Guðjón Pálsson (tónlistarmaður)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Pálsson.

Guðjón Pálsson tónlistarmaður fæddist 23. ágúst 1929 í Háagarði við Austurveg 30 og lést 12. apríl 2014.
Foreldrar hans voru Páll Eyjólfsson forstjóri, f. 22. september 1901 á Klöpp í Höfnum, Gull., d. 4. apríl 1986, og kona hans Fanný Guðjónsdóttir frá Oddsstöðum, húsfreyja, f. 4. mars 1906, d. 26. nóvember 1994.

Börn Fannýjar og Páls:
1. Guðjón Pálsson tónlistarmaður, f. 23. ágúst 1929 í Háagarði, d. 12. apríl 2014.
2. Helga Pálsdóttir, f. 30. mars 1931 í Háagarði, d. 6. janúar 1932 í Háagarði.
3. Eyjólfur Helgi Pálsson skólastjóri, framkvæmdastjóri, f. 20. maí 1932 í Háagarði, d. 29. október 1998.
4. Jón Pálsson sjómaður, skipstjóri, f. 18. júní 1934 að Helgafellsbraut 19, d. 22. júní 2015.
5. Guðlaug Pálsdóttir húsfreyja, skrifstofumaður, f. 14. apríl 1939 á Helgafellsbraut 19.
6. Guðrún Ásta Pálsdóttir húsfreyja, skrifstofumaður, f. 20. apríl 1940 á Helgafellsbraut 19.
7. Erla Pálsdóttir húsfreyja, starfsstúlka, f. 8. maí 1944 á Heiðarvegi 28.
8. Tómas Njáll Pálsson bankastarfsmaður, f. 4. september 1950 á Heiðarvegi 28.

Guðjón var með foreldrum sínum, í Háagarði, á Bolsastöðum við Helgafellsbraut 19, við Heiðarveg 28.
Hann lauk gagnfræðaprófi í Gagnfræðaskólanum 1945, nam í Tónlistarskólanum í Reykjavík og orgelleik í Söngskóla þjóðkirkjunnar.
Fljótlega eftir tónlistarnám í Reykjavík flutti Guðjón aftur til Eyja þar sem hann kenndi við Tónlistarskólann og var organisti og kórstjóri við Landakirkju. Þau Rebekka bjuggu þá á Hásteinsvegi 37.
Um 1960 flutti Guðjón aftur til Reykjavíkur og lék á Hótel Borg og á fleiri stöðum. Eftir nokkurra ára dvöl í Reykjavík flutti Guðjón í Borgarnes, þar sem hann var kirkjuorganisti og kórstjóri í 9 ár, auk tónmenntakennslu í Borgarnesi og Borgarfirði. Frá Borgarnesi fluttist Guðjón til Siglufjarðar, þar sem hann starfaði við tónlist í 4 ár. Frá Siglufirði fluttist Guðjón á Hvammstanga og tók við skólastjórn Tónlistarskólans. Hann stjórnaði þar blönduðum kór, annaðist undirleik hjá Lillukórnum og undirleik hjá einsöngvurum. Frá Hvammstanga flutti Guðjón til Akureyrar og starfaði við Tónlistarskóla Eyjafjarðar og stjórnaði kór eldri borgara á Akureyri. Að síðustu var hann kirkjuorganisti í Hrísey. Þaðan fór hann á Hjúkrunar- og dvalarheimilið Hlíð á Akureyri.

Hér fer kafli úr minningargrein Gísla Brynjólfssonar málar, tónlistarmanns um Guðjón.
,,Guðjón þekkti ég nánast frá frumbernsku. Við vorum skátafélagar og þar byrjaði tónlistin hjá okkur en í vetrarlok árið 1944 smalaði Marinó Guðmundsson saman sex unglingum í þeim tilgangi að stofna hljómsveit. Marinó 17 ára, Guðni Hermansen 16, Björgvin bróðir Marinós 15, Guðjón Kristófersson 15, Guðjón 15 (þeir voru systkinasynir) og undirritaður 15. Hljómsveitin reyndi að spila jazz-skotna danstónlist og hljóðfæraskipan var þó nokkuð óvenjuleg. Marinó spilaði á trompet og ukolele-banjó, Björgvin á trommur en trommurnar voru gerðar úr skipasaums-kútum með strekktu skinni og skrautlega málaðar af Guðna. Fyrir það var hljómsveitin kölluð „Tunnubandið“. Guðjón hafði orgel heima hjá sér og fór að reyna við orgelið, kannski meira af vilja en mætti en mjór er mikils vísir, hann var því píanóleikarinn. Guðni átti harmóniku, heldur litla og lélega. Þá fréttist af Hohner-harmoniku fjögurra kóra með fjórum skiptingum og tveimur í bassa. Verið var að senda nikkuna í pósti til Reykjavíkur en eigandinn afturkallaði hana úr póstinum. Nú vantaði peninga og þá varð það úr að íþróttafélögin Þór og Týr lánuðu okkur fyrir nikkunni. Undirritaður og Guðjón Kristófersson voru með gítara, má því segja að við höfum verið langt á undan Bítlunum með tvo gítara.
Mikið var æft um sumarið og svo var spilað á árshátíðum íþróttafélaganna um haustið. Við spiluðum einnig af og til á dansleikjum í Akógeshúsinu veturinn 1945. Síðan kom hið óumflýjanlega, foreldrar Marinós og Björgvins fluttu búferlum að Selfossi og þar með var draumurinn búinn. Upp úr þessu fóru þeir Guðjón Pálsson og Guðni Hermansen til tónlistarnáms í Reykjavík. Þeir tóku upp þráðinn þeir Marinó, Björgvin, Guðni og Guðjón, auk þeirra bættist í hópinn Rudolf Stolzenwald, brottfluttur Eyjapeyi sem spilaði á píanó, Guðjón á nikku og Guðni á altsaxófón, Björgvin á trommur og Marinó á trompet. Þeir spiluðu helst austur í sveitum en einnig á árshátíð í Eyjum og á einni Þjóðhátíð.“

Þau Rebekka giftu sig 1951, eignuðust þrjú börn, en skildu.
Þau Guðbjörg giftu sig, eignuðust ekki börn saman og skildu.
Þau Kristjana Indlaug hófu sambúð, eignuðust tvö börn, en slitu.
Þau Bryndís hófu sambúð, en slitu. Guðjón lést 2014.

I. Kona Guðjóns, (8. mars 1951, skildu), er Rebekka Hólmfríður Kristjánsdóttir, f. 14. júní 1932. Foreldrar hennar voru Kristján Guðlaugur Einarsson sjómaður frá Fremri-Hattardal í Álftafirði, f. 5. janúar 1893, d. 24. mars 1979, og kona hans Katrín Hólmfríður Magnúsdóttir húsfreyja frá Purkey á Breiðafirði, f. 5. október 1897, d. 14. mars 1990.
Börn þeirra:
1. Páll Guðjónsson, f. 16. desember 1950. Kona hans Ingibjörg Flygenring.
2. Fanný Guðjónsdóttir, f. 22. nóvember 1952. Maður hennar Þorsteinn Höskuldsson.
3. Herjólfur Guðjónsson, f. 17. ágúst 1854. Kona hans Anna Kristín Fenger.

II. Kona Guðjóns, skildu er Guðbjörg Kolka.

III. Fyrrum sambúðarkona Guðjóns, (slitu), Kristjana Ingilaug Marteinsdóttir, f. 30. júlí 1943.
Börn þeirra:
4. Guðjón Ýr Guðjónsson, f. 8. júlí 1972, d. 17. maí 1991.
5. Erla Björg Guðjónsdóttir Askmyren, f. 13. janúar 1975.

IV. Sambúðarkona Guðjóns, (slitu), er Sigríður Friðjónsdóttir, f. 16. nóvember 1961.
Barn þeirra:
Friðjón Snorri Guðjónsson, f. 20. júní 1978.

V. Sambúðarkona Guðjóns, (slitu), er Brynja Björnsdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.