Lilja Sigurðardóttir (Selalæk)
Lilja Sigurðardóttir frá Selalæk, hjúkrunarfæðingur, ljósmóðir, trúboði fæddist þar 26. júní 1942 og lést 24. október 2016.
Foreldrar hennar voru Sigurður Guðmundsson húsasmiður, f. 23. júní 1920 á Stokkseyri, d. 25. maí 1981, og kona hans Kristín Hanna Jóhannsdóttir húsfreyja, verkakona f. 24. ágúst 1922 á Stokkseyri, d. 20. september 2006.
Börn Hönnu og Sigurðar:
1. Lilja Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir, trúboði, f. 26. júní 1942 á Selalæk við Vesturveg, d. 24. október 2016.
2. Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja, hússtjórnarkennari, gistiheimilisrekandi, f. 16. janúar 1951 á Fagrafelli.
Lilja var með foreldrum sínum í æsku. Hún gekk í Gagnfræðaskólann, fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur 1956 og tók landspróf við Héraðsskólann á Laugarvatni 1957.
Hún stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík og síðan Hjúkrunarskóla Íslands og lauk honum 1964 og námi í Ljósmæðraskóla Íslands 1973.
Lilja starfaði við Hultafors Sanatorium í Svíþjóð, nam við Newbold College í Bretlandi og vann við sjúkrahús í Darmstadt í Þýskalandi.
Hún starfaði við Héraðshælið á Blönduósi, við Landakotsspítala og við sjúkrahúsið á Patreksfirði.
Lilja var kennari við Barnaskóla aðventista í Eyjum í tvö ár.
Þá vann hún við sjúkrahús aðventista í Tansaníu 1969-1971, í Kenýa 1973-1978 og í Zambíu 1981-1983.
Síðari hluta ævinnar starfaði Lilja á eigin vegum að líknarmálum og trúboði, aðallega á Íslandi, en einnig erlendis, m.a. í Albaníu, Rúmeníu, Búlgaríu og á Grænlandi. Sérstaklega var henni umhugað um velferð barna. Stór hluti af þessum störfum hennar var umfangsmikil útgáfa á bókum og ritlingum um trúarleg efni, bæði á Íslandi og erlendis. Einnig gaf hún út og seldi jólakort og önnur kort og myndir til fjáröflunar fyrir líknarstarf sitt.
Lilja var ógift og barnlaus.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Hjúkrunarfræðingatal I-III. Hjúkrunarfélag Íslands 1969-1992.
- Manntöl.
- Morgunblaðið 7. nóvember 2016. Minning.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.