Kristín Magnúsdóttir (Vanangri)
Kristín Magnúsdóttir vinnukona fæddist 14. júní 1862 í Hraunfelli (Hvammi) í Skaftártungu og lést 13. desember 1937 í Vík í Mýrdal.
Foreldrar hennar voru Magnús Jónsson vinnumaður, húsmaður víða í V-Skaft., f. 20. mars 1824 í Krókatúni u. Eyjafjöllum, d. 24. janúar 1912 á Ytri-Lyngum í Meðallandi, og kona hans Kristín Árnadóttir vinnukona, húskona, f. 1. nóvember 1830 í Búlansseli í Skaftártungu, d. 13. júní 1907 á Snæbýli þar.
Kristín var tökubarn og síðan vinnukona á Ljótarstöðum í Skaftártungu 1862-1880, vinnukona í Holti á Síðu 1880-1882, fór þá að Helgusöndum u. Vestur-Eyjafjöllum.
Hún fluttist undan Vestur-Eyjafjöllum að Oddsstöðum 1885, var þar vinnukona 1886, í Draumbæ 1887 og 1888, í Jómsborg 1890, í Vanangri 1893.
Hún eignaðist barnið Erlend með Jóni Erlendssyni í Vanangri 1894, fór á því ári frá Vanangri til Norðfjarðar, en Jón Erlendsson fór frá Vanangri til Loðmundarfjarðar 1895 með soninn Erlend eins árs.
Kristín kom frá Björnshúsum í Skorrastaðarsókn til Eskifjarðar með Erlend son sinn og Níels Ágústi Kristjáni sambýlismanni sínum 1896.
Hún eignaðist Sigurborgu með Níels Ágústi á Eskifirði 1896, en hún var tekin í fóstur af Sigurði Eiríkssyni og Þuríði Árnadóttur á Eskifirði og varð síðar húsfreyja á Höfn í Hornafirði.
Kristín eignaðist Guðrúnu Ingibjörgu með Sigurði Halldórssyni á Eskifirði 1899.
Henni var vísað frá Eskifirði á sveit sína í V-Skaft. 1899, „rekin á sveit með 2 börnum“, þ.e. Erlendi og Guðrúnu Ingibjörgu. Þar átti hún sveitfesti. Þar var hún vinnukona á Strönd í Meðallandi 1899-1900, í Reynisholti í Mýrdal 1900-1901, á Kvíabóli þar 1901-1902. Hún var bústýra á Ytri-Lyngum í Meðallandi 1902-1916, vinnukona í Botnum þar 1916-1919, í Bakkakoti þar 1919-1923.
Kristín var hjá Guðrúnu Ingibjörgu dóttur sinni í Vík í Mýrdal 1923-dd. Hún fórst í eldsvoða í Vík 1937.
I. Barnsfaðir Kristínar var Jón Erlendsson frá Hala í Djúpárhreppi í Holtum, trésmiður, þá vinnumaður í Vanangri, síðar á Seyðisfirði, f. 8. október 1864, d. 28. janúar 1941.
Barn þeirra var
1. Erlendur Jónsson skósmiður á Ísafirði, f. 1. apríl 1894, d. 7. september 1958. Hann fluttist með föður sínum til Loðmundarfjarðar 1895, varð síðar skósmiður á Ísafirði, d. 7. september 1958.
II. Barnsfaðir Kristínar var Níels Ágúst Kristján Níelsson, af dönskum ættum, húsmaður á Eskifirði og víðar, f. 3. ágúst 1864, d. 1. febrúar 1916.
Barn þeirra var
2. Sigurborg Ágústsdóttir húsfreyja, f. 20. júní 1896 á Eskifirði, d. 10. janúar 1973.
III. Barnsfaðir Kristínar var Sigurður Halldórsson, ættaður úr Eyjafirði, sjómaður og verkamaður á Eskifirði og Reyðarfirði, f. 21. desember 1838, d. 28. febrúar 1910.
Barn þeirra var
3. Guðrún Ingibjörg Sigurðardóttir húsfreyja og hannyrðakona í Vík í Mýrdal, f. 7. janúar 1899, d. 9. nóvember 1988.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Holtamannabók III –Djúpárhreppur. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjórn: Ragnar Böðvarsson. Rangárþing ytra 2010.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.