Ritverk Árna Árnasonar/Fyrsta bókasafn í Vestmannaeyjum
Fyrr á tímum og lengi frameftir hefir alþýðumenntun á Íslandi víða verið af skornum skammti, og er það eðlilegt, þar sem þjóðin var lengi, alltof lengi, hneppt í fjötra einokunar og þar af leiðandi fátæktar. Alþýðuskólar voru engir, engir barnaskólar, fyrr en seint á 19. öldinni, nema barnaskóli Vestmannaeyja, sem stofnsettur var árið 1745 af þáverandi Eyjaprestum, en sem þó varð að hætta störfum eftir um 20 ár.
Barnafræðslan var því að mest öllu leyti í foreldrahúsum fram að fermingaraldri, en þá tóku klerkarnir við, en þeir voru vitanlega mjög misjafnir sem uppfræðarar og kennarar. Hjá mörgum var þessutan lengi ríkjandi sá hugsunarháttur, að ef barnið kynni að lesa og svo fræðin og kæmist framyfir væri nóg að gert, hvað lærdóm og fræðslu snerti.
Býsna mörg börn lærðu alls ekki að skrifa. Það þótti hreinasti óþarfi. Við höfum svo oft heyrt talað um börn, sem voru að stelast til að rissa stafi á gömul blöð, spæni og spýtur, í snjó og sand algjörlega tilsagnarlaust. Mörg urðu að kenna sér þetta sjálf; þeim var stranglega bannað þannig lagað bölvað pírumpár. Þau voru með því að svíkjast undan störfum. Hvað lestri við kemur þótti víst goðgá, ef barn sást með bók að lesa sér til fræðslu eða skemmtunar.
Heimilisstörfin og hugsunarháttur heimilisfeðranna þoldu ekki slíkan luxus, bækur í barnahöndum voru eins og rauð tuska í augum spánsks tudda. Það var lesið á vökunni, meðan fólkið kepptist við tóvinnuna í baðstofunni, ef einhverjar bækur voru þá til á heimilinu. Það átti að vera öllum nægilegt til fróðleiks og skemmtunar, og svo húslestrarnir til uppbyggingar. Heimilisfólkið hafði annað við tímann að gera en eyða honum í lestur. Það hafði þessutan oftast engan bókakost eða nauða lítinn fram yfir húslestrarbækurnar, sem lásust fljótt upp, því að efni þeirra var að vonum nokkuð einhliða. Fræðsla almennings af góðum bókum var því sára lítil nema í guðsorðabókum.
Fyrr á árum og allt til þessa dags hafa hér ávallt komið fram á sjónarsviðið menn, sem hafa látið sér mjög annt um uppfræðslu almennings í einu og öðru. Má þar nefna t.d. prestana Guðmund Högnason á Kirkjubæ og Grím Bessason á Ofanleiti, sem stofnsettu hér fyrsta barnaskóla á Íslandi, síðar t.d. séra Brynjólf Jónsson, Þorstein lækni Jónsson, Bjarna Magnússon sýslumann o.fl., sem með kennslu í heimahúsum og almennum fyrirlestrum hafa unnið stórkostlega mikið og óeigingjart starf í þágu almenningsfræðslu. Menn þessir áttu líka flestir einhvern bókakost, sumir ágætan, sem þeir lánuðu fólki til aflestrar í heimahúsum. Þá héldu þeir t.d. nokkurskonar kvöldvökur, sem öllum var frjáls aðgangur að, lásu þar upp, sungu og kenndu þjóðlög o.m.fl., sem að uppfræðslu og menningu laut.
Það var einu sinni lærður maður, sem sagði um heimilislífið á Íslandi: ,,Ég hef ferðast nærri um alla veröld, komið í borgir og bæi, sveitaþorp og strjálbyggðar sveitir, en hvergi hef ég jafn almennt rekist á yfirfulla bókaskápa, af sígildum bókmentum heimsfrægra ritsnillinga, sem í hinum strjálbyggðu sveitum Íslands“. Og ennfremur sagði hann: ,,Ég sé ekkert aumara en bókarlaust heimili, og heldur vil ég koma í húsgagnasnauða stofu með bókakosti, en fagurlega skreytta stofu bókarlausa. Þar inni er andi vanþekkingarinnar grátlega áberandi.“
Það má fyllilega gera ráð fyrir því, að á dögum fyrrnefndra manna hafi verið ástatt hér eitthvað þessu líkt, og er það að vonum, þareð hér hafði oftast ríkt hin mesta fátækt og basl og menn því yfirleitt ekki peningalega aflögufærir til bókakaupa. Fyrrnefndir menntamenn eyjanna sáu, að þetta var óheillavænlegt ástand, sem þurfti úrbóta við hið bráðasta. Það varð að auðga andlega þekkingu almennings.
Þegar Bjarni sýslumaður Magnússon kom hér 1861, var hér enginn barnaskóli. Hann hafði liðið undir lok 1760, þ.e. skóli sá, er stofnaður var hér 1745 af sóknarprestum. Bjarni gerði tilraun strax með að stofna skóla, og kenndi sjálfur skrift og reikning, en vegna tímaleysis varð hann að hætta við skóla þennan, þareð landsstjóri vildi ekki styrkja skólahaldið.
Bókasafn var hér auðvitað ekkert, svo að einustu bækur, sem flest fólk sá og las voru lánsbækur frá sýslumanni, presti og þeim sárfáu efnamönnum, sem þær áttu.
Til úrbóta á þessu ástandi tóku þeir sig saman, Bjarni, séra Brynjólfur og Jóhann Pétur Thorkelin Bryde kaupmaður og stofnuðu bókasafn Vestmannaeyja í júní 1862. Sendu þeir út ávarp til almennings um þátttöku í stofnun þess. Leiða þeir þar almenningi fyrir sjónir, að grundvöllur undir andlegum og líkamlegum framförum hvers einstaklings og þjóðfélagsins yfirhöfuð sé upplýsing, því að upplýsingin og þekkingin hvetji menn til dáða og dugnaðar, svo að með almennri upplýsingu fylgi alla jafna almenn velferð, dáð og dugur, en með vanþekkingu ódugnaður og eymdarskapur.
Þeir segjast vera fullvissir um, að margir muni vilja afla sér fróðleiks, ef þess gæfist kostur og benda á gamla spakmælið, að blindur sé bóklaus maður. Þeir viti, að flesta skorti efni til að afla sér nytsamra og góðra bóka, en með samtökum góðra manna til félagsskapar á bókasafnsstofnun verði ráðin bót á þessu. Skora þeir á alla, sem einhver ráð hafa, að ganga í lið með sér og stofna bókasafn, sem tilheyra eigi Vestmannaeyjum og heita á „bókasafn lestrarfélags Vestmannaeyja”. Þetta heppnaðist vel og var safnið stofnað þetta sumar. Jón Sigurðsson forseti styrkti það vel með bókagjöfum og var gerður heiðursfélagi þess 1863.
1865 útvegaði Bjarni bókagjöf hjá ríkisstjórn, er nam 200 ríkisdölum. Blómgaðist safnið mjög undir stjórn Bjarna sýslumanns, og er hann fór úr Vestmannaeyjum 1872 átti það um 600 bindi. Voru útlán ávallt mikil og má fullyrða að bókasafnið stórjók þekkingu manna á fjölmörgum sviðum. Voru í safninu allskyns bækur, fræðandi og skemmtandi, og ný rit keypt og útlánuð jöfnum höndum.
Eitt af því, sem leiddi af stofnun bókasafnsins, var meðal annars, að göturáp manna og búðarstöður stórminnkaði. Menn kusu að sitja heima í frístundum sínum og lesa sér til skemmtunar eða uppfræðslu. Þá fór og að tíðkast baðstofulestur (á heimilum), einn las fyrir heimafólkið, sem settist að innivinnu sinni og hlustaði. Varð því bókasafnið beinlínis til að glæða heimilislíf og iðnað og var sannarlega þakkarvert.