Eiríkur J. Eiríksson (prestur)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Eiríkur Júlíus Eiríksson.

Eiríkur Júlíus Eiríksson frá Ekru við Urðaveg 20, prestur, skólastjóri á Núpi í Dýrafirði, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum fæddist 22. júlí 1911 á Ekru og lést 11. janúar 1987.
Foreldrar hans voru Eiríkur Magnússon frá Litlalandi í Ölfusi, trésmiður, síðar í Ameríku, f. 26. maí 1884, d. 21. nóvember 1973, og barnsmóðir hans Hildur Guðmundsdóttir frá Iðu í Biskupstungum, vinnukona á Bergi, síðar á Eyrarbakka, f. 1. febrúar 1891, d. 23. mars 1966.

Eiríkur var með móður sinni, fluttist með henni til Eyrarbakka 1911, var þar með henni í Búðarhúsi á heimili móðurforeldra sinna, Guðmundar Guðmundssonar og Jónínu Jónsdóttur, með þeim í Gýgjarsteini á Stokkseyri 1924 og með móður sinni og Jónínu ömmu sinni eftir lát Guðmundar 1930, í Bjarghúsi þar 1933 og 1934.
Hann varð stúdent 1932 í Menntaskólanum í Reykjavík, tók kennarapróf 1934 og varð guðfræðingur í Háskóla Íslands 1935, var við framhaldsnám í Basel í Sviss. Hann kynnti sér skólamál á Norðurlöndum 1936-1937.
Eiríkur var kennari á Núpi í Dýrafirði frá 1935, að undanteknu einu ári 1936-1937, varð skólastjóri þar 1942 til ársins 1960. Hann var á sama tíma prestur á Núpi, aðstoðarprestur 1937-1938, sóknarprestur 1938-1960, formaður Prestafélags Vestfjarða um skeið.
Hann varð prestur og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum 1960-1981.
Eiríkur hafði mikil afskipti af Ljósafossskóla og var m.a. prófdómari þar og sat í skólanefnd.
Hann var einn af forustumönnum ungmennafélagshreyfingarinnar, sat í stjórn UMFÍ frá 1936 og var formaður UMFÍ í um 30 ár. Landsmótin voru honum mikið hjartans mál og átti hann þátt í því að endurvekja þau með Landsmótinu í Haukadal 1940. Hann var ritstjóri Skinfaxa, málgagns UMFÍ 1941-1944 og frá 1961, skrifaði margar greinar í blöð og tímarit og þýddi skátasöguna Ég lofa (Vilh. Bjerregaard) 1927, (2. útgáfa 1958).
Hjónin Sigríður og Eiríkur gáfu Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi bókasafn sitt 1984, um 30 þúsund bindi.
Þau Sigríður Kristín giftu sig 1938, eignuðust tíu börn, en misstu eitt þeirra ungt.
Eiríkur lést 1987 og Kristín 1999.

I. Kona Eiríks, (6. nóvember 1938), var Sigríður Kristín Jónsdóttir húsfreyja, f. 5. október 1917 á Minna-Garði í Dýrafirði, d. 17. febrúar 1999. Foreldrar hennar voru Jón Guðmundur Ólafsson bóndi, kennari og ferjumaður á Gemlufalli og Minna-Garði í Dýrafirði, f. 29. mars 1891 á Hólum í Dýrafirði, d. 26. febrúar 1963, og kona hans Ágústa Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 3. ágúst 1890 á Brekku í Þingeyrarhreppi, d. 20. mars 1973.
Börn þeirra:
1. Aðalsteinn Eiríksson skólameistari, f. 10. október 1940. Kona hans Guðrún Larsen jarðfræðingur.
2. Jón Eiríksson jarðfræðingur, f. 23. september 1944. Kona hans Sjöfn Kristjánsdóttir handritavörður.
3. Guðmundur Eiríksson, f. 6. maí 1943, d. 10. júlí 1946.
4. Hildur Eiríksdóttir húsfreyja, starfsmaður Ríkisútvarpsins, f. 21. mars 1947. Fyrri maður hennar Hreggviður Heiðarsson. Síðari maður Steindór Hálfdánarson.
5. Ágústa Eiríksdóttir húsfreyja, hjúkrunarfræðingur, f. 18. júní 1948. Maður hennar Snorri Björn Sigurðsson.
6. Jónína Eiríksdóttir húsfreyja, bókasafnsfræðingur og verkefnisstjóri, kennari, f. 14. febrúar 1952. Maður hennar Guðlaugur Óskarsson skólastjóri.
7. Magnús Eiríksson véltæknifræðingur, f. 10. desember 1953. Kona hans Ástþóra Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir.
8. Guðmundur Eiríksson byggingatæknifræðingur, húsasmíðameistari, f. 14. maí 1955. Fyrri kona hans Dagmar Hrönn Guðnadóttir. Kona hans Guðbjörg Lilja Jónsdóttir.
9. Ásmundur Eiríksson rafmagnsverkfræðingur, f. 6. október 1959. Kona hans Jóna Freysdóttir ónæmisfræðingur.
10. Aldís Eiríksdóttir iðjuþjálfi, f. 2. október 1960. Fyrrum maður hennar Jón Kristleifsson.
11. Ingveldur Eiríksdóttir, nemi, f. 9. apríl 1965.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Bergsætt. Guðni Jónsson. II. útgafa 1966.
  • Íslendingabók.
  • Íslenskir samtíðarmenn. Jón Guðnason og Pétur Haraldson. Bókaútgáfan samtíðarmenn 1965.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 22. júlí 2016.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.