Blik 1980/Ágrip af sögu landbúnaðar í Vestmannaeyjum, IV. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Bliks 1980



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Ágrip af sögu landbúnaðar í Vestmannaeyjum
(4. hluti)


Byggingarbréf


Mér finnst það hæfa að birta hér afrit af einu byggingarbréfi Eyjabænda, sem Bliki barst á sínum tíma, þegar ég vann að því sem ákafast að afla gagna til að skrifa þetta ágrip af búnaðarsögu Vestmannaeyja. Glöggur lesandi vegur og metur ákvæði þessa byggingarbréfs, réttindi bónda og skyldur.
Magnús Jónsson umboðsmaður yfir þjóðjörðum í Vestmannaeyjum
Gjöri kunnugt: að ég byggi Jóni Péturssyni jörðina Eystra-Þórlaugargerði í Vestmannaeyjum, sem fóðrar eina kú og einn hest, auk annarra hlunninda, til að mynda hagagöngu í Elliðaey fyrir fimmtán og á heimalandi fyrir tólf fjár, einnig fuglatekju á báðum þessum stöðum og í Hellisey, Súlnaskeri og Stórhöfða móts við þá, er þar eiga hlut í, til ábúðar og leigunota frá næstkomandi fardögum með þessum skilmálum:

1.


Hann skal gjalda hvert ár fyrir lok júnímánaðar í ákveðna landsskuld af jörðinni - hndr. 60 ál. (segi sextíu álnir) á landsvísu, og greiða skuldina heima hjá mér í peningum eða innskrift hjá kaupmönnum, sem ég tek gilda, eða þá með fiski og dún, eftir því verði, sem sett er á þessa landaura í verðlagsskrá hvert ár, enda sé það verð ekki hærra en gangverð í gjalddaga. Landskuldina ber að greiða eftir meðalalin þeirrar verðlagsskrár, sem ræður á réttum gjalddaga.

2.


Sé landskuldin eigi greidd í ákveðinn tíma, verður hún tekin lögtali samkvæmt lögum 16. des. 1885 um lögtak og fjárnám án undanfarins dóms eða sáttar, og fer að öðru leyti eftir því, sem fyrirmælt er í lögum 12. jan 1884 um byggingu, ábúð og úttekt jarða, 24. gr.

3.


Hann skal gjalda alla þá skatta og skyldur, sem leiguliða ber að gjalda að lögum þeim, er nú eru í gildi eða seinna verða sett án alls endurgjalds af landsdrottni.

4.


Hann skal vandlega yrkja og rækta tún jarðarpartsins, og sér í lagi:

a) slétta það, sem þýft er í túninu, svo að nemi minnst 50 ferföðmum á hverju ári.
b) á hverju ári bera á túnið allt, sem til þess er nýtilegt.
c) drýgja áburðinn svo sem verður með moldu, þangi, fiskinnýflum og öðru, og skal hann, ef hann ekki býr sjálfur á jörðinni, hafa þar hey sitt og kú í fjósi, svo að túnið fái sem mestan og beztan áburð.
d) hey eða áburð má hann eigi selja frá jörðinni.
e) hann skal verja vandlega túnið, bæði vor og sumar, við átroðningi af mönnum og skepnum.
f) einnig ber honum að yrkja vel kálgarð sinn og halda honum við sem bezt.

Verði umboðsmaður var við hirðuleysi hjá landseta í þessum greinum, skal honum vera heimilt að láta tvo skynsama menn óviðriðna, sem sýslumaður nefnir til, skoða og meta meðferð landseta á jörðinni; þá eftir því sem fyrirmælt er í lögum 12. jan. 1884, 19. gr.,sbr. 23. gr., og varðar það sér í lagi útbyggingu, ef hann verður uppvís að því að hann hafi selt eða á annan hátt afhent hey eða áburð frá jörðinni.

5.


Leiguliði skal ætíð og á kostnað sjálfs sín, halda vel uppi húsum á jörðinni, bæði að viðum, veggjum og þaki; og þegar hann fer burt af jörðinni eða deyr, skal þeim skilað að lögum, ásamt húsgörðum og túngörðum, hvernig sem ofanálag það hefur verið, er hann fékk eða átti að fá, þá er hann tók við jörðinni, og skal hann sjálfur heimta það á sinn kostnað. Byggi leiguliði ný hús á jörðinni á sinn kostnað, má hann ekki rjúfa þau né flytja, nema umboðsmaður leyfi, og skal hann fyrst bjóða honum þau til kaups eftir virðingu þeirri, sem á þau er sett af óviðriðnum, skynsömum mönnum. Sama er að segja um heyflutinga af jörðinni, og skal með hvorttveggja fara eftir hinum gildandi lögum, sem sé lögum 12. jan. 1884, 9. og 10. gr.

6.


Finnist brestir á húsum, túni, túngörðum eða öðru, þegar leiguliði flytur sig af jörðinni eða hann deyr, skal hannn eða bú hans og erfingjar bæta þá eftir löglegri virðingu. Skoðunar- og virðingargjörð borgi hann að hálfu móts við þann, sem að jörðinni fer.

7.


Hann skal halda undir jörðina öllu því, sem henni heyrir til með réttu, af túni, beitilandi og fuglatekju o.s.frv. Reyni nokkur að ná undan honum einhverju af þessu, skal hann tafarlaust segja umboðsmanni til, og fer þá eftir lögum 12. jan. 1884, 12. gr. síðari málsgrein.

8.


Leiguliði má ekki skera meira húsatorf en þörf gerist, og ekki má hann skera meira torf en álnarlangt.

9.


Um allan reka fyrir landi jarðarinnar, hvort sem hann er landfastur eða ekki, skal hegða sér eftir auglýsingu umboðsmanns um skipti á rekafjörum og reka í Vestmannaeyjum, dagsettri 25. febr. 1896 og þinglesinni á manntalsþingi s.á., þangað til öðruvísi verður fyrir skipað.

10.


Hann má ekki taka húsmenn eða lausamenn á jörðina, ekki heldur leigja eða ljá nokkuð af túni, beitilandi eða fuglatekju, nema umboðsmaður leyfi. Hann skal haga sér nákvæmlega eftir samþykkt um ýmisleg atriði, sem snerta fuglaveiðar í Vestmannaeyjum, 16. júlí 1885. Lundi skal friðaður sóla á milli á virkum dögum, svo og alla helgidaga. Enga pysju má veiða nema í Almenningsskeri og fýlabyggð með samþykki sameignarmanna (sbr. bréf landshöfðingja 20. nóv. 1889).

11.


Hann skal yfir höfuð vera umboðsmanni hlýðinn og trúr, og í öllu breyta eftir landslögum og skipunum yfirvalda.

12.


Með þessum skilmálum er Jóni Péturssyni heimil ábúð áðurnefndrar jarðar ævilangt, og ekkju hans eftir hans dag, meðan hún er ógift.
En haldi hann ekki skilmála þessa, varðar það útbyggingu, sbr. lög 12.jan. 1884, 18. og 19., 22 og 23.gr.
Þá útbygging skal birta honum fyrir nóttina helgu, og skal hann þá fara af jörðinni 14. dag næstkomandi maímánaðar. Ef leiguliði beitir þrásetu eða vill eigi fara af jörðinni, þá er honum hefur verið byggt út löglega (á réttum tíma, bréflega og við votta), eða byggingartími er á enda, eða svo er ástatt, sem segir í 24. grein laga 12.jan.1884, þá fer eftir því, sem fyrir er mælt í 29. grein nefndra laga. Vilji hann ekki lengur búa á jörðinni, skal hann segja henni lausri fyrir nóttina helgu, og ella sitja kyrr á jörðinni til næsta árs.

Yfir höfuð verður um réttindi og skyldur landsdrottins og leiguliða að breyta eftir lögum 12. jan. 1884 um bygging, ábúð og úttekt jarða.

13.


Af þessu byggingarbréfi eru tvð samhljóða bréf rituð; annað, frumbréfið, sem fest verður við skoðunar- og virðingargjörðina, selst í hendur leiguliða, en hitt geymir umboðsmaður, og er á það rituð skuldbinding leiguliða að hlýðnast skilmálunum. Þegar Jón Pétursson fer af jörðinni, skal hann skila aftur byggingarbréfinu.
Þessu til staðfestu er nafn mitt undirskrifað og innsigli hjá sett.

Vestmannaeyjum, 11. febrúar 1905.
Magnús Jónsson
Vestmannaeyjasýsla (Stimpill)
Við byggingarbréfi því, sem þessu er samhljóða, og skoðanagjörð þeirri, sem um er getið 12. og 13. grein, hefi ég nú tekið, og skuldbind mig að halda skilmála þessa í öllum greinum.
Vestmannaeyjum, 11. febrúar 1905.
Jón Pétursson
vitundarvottar:
Bjarni Einarsson.
Sigurður Sveinbjörnsson
Bygginarbréf handa Jóni Péturssyni fyrir jörðinni Eystra Þórlaugargerði. Byggingarbréf þetta samþykkist hér með. Í stjórnarráði Íslands, 18. marz 1905.
F.h.r. Kl. Jónsson.
------
Jón Hermannsson.


Töluverðum hluta Heimaeyjar skipt
í ræktunarskákir


Hin beinskeyttu hvatningarorð, sem ég hefi skráð hér eftir hinum kunnu jarðræktarfrömuðum og forgöngumönnum í íslenzkum landbúnaðar- og jarðræktarmálum, höfðu vissulega mikil áhrif á hug og hjarta Eyjamanna til ræktunarmálanna og orkuðu á þá til átaka í þessum efnum. Jafnframt orkuðu skrif þeirra á hug og skoðanir bænda og búafólksins yfirleitt í byggðarlaginu varðandi það, að eftir yrði gefið og þurrabúðarfólkinu gefinn kostur á landi til ræktunar, þrátt fyrir túlkun og skoðanir bændanna á sérréttindaákvæðum byggingarbréfanna.

Nú var ekki til setu boðið lengur. Hinir áhugasömu og dugmiklu stjórnarmenn Búnaðarfélags Vestmannaeyja tóku nú til óspilltra málanna.

Eftir því sem ég les í rituðu máli Þorbjörns bónda Guðjónssonar á Kirkjubæ, fyrsta gjaldkera Búnaðarfélagsins og síðan formanns þess, þá var samningurinn milli Eyjabænda annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar gjörður með þeim ákvæðum, að 19 jarðir á Heimaey voru teknar úr ábúð. Bændur á þessum jörðum fengu að halda túnum sínum og fengu að auki 2 ha. af mólandi til ræktunar eða beitar. Svo fengu þeir að auki lækkuð afgjöld, svo að nam töluverðum hluta hins eiginlega samningsbundna afgjalds eða 15%.
Alls skyldu svo að auki 29 jarðir í Eyjum fá 7 ha. lands af sæmilega ræktanlegu landi, og voru tún þeirra falin í því flatarmáli. Að auki skyldu svo þessar 29 jarðir fá 2 ha. af grýttu og gróðurlitlu landi.
Því ræktanlega landi á Heimaey, sem þá var eftir óskipt, þegar bændum höfðu verið mældar út þessar skákir, var skipt í 2 ha. skákir eða þar um bil, og skyldi svo þurrabúðarmönnum gefinn kostur að fá þær til ræktunar.
Ekki leið á löngu þar til Búnaðarfélag Vestmannaeyja taldi nálega 100 félagsmenn, sem þegar höfðu fengið land til ræktunar, flestir a.m.k. Og nú var tekið til hendinni svo að um munaði í ræktunarframkvæmdum Eyjamanna.
Á þessu tímaskeiði í útgerðarsögu Vestmannaeyja var það algengast, að mikill hluti Eyjabáta var ekki gerður út að sumrinu. Þá lágu bátar Eyjamanna við ból sín á höfninni eða stóðu í dráttarbraut. Eyjamönnum sjálfum gafst þá tóm til að stunda jarðræktarstörfin og það gerðu þeir af áhuga og ötulleik, svo að árangurinn leyndist ekki og bar bráðlega ríkulegan ávöxt.


B.V. gengur í Búnaðarsamband Suðurlands


Árið 1908 stofnuðu búnaðarfélög bænda á suður- og suðvesturlandi með sér samband, sem hlaut nafnið Búnaðarsamband Suðurlands. Tilgangur þessara búnaðarfélagasamtaka var m.a. sá, að stuðla að aukinni fræðslu meðal bænda í jarðræktar- og búnaðarmálum og svo búpeningsrækt, auðvelda kaup þeirra á margskonar jarðræktaráhöldum og stærri tækjum, svo sem plógum, sláttuvélum, herfum og dráttarvélum, sem þá var tekið að bóla á. Þá veitti Búnaðarsamband Suðurlands bændum aðstoð við að nálgast áburð, sem þá var allur keyptur erlendis. Samband þetta veitti bændum einnig styrk til jarðræktarframkvæmda og var milliliður um útvegun á fjármagni til margskyns búnaðarframkvæmda í sveitum. Brátt fór mikið orð af því, hversu Búnaðarsamband Suðurlands reyndist bændastéttinni hallkvæmt hagsmunasamband, sem fékk miklu áorkað.
Á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands 1926 lá fyrir inntökubeiðni frá Búnaðarfélagi Vestmannaeyja og var hún fúslega samþykkt af öllum fundarmönnum.


Meginathafnir stjórnar Búnaðarfélags Vestmannaeyja
á árunum 1924-1954


Leysa þurfti úr vanda. Segja má með sanni, að hinni fyrstu stjórn Búnaðarfélgs Vestmannaeyja var mikill vandi á höndum, er hún hóf starf sitt til eflingar ræktunarmálum Eyjamanna og landbúnaði í heild. Fyrsta vandamálið var sálfræðilegs eðlis, ef svo mætti orða það. Orka þurfti á hug Eyjabænda, svo að þeir fengjust án úlfúðar eða ófriðar til að láta af hendi hefðbundin réttindi á öllu landi Heimaeyjar utan hins lögboðna verzlunarsvæðis sunnan við höfnina.
Þarna tók stjórnin þau ráð að fá þjóðkunna áhrifamenn og þekkta forgöngumenn íslenzka landbúnaðarins til þess að kynna sér allar ræktunaraðstæður í Eyjum og láta síðan í ljós álit sitt og skoðanir um þessi hagsmunamál alls Eyjafólks í heild. Árangurinn af þessu starfi félagsstjórnarinnar voru ferðir hinna þjóðkunnu manna til Eyja og skrif þeirra, sem ég hef drepið hér á og birt að nokkru leyti. Áhrif þessara skrifa urðu heilladrjúg. Þau vöktu skilning Eyjabænda og búaliðs á nauðsyn þess, að þeir hættu með öllu að hanga í bókstafnum, ef þá einhver var, og slökuðu á öllum óljósum ákvæðum um einkaréttindi sín á landinu.
Þannig leystust þessir hnútar friðsamlega öllu Eyjafólki til heilla og blessunar. - Þetta var hinn fyrsti sigur búnaðarfélagsstjórnar í þessum miklu hagsmunamálum. Þar naut stjórnin vissulega heilladrjúgrar hjálpar áhrifamanna, - líka innan bæjarfélagsins, eins og ég hefi getið um og vil hér endurtaka og undirstrika.

Verkfærakaup. Með jarðræktarlögunum 1923 var jarðræktarmönnum gerð leiðin auðveldari til lána út á jarðræktarframkvæmdir. Einnig voru þar ákvæði um styrk úr ríkissjóði út á unnar jarðabætur. Búnaðarfélög hreppanna eða kaupstaðanna voru þarna milliliðir, höfðu samband við Búnaðarfélag Íslands um lán og styrkveitingar til einstaklinganna, sem inntu af hendi jarðræktarframkvæmdir.
Í þessum efnum var stjórn Búnaðarfélags Vestmannaeyja vel á verði og veitti drengilega aðstoð sína til þess að útvega þessi lán og styrki. Sú aðstoð var einstaklingunum mikil hvatning. Í fjárþröng sinni á kreppuárum notuðu jarðræktarmenn æði oft þessa styrki til kaupa á nauðsynlegum verkfærum til þess að geta haldið fram með og aukið jarðræktina til stuðnings og aukinna fæðufanga heimili sínu.
Þá festi stjórn Búnaðarfélags Vestmannaeyja sjálf kaup á ýmsum stærri jarðyrkjuverkfærum, svo sem plógum, herfum og völturum. Einnig festi hún kaup á smærri verkfærum, handverkfærum margskonar, sem félagsmenn keyptu síðan af Búnaðarfélaginu eða fengu lánuð um stundarsakir sér til vinnuléttis.
Búnaðarfélagsstjórnin keypti forardælur, sem hún lánaði félagsmönnum til þess að dæla upp áburðarlegi úr safnþrónum. Þær voru fluttar milli manna allt vorið. Þær léttu vissulega öll þessi störf, - gerðu mönnum auðveldara að dreifa áburðarleginum á túnin og í garðana.

Ráðnir búfræðingar til starfa. Þegar í upphafi ræktunartímabilsins sá búnaðarfélagsstjórnin mikla nauðsyn þess að fá vana jarðræktarmenn til Eyja með stórvirk nýtízkutæki til þess að vinna fyrir félagsmenn og kennna þeim að nota verkfæri, ef þeir æsktu þess. Hér naut Búnaðarfélag Vestmannaeyja aðstoðar Búnaðarsambands Suðurlands.
Haustið 1926 réð Búnaðarsamband Suðurlands til Eyja Ingimund Jónsson, búfræðing frá Hala í Holtum, síðar bónda þar, til þess að plægja fyrir Eyjamenn. Allur þorri þeirra hafði þá ekki séð plóg áður eða séð unnið með honum. Búfræðingurinn plægði 3 dagsláttur lands í Eyjum þetta haust eða um það bil einn hektara (ha).
Það mun hafa verið veturinn 1928 að stjórn Búnaðarsambandsins réð til Eyja jarðyrkjumann með dráttarvél. Hann hét Ásmundur Guðmundsson. Þann vetur tætti hann 8-9 ha. lands fyrir Eyjamenn. Það þótti mikilvægt og markvert framtak.
Þessi dráttarvélarnotkun í Eyjum leiddi til þess, að áhugi búnaðarfélagsstjórnarinnar og skilningur á gildi dráttarvélarinnar vaknaði. Stefnt skyldi að því að kaupa dráttarvél til bæjarins. Það mál var rætt við búnaðarmálastjóra í Reykjavík sökum þess, að Búnaðarfélag Íslands réði svokölluðum Vélasjóði, sem ætlað var að lána fé til jarðyrkjuvélakaupa. - Þá vantaði einnig mann til Eyja, sem kynni að stjórna slíkri vél og vinna með henni. Búnaðarmálastjóri leysti drengilega úr þessum vanda Eyjamanna.
Árið 1928 sendi búnaðarmálastjóri til Eyja nýútsprunginn búfræðing frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal. Sá heitir Helgi Benónýsson frá Draghálsi í Skorradal. Stjórn Búnaðarfélags Vestmannaeyja réði þennan búfræðing til starfa í Eyjum þá þegar. Hann vann síðan jarðyrkjustörf fyrir Eyjamenn næstu 10 árin.
Hann kvæntist vestmannaeyskri heimasætu og undi yfirleitt vel hag sínum í Eyjum.
Bráðlega eftir komuna til Eyja og fastráðninguna þar, gekkst Búnaðarfélag staðarins í ábyrgð fyrir kr. 2000,00 til handa búfræðingnum til kaupa á dráttarvél. Stjórn félagsins vildi heldur ýmissa hluta vegna, að búfræðingurinn ætti sjálfur dráttarvélina en Búnaðarfélagið og styrkti hann óhikað til kaupanna.
Oft var það bæði fyrr og síðar búnaðarfélagsstarfinu og jarðræktarmönnum Eyjanna til styrktar og framdráttar, hversu stjórnarmennirnir höfðu sjálfir mikið lánstraust og voru þekktir reiðumenn í öllum viðskiptum.

Byggð kartöflugeymsla. Árið 1939 lauk stjórn Búnaðarfélagsins við að láta byggja kartöflugeymslu til nota félagsmönnum. Hún var sérstaklega ætluð til geymslu á útsæðiskartöflum. Hannes Sigurðsson, bóndi á Brimhólum, þá gjaldkeri Búnaðarfélagsins, sá um framkvæmd þessa verks. - Geymslan kostaði þá um kr. 2000,00 fullgerð til notkunar. Hún þótti síðan mikið þarfaþing öllum bæjarbúum, sem hana notuðu, og þeir voru margir. Hún var byggð í námunda við Brimhóla og þá falin gjaldkera Búnaðarfélagsins til umsjónar. Þar voru lyklavöldin.

Búfræðsla. Brátt eftir að Búnaðarfélag Vestmannaeyja tók til starfa, vann stjórn þess að því að auka fræðslu almennings í garðyrkju, túnrækt og fóðrun búfjár. Í þessu starfi naut stjórnin aðstoðar og hjálpar Búnaðarfélags Íslands og Búnaðarsambands Suðurlands.
Veturinn 1927 sendu þessi búnaðarsamtök í sameiningu einn af ráðunautum sínum til Vestmannaeyja til þess að fræða bæjarbúa um garðyrkju. Það var hinn kunni garðyrkjuráðunautur Ragnar Ásgeirsson. Þá átti almenningur í bænum þess kost að hlusta á fyrirlestra hans um kartöflurækt, rófnarækt og ræktun fleiri garðávaxta. Þá flutti hann einnig fyrirlestur um kartöflusýkina, sem þá olli orðið miklum skaða víða um land. Margir Eyjamenn hlustuðu á þessa fyrirlestra ráðunautsins, enda var garðræktin þá mikilvægur þáttur í fæðuöflun Eyjafólks.
Árið 1929 var haldið búnaðarnámskeið í Eyjum. Þá fluttu þar fyrirlestra um jarðrækt og garðrækt ráðunautar Búnaðarfélags Íslands, þeir Pálmi Einarsson og Ragnar Ásgeirsson. Einnig styrkti þá Búnaðarfélag Íslands Kvenfélagið Líkn í Eyjum til þess að halda námskeið í matreiðslu grænmetis.
Síðla sumars 1938 heimsóttu Eyjar tveir landkunnir menn og héldu þar fyrirlestra á vegum Búnaðarfélags Vestmannaeyja. Það voru þeir Steingrímur Steinþórsson, búnaðarmálastjóri, og Jörundur Brynjólfsson, bóndi í Skálholti og alþingismaður.
Um haustið sendi síðan Búnaðarfélag Íslands tvo kunnustu ráðunauta sína til Eyja til þess að halda þar námskeið með fyrirlestrahaldi um nautgriparækt, garðrækt og almenn búnaðarmál. Þetta voru þeir ráðunautarnir Páll Zophoníasson og Stefán Þorsteinsson.
Þegar leið fram á veturinn, kom Árni ráðunautur Eylands til Eyja og flutti almenningi fyrirlestur um búnaðarmál og sýndi merka kvikmynd til skýringar máli sínu. Að málflutningi þessara gesta var gerður góður rómur í kaupstaðnum.
Vissulega hafði sú búnaðarfræðsla, sem þeir veittu almenningi í bænum, áhrif og gildi búnaðarmálum Eyjamanna til framdráttar og eflingar.
Árið 1949 sendi Búnaðarsamband Suðurlands einn af ráðunautum sínum til Vestmannaeyja til þess að efna til fræðslustarfs um búnaðarmál og leiðbeina jarðræktarmönnum. Þá reyndist áhugi Eyjafólks á landbúnaði enginn orðinn, svo að áheyrendur fyrirlestranna voru engir nema stjórnendur Búnaðarfélagsins og þó ekki allir.

Verzlun Búnaðarfélagsins. Þá var það veigamikið hagsmunamál öllum jarðræktarmönnum í Eyjum og mjólkurframleiðendum að ná sem allra hagkvæmustum kaupum á margskonar vörum, sem nauðsynlegar eru jarðræktarmönnum og mjólkurframleiðendum, svo sem tilbúnum áburði, fóðurbæti, útsæðiskartöflum, grasfræi, girðingarefni o.fl. o.fl. - Bráðlega stofnaði stjórn Búnaðarfélags Vestmannaeyja til innkaupa á þessum vörum öllum og rak verzlun með þær um árabil á vegum félagsins.
Árið 1926 eða tveim árum eftir stofnun, mun Búnaðarfélag Vestmannaeyja hafa hafið verzlun sína með ýmsar þarfir bænda og annarra jarðræktarmanna og mjólkurframleiðenda. Þetta ár fékk það keypt til Eyja 115 poka af loftáburði og var það fyrsti loftáburðurinn, - saltpétur, - sem fluttist til Eyja. Þá var knappt um gjaldeyri og þurfti að sækja um þau leyfi til opinberra stjórnvalda. Það mun staðreynd, að búnaðarmálastjórinn, Sigurður Sigurðsson, beitti sér fyrir því í það sinn, að Búnaðarfélag Vestmannaeyja fengi gjaldeyri fyrir áburðarkaupum þessum. - Eitthvað fékk þá Búnaðarfélagið keypt af fóðurbæti, sem keyptur var frá Englandi.
Lengst af var Hannes Sigurðsson, bóndi á Brimhólum, forstöðumaður þessa verzlunarstarfs. Hann var jafnframt gjaldkeri Búnaðarfélagsins um árabil. Hann þótti ætíð inna af hendi þetta framkvæmdastjórastarf af mikilli trúmennsku og hyggni. Þegar borið var saman almennt söluverð á nefndum vörum í bænum við útsöluverð Búnaðarfélagsins, var hagnaður félagsmanna býsna mikill af samtökum þessum og rekstri. Einnig hafði Búnaðarfélagið sjálft nokkurn fjárhagslegan hagnað af vörusölunni. Þann hagnað notaði stjórnin til áhaldakaupa. Hún keypti fyrir þá peninga plóga, herfi, forardælur, heysnúningsvélar og svo síðast fullkomna dráttarvél, með plóg og herfi. Auðvitað hrukku ekki þessir fjármunir til allra þessara kaupa, en þeir léttu þau, og hyggindi og vilji stjórnarmanna á þessu sviði jók Búnaðarfélaginu lánstraust og álit. Vitaskuld naut það einnig lána úr Vélakaupasjóði ríkisins til allra þessara verkfæra- og vélakaupa.
Það var vitað mál, að kaupmönnum í bænum var ekki sérlega hlýtt til vörukaupa og verzlunarreksturs Búnaðarfélags Vestmannaeyja.
Dag nokkurn lagði Gunnar Ólafsson kaupmaður og aðaleigandi Tangaverzlunarinnar leið sína í vörusölu Búnaðarfélagsins til þess að glettast við Hannes bónda og hafa orðaskipti við hann í hálfkæringi, en bóndi var jafnan léttur í máli og viðbúinn öllu. Hann þekkti líka vel allt sitt heimafólk.
„Láttu mig stíga á vigtina hjá þér, Hannes bóndi,“ sagði kaupmaðurinn í gáska sínum og hálfkæringi, - glettni blandinni gremju. - Það var auðsótt mál.
Hannes bóndi notaðist við gamla svokallaða „desimalvog“ með lóðum. Hún hafði vikið úr einni verzluninni fyrir nýrri gerð af vogum, sem gerð var af meiri og fullkomnari tækni. Þessa gömlu vog hafði Búnaðarfélagsstjórnin fengið síðan lánaða til þess að spara félaginu kostnað við verzlunarrekstur sinn.
Hannes bóndi tíndi mörg lóð á lóðarflöt vogarinnar, því að kaupmaður var vel í holdum. Loks tókst að ná jafnvægi. „Já, þetta vissi ég,“ sagði kaupmaður höstum rómi. „Vogin þín er vitlaus, og þú snuðar alla, sem skipta við þig. Það þyrfti almenningur í bænum að fá að vita.“ „Þetta hefur mig lengi grunað,“ sagði Hannes bóndi, „því að lóðin eru öll fengin að láni hjá Tangaverzluninni. Þá þyrfti almenningur hér í bæ að fá að vita það, hvernig hún hefur grætt sína miklu fjármuni.“ - Þar með tóku þeir kunningjarnir upp léttara hjal, og þó ef til vill ekki allt græskulaust.
En nú voru tímar mikilla breytinga og jafnvel byltinga á næstu grösum. Seinni heimsstyrjöldin hófst haustið 1939. Meðal annars hófust þá tímar þrenginga og víðsjálni í allri verzlun og viðskiptum. Brátt þrengdi að um allan innflutning til landsins. Einnig urðu þá öll gjaldeyrisviðskipti erfiðari.
Búnaðarfélag Vestmannaeyja átti nú orðið undir högg að sækja um gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir fóðurvörum, áburði og grasfræi, svo að það helzta sé nefnt. Til allrar hamingju hafði félgið þá fest kaup á hinum mikilvægu og fullkomnu jarðyrkjutækjum eða stuðlað að kaupum þeirra til bæjarins.
Allt verðlag fór ört vaxandi. En söluverð framleiðendanna var fært í fjötra. Mjólkurverðið mátti ekki hækka nema með leyfi vissra stjórnvalda. Og það leyfi fékkst ekki fyrst um sinn a.m.k. - Menn missa smámsaman áhuga á rekstri þeim, sem skilar engu öðru en tapi, en kostar þó mikið strit og margskyns fyrirhðfn.
Og nú tók líka sundurþykkja að kræla á sér innan Búnaðarfélagsstjórnarinnar. Meiri hluti hennar vildi ekki láta Búnaðarfélagið reka verzlun sína lengur. Hann fékk því framgengt, að öll innflutnings- og gjaldeyrisleyfi félagsins voru afhent kaupmönnum og kaupfélaginu í bænum til nota. Þá tóku félagsmenn í taumana og deildu hart á stjórnina. Flokkadrættir og pólitík létu á sér kræla í ríkum mæli hjá almenningi í bænum gagnvart meirihlutamönnum í búnaðarfélagsstjórninni. Klögumálin gengu á víxl og hart var deild með brigzlyrðum og buslugangi.
Þetta, mun hafa gerzt árið 1940. Næsta ár var þessu kippt í lag almenningi í bænum „til yndisauka“, með því að Búnaðarfélagið hóf verzlun sína á ný með Hannes bónda í fararbroddi. Hann þótti jafnan standa sig með afbrigðum vel í því þjónustustarfi. Og alltaf skilaði verzlun Búnaðarfélagsins arði, þó að það seldi vörur sínar undir gangverði í kaupstaðnum.
Til dæmis um vörukaup Búnaðarfélagsins árið 1944 óska ég að nefna, að þá keypti það 400 poka af útsæðiskartöflum handa félagsmönnum eða 20 smálestir, 1000 kg. af grasfræi og 2000 kg. af sáðhöfrum. Kjarnfóðurkaup þessarar verzlunar á ári hverju nam tugum tonna.
Í árslok 1946 nam skuldlaus eign Búnaðarfélags Vestmannaeyja kr. 42.197,00. Þetta þótti töluvert fé þá. Þá ber að hafa í huga, að allar eignir félagsins höfðu verið afskrifaðar.
Í árslok 1947 voru skuldlausar eignir Búnaðarfélagins metnar á kr. 53.816,68 og við árslok 1948 kr. 68.265,oo.
Og eignir Búnaðarfélags Vestmannaeyja áttu þá eftir að fara drjúgum vaxandi að verðgildi ár frá ári.
Ég greini hér þessi dæmi um hinn trausta fjárhag Búnaðarfélagsins undir stjórn þessara fulltrúa fólksins, sem áttu það að hugsjón að efla með Eyjamönnum aukinn landbúnað, ekki minnst til þess að tryggja almenningi í bænum betra heilsufar og batnandi efnahag.
Þessara talna get ég hér til þess að sýna og sanna, hversu mikinn og heilladrjúgan ávöxt félagsstörf búnaðarfélagsstjórnarinnar báru til hagsbóta öllum almenningi í Eyjum, því að hagur Búnaðarfélags Vestmannaeyja á þessum fyrstu 30 aldursárum sínum var öllu byggðarlaginu til mikillar blessunar og hags- og heilsubóta. Og hefi ég þá í huga hina miklu mjólkurneyzlu ungra og aldinna í Eyjum á þessum árum. Blær mjólkurskortsins var fyrir löngu horfinn af barnsandlitunum. - En sagan endurtekur sig, segir máltækið. Og það gerist einmitt í Vestmannaeyjum á síðari árum þessa tímabils, sem ég fjalla um hér í grein minni. Ég kem að því síðar, þegar ég hefi sýnt lesanda mínum og sannað honum hið mikla jarðabótaverk, sem Eyjamenn komu í framkvæmd á árunum 1924-1954 og síðar, þó að allt færi það rýrnandi ár frá ári eftir heimsstyrjöldina, þar til yfir lauk með eldsumbrotunum 1973.

Bygging safngryfja. Mikilvægt verkefni búnaðarfélagsstjórnarinnar var það að stuðla að því í ríkum mæli, að jarðyrkjumenn Eyjanna byggðu sér safngryfjur við tún sín til þess að safna í slógi og salernisáburði m.m. að vetrinum til áburðar á tún sín og í garðlönd að vorinu. Til þess að fá þessum mikilvægu þörfum fullnægt sem mest og bezt, festi stjórnin kaup á steyputimbri, sem síðan var lánað þeim mönnum, sem óskuðu að byggja þessar safngryfjur. Um tíma festi stjórn Búnaðarfélagsins einnig kaup á sementi, sem hún lánaði jarðræktarmönnum í þessu skyni. Hún tók væntanlegan jarðræktarstyrk þeirra í veð fyrir sementsláninu. Þessi umsvif Búnaðarfélagsstjórnarinnar gagnaðist mörgum mæta vel og efldi mjög athafnir manna og framtak til að byggja safngryfjurnar, svo að áburðurinn notaðist þeim betur, en nóg var af honum í verstöðinni á vissum tíma árs, þ.e. á vertíð.
Jarðabótaskýrslur þær, sem ég birti hér á bls. 72 og bls. 74 gefa okkur nokkra hugmynd um hið mikla framtak, sem Eyjamenn inntu af höndum á þessu sviði á árunum 1926-1967. Þá er rétt að minna á það, að nýtízku flutningatæki komu hér til sögunnar og léttu alla flutninga stórlega. Fyrsta flutningabifreiðin var flutt til Eyja í júlí 1919. Margar komu á eftir næstu árin. Gildi þeirra og mikilvægi fór árvaxandi með aukinni vegalagningu um Heimaey, t.d. með ræktunarveginum í kringum Helgafell og Stórhöfðavegi.

Viðkvæm vandamál. Eftir að landi Heimaeyjar var skipt í ræktunarskákir, þá áttu leiguliðasamningar bændanna í Eyjum við ríkisvaldið eftir að valda nokkrum erfiðleikum. Margir þeirra og svo þurrabúðarmenn í skjóli þeirra voru enn á þeirri skoðun, að frjálst væri að láta sauðfé ganga óhindrað um land Heimaeyjar svo að segja allt árið, því að túnræktar- og garðræktarmönnum bæri skylda til að girða landspildur sínar fjárheldri girðingu.
Stjón Búnaðarfélags Vestmannaeyja neyddist til að taka þessa fjárbeitardeilu til úrlausnar, þó að það væri viðkvæmnismál og jafnvel hitamál sumra fjáreigendanna. - Eins og svo oft áður, þá reyndust framámenn Búnaðarfélags Íslands jarðræktar- og garðræktarmönnum í Eyjum áhrifaríkastir og hallkvæmastir í þeirri deilu, sem spratt af fjárbeit þessari. Hún fékk þann endi 1932, að undirritaður var samningur milli Eyjabænda og ríkisvaldsins. Stjórnarráð Íslands staðfesti hann árið eftir. Hann var þess efnis, að fjárbeit á landi Heimaeyjar skyldi með öllu lokið. - Fjöllin á Heimaey skyldu girt fjárheldri girðingu og allt sauðfé manna síðan látið ganga þar til beitar. Girðingarefnið skuldbatt ríkissjóður sig að greiða og láta flytja Eyjabændum heim að kostnaðarlausu. Hins vegar skyldu svo bændur setja upp allar girðingar ríkinu að kostnaðarlausu. Þessar skuldbindingar voru undirritaðar af báðum aðilum vorið 1933. Síðan bar Eyjamönnum að annast viðhald girðinganna á eigin kostnað.
Kúaeigendum bar að beita kúm sínum innan eigin girðingar hvers og eins. Jafnframt þessu var öll hrossabeit á Eynni afráðin í girðingu sunnan Helgafells og í Herjólfsdal. Eitthvað meira af landi Heimaeyjar mun hafa verið ætlað hrossum. - Smávegis beitargjald af hverri kind skyldi síðan hver fjáreigandi greiða í einskonar girðingarsjóð til viðhalds girðingunum. Innheimtu þeirra og varðveizlu annaðast Búnaðarfélag Vestmannaeyja.
Eitt var það vandamál, sem stjórn Búnaðarfélagsins varð að takast á við fljótlega eftir stofnun þess. Það var sú gamla venja að láta hænsnin í bænum ganga laus, ef svo mætti orða það, - girða þau ekki af. Með því móti gerðu þau oft slæman usla í matjurtagörðum manna, rótuðu þar og rifu upp gróður.
Stjórn Búnaðarfélagsins vann að því að settar voru og samþykktar fastar reglur um hænsnarækt, gang þeirra og geymslu. Þær reglur þóttu koma dálítið óþægilega við ýmsa, snerta hagsmuni þeirra, en nutu þó brátt viðurkenningar alls almennings í bænum.

V. hluti

Til baka