Ritverk Árna Árnasonar/Kristmundur Sæmundsson (Draumbæ)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Kristmundur Sæmundsson með nikkuna.

Kynning.

Kristmundur Sæmundsson bifreiðastjóri og bóndi í Draumbæ fæddist 1. nóvember 1903 og lést 21. ágúst 1981.
Foreldrar hans voru Sæmundur Ingimundarson bóndi í Draumbæ, f. 1. september 1870, d. 28. október 1942 og kona hans Sigríður Guðrún Eyjólfsdóttir húsfreyja, f. 8. nóvember 1879 í Brautarholtssókn í Kjósarsýslu, d. 28. apríl 1950.

Kona Kristmundar var Sigríður Þorbjörg Valgeirsdóttir húsfreyja í Draumbæ, f. 21. febrúar 1932, d. 16. október 1994.
Börn Kristmundar og Sigríðar:
1. Kristbjörg Kristmundsdóttir, f. 7. mars 1954.
2. Ólafur S. Kristmundsson, f. 9. maí 1955.
3. Halldóra Kristmundsdóttir, f. 9. maí 1957.
4. Áshildur Kristmundsdóttir, f. 10. ágúst 1959.
5. Sveinbjörg Kristmundsdóttir, f. 9. júlí 1961.
6. Sigurjón G. Kristmundsson, f. 22.. ágúst 1962.
7. Sigurlína Rósa Kristmundsdóttir, f. 14. maí 1964.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Kristmundur er meðalhár, dökkskolhærður, samsvarandi að gildleika, en nokkuð lotinn í herðum og sýnist því lægri en hann er raunverulega. Hann er mjög til baka, feiminn í fjölmenni og uppburðarlítill, yfirleitt, en í sínum hóp er hann skemmtilegur og oft fyndinn og orðheppinn. Hann er ekki beint liðlegur á velli eða lipurlegur, sígur á hægt og rólega og kemst furðu langt.
Hann hefir verið mikið við veiðar og eggjaferðir og komist furðu langt með sér betri mönnum í fjallaferðum. Lundaveiðimaður er Kristmundur allgóður, enda í góðri þjálfun sem slíkur eftir úteyjaviðlegur í tugi ára með afbragðs veiðimönnum. Hin seinni ár hefir hann ekki farið í úteyjar til veiða.
Lífsstarf hans er búskapur að Draumbæ og bifreiðaakstur. Kemst hann vel af og býr búi sínu umbrotalítið og án mikils tilkostnaðar, og keyrir svo bíl sinn, þegar honum hentar vel vegna heimilisanna.
Kristmundur var skemmtilegur úteyingur.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.