Kjartan Bjarnason (Djúpadal)
Kjartan Bjarnason frá Djúpadal, vélvirki, verkstjóri fæddist 30. apríl 1920 og lést 27. júní 2010.
Foreldrar hans voru Bjarni Árnason frá Gilsbakka í Holtum, verkamaður, bræðslumaður, f. 10. júlí 1880, d. 19. mars 1943, og sambýliskona hans María Snorradóttir frá Lambalæk í Fljótshlíð, húsfreyja, f. 14. júní 1877, d. 26. apríl 1944.
Börn Bjarna og Maríu voru:
1. Sigríður Bjarnadóttir, f. 19. nóvember 1915 á Nýlendu, d. þar 5. maí 1917.
2. Sigurður Bjarnason sjómaður, f. 17. september 1918 í Odda, drukknaði af Olgu 7. mars 1941.
3. Kjartan Bjarnason vélvirki, tónlistarmaður, f. 30. apríl 1920, d. 27. júní 2010.
Kjartan var með foreldrum sínum. Á unglingsárum hóf Kjartan störf hjá Kaupfélagi verkamanna og vann þar í allmörg ár. Hann nam vélstjórn í Eyjum 1943, tók hið meira próf í Reykjavík 1946. Kjartan lærði einnig vélvirkjun í Eyjum og nam við Iðnskóla Vestmannaeyja. Hann fékk sveinsbréf í vélvirkjun 1952 og meistararéttindi 1958.
Hann starfaði í Vélsmiðju Þorsteins Steinssonar (Steinasmiðju) og var verkstjóri í vélsmiðju Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja. Sumarið 1967 starfaði hann hjá Vatnsveitu Vestmannaeyja undir Vestur-Eyjafjöllum, þegar hafist var handa við lögn vatnsveitu til Eyja. Í eldgosinu 1973 bjó Kjartan skamman stund í Reykjavík og starfaði hjá Olíufélaginu Skeljungi. Hann réðst síðan til Áhaldahúss Vestmannaeyjabæjar og vann þar m.a. við hitaveitulagnir, hraunhitaveitu bæjarins og síðustu árin við ýmis viðhaldsstörf.
Kjartan var tónlistarmaður, var einn af stofnendum Lúðrasveitar Vestmannaeyja 1939 og lék með henni í 45 ár. Auk þess sinnti hann ýmsum störfum innan félagsins.
Haustið 1991 fluttist Kjartan á Hraunbúðir, dvalarheimili aldraðra í Vestmannaeyjum, en síðustu sjö árin dvaldist hann á Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum.
Kjartan var ókvæntur og barnlaus.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Manntöl.
- Morgunblaðið 10. júlí 2010. Minning.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.