Guðmundur Jónsson (Heiðarbæ)
Guðmundur Jónsson í Heiðarbæ, ökumaður, múrari, verkamaður, bátasmiður, bóndi fæddist 11. apríl 1876 í Ártúnum í Gufunessókn og lést 2. október 1958.
Móðir hans var Guðlaug Tómasdóttir frá Kárastöðum í Þingvallasveit, vinnukona í Gufunesi, f. 1842, og Jón Eyjólfsson Jónassonar frá Gili í Svartárdal.
Guðmundur var með móður sinni fyrstu tvö ár ævinnar, var fjögurra ára niðursetningur á Korpúlfsstöðum 1880, var hjá Sigríði Eyjólfsdóttur föðursystur sinni og Oddi Ásmundssyni manni hennar í Laxnesi, og í Lambhaga í Mosfellssveit, hjá þeim í Garðasókn á Álftanesi um fermingu.
Hann var vikadrengur á Fellsenda í Þingvallasókn 1890, þá 16 ára, fór á næsta ári að Heiðarbæ þar, var í heild fimm ár í Þingvallasveit.
Hann mun hafa flust næst til Sigríðar frænku sinnar á Álftanes og líklega flust með þeim að Hrísdal í Miklaholtshreppi, en þar var hann 1897, en fluttist þaðan til Ólafsvíkur, þar sem hann eignaðist barn með Vilborgu 1901.
Hann fluttist til Ísafjarðar og var háseti þar 1901, en kominn til Dýrafjarðar 1903. Vilborg fluttist að Mið-Hvammi, en hann til Þingeyrar og var barn þeirra skráð hjá honum þar.
Þau Kristjana Rósa Sigurðardóttir giftu sig 1903, eignuðust eitt barn á Þingeyri, fluttust til Reykjavíkur og eignuðust þar þrjú börn. Þau bjuggu í Bræðraborg með fjögur börn sín og Kristjönu móður Rósu.
Guðmundur stundaði vöruflutninga á hestvagni, flutti meðal annars vélar og fleira að Álafossi við byggingu verksmiðjunnar, og síðar fékkst hann við fólksflutninga á fjórhjóla vagni.
Kristjana Rósa lést 1913. Elsta barni þeirra Sigurði var komið í fóstur til Magnúsar bróður Guðmundar á Vatnsleysuströnd og Guðni Tómas fór til frændfólks síns í Mosfellssveit.
Guðmundur eignaðist Margréti Guðlaugu með Ólínu Sigríði Ólafsdóttur 1917, en hún mun hafa verið ráðskona hjá honum.
Þau Guðríður Þórunn giftu sig 1920, en höfðu þá eignast þrjú börn.
Þau fluttust til Eyja 1921 með sex börn. Þorbjörg dóttir Guðmundar af fyrra hjónabandi varð eftir í Reykjavík, var þjónuststúlka í Hafnarstræti 8 1920. Þau hjón bjuggu á Eiðinu 1921 og 1922, á Ofanleiti 1923 með Ingólfi og þrem börnum sínum, í Stórhöfðvita 1924 með þrem síðari konu börnum og Ingólfi, á Brimhólum 1927 með þrem börnum þeirra Guðríðar. Guðni Tómas var ekki með þeim 1927. Hann fór til lands, en kom úr A-Landeyjum 1929 og bjó á Hásteinsvegi 8 ásamt Ingólfi 1930.
Þorbjörg kom til Eyja 1930 úr Mýrdal með Rósu dóttur sína og leigði á Borgarhól.
Hjónin byggðu Heiðarbæ og bjuggu þar með þrem börnum sínum 1930 og uns þau fluttust úr Eyjum 1936.
Guðmundur vann við steinsteypu-og bátaviðgerðir, en kunnastur var hann af vinnu sinni við byggingu Hörgaeyrargarðsins á þriðja áratug 20. aldar. Þá stjórnaði hann sprengingum í Hettu í Heimakletti, en móberg þaðan var notað í garðinn. Gekk Guðmundur jafnan undir viðurnefninu ,,Hettusprengir“.
Þau Guðríður keyptu jörðina Litlu-Hnausa í Breiðavíkurhreppi á Snæfellsnesi 1936 og fluttust þangað með Ásþór, Kristján Rósberg og Matthías Gunnlaug. Nokkru síðar keyptu þau jörðina Skjaldartraðir á Hellnum þar og bjuggu þar til 1947, en þá fluttust hjónin í Voga á Vatnsleysuströnd.
Guðríður lést 1954 og þá flutti Guðmundur til Matthíasar Gunnlaugs í Keflavík og lést þar 1958.
I. Barnsmóðir Guðmundar var Vilborg Kristjánsdóttir, þá í Ólafsvík, en sama ár vinnukona á Akri í Staðarsveit á Snæfellsnesi, en síðar á Mið-Hvammi í Dýrafirði, f. 11. júlí 1868, d. 22. febrúar 1941. Foreldrar hennar voru Kristján Steindórsson bóndi í Eyrarbúð í Laugarbrekkusókn á Snæf., f. 1815, d. 25. janúar 1892, og Vilborg Bjarnadóttir vinnukona, f. 1829, d. 28. mars 1883.
Barn þeirra:
1. Kristjana Guðlaug Guðmundsdóttir húsfreyja á Þingeyri við Dýrafjörð, f. 25. júní 1901, d. 14. júlí 1978. Menn hennar voru Óskar Gunnar Jóhannsson og Bjarni Guðbjartur Jóhannsson.
II. Fyrri kona Guðmundar var Kristjana Rósa Sigurðardóttir húsfreyja, f. 29. febrúar 1880 í Hvammi í Sandasókn í Dýrafirði, d. 13. nóvember 1913. Foreldrar hennar voru Sigurður Greipsson, þá kvæntur vinnumaður í Lægsta-Hvammi í Sandasókn í Dýrafirði, f. 14. nóvember 1841, d. 21. júlí 1890, og kona hans Kristjana Jónsdóttir vinnukona þar, f. 20. desember 1849, d. 24. júní 1943.
Börn þeirra:
2. Sigurður Guðmundsson, f. 27. maí 1904 á Þingeyri í Sandasókn, Ís., drukknaði 17. mars 1928.
3. Þorbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja á Boðaslóð 3, f. 29. ágúst 1905 í Kasthúsum í Reykjavík, d. 10. febrúar 1960.
4. Guðni Tómas Guðmundsson sjómaður, vélstjóri, f. 20. september 1906 í Reykjavík, d. 2. apríl 1995.
5. Ingólfur Guðmundsson úrsmiður í Eyjum, f. 27. júlí 1909 í Reykjavík, d. 28. febrúar 1968.
III. Barnsmóðir Guðmundar var Ólína Sigríður Ólafsdóttir í Reykjavík, f. 11. maí 1876, d. 22. júlí 1928. Foreldrar hennar voru Ólafur Jón Sigurðsson prentsmiður, lausamaður, húsmaður í Borgarfirði, f. 4. desember 1844, d. 1. ágúst 1879 og kona hans Helga Magnúsdóttir húsfreyja, f. 5. janúar 1850, d. 9. október 1911.
Barn þeirra:
6. Margrét Guðlaug Guðmundsdóttir húsfreyja á Siglufirði, f. 11. desember 1917, d. 2. september 1992. Maður hennar var Jósafat Sigurðsson.
IV. Síðari kona Guðmundar, (1920), var Guðríður Þórunn Ásgrímsdóttir húsfreyja, f. 19. september 1880 á Kröggólfsstöðum í Ölfusi, d. 11. maí 1954.
Börn þeirra:
7. Ásþór Guðmundsson rafsuðumaður, síðar á Vatnsleysuströnd, f. 20. mars 1918 í Reykjavík, d. 17. nóvember 1985.
8. Kristján Rósberg Guðmundsson pípulagningamaður, f. 17. september 1919, síðar á Vatnsleysuströnd, d. 24. júlí 1975.
9. Matthías Gunnlaugur Guðmundsson húsasmiður, síðar í Keflavík, f. 19. nóvember 1920, d. 25. október 1997.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Guðlaug Jónsdóttir í Keflavík.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Morgunblaðið.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.