Hnýðingur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Spendýr
Landdýr
Sjávarspendýr

Hnýðingur er sú tegund höfrunga sem oftast sést í hvalaskoðunarferðum. Talið er að stofninn við Ísland sé um 10–12.000 dýr. Hann er talinn vera staðbundinn á íslensku hafsvæði. Fyrir kemur að stórir hópar hnýðinga sjáist inni á fjörðum og flóum enda þótt algengast sé að dýrin fari um í smærri hópum, yfirleitt fimm til tíu saman.

Líkt og aðrar höfrungategundir eru hnýðingar yfirleitt ekki lengi í kafi. Þeir halda sig mest við yfirborðið og eru alltaf á ferð og flugi. Helsta fæða höfrunga er ýmiss konar smáfiskur, s.s. makríll, síld, síli og smokkfiskur.

Hnýðingar eru afar hraðsyndir og koma oft stökkvandi á fleygiferð í átt að skipum og bátum til þess að leika sér í bárunni sem kinnungurinn ryður frá sér. Það er gaman að fylgjast með því hvernig þeir beita stirtlu og sporði og eins þegar þeir stökkva eða skjótast upp úr bárunni til að blása. Oft stökkva þeir beint upp úr sjónum eins og um leik sé að ræða og síðan endurtaka þeir þessi stökk allt þar til þeir þreytast.


Heimildir