Guðmundur Þorgeirsson (Kastala)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðmundur Þorgeirsson tómthúsmaður fæddist 1779 í Sjávarborgarsókn í Skagafirði og lést 1. janúar 1853.
Foreldrar hans voru Þorgeir Önundarson bóndi í Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði og Brekkukoti ytra í Blönduhlíð þar, skírður 1. júlí 1730, og Valgerður Jónsdóttir vinnukona, f. um 1750.

Guðmundur var vinnumaður í Réttarholti í Flugumýrarsókn 1801.
Hann kom suður nokkru eftir aldamótin 1800 og var á ýmsum stöðum á Innnesjum og suður með sjó. Hann eignaðist son með Guðrúnu Sigurðardóttur í Reykjavík 1806. Barnið var Sigurður, sem lengi bjó í Sauðagerði þar, faðir Þorkels, föður Helga klæðskera og þeirra systkina.
Guðmundur mun hafa kunnað vel til verka bæði á sjó og landi og verið verklundaður og því í áliti hjá Bjarna Thorarensen skáldi, sem réði hann vinnumann hjá sér í Gufunesi. Bjarni var þá dómari við landsyfirréttinn, síðar amtmaður. Hann var ókvæntur, en í árangurslitlum kvonbænum meðal dætra háttsettra, hafði barnað bústýru sína Elínu Guðmundsdóttur. Hann fékk svo Hildar dóttur Boga Benediktssonar á Staðarfelli. Til að forðast hneyksli og framamissi fékk hann Guðmund vinnumann sinn til að gangast við faðerni barnsins og kom fram giftingu þeirra Elínar. Elínu var svo útveguð vist í Bakkahjáleigu í Landeyjum og þar ól hún barnið. Barnið var Sigríður Guðmundsdóttir, síðar húsfreyja á Skarfanesi á Landi, f. 1821. Hún hafði lítið eða ekkert af foreldrum sínum að segja eftir fæðingu.
Guðmundur kom frá Gufunesi að Brekkuhúsi ásamt konu sinni Elínu 1821, húsfólk. Þau voru húsfólk í Kastala 1823. Þau eignuðust tvær dætur, misstu aðra þeirra úr ginklofa.
Guðmundur var einbúi í Hólskoti 1824, en Elín bjó þá með Steinmóði í Ömpuhjalli. Í Hólskoti bjó hann 1825 og 1826 með Guðlaugu Þorsteinsdóttur.
Hann bjó í Hólshúsi 1828 með bústýrunnu Guðbjörgu Þorsteinsdóttur 36 ára, (líklega sama kona og fyrr).
Hann kvæntist Ingibjörgu Einarsdóttur 1831 og bjó í Hólshúsi. Ingibjörg lést 1839, og á því ári bjó hann með bústýrunni Solveigu Sigurðardóttur 44 ára. 1841 bjó hann einn í Hólshúsi.
Um skeið fór hann í kaupavinnu norður í land á sumrum og reið þá Kjöl og líklega í Skagafjörð. Var hann ætíð einn á ferð með tvo til reiðar og flutnings, hlaðinn skreið og fiðri. Þessar athafnir munu hafa orðið Espólín ástæða til að kalla hann flæking.
Við skráningu 1845 var hann ekkill í Godthaab, 72 ára ekkill á Kirkjubæ 1850.
Guðmundur lést 1853, niðursetningur í Háagarði.

I. Barn Guðmundar og Guðrúnar Jónsdóttur, f. 1763, dóttur Jóns ,,trítilsunga‘‘ , f. 1743, d. 22. september 1811, bónda á Kárastöðum í Hegranesi 1766 og Ketu í Hegranesi 1768, en í Réttarholti í Blönduhlíð 1786-1789 og í Framnesi í Blönduhlíð 1789 til dd. Jónssonar. Móðir Guðrúnar var Valgerður Gísladóttir vinnukona, f. 1717, grafin 25. mars 1784, þá ekkja Hallgríms ,,hörkumanns‘‘ Jónssonar bónda í Torfgarði á Langholti, á lífi 1753:
1. Jón Guðmundsson, f. um 1800, d. 12. desember 1836.

II. Fyrri kona Guðmundar, (5. nóvember 1820 í Gufunesi, skildu 10. ágúst 1828), var Elín Guðmundsdóttir húsfreyja, síðar í Steinmóðshúsi, f. 27. ágúst 1796, d. 8. júlí 1876. Foreldrar hennar voru Guðmundur Kolbeinsson bóndi á Hamri í Laxárdal í Þing., f. 1763, d. 24. ágúst 1846 og kona hans Guðrún Ingimundardóttir húsfreyja, f. 1762, d. 20. maí 1816.
Börn þeirra voru:
1. Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja í Skarfanesi í Landsveit, f. 19. apríl 1821 í Bakkahjáleigu í Landeyjum. Almælt var, að Sigríður væri dóttir Bjarna Thorarensen amtmanns og skálds á Möðruvöllum.
2. Guðrún Guðmundsdóttir, f. 25. ágúst 1822. Hún fluttist til Stokkseyrarsóknar 1857.
3. Guðfinna Guðmundsdóttir, f. 23. desember 1823, d. 30. desember 1823 úr ginklofa.

III. Barnsmóðir Guðmundar var Kristín Gísladóttir frá Gíslahjalli, f. 6. október 1796, varð úti í byl 26. mars 1836.
Barn þeirra var
5. Guðni Guðmundsson trésmiður og sjómaður, f. 7. nóvember 1830, drukknaði 26. febrúar 1869 í Útilegunni miklu.

IV. Síðari kona Guðmundar, (1831), var Ingibjörg Einarsdóttir, þá bústýra hans í Hólshúsi, f. um 1786, d. 8. maí 1839.
Þau voru barnlaus.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Holtamannabók II – Ásahreppur. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjórn: Ragnar Böðvarsson. Ásahreppur 2007.
  • Holtamannabók III – Djúpárhreppur. (Athugasemdir bls. 606). Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjórn: Ragnar Böðvarsson. Rangárþing ytra 2010.
  • Íslendingabók.is.
  • Íslenzkir sagnaþættir og þjóðsögur I. Guðni Jónsson. Ísafoldarprentsmiðja H.F. 1940.
  • Landmannabók – Landsveit. Valgeir Sigurðsson, Ragnar Böðvarsson og fleiri. Rangárþing ytra, Hellu 2003.
  • Magnús Haraldsson.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum. Jóhann Gunnar Ólafsson. Þorsteinn Johnson 1938-1939.
  • Ættatölubækur Jóns Espólíns p. 4602 og 4732.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.