Margrét Sigurðardóttir (Stóra-Gerði)
Margrét Sigurðardóttir frá Stóra-Gerði, vinnukona fæddist 9. september 1860 og lést 21. desember 1952 í Hemlu í V-Landeyjum.
Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson bóndi í Gerði, sjómaður, f. 14. mars 1825 í Gularáshjáleigu í A-Landeyjum, fórst með þilskipinu Hansínu í mars 1863, og kona hans Járngerður Sigurðardóttir húsfreyja, f. 17. september 1830 á Borgareyrum u. Eyjafjöllum, d. 23. desember 1876 á Skækli (Guðnastöðum) í A-Landeyjum.
Margrét missti föður sinn og bróður með þilskipinu Hansínu, er hún var á 3. árinu. Hún fluttist með móður sinni og systkinum í A-Landeyjar 1864, þar sem móðir hennar varð bústýra Guðna Guðmundssonr bónda á Skækli (Guðnastöðum).
Margrét var niðursetningur í Hólmum í A-Landeyjum 1870, vinnukona á Ytri-Hól í V-Landeyjum 1880, í Valadal í Skagafirði 1884 við fæðingur Ólafs, á Skúmstöðum í V-Landeyjum við fæðingu Sigurðar 1888. Hún fluttist frá Hemlu í V-Landeyjum að Vanangri 1890, var þar vinnukona á árinu.
Hún fluttist frá Vanangri að Tjörnum u. Eyjafjöllum 1891, var vinnukona í Ytri-Skála u. Eyjafjöllum 1901, fór að Hemlu 1907 og var þar vinnukona 1910 og enn 1920 og þar lést hún 1952.
I. Barnsfaðir Margrétar var Jón Erlendsson vinnumaður, síðar trésmiður á Seyðisfirði, f. 8. október 1864 á Hala í Djúpárhreppi, d. 28. janúar 1941.
Börn þeirra voru:
1. Ólafur Jónsson vinnumaður í Neskaupstað 1930, f. 28. júní 1884 í Valadal í Skagafirði, d. 12. júní 1970. Fyrrum kona hans Þuríður Guðfinna Sigurðardóttir.
2. Sigurður Jónsson skósmiður á Bergstöðum, f. 20. maí 1888 í Sigluvíkursókn, d. 16. nóvember 1916.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Garður.is.
- Íslendingabók.is.
- Magnús Haraldsson.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.