Ritverk Árna Árnasonar/Bræðurnir frá Efstu-Grund verða úti 1912

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Úr fórum Árna Árnasonar


Bræðurnir frá Efstu-Grund verða úti 1912


LAUST eftir síðustu aldamót bjuggu að Efstu-Grund undir Eyjafjöllum hjónin Kristjana Jónsdóttir og Björn Guðmundsson, þá ung að árum. Þau höfðu byrjað búskap að Indriðakoti þar í sveit um aldamót, því þar höfðu foreldrar Björns búið í mörg ár, en er faðir hans lézt, laust fyrir aldamót, fluttist Björn með fjölskylduna að Efstu-Grund. Með honum fylgdi móðir hans, Halldóra Björnsdóttir prests að Holti, Þorvaldssonar sálmaskálds. Var Halldóra systir Þorvaldar pólitís í Reykjavík og Kristínar konu Jóns Einarssonar að Yzta-Skála er voru foreldrar Sveins JónssonarLandamótum í Eyjum og Halldóru konu Bjarna Einarssonar í Hlaðbæ þar. Tveir bræður Björns fylgdu honum frá Indriðakoti að Efstu-Grund, er hétu Sveinbjörn og Gísli Brynjólfur og auk þess systir þeirra er Elín hét.
Allt var þetta hið mesta myndar- og dugnaðarfólk af góðum stofni komið. Bræðurnir voru allir hin mestu hraustmenni til burða, en þó var Sveinbjörn talinn þeirra hraustastur. Hann var rösklega meðalmaður á hæð en herðabreiður og samanrekinn og allur hinn kröftuglegasti að vallarsýn. Jafnskjótt og þeir bræður höfðu aldur til, fóru þeir til „útvers“ sem kallað var, þ. e. til sjóróðra. Fóru þeir þá til Vestmannaeyja á vélbáta eða til Faxaflóahafna á skútur.
Oft voru slíkar verferðir, sem oftast voru farnar í nær svartasta skammdeginu (og er allra veðra var helzt von), mönnum erfiðar og hættulegar í válegum veðrum og hlutust ekki ósjaldan slys af þeim. Þá voru ekki bílarnir til þess að flytja fólkið úr sveitunum til verstöðvanna, svo að allir lögðu land undir fót og gengu vegalengdina að miklu leyti. Þó voru stundum hafðir hestar í ferðunum ýmsa kafla leiðarinnar, sem léttu mikið undir og flýttu ferðum, en stundum voru líka auknir erfiðleikar þeirra vegna. Fyrir kom, að haldið var af stað í tvísýnu veðurútliti, vegna kapps um að komast sem allra fyrst til vers, þar sem báturinn máske beið ferðbúinn til fiskveiða, en aðeins beðið ráðinna skipverja. Vildi þess vegna brenna við, að á vogarskálunum varð kappið þyngra en fyrirhyggjan, svo að af hlutust miklir erfiðleikar eða jafnvel sorglegar afleiðingar. Útbúnaður margra, hvað allan farkost snerti, var oft gerður af litlum efnum heimilanna. Þess vegna réð stundum hreysti og dugnaður ferðalanganna ásamt mannkærleika og gestrisni bændabýlanna á leiðinni, úrslitum um velfarnað að leiðarlokum.
Veturinn 1912 ætluðu að vanda margir Eyfellingar til vers, sumir til Faxaflóaverstöðva, en aðrir til Vestmannaeyja. Á meðal Eyjavermanna voru þennan vetur margir, sem síðar urðu innflytjendur til Eyjanna og búa þar enn, harðfrískir dugnaðarmenn.
Til vers ætluðu einnig þennan vetur bræðurnir á Efstu-Grund, þeir Sveinbjörn og Gísli Brynjólfur. Útbjuggu þeir sig af mesta kappi til þess að verða sem fyrst tilbúnir og ekki seinni en aðrir. Þó dróst það fram að mánaðamótunum janúar og febrúar að þeir færu. Var þá öllum undirbúningi lokið, og biðu þeir eftir það góðs ferðaveðurs ásamt fleiri Eyfellingum. Einnig hafði verið ákveðið að bíða nokkurra Mýrdælinga, sem voru á vesturleið til útvers og verða þeim samferða suður.
Um mánaðamótin voru í vermannahópnum eftirtaldir menn, sem höfðu mælzt til samfylgda hver víð annan, og skal nú gerð nokkur grein fyrir þeim:
Þórður Stefánsson, Rauðafelli, 16 ára gamall. Síðar formaður í Eyjum og er þar enn, harðfrískur maður til sjós og lands.
Rútur Þorsteinsson, Hrútafelli. Hann lézt af slysförum árið 1913. Varð undir vegg, er hrundi.
Guðjón Vigfússon, Rauðafelli, bóndi þar. Hann var hesta og reiðslumaður í ferðinni, en ætlaði ekki til vers.
Torfi Einarsson, Varmahlíð, síðar formaður í Eyjum í mörg ár, frískur maður og dugmikill. Hann fluttist til Reykjavíkur frá Eyjum fyrir fáum árum síðan og býr þar nú.
Jón Stefánsson, Gerðakoti, síðar formaður í Eyjum, sjósóknari mikill og fiskimaður. Hann drukknaði af bátnum „Haffara“ VE-116, 9. apríl 1916.
Björn Guðmundsson, Efstu-Grund, bóndi þar, hesta og reiðslumaður, en ætlaði ekki til vers.
Sveinbjörn Guðmundsson, Efstu-Grund, bróðir Björns, ætlaði á skútu.
Gísli Brynjólfur, bróðir Sveinbjörns og Björns, ætlaði til Vestmannaeyja.
Einar Ingvarsson, vinnumaður á Efstu-Grund, ráðinn á skútu, en síðar útgerðarmaður í Eyjum og býr þar enn, frískur maður í hvívetna.
Sigurjón Ólafsson, Núpi, þá 17 ára, síðar útgerðarmaður í Eyjum og býr þar enn, atorku og frískleikamaður.
Ólafur Ólafsson, Núpi, nú búsettur í Reykjavík og múrsmiður þar.
Páll Einarsson, Fornusöndum, ætlaði til Eyja, og þar drukknaði hann síðar.
Kort Elísson, Fit, lézt í Sandgerði árið 1944.
Magnús Knútur Sigurðsson, Seljalandi, mikill hreystimaður og harðduglegur. Hann ætlaði ekki til vers, en var reiðslumaður fyrir stærsta hópinn og aðalferðastjóri þessara ferðalanga.
Tvær konur voru í hópnum, Þorgerður Jónsdóttir frá Hrútafelli, sem var á leið til Eyjanna, og hin úr Mýrdalnum, en nafn hennar hefur ekki tekizt að fá upplýst. Þorgerður giftist síðar Snorra Þórðarsyni, þurrabúðarmanni að Steini í Eyjum. Hann var einn af þeim, sem fórst við Eiðið í Vestmannaeyjum 16. desember 1924. Þá fórst og Guðmundur bróðir Snorra, er bjó að Akri í Vestmannaeyjum.
Oft höfðu þeir bræðurnir frá Efstu-Grund, Sveinbjörn og Gísli Brynjólfur, haft orð um það undanfarið, að það væri hugboð sitt, að þeir myndu báðir deyja þennan vetur og myndu lagðir saman í kirkjugarði Ásólfsskálakirkju. Hins vegar skildu þeir ekki, hvernig það mætti verða, þar eð annar ætlaði að róa í Vestmannaeyjum en hinn á skútu við Faxaflóa. Þessa feigð sína höfðu þeir oft rætt við móður sína og annað heimilisfólk, sem reyndi eftir megni að eyða hugboði þeirra með ýmis konar tilvitnunum til margra slíkra hugboða manna, hugboða, sem aldrei rættust á þann veg, er þeir höfðu ætlað. En bræðrunum varð ekki hvikað frá þessum grun sínum, þó þeir gætu ekki ráðið gátuna til fulls, hvað viðkom legstað þeirra.
Kvöldið áður en verferðin var hafin, fóru þeir bræður suður að Holti til þess að kveðja þar frændfólk sitt. Þar bjó þá séra Kjartan Einarsson. Stönzuðu þeir þar nokkra stund, og ræddi Sveinbjörn við prestinn. Ekki er ósennilegt, að hann hafi rætt við séra Kjartan um hugboð sitt og verferð, því að þeim var sérlega vel til vina. Þegar svo Sveinbjörn hafði kvatt prestinn og annað heimafólk og ætlaði að fara út úr húsinu, fann hann hvergi útganginn. Varð hann mjög miður sín, svo að hann varð að fá hjálp til þess að komast til dyra og út.
Ekki var þetta vegna ókunnugleika á húsaskipan, þar eð segja má, að hann væri daglegur gestur í Holti.
Fólkinu fannst þetta að vonum allundarlegt fyrirbrigði en talaði fátt um. Fannst því þeir bræður vera eitthvað öðruvísi en þeir áttu vanda til, venju fremur daufir og eins og að þeir væru „utangátta“ um margt.
Þann 4. febrúar var veður hið ákjósanlegasta, sólskin og bjart en dálítill snjór á jörð. Var þess vegna ákveðið að leggja af stað þennan morgun jafnskjótt og Mýrdælingar kæmu austanað, en fregnir höfðu borizt um, að þeir hefðu verið árla á ferð um morguninn. Menn inntu af höndum síðustu undirbúningsstörfin í flýti, og stóðst það á, að menn biðu ferðbúnir ytra, er Mýrdælingana bar að garði á Efstu-Grund í fylgd með nokkrum Eyfellingum.
Síðan var lagt af stað sem leið lá út með Fjöllunum og farið greitt í góðviðrinu. Eftir því sem utar dró, bættust fleiri í hópinn, því að allir vildu njóta samfylgdarinnar og höfðu verið ferðbúnir.
Komið var við í Hvammi. Þar bjó þá Magnús Sigurðsson. Hjá honum var til heimilis systir hans, Ástríður að nafni. Hún átti son þann, er Einar hét, og var hann vinnumaður hjá Birni bónda á Efstu-Grund. Einar átti nú að fara til útvers í fyrsta skipti og var ráðinn á sömu skútu og Sveinbjörn, bróðir húsbónda hans. Ástríður tók Sveinbjörn tali og bað hann fyrir Einar son sinn um veturinn, að líta til hans og vera honum innan handar, þar eð hann væri óvaningur, færi nú í fyrsta skipti til útvers og ætti þar að lúta stjórn ókunnugra manna. Sveinbjörn varð fár við sig svaraði Ástríði því til, að ekki mundi þýða að biðja sig fyrir drenginn, því að ekki mun ég lifa út veturinn. „Verður þú þess vegna að biðja einhvern annan en mig, Ástríður mín, og vildi ég þó feginn verða við bón þinni og piltsins.“ Eitthvað ræddu þau þetta hugboð Sveinbjörns, og reyndí Ástríður að eyða þessu, en ekki lét hann af skoðun sinni. Skildu þau svo talið í fullri vinsemd, og kvaddí Sveinbjörn hana innilega.
Hópurinn hafði nú dvalizt góða stund í Hvammi og notið þar góðgerða. Var því lagt af stað, fólkið kvatt og bað það vermönnum alls góðs og fararheilla.
Þegar komið var út að Seljalandsmúla voru allir komnir, sem ætluðu að verða í samfylgdinni, og var því lagt út yfir Markarfljót. Nokkuð vatn var í fljótinu, en allt gekk að óskum, enda vanir og dugmiklir vatnamenn þarna á ferð. Þegar komið var upp úr fljótinu, þótti sjálfsagt að koma við í Dalsseli, sem var aðeins snertuspöl frá yzta ál fljótsins, og var það gert. Fékk hópurinn þar hressingu og góðar viðtökur í hvívetna. Dálítið var stanzað þar, en síðan haldið áfram vel greitt í fjörugri samfylgd sem leið lá út að Hemlu. Gekk ferðin yfir Þverá að óskum, þrátt fyrir töluvert vatn, sem í henni var. Ekki var nein teljandi viðdvöl að Hemlu, en haldið áfram að Eystri-Garðsauka. Gekk ferðin vel, og var komið þangað kl. 4 um eftirmiðdaginn. Þá bjó þar Sæmundur Oddsson, bóndi og póstafgreiðslumaður.
Þegar að Garðsauka kom, var veður nokkuð farið að spillast og veðurútlit sérlega ljótt. Var auðséð, að mikil veðrabrigði voru í aðsigi. Ræddu menn mikið um, hvort halda skyldi ferðinni áfram undir kvöldið eða hvort gista skyldi í Garðsauka og nærliggjandi bæjum, þar eð veður færi ört versnandi. Urðu menn ekki á eitt sáttir hvað gera skyldi. Mest var þeim umhugað um að halda áfram, sem ætluðu út í Vestmannaeyjar, þar eð skip lá til byrjar í Reykjavík, sem ætlaði til Eyjanna. Vildu þeir Eyjavermenn umfram allt ná þeirri ferð og flýta þess vegna för sinni sem mest. Það voru þeir Jón Stefánsson í Gerðakoti, sem ætlaði að róa á mb. Frans VE-159, Gísli Brynjólfur, sem ætlaði á sama bát og Páll Einarsson á Fornusöndum, sem ráðinn var á mb. Ísland VE-118. Var töluverður ágreiningur í umræðum þessum, sem lauk þannig, að allir afréðu að halda áfram ferðinni að minnsta kosti út að Selalæk og Varmadal á Rangárvöllum, nema þeir bræðurnir frá Efstu-Grund, Sveinbjörn og Gísli Brynjólfur. Hafði Gísli látið að orðum bróður síns um að verða eftir í Garðsauka. Sögðust þeir hvergi fara, og væri ekkert vit í slíku ferðalagi undir nóttina í þessu veðurútliti. Björn bróðir þeirra fór hins vegar með hópnum frá Garðsauka og skildi þar með þeim bræðrum, að sitt sýndist hvorum.
Þegar hópurinn kom út á Hvolsvöll, var þá þegar komið vonzkuveður, rokstormur með sandbyl miklum og hörkufrosti. Versnaði veður eftir því sem utar kom, og mátti þar heita ofsaveður, gaddbylur og sandbylur svo mikill, að ekki sá út úr augunum. Hlóðst mjög fyrir vit manna og hesta klaki, snjór og sandur, og var því ákaflega erfitt að halda í móti veðrinu.
Menn reyndu af fremsta megni að halda hópinn og gættu þess vel, að enginn drægist aftur úr, því að þá gat illa farið. Þannig var haldið áfram góða stund. Marga var farið að kala nokkuð og þreytan að segja til sín hjá mönnum og skepnum. Magnús Knútur hrópaði þá og bað menn nema staðar og ráðgast um, hvað gera skyldi. Voru allir sammála um það, að ekki væru tiltök að halda lengur áfram, og yrði því að leita bæja. Var ákveðið að skipta sér og fara að Selalæk og Varmadal. Skyldi stærri hópurinn fara að Varmadal en hinn að Selalæk.
Fram að Selalæk héldu þeir Þórður Stefánsson, Torfi Einarsson, Jón Stefánsson, Páll Einarsson og Eyjólfur Grímsson í Nikhóli í Mýrdal. Héldu þeir þegar af stað undan veðrinu, og var veðurofsinn þá orðinn svo mikill, að þeir hömdu sig ekki á hestunum og réðu ekki við neitt. Ekki fundu þeir Selalæk þrátt fyrir mikla leit, og leizt þeim því ekki á horfurnar á því að ná til bæja.
Þórður Stefánsson sagði, að þetta þýddi ekkert. Þeir myndu aldrei finna bæinn, og fyndist sér vitlegast að snúa við og reyna að finna leiðina til baka. Væru þá meiri líkur fyrir að þeir kæmust til bæja, en þetta hringsól bæri sýnilega engan árangur. Þetta samþykktu allir. Fannst þeim tillaga Þórðar rökrétt, þótt hann væri aðeins sextán ára óreyndur unglingur í slíkum hamförum veðursins. Þeir sneru því við og héldu móti veðrinu, sem ekkert lát var á. Sóttist ferðin seint að vonum, og voru þeir orðnir mjög aðþrengdir af vosbúð og kulda, þegar þeir loks hittu fjárhús frá Varmadal. Þar var þá fyrir Magnús Knútur með sinn hóp. Urðu hinir mestu fagnaðarfundir, því menn höfðu búizt við hinu versta. Fóru allir af baki við húsin og leituðu skjóls inni.
Magnús Knútur var á rauðskjóttum hesti, er Hemingur var nefndur. Þegar hesturinn sá húsið, lagðist hann á hnén við dyrnar, sem voru mjög lágar, og reyndi þannig að komast í húsaskjólið. Svo mjög var skepnan illa haldin, og voru þó aðrir hestarnir enn verr hraktir. Er þar af hægt að skapa sér nokkra hugmynd um líðan mannanna. Var hún vægast sagt mjög slæm, þeir aðfram komnir vegna kulda og þreytu, meira og minna kalnir í andliti og útlimum, sandroknir og fannbarðir. Hestarnir voru t.d. þannig út leiknir, að ekki var hægt að sjá lit þeirra. Voru þeir allir svartir vegna sandsins og þykk klakabrynja þar yfir.
Magnús Knútur vildi reyna að halda áfram og finna bæinn í Varmadal. Sá hann, að þeim var það lífsnauðsyn, ef nokkur kostur væri að koma mönnunum af stað aftur. Var auðséð, að þeim var bráð nauðsyn að komast þá þegar í umsjá og aðhlynningu fólks, ef vel átti að fara. Taldi hann kjark í og seiddi fram þrek hjá hverjum manni, svo að allir samþykktu að halda af stað aftur og leita Varmadals. Var þetta ekki álitlegt vegna veðurofsans og þess, að mjög var farið að draga af mönnum og hestum.
Stúlkurnar báru sig vel, en nærri má geta, að líðan þeirra hefur verið afar slæm, enda höfðu menn miklar áhyggjur af þeim. Þær voru mjög vel búnar að klæðum og vörðu andlit sín vel, hraustar og líflegar, og gerðu sitt til þess að létta erfiðleikana.
Ekkert lát varð á veðrinu og seint sóttist ferðin. Loks komust þau þó að bænum í Varmadal og hefði það ekki mátt dragast öllu lengur, því að mjög var fólkið orðið aðþrengt og alls við þurfandi.
Í Varmadal var tekið sérlega vel á móti þessum stóra hópi hrakningsmanna. Nutu þau þar hvers konar umönnunar af miklum kærleika og gestrisni, svo að ekki varð betur gert. Þá bjó þar Vigdís Þorvarðardóttir, Guðmundssonar frá Litlu-Sandvík, ekkja eftir Sveinbjörn frá Stekkjum, orðlögð dugnaðar- og myndarkona.
Mennirnir reyndust allir meira og minna kalnir í andliti, höndum og fótum. Einn þeirra, Kort Elísson frá Fit, missti t.d. hálf eyrun vegna kals. Verið var með kalda bakstra við mennina alla nóttina og fram á morgun, og var líðan þeirra slæm að vonum. En allt var gert fyrir þá, sem hægt var í góðri hjúkrun og aðhlynning, svo að allflestir sluppu við varanleg mein af kalinu.
Þegar leið á morguninn fór veður að batna. Fóru menn þá að vonast eftir, að bræðurnir frá Efstu-Grund kæmu frá Garðsauka. En tíminn leið fram yfir hádegið, og ekki komu þeir, og ekkert fréttist af þeim. Björn bróðir þeirra gerðist þá mjög áhyggjufullur um afdrif þeirra og fannst, sem eitthvað hlyti að hafa komið fyrir þá þrátt fyrir það, að þeir hefðu ætlað að verða í Garðsauka um nóttina. Það gat hafa breytzt einhverra orsaka vegna. Björn vildi þess vegna fyrir hvern mun komast fram að Ægisíðu, til þess að geta símað þaðan og spurzt fyrir um bræðurna í Garðsauka. Sími var þá aðeins kominn að Ægisíðu, Garðsauka, Hemlu, Miðey og Hólma.
Björn átti tal við þá Einar Ingvarsson, vinnumann sinn, Torfa Einarsson í Varmahlíð og Jón Stefánsson í Gerðakoti og bað þá að koma með sér fram eftir og fregna um bræðurna. Var það auðsótt mál við þá alla. Þeim fannst, sem eitthvað illt lægi í loftinu, eitthvað væri ekki í lagi með þá bræður. Enginn þeirra þriggja hafði þó orð um þetta við Björn, en þeir hugsuðu margt.
Ferðin að Ægisíðu gekk vel, enda var veður mun betra og menn og hestar allvel hvíldir. Björn símaði svo að Garðsauka og spurði um þá Sveinbjörn og Gísla. Var honum þá sagt, að þeir hefðu farið frá Garðsauka nokkru á eftir hópnum kvöldinu áður, en síðan hafði ekkert til þeirra spurzt að Garðsauka. Þá Eyfellingana setti hljóða við þessar fréttir og fannst grunur sinn um válega viðburði styrkjast mjög. Fólkinu í Garðsauka hafði og brugðið illa við að frétta, að þeir hefðu ekki náð hópnum og ekki komið að Varmadal um kvöldið eða nóttina. Óttuðust allir mjög um afdrif bræðranna, því að svo hafði veðrið verið óskaplegt þar um nóttina.
Björn varð nú enn áhyggjufyllri og þótti fullvíst, að eitthvað hörmulegt hefði komið fyrir þá, þótt hann reyndi að hrista af sér þær hugsanir. Hann ákvað að hefja þegar leit að þeim, annað kom ekki til mála. Hann fékk sér því leitarmenn á Ægissíðu, en þeir urðu þar eftir, Einar, Jón og Torfi, eftir skipun Björns, því að honum buðust nógir menn til leitarinnar, sem óþreyttir voru.
Skömmu síðar lögðu þeir Björn af stað í leitina og fóru vítt um. Komust þeir t.d. fram í Oddahverfi, því að ekki fannst þeim ólíklegt að bræðurna hefði getað hrakið undan veðrinu langt úrleiðis. Fleiri leitarmenn bættust og við, og var leitað allan daginn fram á kvöld, en allt árangurslaust. Bræðurnir fundust ekki og ekkert spurðist til þeirra.
Um kvöldið þennan dag lögðu þeir af stað suður frá Ægissíðu Einar, Jón og Torfi. Höfðu þeim borizt fregnir um, að þeir, sem í Varmadal hefðu verið, hefðu lagt af stað suður um morguninn. Vildu þeir þremenningarnir því hraða ferð sinni og freista þess að ná samfylgd þeirra. Lögðu þeir af stað frá Ægissíðu án þess að hafa fengið nokkrar fregnir af Efstu-Grundarbræðrum eða leitarmönnum þeirra, þar eð ekkert hafði frétzt að Garðsauka frekar.
Segir nú ekki af ferð þeirra þriggja, fyrr en þeir komu út fyrir Þjórsá. Þar mættu þeir Magnúsi Knúti, er var á austurleið aftur með hesta þeirra, er verið höfðu í Varmadal. Tók Magnús nú við hestum þeirra líka, og skildu þar leiðir. Hélt Magnús áleiðis austur undir Fjöll, en þeir þrír fóru gangandi út að Kotströnd. Gekk sú ferð vel, enda var komið bezta ferðaveður. Þar hittust þeir allir aftur, ferðalangarnir úr hrakningunum.
Fréttu þeir þrír nú, að afdrif þeirra Efstu- Grundarbræðra væru kunn og leitinni því hætt. Hafði fregnin verið símuð frá Ægissíðu að Kotströnd í veg fyrir hópinn. Þeir bræður höfðu orðið úti og fundizt frá Varmadal.
Hjá frú Vigdísi í Varmadal var sonur hennar og Sveinbjörns manns hennar, Þorvarður, er síðar bjó að Stekkjum. Hann var fjármaður móður sinnar. Um morguninn fór hann á fjárhús Varmadals, er stóðu fyrir framan þjóðveginn.
Þegar hann nálgaðist húsin, sá hann tvo hesta skammt austur af þeim, og voru þeir bundnir á streng (þ.e. bundnir hver aftan í annan, eins og oft tíðkaðist). Þorvarður hraðaði för sinni til hestanna, en bar þó ekki kennsl á þá. Skammt frá þeim sá hann tvo menn liggjandi á jörðinni, og voru þeir helfrosnir. Þrátt fyrir hryllilegt útlit þeirra þekkti hann þegar, að það voru lík bræðranna frá Efstu-Grund, Sveinbjörns og Gísla. Hafði Sveinbjörn klætt sig úr jakkanum og breitt hann yfir Gísla, en verið síðan á peysunni einni. Hræðilegt hefur lífið verið hjá þeim, þar til yfir lauk, því að þarna var ekkert afdrep í þessu ógnarveðri. Húsin hafa þeir ekki fundið vegna bylsortans, þó að tiltölulega skammt væri til þeirra frá þeim stað, er þeir lágu. Hestarnir voru mjög illa haldnir og útlit þeirra ægilegt vegna sands og klakabrynju. Var ómögulegt að gera sér grein fyrir, hvort þeir voru svartir eða hvítir að lit innan óveðursbrynjunnar. Voru þeir alveg að yfirbugast, er Þorvarður fann þá og leysti af streng.
Þorvarði varð mjög um fund bræðranna. Komst hann þó heim að Varmadal og sagði, hvernig komið var, en aldrei varð hann samur maður eftir þetta og hlaut af sálarmein.
Í Varmadal var brugðið fljótt við, líkin sótt og flutt þangað heim. Höfðu þau verið mjög illa útleikin, stokkfreðin og sandrokin. Var talið líklegt, að Sveinbjörn hefði lifað lengur og reynt að hlynna að bróður sínum til hinztu stundar.
Í Varmadal var svo smíðað utan um bræðurna. Voru kisturnar síðan sóttar þangað austan undan Fjöllum af þeim Eyjólfi Jónssyni á Miðgrund og Sigurði Ólafssyni á Núpi. Nóttina eftir að þeir fóru frá Varmadal, gistu þeir með kisturnar í Steinmóðarbæ. Voru þær settar þar inn í stofu. Að venju var lögð opin sálmabók sín á hvors kistu og valdir samhljóða sálmar í opnuna. Að því búnu var stofunni lokað og enginn umgangur um hana meira, enda gengu menn rétt síðar til náða.
Um morguninn, er kisturnar voru teknar út, fannst mönnum það harla einkennilegt, að þá var búið að skipta um sálma í opnu bókanna. Voru þar komnir allt aðrir samhljóða sálmar en verið höfðu um kvöldið. Sannanlega hafði þó enginn gengið um stofuna, fyrr en þeir Eyjólfur og Sigurður komu þar inn um morguninn. Sumir héldu því fram, að vindgustur um opinn glugga hefði orsakað þetta. En var þá ekki fráleitt að vindgusturinn skyldi einnig velja samhljóða sálma í opnu bókanna? — Ekki hefur tekizt að fá upplýst með vissu, hvaða sálmar voru valdir fyrst, er búið var að ganga frá kistunum í stofunni í Steinmóðarbæ, en hitt er fullvíst, að um morguninn, er að var komið, var í opnum bókanna á báðum kistunum sálmurinn nr. 345 (í Sálmabók, útg. 1903):

Á meðan engin mœtir neyð,
á meðan slétt er ævileið,
vér göngum þrátt með létta lund,
og leitum ei á Jesú fund.
En þegar kemur hregg og hríð,
og hrelling þjakar neyð og stríð,
í dauðans angist daprir þá
vér Drottin Jesúm köllum á.

Fleiri eru erindi sálmsins, en þau getur lesandinn séð í nefndri sálmabók. Má með sanni segja, að sálmaval og breyting frá hinum fyrri hafi farið fram á einkennilegan hátt, svo að ekki sé meira sagt, og efni sálmsins mjög í anda hins hörmulega atburðar.
Jarðarför bræðranna fór svo fram frá Ásólfsskálakirkju. Voru þeir lagðir í sömu gröf, og sannaðist þannig hugboð þeirra, að þeir myndu hljóta sama legstað.
Frá vermannahópnum, sem kominn var að Kotströnd, er það að segja, að ferð þeirra til Reykjavíkur gekk greiðlega. Náðu þeir, sem til Eyjanna ætluðu, umræddri skipsferð og hlutu góða ferð.
Margir voru ekki vinnufærir strax eftir suðurkomuna vegna afleiðinga frá veðrinu á Rangárvöllum, kals og ofþreytu, en þeir jöfnuðu sig þó, er frá leið. Skipstjóri sá, er Einar Ingvarsson var ráðinn hjá, varð til dæmis að bíða eftir honum hálfan mánuð, á meðan kalsár hans greru að nokkru. En lengi bar Einar sár þessi, er greru hæði seint og illa.
Jón Stefánsson og Páll Einarsson fóru til Eyja eins og til stóð. Páll drukknaði þar þennan vetur af mb. Íslandi, Ve. 118, þann 12. apríl. Jón tók sér síðar bólfestu í Eyjum og drukknaði þar af bát sínum, mb. Haffara, Ve. 116, þann 9. apríl 1916.
Eins og áður getur giftist Þorgerður Jónsdóttir frá Hrútafelli Snorra Þórðarsyni í Steini í Eyjum. Hlífði það henni við kali og jafnvel dauða í ferð þessari, að hún naut sérlega góðrar umönnunar ferðafélaga sinna og var auk þess mjög vel búin að öllum fatnaði, sem áður getur. Varð henni ekki varanlegt mein af erfiðleikum og vosbúðinni í hrakningunum.
Um Björn á Efstu-Grund er það að segja, að aldrei varð hann sami maður eftir þessar hörmungar, hrakninginn og bræðramissinn.
Ekki hefur tekizt enn að hafa upp á nöfnum þeirra Mýrdælinga, sem í þessum hrakningum lentu, utan Eyjólfs Grímssonar, Nikhóli. Hefur þó mjög verið reynt til þess, og þá ekki sízt að hafa upp á nafni stúlkunnar, sem með þeim var. Eru þess vegna þeir, sem kynnu að lesa þetta og vita einhverjar upplýsingar um Mýrdælingana, beðnir að láta blaðinu þær í té.
Ég hef þá lokið frásögn þessari. Ég hef reynt að vinna úr munnlegum heimildum margra, eins vel og mér var auðið, og skýrt frá því, sem mér fannst máli skipta. Efalaust hefði mátt hafa frásögnina betur úr garði gerða að stíl og málfari, en ég held hins vegar, að rétt sé með efnið farið og það komi skýrt fram. Bið ég þess vegna væntanlegan lesanda að hafa það að jöfnu.

Skráð í marz 1959.
Heimildarmenn að frásögninni eru:
Þórður Stefánsson, Einar Ingvarsson, Sigurjón Ólafsson, Jón Sigurðsson, Vestmannabraut 73, o.fl.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit