Róbert Viðar Hafsteinsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Róbert Viðar Hafsteinsson.

Róbert Viðar Hafsteinsson frá Geirlandi við Vestmannabraut 8, vélstjóri, vélvirkjameistari, vélsmíðameistari, véliðnfræðingur fæddist þar 6. júlí 1945 og lést 19. nóvember 2010.
Foreldrar hans voru Hafsteinn Stefánsson frá Eskifirði, sjómaður, stýrimaður, skipstjóri, húsa- og skipasmiður, ljóðskáld, f. þar 30. mars 1921, d. 29. ágúst 1999, og kona hans Guðmunda Gunnarsdóttir frá Horninu við Vestmannabraut 1, húsfreyja, verkalýðsleiðtogi, f. 30. júlí 1920 á Oddsstöðum, d. 25. maí 2009.

Börn Guðmundu og Hafsteins:
1. Róbert Viðar Hafsteinsson vélstjóri, vélvirkjameistari, vélsmíðameistari, véliðnfræðingur, f. 6. júlí 1945, d. 19. nóvember 2010. Fyrrum kona hans Jónína Ármannsdóttir.
2. Viktor Hafsteinsson, f. 15. september 1952, d. sama dag.
3. Hilmar Þór Hafsteinsson kennari, f. 15. september 1954. Kona hans Sigríður Aðalheiður Aðalbergsdóttir.

Róbert var með foreldrum sínum í æsku, á Geirlandi og Kirkjubæjarbraut 15.
Hann nam vélvirkjun í Vélsmiðjunni Magna hf. í Eyjum og Vélsmiðjunnni Bjargi hf. í Reykjavík og lauk síðan vélfræðiprófi 4. stigs við Vélskóla Íslands. Hann hlaut meistarabréf í vélvirkjun og meistarabréf í vélsmíði með iðnvélvirkjun sem sérsvið. Auk þess lauk hann prófi í véliðnfræði frá Tækniháskóla Íslands. Róbert sótti fjölda endurmenntunarnámskeiða auk þess sem hann lagði stund á megatronic og sérhæfði sig í iðntölvum og vélmennum. Hann sótti Biblíunám á seinni hluta ævinnar.
Róbert var vélstjóri hjá Landhelgisgæslunni, Eimskipafélagi Íslands og Skipadeild Sambandsins, auk þess að vera vélstjóri á vélbátum og togurum, síðast yfirvélstjóri á F/T REMØY í Noregi.
Þau Jónína giftu sig 1975, eignuðust tvö börn, en skildu.
Róbert bjó á Eyrarvegi 10 á Selfossi, en síðast í Kópavogi.
Hann lést 2010.

Fyrrum kona Róberts, (22. febrúar 1975), var Jónína Ármannsdóttir frá Laufholti við Hásteinsveg 18, húsfreyja, f. 3. febrúar 1949, d. 24. nóvember 1984.
Börn þeirra:
1. Árni Gunnar Róbertsson rafmagnsverkfræðingur, f. 2. júní 1972. Barnsmóðir hans Margrét Gísladóttir. Barnsmóðir hans Nair Dos Anjos Quental. Kona hans Rosangela Santana Da Silva.
2. Hafsteinn Róbertsson vél- og rekstrariðnfræðingur, f. 8. nóvember 1974. Kona hans Elín Gíslína Steindórsdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.