Magnús Ólafsson (læknir)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Magnús Ólafsson læknir.

Magnús Ólafsson læknir fæddist 1. nóvember 1926 á Sólvangi og lést 2. september 1990.
Foreldrar hans voru Ólafur Magnússon frá Sólvangi, stofnandi og ritstjóri vikublaðsins Víðis, f. 3. maí 1903 á Seyðisfirði, d. 4. nóvember 1930 á Vífilsstöðum, og kona hans Ágústa Hansína Petersen, síðar Forberg, f. 4. janúar 1905, d. 27. október 1987.

Bróðir Magnúsar var Ólafur Ólafsson lyfjafræðingur, lyfsali, f. 29. mars 1928, d. 14. febrúar 1984.

Magnús var með foreldrum sínum í fyrstu, en faðir hans lést, er Magnús var fjögurra ára.
Fjölskyldan hafði flutt til Reykjavíkur og Ólafur dvalið á Vífilsstöðum, þar sem hann lést.
Ólafur fór í fóstur til Guðbjargar móðurmóður sinnar á Gimli og ólst þar upp. Magnús var með móður sinni hjá Ásdísi og Gísla J. Johnsen, en hún giftist Bjarna Forberg bæjarsímstjóra. Magnús var löngum á heimili Ásdísar og Gísla. Hann tók stúdentspróf í Menntaskólanum í Reykjavík 1946, læknisfræðipróf í Háskóla Íslands 1953. Hann fékk almennt lækningaleyfi 4. september 1958, sérfræðingsleyfi í lyflækningum 4. september 1958 og í hjartasjúkdómum 25. september 1967.
Magnús stundaði sérnám í hjartasjúkdómum við Hammersmith Hospital í London í júní-júlí 1969 og sótti ráðstefnur og námskeið í hjartasjúkdómum í Evrópu og Ameríku.
Hann var aðstoðarlæknir borgarlæknis frá júní 1953-júní 1954, nam við sjúkrahús í Minneapolis, Washington.
Magnús starfaði að lækningum í Reykjavík frá september 1958 til æviloka, eingöngu í hjartasjúkdómum frá september 1967. Jafnframt var hann aðstoðarlæknir á Borgarspítalanum frá ágúst 1958-júlí 1961 og yfirlæknir við hjúkrunardeild á Hrafnistu í Reykjavík frá mars 1961-júlí 1974. Auk þess vann hann við skólalækningar og trúnaðarlækningar.
Magnús átti gildan þátt í ýmnsum félagsstörfum, stjórnmálalegum og faglegum.
Hann reit greinar í innlend og erlend læknarit og sat í ritstjórn Læknablaðsins og Veiðimannsins, málgagns stangveiðimanna.
Magnús eignaðist barn með Margréti Ólafíu Jónsdóttur 1948. Þau Anna Gabríella giftu sig 1950, eignuðust tvö börn. Þau bjuggu lengst í Stigahlíð 69.
Magnús lést 1990 og Anna Gabríella 2017.

I. Barnsmóðir Magnúsar var Margrét Ólafía Jónsdóttir, f. 4. desember 1921, d. 5. desember 1977.
Barn þeirra:
1. Nína Valgerður Magnúsdóttir kennari í Reykjavík, f. 24. desember 1948. Maður hennar er Tómas Bergsson.

II. Kona Magnúsar, (1. janúar 1950), var Anna Gabríella (Anella) Stefánsdóttir, húsfreyja, heilsugæsluritari, f. 13. ágúst 1930, d. 27. október 2017. Foreldrar hennar voru Stefán Ágúst Kristjánsson búfræðingur, forstjóri, rithöfundur á Akureyri, síðast í Reykjavík, f. 14. mars 1897, d. 1. maí 1988, og síðari kona hans Sigríður Friðriksdóttir húsfreyja, f. 10. febrúar 1912, d. 6. ágúst 1980.
Börn þeirra:
2. Stefán Ágúst Magnússon framkvæmdastjóri í Reykjavík, f. 15. júní 1950. Kona hans er Ragnheiður Ólafsdóttir.
3. Ólafur Friðrik Magnússon heimilislæknir, fyrrv. borgarstjóri, f. 3. ágúst 1952. Kona hans Guðrún Kjartansdóttir.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Læknar á Íslandi. Gunnlaugur Haraldsson. Þjóðsaga 2000.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.