Margrét Magnúsdóttir yngri (Kirkjubæ)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Margrét Magnúsdóttir húsmóðir á Kirkjubæ, síðar vinnukona í Frydendal fæddist 9. maí 1831 og lézt 19. júlí 1900.

Ætt og uppruni

Foreldrar Margrétar voru Magnús bóndi á Krossi í Landeyjum og Efri-Rotum u. Eyjafjöllum frá 1836, f. 15. maí 1802 í Moldnúpi u. Eyjafjöllum, d. 30. apríl 1868 í Efri-Rotum, Þórðarson bónda í Moldnúpi, f. 20. apríl 1761, d. 15. júlí 1821, Pálssonar og konu Þórðar í Moldnúpi, Oddnýjar húsfreyju, f. 1761, d. 15. júlí 1816, Helga Einarssonar bónda í Moldnúpi. Móðir Margrétar og fyrri kona Magnúsar var Valgerður húsfreyja, f. 9. jan. 1802, d. 21. maí 1844, Andrésar Ögmundssonar bónda í Vorsabæ í Landeyjum og seinni konu hans Margrétar Ólafsdóttur húsfreyju.
Margrét var systir Sigríðar húsfreyju í Neðri-Dal u. Eyjafjöllum, f. 8. sept. 1834, d. 7. sept. 1921, gift Árna Indriðasyni, en þau voru foreldrar Erlendar Árnasonar á Gilsbakka, f. 1864.

Æviferill

Margrét fluttist til Eyja 1861 og gerðist ráðskona hjá Magnúsi Oddssyni á Kirkjubæ, bónda, hafnsögumanni og skipherra, en hann var þá ekkjumaður eftir fyrri konu sína Guðrúnu Höskuldsdóttur. Þau Margrét giftu sig um haustið.
Magnús var skipherra, en svo voru stundum nefndir formenn á þilskipum. Hann fórst með skipi sínu og allri áhöfn í apríl 1867. Margrét var þá þunguð.
Hún fæddi stúlkuna Magnúsínu 29. september það ár.

Hún reyndi búskap á Kirkjubæ, en vegna fyrirvinnuleysis varð hún að sleppa jörðinni eftir tvö ár. Árni Þórarinsson og Steinunn Oddsdóttir, hjón, sem flutzt höfðu úr Öræfum, tóku við og bjuggu þar um skeið, unz þau fengu Oddsstaði. Þau voru foreldrar [[Oddur Árnason|Odds]] föður Árna á Burstarfelli og Önnu Sigríðar móður Johnsenbræðra.

Margrét flutti í tómthúsið Sjólyst og bjó þar til ársins 1873, en fluttist þá að Löndum. Árið 1880 gat hún ekki lengur haldið Magnúsínu hjá sér vegna veikinda og fór hún í fóstur til Guðmundar Þórarinssonar á Vesturhúsum og konu hans Guðrúnar Erlendsdóttur húsfreyju. Margrét var lengi vinnukona í Frydendal.

Maki (8. okt. 1861): Magnús Oddsson, f. 24. október 1822, drukknaði í apríl 1867.
Börn þeirra voru
1. Andvana sveinbarn, f. 28. des. 1864.
2. Magnúsína, f. 29. ágúst 1867, d. 6. ágúst 1953.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.