Birgir Kristinn Scheving
Birgir Kristinn Sigurðsson Scheving frá Landagötu 21, kjötiðnaðarmeistari fæddist 21. maí 1937 á Hjalla við Vestmannabraut 57 og lést 26. júní 2003.
Foreldrar hans voru Sigurður Scheving bókhaldari, leikari, síðar skrifstofustjóri, f. 9. apríl 1910 að Steinsstöðum, d. 10. nóvember 1977, og kona hans Margrét Skaftadóttir Scheving frá Suður-Fossi í Mýral, húsfreyja, f. þar 28. júlí 1912, d. 2. nóvember 2009.
Börn Margrétar og Sigurðar:
1. Edda Scheving balletdansari, skólastjóri eigin balletskóla, f. 19. febrúar 1936 í Ólafsvík við Hilmisgötu 7, d. 14. júlí 2002. Maður hennar, skildu, Heimir Guðjónsson.
2. Birgir Kristinn Scheving kjötiðnaðarmaður, forstöðumaður í Keflavík, f. 21. maí 1937 á Hjalla, d. 26. júní 2003. Kona hans Ágústa Erlendsdóttir.
3. Baldur Sveinn Scheving rafvirkjameistari í Reykjavík, f. 31. október 1938 á Þingvöllum við Njararstíg 1. Kona hans Konny Hansen.
4. Gylfi Guðmundur Scheving verkstjóri, f. 6. janúar 1940 á Landagötu 21. Býr í Reykjavík. Kona hans Jóhanna Hjelm.
5. Knútur Örn Scheving fulltrúi, býr á Hellu, f. 14. júní 1945 á Landagötu 21. Kona hans Anna Helga Kristinsdóttir.
Birgir var með foreldrum sínum, flutti með þeim til Reykjavíkur 1946.
Hann lærði kjötiðn hjá Sambandinu og stundaði framhaldsnám í Danmörku til 1960.
Birgir var í sveit á yngri árum, í 8 sumur hjá móðurfólki sínu í Mýrdal. Sextán ára hóf hann störf við verslun föður síns við Nesveg, þá hjá versluninni Kjöt og grænmeti þar sem hann vann til 1955. Hann starfaði í rúmt ár hjá Hovedstadens Brugsforening, sem var danska kaupfélagið. Árið 1962 flutti hann til Keflavíkur og tók að sér rekstur Kjötvinnslu Kaupfélags Suðurnesja, síðar Kjötsels. Birgir veitti kjötvinnslunni forstöðu í rúmlega 41 ár, allt til dánardags.
Birgir var einn af stofnendum Hestamannafélagsins Mána, tók hann virkan þátt í starfi félagsins fyrstu 15 starfsárin. Hann var ritari stjórnar frá 1965-1967, formaður stjórnar 1968-1970 og aftur ritari stjórnar á árunum 1974-1977. Birgir var fulltrúi Mána á ársþingi Landssambands hestamanna 1966, 1968, 1969 og 1970. Á þessum tíma tók Birgir m.a. virkan þátt í uppbyggingu félagssvæðis Mána á Mánagrund.
Þau Ágústa giftu sig 1972, eignuðust tvö börn og Ágústa átti tvö börn frá fyrri samböndum. Þau bjuggu síðast að Birkiteig 3 í Keflavík.
Birgir lést 2003 og Ágústa 2011.
I. Kona Birgis, (23.apríl 1972), var Ágústa Sigríður Erlendsdóttir frá Keflavík, húsfreyja, verslunarmaður, f. þar 23. apríl 1935, d. 15. október 2011. Foreldrar hennar voru Erlendur Sigurðsson skipstjóri, f. 15. júlí 1907 í Keflavík, d. 27. september 1970, og kona hans Vilborg Eiríksdóttir húsfreyja, f. 23. desember 1912 á Sandaseli í Meðallandi, V.-Skaft., d. 28. maí 2003.
Börn þeirra:
1. Sigmar Scheving viðskiptafræðingur, f. 25. nóvember 1971. Kona hans Linda Helgadóttir.
2. Davíð Scheving viðskiptafræðingur, f. 26. maí 1975. Kona hans Harpa Frímannsdóttir.
Börn Ágústu Sigríðar:
3. Erlendur Karlsson rafmagnsverkfræðingur í Svíþjóð, f. 15. desember 1956. Kona hans Elísabet Andrésdóttir.
4. Vilborg Sigríður Tryggvadóttir-MacNealy fasteignasali í Bandaríkjunum, f. 26. apríl 1967. Maður hennar Christupher MacNealy.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.
- Morgunblaðið 4. júlí 2003. Minning.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.