Ritverk Árna Árnasonar/Fiskimjölsverksmiðja

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Fiskimjölsverksmiðja


Hin fyrsta fiskúrgangsverksmiðja, sem byggð var til fulls á Íslandi, var byggð hér í Vestmannaeyjum árið 1913. Var það að tilhlutun Gísla J. Johnsen, að hún var byggð. Í utanferðum sínum hafði hann séð slíkar verksmiðjur í Englandi, séð hvernig þar var gerð dýrmæt verslunarvara úr því, sem hér heima í Vestmannaeyjum var hent í sjóinn svo að hundruðum tonna skipti árlega.
Í þá tíð var vaninn að fylla stóra báta af slógi, hausum og hryggjum, fara með það út á „Vík“ og fórna „Ægi“ hverjum farminum eftir annan. Að vísu var töluvert af fiskúrgangi notað til áburðar í garða og á tún, hausar hertir og verkaðir til sölu á meginlandinu eða þurkaðir til eldviðar, en það var þó aðeins lítið brot af öllum þeim firnum, sem hent var í sjóinn, er mikið fiskaðist.
Þarna sá Gísli Johnsen tekjulind, sem ekki var hægt að loka augunum fyrir. Ég hygg, að með íhlutun enskra iðjuhölda í þessari grein hafi Gísli reist verksmiðjuna, því að yfir dyrum skrifstofu hennar stóð málað stórum stöfum: „The Icelandic Fisheries Company Ltd.“
En hvað um það, verksmiðjan komst upp og gerði víst hvorttveggja að skila hluthöfum góðum arði og að losa útgerðirnar við fiskúrganginn, sem þær voru svo oft í vandræðum með. Nú þurftu þeir ekkert fyrir honum að hafa. Hann var sóttur til þeirra að króardyrunum strax eftir aðgerðina eða svo til, já, og svo fengu þeir meira að segja 10-12 krónur fyrir tonnið. Það var einhver munur eða áður.
Þessu fyrirtæki Gísla Johnsen var engu góðu spáð í fyrstu frekar en öðru, sem nýtt og óreynt var. Menn töldu þetta helbera vitleysu.
Gísli segir sjálfur því til sönnunar, að einn keyrslumaður hans að beinunum frá aðgerðar- eða söfnunarstöðunum, maður, sem var samviskusemin sjálf, sveikst um að keyra beinunum inn í verksmiðju, en fór með þau í sjóinn til þess að reyna að stuðla að því, að Gísli hætti þessum barnaskap, þeirri peningasóun, sem í beinakaupum og brjálæðisverksmiðju-rekstri hans fólst. Og aldrei trúði hann á ágóða af þessu, enda þótt honum væru sýndar skýlausar bókfastar sannanir um ágætis afkomu fyrirtækisins.
Það var eftirminnanlegur dagur, þegar verksmiðjan, sem í daglegu tali var og er enn nefnd „GÚANÓ“, var vígð fullgerð og tilbúin til starfa. Verksmiðjan var opin almenningi til sýnis í september 1913. Var slegið upp borðum eftir endilöngum salnum og á borð borið mjólk, kaffi og vínarbrauð, bollur og fleira góðgæti, sem hver mátti neyta af eftir vild. Lætur víst nærri, að hvert mannsbarn hafi komið í þessa veislu, sem stóð allan daginn. Sumum var veitt vín inni á skrifstofu verksmiðjunnar og þá sérstaklega þeim, sem unnið höfðu að byggingu verksmiðjunnar og þeim, sem ráðnir voru starfsmenn þar.
Af starfsmönnum man ég eftir:
Yfirmaður alls mr. Peacock. Hann setti niður vélarnar og var víst sérfræðingur í þeirri grein – enskur harðjaxl, stífur og hrotti mikill,
Mr. Tjali, sem var verkstjóri, mesti gæðakarl og vel liðinn af undirmönnum sínum. Hann var og enskur,
Matthías Finnbogason vélamaður,
Árni Árnason, Grund kyndari og vélamaður,
Jón Jónsson, Brautarholti, var við mjölsuðuna og fl.
Ericsen sem var Rússa-Finni og var kyndari.
Guðni H. Johnsen skrifstofustjóri,
Ágúst Gíslason, Valhöll umsjónamaður aðflutninga o.fl.
Keyrslumenn verksmiðjunnar voru Páll Erlendsson síðar bílstjóri, Páll Sigurðsson Laufholti (Keyrslu-Páll), Finnur J. Sigmundsson og Guðm. nokkur Guðmundsson af Rangárvöllum.
Þá var ekki bílum til að dreifa, en öllu keyrt á hestum og handvögnum að og frá verksmiðjunni. Var það stundum æði erfitt fyrir hestana í snjó og krapableytu að draga fulla vagnana af hausum og hryggjum. Þeir voru líka, sumir þessara keyrlsumanna, bölvaðir fantar við skepnurnar.
Einu sinni var einn þeirra fastur í skafli með fullan vagninn af hausum skammt frá hliði verksmiðjunar. Hvernig sem hestgreyið stritaði, tókst honum ekki að draga vagninn lausan. Ekki datt keyrslumanni í hug að losa trogið, heldur barði hann hestinn miskunnarlaust með þungri og sverri leðuról. Við horfðum á þetta um stund, en allt í einu kemur Tjali þjótandi út úr hliðinu tekur sprett til keyrslumanns, þar sem hann lúbarði hestinn og hef ég aldrei séð fljótari umskipti. Tjali hvolfir úr vagninum, teymir hestinn úr skaflinum og rekur síðan keyrslumanninum svo rösklega á kjarftinn að hann rauk út af í skaflinn. Ekki sagði Tjali eitt einasta orð meðan á þessu stóð, en gekk svo rólega til okkar, sem á horfðum og sagði: „Take him in the f...... son of a b.... and please take the horse to the house, there is some hay“. Rétt í sömu svifum kom Peacock þarna að af skrifstofunni, sá víst hvað um var að vera, en Tjali gaf honum engan tíma til máls, heldur sagði: „Pardon me, sir, I couldn‘t see this“. „I not either,“ svaraði Peacock, „Thanks, Tjali“. Hvað svo úr þessu varð meir, veit ég ekki, en daginn eftir keyrði þessi maður á öðrum hesti og það sem eftir var vetrarins. Eitt er víst, að eftir þetta fór mannræfill þessi miklu betur með hesta verksmiðjunnar, enda hafði Tjali gamli sagt svo, að ef hann sæi nokkurntíma til hans aftur slíka misþyrmingu á skepnum, skyldi hann berja hann til óbóta. Og þetta meinti karlinn af öllu hjarta.
Vélar verksmiðjunar samanstóðu af 2 býsna stórum gufukötlum, sem kyntir voru nótt og dag og ávallt haldið á fullum þrýstingi, ein gufuvél, sem sneri öllu draslinu og 2 afar stórir mjölsuðukatlar. Þessutan var svo skúffu-band, sem flutti beinin í katlana, harðbeinakvörn, sigti, sekkjunarvél, rafalar o.m.fl. Voru afköst vélanna mjög mikil, enda unnið nótt og dag undir strangasta yfirmanni, mr. Peacock. Síðar var svo bætt við 4 smærri mjölsuðukötlum, en þeir voru aldrei teknir í notkun, áður en skipt var um vinnsluvélar og verksmiðjan varð eign Ástþórs Matthíassonar.
Auk fyrrnefndra unnu í Gúanó fyrsta árið Gróa Einarsdóttir við mjölsigtun og pokafyrirsaum, undirritaður við sigtun, segulborðann og fleira, Jóhann Jörgen Sigurðsson við sigtun og sekkjun, Eymundur Einarsson, Hóli við kvörnina, sekkjun og sigtun og fleiri unnu þar, en það voru aðkomumenn úr nærsveitunum og voru einlæg skipti, því að þeir unnu aðeins tímavinnu.
Þessu fyrirtæki Gísla Johnsen var engu góðu spáð í fyrstu, og nær er mér að halda, að sumir hafi álitið hann með „lausa skrúfu“. Því til sönnunar segir Gísli sjálfur, að einn keyrslumanna hans, sem var mjög samviskusamur og trúr, sveikst um að fara með beinin inn í verksmiðju, en keyrði þeim bara í sjóinn. Sagðist hann gera það til þess að reyna að stuðla að því, að Gísli hætti þessum snarbrjálaða verksmiðjurekstri og peningasóun. Og aldrei trúði maður þessi á ágóðastarfsemi verksmiðjunnar, enda þótt honum væru sýndar skýlausar sannanir og bóksfastar tölur þarum. En Gísli Johnsen vissi betur og kunni að notfæra sér ágóðann.
Nú er mjölsuðu-aðferðin önnur en var. Hin svonefnda sólþurrkunaraðferð hefir rutt sér til rúms hér sem annarsstaðar. En sem vitni um forna frægð hinna miklu gufukatla verksmiðjunnar gnæfir hinn hái skorsteinn, sem byggður var skömmu áður en vélbreytingin fór fram, aðeins nú til þess að setja meiri verksmiðjusvip á húsið. Nú rýkur aldrei úr honum. Karlarnir eru horfnir og gufuvélin stöðvuð, en þarna stendur hann sem glæsilegt minnismerki liðinna tíma, og tækja, sem urðu að víkja fyrir nýrri tæknivélum.
Þegar talað er um fiskimjölsverksmiðju hér, fyrstu hugmynd og framkvæmdir að henni, er það staðreynd að ganga verður framhjá Gísla J. Johnsen. Við skulum líta aftur í tímann til áranna 1910-14. Þá kemur hér franskur maður, sunnan frá sjó, Þorlákshöfn, spígsporar hér mánuð eftir mánuð og ígrundar einhver ósköp.
Maður þessi hafði átt um tíma mikið af Þorlákshöfn, verið búinn að kaupa þar hús, jarðir og báta og ætlaði að koma þar upp útgerðarfyrirtækjum, en það fór allt í handaskolum og ólestri. Þá hafði hann snúið sér til Reykjavíkur, byrjaði þar eitthvað á útgerð og byggði eitt stórhýsi, sem hann bjó í sjálfur. Það hús var síðar nefnt Héðinshöfði. En einnig Reykjavíkurbraskið fór út um þúfur, og seldi hann allt bæði þar og í Þorlákshöfn. Síðan venti hann kvæði sínu í kross og kom til Vestmannaeyja með þá snjöllu hugmynd að reisa hér fiskimjölsfabrikku og reka útgerð í stórum stíl.
Maður þessi hét Louis Brilloin og var miljónamæringur. Hann hafði komið auga á hin óhemju verðmæti, sem hér fóru förgörðum með fiskúrganginum og hugðist nú notfæra sér sem best auðæfin, sem aðrir vildu ekki. Eftir heilmiklar bollaleggingar var svo byrjað að byggja umrædda verksmiðju. Húsin þutu upp inni á Eiði eins og gorkúlur, verksmiðjuhús, mjög stórt og glæsilegt á þeirra tíma mælikvarða, vörugeymsluhús, íbúðarhús verkstjóra, íbúðarhús fyrir verkafólk, lifrarbræðsluhús o.fl. Þarna unnu fjölda margir menn, mest aðkomumenn og margir Norðmenn.
Brilloin var alltaf á ferðinni til og frá Íslandi til útlanda. Eitthvað var komið af vélum, t.d. heljarmikill gufuketill, pressur o.fl. Svo einn dag kemur monseur Brilloin að utan og hér í land, en þá fær hann þær leiðu fréttir, að bankahrun hafi orðið heima í Frakklandi og hann gjaldþrota með allt hér óklárað og skipið úti á „Vík“ með mikið af efni og vélum. Hann gat ekki greitt hafnargjöldin, og allt var sent út aftur. Og þar með var draumurinn búinn.
Lengi var búið í húsum þessum á Eiðinu, t.d. Jóhannes Jóhannesson með fjölskyldu, nokkrir Norðmenn, sem kvænst höfðu Vestmannaeyskum konum o.fl. En svo fór, að sum húsin fuku, sum brunnu, sum voru rifin og flutt heim í bæ, t.d. verksmiðjuhúsið, sem Kaupfélagið Bjarmi keypti og endurreisti á eignarlóð sinni, hvar það stendur en í dag. Skammt þar frá eiga Sæmundur Jónsson, Gimli o.fl. annað hús, sem rifið var á Eiðinu og flutt inn í bæ. Og ef við göngum inn á Eiði, sjáum við enn rústirnar af þessu risafyrirtæki, sem átti að verða, sjáum verksmiðjumúrana, síðustu leifar gufuketilsins o.fl. rústir, t.d. íbúðarhússins.
Þarna blasa við okkur rústir Brilloins, fyrirtækisins, sem sagt var um, að ef byrjað hefði verið á því einu og hálfu ári fyrr, hefði allt farið vel og Brilloin staðið af sér hrunið. Svo gífurleg eftirspurn var eftir „Gúanó“ og verðið afarhátt.
Við minnumst, í sambandi við þessar framkvæmdir á Eiðinu, margra manna, sem unnu þar og lifðu þar og dóu, minnumst margra atburða sem fyrirkomu þar innfrá og sem enn lifa í hugum eldri manna hér, sem hálfgerðir óróa- og drasltímar.
Þarna er að finna frumhugmynd Gísla Johnsen um slíkar framkvæmdir. Það er svo oft, að einn á hugdettuna, þó annar verði til að koma henni í framkvæmd. En hvað um það, Gísla Johnsen auðnaðist að koma upp hinni fyrstu fiskimjölsverksmiðju á Íslandi og byggði hana hér í Eyjum.
Heiður þeim, sem heiður ber.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit