Ritverk Árna Árnasonar/Hætt komnir í jarðskjálfta
Það var dag einn síðla sumars árið 1896, jarðskjálftaárið mikla, að bjargmenn voru til fýlaveiða víðs vegar í Vestmannaeyjum. Í Álsey voru, m.a. bræðurnir Guðjón og Gísli Eyjólfssynir. Gísli bjó á Eystri Búastöðum en Guðjón í Norðurbænum á Kirkjubæ. Þeir voru báðir kunnir bjargveiðisnillingar og bjarggöngumenn. Með þeim var Einar Jónsson bóndi í Norðurgarði, sem var mikill athafnamaður, en minni fjallgöngumaður að fimleika.
Þessir 3 menn voru að „aðsækja“, sem svo er kallað á veiðimannamáli í Eyjum, - rota fýlinn með rösklega álnarlöngum, sterkum og allgildum trésköftum, sem kallast fýlakeppir. Þeir voru staddir norðan í Álsey. Hittist þá svo á, að þeir voru allir staddir samtímis í allstórri grastorfu, er snarpur jarðskjálftakippur reið yfir. Skipti það tæpast sekúndum, að grastorfan losnaði frá snarbröttu berginu og tók til ferðar niður. Hafði hún verið staðsett mjög nálægt því að vera fyrir miðju bergi, og var því um 60 faðma hátt berg í sjó niður, með bergsnösum, syllum og grastóm.
Það geta allir hugsað sér, hve ægilegt var nú þarna í berginu, og hve aðstaða þeirra var mjög lítil fyrir björgun þeirra frá bráðum dauða, sem og hitt, hve hræðilegt það er að vera utan í bjargi í miklum jarðskjálfta. Allt sýndist þeim vera dinglandi laust og smátt í þessum hamförum náttúrunnar. Loftið var þrungið af hvin og þrýstingi frá niðurhrapandi mold, grastorfum og stórum bjargstykkjum. Eyjan sýndist öll ganga í bylgjum, róla og rugga sem hrísla í vindi. Það sannaðist hér, að á hættunar stund hugsar maðurinn örfljótt, fær glögga yfirsýn aðstæðnanna og eldfljóta ákvörðun um það einasta eina, að bjarga sér með hugsanlegasta hættinum. Hér var ekki langur tími til umhugsunar, og mun það hafa borgið þeim bræðrum, að þeir voru fljótir að hugsa og framkvæma á hættunnar stund, mestu lipurmenni og fullhugar.
Þegar þeir fundu, hvað um var að vera og sáu, hvað verða vildi, hlupu þeir eins og kólfi væri skotið sinn til hvorrar hliðar úr grastorfunni, og náðu hand- og fótfestu í öðrum grastóm, sem til allrar heppni voru fastar, og var þeim bræðrum þar við báðum borgið.
En af Einari er það að segja, að hann fór áfram niður með torfunni og virtist engu sýnna, en honum væri dauðinn vís. En svo einkennilega vildi til, að nokkru neðar stoppar torfan við smá grastætlur eða kekki og varð það honum til lífs.
Það töldu þeir allir áreiðanlegt, að torfan hefði alls ekki stoppað þarna, ef þeir hefðu allir þrír verið kyrrir á henni, heldur hefði hún haldið óhindrað áfram og splundrast, en þeir allir farist.