga framundan.
Félagar hans voru langt burtu, svo að ekkert þýddi að kalla á hjálp. Það mundi ekkert heyrast. Þá athugaði hann möguleika á því að klífa upp bergið, en sá fljótt, að það var ómögulegt. Lagðist hann síðan niður og hugsaði um það eitt, að hann yrði að komast upp á hvern hátt, sem það yrði. Félagar hans mundu sennilegast ekki finna hann, fyrr en seint um síðar, ef þeir þá fyndu hann nokkurn tíma.
Síðan vissi Hannes ekkert af sér, fyrr en hann rankaði við sér og lá þá uppi í brekku fyrir ofan brún. Hvernig hann komst upp, vissi hann ekki, og um það voru og eru menn enn í dag sammála um, að þarna sé algjörlega ókleift berg og engum fært nema fugli á flugi.
Hannes lá síðan lengi efir þetta eða nálægt einu ári, og aldrei varð hann jafngóður. Svo mikla handriðu hafði hann að tæpast gat hann drukkið úr kaffibolla, og þegar hann skrifaði nafn sitt, varð hann að liggja með hinni hendinni ofan á þeirri, sem hann skrifaði með.
En Hannes lifði lengi eftir þetta, varð gamall maður, fengsæll skipstjóri og góður, hafnsögumaður, sem orð fór af og var gerður heiðursborgari Vestmannaeyja 1937.
Þar sem Hannes féll niður fyrir brún í Bjarnarey, heita síðan Hannesarstaðir, en þeir eru sunnan á Hrútaskorunefi við vesturbrún eyjarinnar. Hannes lést 1937 og var þá hálfníræður að aldri.

Einnig mætti minnast „Davíðs sem datt“, þ.e. Davíðs Ólafssonar, sem hrapaði eða féll ofan fyrir brún hjá Helli í Súlnaskeri allt í sjó niður.
Varð það honum til lífs, að hann náði báðum höndum undir hnésbætur í fallinu. Bergið slútti þarna fram yfir sig, svo að Davíð kom hvergi við fyrri en í sjó. Fallið var mjög hátt eða líklega 50 til 60 faðmar. Bjuggust menn þeir, er á bát voru við, að Davíð væri steindauður. Honum skaut fljótt upp aftur úr kafinu, og var hann þá þegar dreginn upp í bátinn.
Meðvitund hafði hann ekki misst í fallinu, en mikið var af honum dregið. Lá hann mjög lengi eftir þetta, en jafnaði sig furðu fljótt. Hann fór síðar til Ameríku og lifði þar lengi eftir þetta. En ávallt var hann nefndur „Davíð sem datt ofan af Skerinu“, svo furðuleg þótti björgun hans frá voða þessum. Þetta mun hafa skeð um miðja öldina eða mjög nálægt 1850. Hann fór frá Eyjum 1866, síðan til USA.

Í Vestur-Urðinni í Elliðaey hrapaði eitt sinn Jón Þorgeirsson á Oddsstöðum¹). Meiddist hann nokkuð, en komst þó til heilsu aftur. Haltur varð hann þó og var eftir það nefndur „Jón halti“.
Hann var ættaður úr Landbroti, sonur Þorgeirs Þorgeirssonar að Dalbæ þar. Hann var allgóður hagyrðingur og orti nokkuð, m.a. brag einn um Magnús Kristjánsson mormóna, er hann tók þá trú. Bragur sá mun nú í fárra höndum og er upphaf hans þannig:

Magnús, Magnús, mikil er þín villa,
mormónskum ég hafna ljótum sið.
Eyjaskeggja trauðla muntu trikka
tötrin meðan haldast skynsemd við.
Iðran gjörðu og yfirbót
innst af þinni góðu hjartarót.
Magnús, Magnús, hugsa um sem ég segi,
mælska þín mun ekki minnka hót,
vondum þó að víkir þú af vegi,
velferð þinni eigi stríðir mót.
Umbun því munt æðri fá
föðurnum dýrsta okkar hjá.
Magnús, Magnús, styrk um þarftu að biðja
mildiríkan föður styrk þér ljá.
Bænin ætla ég best þig muni styðja,
blessunarríkt meðal guði frá.
Syndugum til að svala þér
sannkallað besta meðal er.
(Eigið handrit Jóns Þorgeirss. í eigu Á.Á)

¹) Jón var langafi Jónasar í Skuld og þeirra systkina. (Heimaslóð).

Þess má og geta, að umræddur Magnús Kristjánsson hlaut hér í Eyjum hið fyrsta borgaralega hjónaband á Íslandi, þareð hann vildi ekki láta lútherskan prest vígja sig. Varð því sýslumaður að gifta hann samkv. konungsúrskurði. Magnús þessi bjó í Kufungi hér. Kona Magnúsar hér var Þuríður Sigurðardóttir.
Fyrst gaf Loftur Jónsson mormóni þau saman, en Aagaard sýslumaður dæmdi það algjörlega ólögmæta athöfn og ófullnægjandi.
Sem fyrr segir, sóttu þau svo um leyfi konungs til borgaralegs hjónabands, þareð lög voru í Danmörku um slíkar giftingar. Þetta leyfi fékkst með konungsúrskurði útg. 25. okt 1875 og var sýslumanni falið að framkvæma þessa sérstæðu athöfn, sem svo fór fram opinberlega í þinghúsi Eyjanna 30. marz 1876. Það var sem sagt fyrsta borgaralega hjónaband á Íslandi.

Þá er sagt, að Jón dynkur, sem svo var nefndur, hefði hrapað úr Hrútaskorum, (skv. sögn [[Hannes Jónsson|Hannesar Jónssonar, Miðhúsum). Aðrir segja, að hann hafi hrapað úr Langvíuréttunum, þ.e.a.s. honum hafi verið kippt niður með gagnvað. Langvíuréttir eru fyrir austan Eystra-Hvannhillunef um 10 faðma yfir sjó.
Þarna er sagt, að Jón hafi fallið allt í sjó niður. En þegar honum skaut úr kafinu, átti hann að hafa sagt „heyrðuð þið dynk, piltar“. Báturinn, sem þarna var nærstaddur, kippti Jóni inn í bátinn, og varð Jóni ekki meint af fallinu. Sögn er um það, að Jón hafi síðar hrapað til dauðs úr Molda.
Hver Jón dynkur var eða, hvenær hann var uppi, hefur enn ekki fengist upplýst, svo að ekkert verður frekar um hann sagt.

Úr Bensanefi í Stóra-Klifi er sagt, að Hannes Gíslason, sem nefndur var „sladdi“, hafi hrapað, meiðst nokkuð, en þó ekki til neinna muna.
Hann var oft í fýla- og fýlseggjasnatti í Klifinu og seldi svo búðarþjónum egg sín. Þegar hann flutti þau heiman frá sér til kaupendanna, bar hann eggin í hattinum, sem hann svo setti á höfuð sér. Varð honum stundum hált á þeim geymslustað, sem nánar segir frá í Bliki 1960 í grein minni „Gengið á reka“.

Á unglingsárum sínum hrapaði Hjálmar Jónsson í Dölum úr Mikitagstó eða Miðdagstó. Meiddist hann nokkuð, en jafnaði sig furðu fljótt og varð honum ekkert til lýta.

Nokkrum árum síðar hrapaði hann, líklega 1916, úr Litla-Klettsnefi að innan-verðu. Var það allhátt hrap eða sem næst 20 faðmar. Hrapaði hann í sjó niður, kom þó eitthvað lítilsháttar við bergið og meiddist eitthvað. Lá hann nokkurn tíma, en jafnaði sig svo. Mátti það undursamlegt kalla, að hann skyldi ekki stórslasast í hrapi þessu, en það hjálpaði, að hann lenti í sjóinn í aðalfallinu. Það varð honum til lífs eða a.m.k. bjargaði honum frá stórmeiðslum.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit