Edda Scheving

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Edda Scheving.

Edda Scheving ballettdansari, skólastjóri fæddist 19. febrúar 1936 í Ólafsvík við Hilmisgötu 7 og lést 14. júlí 2002.
Foreldrar hennar voru Sigurður Scheving skrifstofumaður, leikari, f. 9. apríl 1910 á Steinsstöðum, d. 10. nóvember 1977, og kona hans Margrét Skaftadóttir Scheving frá Suður-Fossi í Mýrdal, húsfreyja, f. 28. júlí 1912, d. 2. nóvember 2009.

Börn Margrétar og Sigurðar:
1. Edda Scheving balletdansari, skólastjóri, f. 19. febrúar 1936 í Ólafsvík við Hilmisgötu 7, d. 14. júlí 2002. Maður hennar, skildu, Heimir Guðjónsson.
2. Birgir Kristinn Scheving kjötiðnaðarmaður, forstöðumaður í Keflavík, f. 21. maí 1937 á Hjalla, d. 26. júní 2003. Kona hans Ágústa Erlendsdóttir.
3. Baldur Sveinn Scheving rafvirkjameistari í Reykjavík, f. 31. október 1938 á Þingvöllum við Njarðarstíg 1. Kona hans Konny Hansen.
4. Gylfi Guðmundur Scheving verkstjóri, f. 6. janúar 1940 á Landagötu 21, býr í Reykjavík. Kona hans Jóhanna Hjelm.
5. Knútur Örn Scheving fulltrúi, býr á Hellu, f. 14. júní 1945 á Landagötu 21. Kona hans Anna Helga Kristinsdóttir.

Edda var með foreldrum sínum, í Ólafsvík, og við Landagötu 21, flutti með þeim til Reykjavíkur 1946.
Hún lauk landsprófi í Gagnfræðaskóla Austurbæjar, byrjaði dansnám hjá Sif Þórs 1947, stundaði nám í Dansskóla Félags Íslenskara listdansara 1948 til 1951 og í Listdansskóla Þjóðleikhússins 1952-1957. Hún sótti nám í Kaupmannahöfn 1959-1964, tók ballett- og danskennarapróf í Institut Carlsen 1959 og Therpsichore 1960. Hún sótti mörg sumarnámskeið síðar auk annarra námskeiða.
Edda dansaði og kenndi með Jóni Valgeiri Stefánssyni frá 1958, en stofnaði eigin skóla 1959-1960 og rak hann síðan, seinni árin með Brynju dóttur sinni og ballettkennara.
Hún dansaði víða, m.a. í Nýjársnótt, fyrstu sýningu Þjóðleikhússins 1950, í Ólafi Liljurós í Iðnó 1952 og Ég bið að heilsa í Þjóðleikhúsinu 1952. Síðan dansaði hún í fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu, óperum, óperettum og söngleikjum og í ballettsýningum Listdansskóla hússins og Félags íslenskra listdansara. Á Listahátíð 1970 kom hún einnig fram sem dansasmiður, þegar sýndur var í Iðnó ballettinn Út um græna grundu eftir Eddu og Ingibjörgu Björnsdóttur. Hún aðstoðaði við uppfærslu í Þjóðleikhúsinu 1970-1980 og tók þátt í listdanskynningu í skólum og víða um land á vegum menntamálaráðuneytisins 1969-1971.
Edda var einn af stofnendum Dansíþróttasambands Íslands og í stjórn þess frá stofnun 1963, gjaldkeri þar til 1969. Hún sat í stjórn Bandalags íslenskra listamanna 1970 til 1978, gjaldkeri 1970-1974. Hún var ritari Félags Íslenskra listdansara 1966 til 1970 og formaður 1970 til 1976, var fulltrúi félagsins á Listahátíð frá 1970 og í stjórn Listdanssjóðs Þjóðleikhússins frá stofnun 1980.
Edda var fyrsti framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins og einn af stofnendum KR-kvenna þar sem hún gegndi formennsku, en var einnig félagi í Lionsklúbbnum Eir.
Þau Heimir giftu sig, eignuðust tvö börn, en skildu.
Edda lést 14. júlí 2002.

I. Maður Eddu, skildu, er Heimir Guðjónsson, f. 13. júní 1937. Foreldrar hans voru Guðjón Ólafsson sjómaður, f. 22. september 1906, fórst með togaranum Verði 29. janúar 1950, og Friðrika Guðmundsdóttir, f. 31. mars 1905, d. 27. janúar 1999.
Börn þeirra:
1. Harpa Heimisdóttir, f. 28. júlí 1965. Sambúðarkona hennar Anna Jóhannsdóttir.
2. Brynja Scheving Heimisdóttir, f. 17. september 1968. Sambúðarmaður hennar Sveinbjörn Finnsson.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.