Guðbjörg Jónsdóttir (Dölum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Guðbjörg Jónsdóttir vinnukona í Dölum, síðar húsfreyja í Grindavík, fæddist 1811 og lést 11. september 1870.
Faðir hennar var Jón prestur „mjói“ í Miðmörk, f. 9. ágúst 1772, d. 8. júní 1843, Jónsson bónda í Hraungerði í Álftaveri, f. 1739, Jónssonar bónda í Skálmarbæ í Álftaveri, f. 1710, Stígssonar, og ókunnrar móður Jóns í Hraungerði.
Móðir sr. Jóns og kona Jóns bónda í Hraungerði var Halldóra húsfreyja, f. 1742 í Þykkvabæjarsókn, Þorsteinsdóttir bónda í Skálmarbæ í Álftaveri og víðar, f. 1711, Nikulássonar, og ókunnrar móður Halldóru.

Móðir Guðbjargar var Ingveldur húsfreyja, fyrsta kona Jóns prests, f. í september 1771, d. 2. júli 1823, Sveinsdóttir prests í Hraungerði, f. 1725, Halldórssonar á Melum í Trékyllisvík Bjarnasonar, og konu sr. Sveins Önnu húsfreyju, f. 1731, d. 22. febrúar 1797, Eiríksdóttur að Skálafelli í Suðursveit, systur Jóns Eiríkssonar konferensráðs.

Guðbjörg var systir:
1. Önnu húsfreyju í Selkoti u. Eyjafjöllum, móður Gísla Stefánssonar kaupmanns í Hlíðarhúsi og
2. Sveins bónda á Raufarfelli, föður
3a. Sigurðar Sveinssonar í Nýborg og
3b. Þorbjargar Sveinsdóttur húsfreyju, síðar vinnukonu í Nýborg.
Guðbjörg var hálfsystir
4. Guðríðar Jónsdóttur húsfreyju í Dölum og Norðurgarði.

Guðbjörg var með foreldrum sínum á Arnarstöðum í Flóa 1816, með föður sínum og stjúpu í Mið-Mörk u. Eyjafjöllum 1835.
Hún fluttist 26 ára frá Mið-Mörk að Dölum 1837 og var vinnukona hjá Guðríði systur sinni þar í lok ársins. Í Stakkagerði var þá Jón Jónsson 21 árs vinnumaður kominn undan Eyjafjöllum.
Guðbjörg eignaðist barnið Gísla með Jóni 1838.
Hún var í Dölum 1839.
Í lok árs 1840 var Guðbjörg komin á hitt býlið í Dölum, hafði eignast barn með mági sínum Einari Jónssyni í október.
Hún fór að Sólheimum í Mýrdal 1841 og þaðan síðar á Suðurnes. Þar var hún vinnukona á Hrauni í Grindavík 1845.
Hún giftist Þorsteini Jónssyni og þau bjuggu á hjáleigunni Einlandi þar 1850, - og 1855 með dæturnar tvær.
Þau voru í Garðhúsi í Útskálasókn 1860 með Rannveigu.
Þorsteinn lést 1868 í Nýjabæ og Guðbjörg 1870 í Akurhúsum í Útskálasókn.

I. Barnsfaðir Guðbjargar var „Jón Jónsson ógiftur í Stakkagerði“, líklega sá, sem var vinnumaður þar 1837-1839, ættaður undan Fjöllunum. Hann lést þar 1839, 23 ára.
Barnið var
1. Gísli Jónsson, f. 28. júlí 1838, d. 8. ágúst 1838 úr ginklofa.

II. Barnsfaðir Guðbjargar var Einar Jónsson bóndi í Dölum, systurmaður hennar.
Barnið var
2. Jón Einarsson, f. 19. október 1840, d. 28. október 1840 úr ginklofa.

III. Maður Guðbjargar var Þorsteinn Jónsson bóndi á Einlandi í Grindavík, f. 1817, d. 14. mars 1868.
Börn þeirra hér
1. Guðríður Þorsteinsdóttir húsfreyja á Akureyri, f. 14. febrúar 1847, d. 23. ágúst 1907. Maður hennar Sumarliði Ólafsson.
2. Rannveig Þorteinsdóttir húsfreyja í Garðhúsi á Reykjanesi, f. 18. ágúst 1849, d. 7. júlí 1926. Maður hennar Magnús Sigurðsson.
3. Jón Þorsteinsson, f. í nóvember 1854, d. 21. desember 1854.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.