Blik 1978/Vígsla Byggðarsafnsins

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1978Vígsla Byggðarsafnsins


Flest blöð Eyjamanna fluttu á sínum tíma fréttir af vígslu Byggðarsafnsins, sem átti sér stað 15. apríl s.l., þrátt fyrir mikil þrengsli og skort á rými sökum bæjarstjórnarkosninganna, sem þá voru í undirbúningi.
Hér óskum við, að Blik geymi fréttagreinina úr Eyjablaðinu Dagskrá um þennan atburð. Útgefandi Dagskrár og ritstjóri er Hermann Einarsson, fræðslufulltrúi í Eyjum.

Laugardaginn 15. apríl s.l. var sýningarsalur Byggðarsafns Vestmannaeyja vígður og formlega tekinn í notkun að lokinni látlausri og virðulegri athöfn í húsnæði safnsins.

Páll Zóphóníasson, bæjarstjóri flytur ræðu.
(Guðmundur Sigfússon tók myndina).

Bæjarstjóri bauð gesti velkomna og þá sérstaklega þau hjón, Ingigerði Jóhannsdóttur og Þorstein Þ. Víglundsson, sem að öllum öðrum ólöstuðum eiga veg og vanda af uppbyggingu safnsins. Páll fór nokkrum orðum um byggingarsögu hússins og að endingu færði hann safninu að gjöf frá bæjarstjórn upphleypta kortið af Heimaey, sem sýnir umbrotin. Kort þetta er númer 1 úr tölusettu útgáfu bæjarstjórnar. Frá sjálfum sér gaf Páll tvo hluti, sem hann vildi leggja til deildar gosminjasafns, var það hlífðarhjálmur hans og súrefnistæki, er menn urðu að hafa með sér, þá gashætta var sem mest í bænum. Þorsteinn Þ. Víglundsson rakti lítillega langa söfnunarsögu, en rúm 50 ár eru nú liðin síðan þau hjón komu til Eyja og nær 40 ár síðan eiginleg munasöfnun hófst, sem löngum var unnin í náinni samvinnu við nemendur Þorsteins. Þ.Þ.V. minntist margra velunnara safnsins og þá sérstaklega núverandi þjóðminjavarðar, Þórs Magnússonar, og starfsliðs hans, þá safnið var flutt undan ösku og eimyrju 1973. Þorsteinn sagði það alltaf hafa verið meiningu sína að safnið greindi sem gleggst frá atvinnusögu Eyjabúa, dugnaði þeirra og útsjónarsemi við óblíð náttúruöfl, því væri þetta safn öllum öðrum byggðarsöfnum frábrugðið að uppsetningu, þar sem væri samspil þess við náttúruna í kringum okkur. Að lokum gerði Þ.Þ.V. grein fyrir kaupunum á Kjarvalsmyndum Sigfúsar M. Johnsen, fyrrum bæjarfógeta hér, en þau mynda grunnkjarna listasafns kaupstaðarins og voru á sínum tíma keypt fyrir 1,5 millj. kr., en hluti þess fjár var ævinlega settur á sparisjóðsbók, sem vísir að sjóði til eflingar listaverkasafninu og nemur þessi sjóður nú tæpri einni millj kr.
Þá minntist hann á ómældan stuðning Sparisjóðsins við safnið og byggingu þessa húss.
Að lokum óskaði hann safninu og safnverði alls hins besta um ókomin ár.
Magnús Jónasson, forseti Rotaryklúbbs Vestmannaeyja, færði safninu gjafabréf yfir smíði á hentugum sýningarskáp.
Guðlaugur Gíslason, alþingismaður, árnaði safninu heilla og færði því skemmtilega gjöf. Er það segulbandsupptaka af útsendingu Ríkisútvarpsins fyrstu tvo sólarhringa náttúruhamfaranna og segulbandstæki, auk þess fylgdi textinn vélritaður.
Sigurgeir Kristjánsson, bæjarfulltrúi, bar kveðju frá boðsgestum, er eigi gátu komið vegna anna og árnaði safninu allra heilla.
Forseti bæjarstjórnar, Reynir Guðsteinsson, flutti þessu næst ræðu fyrir hönd bæjarstjórnar og greindi þar frá þeirri ákvörðun hennar að sæma Þorstein Þ. Víglundsson nafnbótinni, heiðursborgari Vestmannaeyja. Þá Reynir hafði fært Þ.Þ.V. skrautritað heiðursskjal og frú Ingigerði blómvönd, tóku allir viðstaddir undir með langvinnu lófataki, en Þorsteinn þakkaði með nokkrum orðum.
Þessu næst kvaddi sér hljóðs dóttursonur Þorsteins, Árni Sigfússon, og færði hann ömmu sinni fagra blómakörfu frá börnum og barnabörnum hennar, sem örlítinn þakklætisvott fyrir allt það umburðarlyndi, sem hún hefði sýnt safninu í nær hálfa öld.
Að síðustu tók til máls Ragnar Óskarsson, safnvörður, þakkaði hann gestum komuna, góðar gjafir og hlýjar óskir safninu til handa og bauð öllum viðstöddum að skoða safnið. Eins og meðfylgjandi mynd sýnir er safninu vel fyrir komið i glæsilegum húsakynnum og er þar mýmargt fróðlegt að sjá, þó eigi séu þar enn allir munir safnsins til sýnis.

Ræða forseta bæjarstjórnar


Góðir áheyrendur.

Reynir Guðsteinsson, skólastjóri barnaskólans í Vestmannaeyjum og forseti bœjarstjórnar Vestmannaeyja- kaupstaðar, flytur rœðu sína við vígslu Byggðarsafns Vestmannaeyja 15. apríl s.l. Blik birtir hér ræðu forsetans.

Mér er það ljúf skylda að ávarpa ykkur fyrir hönd Bæjarstjórnar Vestmannaeyja í tilefni af vígslu Byggðarsafns Vestmannaeyja í dag.
Þetta er merkur dagur. Merkur áfangi í sögu þessa byggðarlags.
Það er reynsla sögunnar af hverri kynslóð, að hún er harla tómlát um sögu sjálfrar sín. Af þeim sökum hefur margur fróðleikur um lífshætti og margt forvitnilegra muna og merkilegra tækja lent í glatkistunni.
Sem betur fer, hafa á hverjum tíma verið uppi menn með opin augu fyrir sérkennum kynslóðar sinnar og þeirra kynslóða, sem gengnar eru.
Furðu mörgum finnst viðleitni slíkra einstaklinga til varðveislu gamalla muna álíka skynsamleg og tilraun til að fanga vindinn með neti, en þessum mönnum eigum við það að þakka, að okkur er kunnugt um býsna margt í lifnaðarháttum forfeðra okkar.

„Sá sem gleymir hinu liðna
glatar einnig deginum
og framtíðinni,
því allt nýtt líf verður að endurlifa
það sem var.“

Segir skáldið og heimspekingurinn Gunnar Dal í einu ljóða sinna. Þetta er bæði vel sagt og rétt. Þessi saman safnaði fróðleikur um fortíðina er okkur ljós inn í framtíðina. Án vitundar um hana á maðurinn enga framtíð.
Með þrautseigju og ódrepandi bjartsýni hafa margir einstaklingar barist við tómlæti fjöldans um þessi mál, en eins og dropinn holar steininn með tíð og tíma, hafa fjöll tómlætisins verið brotin niður.
Þeir sem í veikleika hófu þetta starf geta fagnað. Skáldið og presturinn Sr. Helgi Sveinsson segir í kvæði sínu „Ljóð um líf“.

Hvert mannslíf er áfangi mannkyns á jörð,
til meins og til gagns, hvaða öld sem við hljótum.
Í fjallanna vegg brýtur vatnið skörð,
í veikleika manns skýtur himinninn rótum.

Hvert mannslíf er merkilegur áfangi í sögu mannkynsins, já meira en það. Lífið er undursamleg gjöf og sífellt fagnaðarefni öllum, sem nenna að hugsa og heilbrigðir eru.
Og þegar við, sem höfum hlotið líf á þessari öld, vonandi öll til gagns, virðum fyrir okkur muni þá, sem hér hefur verið safnað saman, komust við að raun um, að þrátt fyrir allt höfum við ekki gleymt hinu liðna og þess vegna hvorki glatað deginum né framtíðinni.
Við erum vitni að því í dag, að vatnið — starf manns á langri ævi — hefur brotið skörð í fjallanna vegg og að baki þeirra skýtur himinn rótum. Fjöllin hafa verið sigruð.
Ég þekki ekki til upphafs þess, að farið var að safna sögulegum minjum hér í Vestmannaeyjum, en í mínum huga er eitt nafn svo samofið þessu byggðarsafni, að þegar annað er nefnt, kemur hitt upp í hugann: Nafn Þorsteins Þ. Víglundssonar. Efalaust hafa margir menn lagt gjörva hönd hér að verki, en ég hygg að á engan sé hallað, þótt fullyrt sé, að hlutur Þorsteins sé stærstur og merkastur.
Á langri ævi hefur Þorsteinn Þ. Víglundsson komið víða við í sögu þessa bæjar. Áhugamál hans hafa verið fjölþætt og þótt hann hafi jafnan haft mörg járn í eldinum, barist á mörgum vígstöðvum samtímis, hefur ávallt munað um framlag hans. Fyrir þessi mörgu störf í þágu Vestmannaeyja vil ég fyrir hönd bæjarstjórnar Vestmannaeyja og bæjarbúa allra, þakka honum í dag, er hann sér enn einn draum sinn rætast.
Jafnframt færi ég eiginkonu hans, Ingigerði Jóhannsdóttur, þakkir okkar allra. Hún hefur verið manni sínum stoð og stytta og án hennar hefði Þorsteinn aldrei komið öllu því í verk, sem eftir hann liggur. Það næðir oft kalt um þá, sem á tindinum standa, en það kemur ekki að sök, þegar fast er stutt við bakið á þeim.
Mér er fullljóst að ekki er unnt að launa ævistarf sem skyldi. Að sjá vonir sínar og drauma rætast, eru trúlega ríkustu laun allra eldhuga. Allt annað er líkast til hismi og eftirsókn eftir vindi.
Samt sem áður vill Bæjarstjórn Vestmannaeyja gera kunnugt í tilefni af vígslu Byggðarsafns Vestmannaeyja, að hún hefur á fundi sínum hinn 12. apríl 1978, sæmt Þorstein Þ. Víglundsson nafnbótinni: Heiðursborgari Vestmannaeyja. Er hann sjötti maðurinn, sem nafnbót þessa hlýtur og annar þeirra, sem enn eru á lífi.
Með nafnbót þessari vill Bæjarstjórn Vestmannaeyja sýna þakklæti sitt fyrir frábær störf í þágu þessa bæjar og biður þeim hjónum Guðs blessunar um alla framtíð.
Ég vil biðja Þorstein Þ. Víglundsson og Ingigerði Jóhannsdóttur að koma hingað til mín og veita viðtöku skjali til staðfestingar á útnefningu þessari.

Eftirmáli.
Páll Zóphóníasson flutti ræðu við vígslu Byggðarsafns Vestmannaeyja í hinu nýja og glæsilega safnahúsi kaupstaðarins 15. apríl sl. Sérstaka athygli vöktu orð bæjarstjóra um þau lán, sem Sparisjóður Vestmannaeyja hafði lánað kaupstaðnum á undanförnum 10 árum til þessara byggingarframkvæmda. Það á að vera lýðum ljóst, að það fjármagn var komið frá Eyjabúum sjálfum. Þannig voru þeir áhrifaríkir þátttakendur í þessum veigamiklu byggingarframkvæmdum í bænum. Hvernig gerðist það? Það vil ég tjá lesendum Bliks fjær og nær. Ég skrifaði grein í eitt af blöðum Vestmannaeyja og tjáði Eyjabúum, að ég æskti þess einlæglega, að Sparisjóðurinn yrði þess megnugur að lána kaupstaðnum fúlgu fjár til byggingar safnahúss í kaupstaðnum. Það var við manninn mælt. Fé tók til að streyma inn í Sparisjóðinn meira en nokkru sinni fyrr. Við lögðum eitt sinn inn á sérstakan reikning í Seðlabankanum 2—3 milljónir til þess að lána til byggingarframkvæmdanna, þegar þess þyrfti með. Svo hófust framkvæmdirnar sumarið 1969, og ekki stóð á Sparisjóði Vestmannaeyja að veita það „afl, sem gera skal“ bæjarstjórn Vestmannaeyja. Til staðfestingar og sönnunar þessum orðum mínum birti ég hér bréf mitt til bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Með nokkrum rétti má segja, að bréfið sé frá fjölmennum hópi Eyjabúa, sem á sínum tíma veittu það afl, sem dugði til hinna mikilvægu byggingarframkvæmda, sem við gleðjumst nú yfir og njótum öll í ríkum mæli.