Ritverk Árna Árnasonar/Gústav Stefánsson (Bergholti)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Gústaf Stefánsson í Ási.jpg

Kynning.
Gústav Stefánsson frá Ási, formaður og útgerðarmaður, fæddist 22. ágúst 1899 og lést 24. janúar 1943.
Foreldrar hans voru Stefán Gíslason í Ási, útgerðarmaður og formaður, f. að Hlíðarhúsum 6. ágúst 1876, d. 11. janúar 1952 og kona hans Sigríður Jónsdóttir húsfreyja, f. 27. apríl 1877, d. 3. desember 1941.

Kona Gústavs var Kristín Guðmundsdóttir, f. 27. maí 1899 í Sigluvík Landeyjum, d. 12. mars 1986.

Börn Gústavs og Kristínar hér:
1. Stefanía Gústavsdóttir Dwyer, fædd 5. ágúst 1918, dáin 22. júní 1992.
2. Hálfdan, fæddur 6. júlí 1920, dáinn 31. desember 1992.
3. Inga, fædd 7. júní 1922, dáin 23. apríl 1948.
4. Ásta Gústavsdóttir Orsini, fædd 23. október 1925, d. 16. september 2007.
5. Gústav Kristján, fæddur 19. janúar 1927, d. 31. mars 2014.
6. Emma, fædd 31. desember 1929.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Gústav var rösklega meðalamaður á hæð, þreklega vaxinn um herðar, rauðbirkinn á hár og skegg og nokkuð freknóttur og rjóður í andliti. Hann var vel sterkur maður og eldsnar í öllum hreyfingum og mjög fylginn sér. Heldur var Gústav þungur í skapi og mjög tilbaka, en gat þó verið léttur í sínum hóp, en seintekinn var hann fyrir allan almenning.
Gústav var einn af slyngustu veiðimönnum yngri kynslóðarinnar, enda vaninn til veiða í Ystakletti frá barnæsku undir leiðsögn föður síns, hins mikla veiðisnillings Stefáns í Ási Gíslasonar.
Gústav var lengst af í Ystakletti, en var þó í Álsey nokkur sumur og var þar mjög liðtækur meðan heilsan leyfði. Hann varð snemma mjög illa haldinn vegna magnaðrar sykursýki og háði það honum mjög við veiðar hin síðustu ár í Álsey, enda lést hann úr veiki þessari eftir langa veru á sjúkrahúsinu hér aðeins rúmlega 44 ára gamall. Lífsstarf Gústavs var annars sjómennska meðan heilsan leyfði, og var hann t.d. formaður um skeið með mb Gústav VE-126 og gekk vel.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Gústav Stefánsson (Bergholti)


Heimildir

  • Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
  • Íslendingabók.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.