Ritverk Árna Árnasonar/Lárus Georg Árnason

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Lárus Árnason.

Kynning.

Lárus Georg Árnason bifreiðastjóri á Búastöðum fæddist 11. maí 1896 í Bandaríkjum N-Ameríku og lést 15. febrúar 1967.
Foreldrar hans voru Árni Árnason þurrabúðarmaður frá Vilborgarstöðum, síðar á Grund, f. 14. júlí 1870, d. 19. janúar 1924 að Grund, og kona hans Jóhanna Lárusdóttir frá Búastöðum, f. 23. september 1868, d. 8. desember 1953.

Kona Lárusar, (skildu), var Sigríður Jónatansdóttir húsfreyja frá Stórhöfða, f. 6. nóvember 1903, d. 16. mars 1994.
Þau Sigríður voru barnlaus.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Lárus var uppalinn af ömmu sinni Kristínu Gísladóttur og móðurbróður sínum Pétri Lárussyni og hefir því alla tíð verið á Búastöðum utan um eins árs tíma, er hann var í Stórhöfða.
Lárus er meðalhár, ljóshærður, rauðbirkinn, rjóður í andliti, frekar grannur.
Hann er mjög til baka og feiminn, en afhaldinn af vinum sínum, enda mjög vinfastur. Hann er kátur í sínum hóp og ágætis félagi. Hann hefir ávallt verið til lunda í Austureyjunum aðeins, en við aðrar fuglaveiðar og eggjatöku í öllum úteyjum og víða um Heimalandið. Góður sigmaður og fylginn sér og þolinn við störf bjarggangna, þykir ágætur liðsmaður í hvívetna.
Lífsstarf Lárusar er bifreiðaakstur, og var hann fyrsti bifreiðarstjóri Eyjanna, innfæddur. Annars gegnt ýmsum öðrum störfum, t.d. lýsisframleiðslu o.fl.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.