Blik 1976/Bréf til vinar míns og frænda

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1976ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda


(Æviþáttur)


Heill og sæll, frændi minn og vinur.
Láttu liggja vel á þér, þegar þú lest nú loks þetta bréf mitt. Dýrtíðarflóðið í þjóðfélaginu okkar veldur því, hversu dregizt hefur úr hömlu fyrir mér að gefa út Blik að þessu sinni.
Við skulum taka lífinu létt og brosa saman, þegar engin ástæða er til annars.

Gagnfræðaskólabyggingin haustið 1949, þegar átökin miklu hófust um framkvæmdir þessar og framtíð þeirra.

„Geym vel æru þina,“ segir séra Hallgrimur Pétursson í heilræðavísum sínum. Síðan ég las þessi heilræði hans, þá unglingur á Austurlandi, hef ég reynt af fremsta megni að lifa samkvæmt þeim. Ég hef aldrei mátt vamm mitt vita í starfi mínu og lifi. Mannorðið hefur verið mér helgur dómur frá barnæsku. Þetta get ég fullyrt um sjálfan mig með verulega góðri samvizku. Þó liggja tvö bréf geymd í fórum fjármálaráðuneytisins, þar sem ég er stimplaður skattsvikari og þá auðvitað þjófur um leið.
Um þessar æruskemmdir hef ég aldrei skrifað fyrr, ekki treyst mér til þess nema í beiskju og með stóryrtu orðalagi, og þess vegna heldur kosið að þegja.
En nú loksins eftir aldarfjórðungs baráttu við sjálfan mig, hef ég sigrazt á biturleikanum og get þess vegna skýrt þetta og skrifað um það allt í léttum dúr og gáskagæddum anda. Ég bið þig: Brostu með mér.
Og nú vil ég segja þér einhvern allra skemmtilegasta þátt ævi minnar. Svo hefur breytingin á orðið umliðinn aldarfjórðung. Þetta er sagan um það, þegar tveir embættismenn íslenzka þjóðfélagsins með nokkrum „hjálparkokkum“, - tveir meðlimir kerfisins, eins og fyrrv. ritstjóri Vísis myndi orða það, - gerðu sitt ítrasta til að svipta mig ærunni. Af langri reynslu og nánum kynnum höfðu þeir orðið þess áskynja, að mannorðið var og hefur ávallt verið mér helgur dómur, eins og ég tók fram. Já, ærunni skyldi ég sviptur í pólitískum tilgangi. Og almenningi í Vestmannaeyjakaupstað var tjáð siðgæðisbrotið og æruskerðingin umbúðalaust á opinberum fundi, svo að gnast og brast og allt lék á reiðiskjálfi. Þannig átti að „flá mig lifandi“, eins og dr. Sigurður Nordal orðar það einhvers staðar og hefur orðin eftir Þorsteini skáldi Erlingssyni.
Þegar ég hóf að íhuga efni þessa æviþáttar, runnu satt að segja á mig tvær grímur. Ég lagði mál þetta á vogarskálar samvizkunnar, vegna þess að tveir eða þrír málsaðilar sitja nú til hægri handar föðurnum samkvæmt helgum kenningum og skipa þar auðvitað virðuleg sæti með orður á brjósti eftir göfug og þjóðfélagsbætandi störf og fjárefnasöfnun á þessari jarðnesku reisu sinni. Meðan ég sat og hugleiddi þetta atriði, gerðist atburður, sem ég skiidi á einn veg. Ég óska að segja þér hann.
Eitt af barnabörnum mínum hafði eignazt Biblíuna, útgáfu Hins íslenzka Biblíufélags 1973. Ég tók að skoða hina helgu bók, handleika hana og hugleiða gildi hennar, tign og veldi meðal hundraða milljóna. Svo brýndi ég viljann, einbeitti hugsun minni og æskti þess eindregið og afdráttarlaust, að dularöflin veittu mér bendingu. - Ég dvaldist við þessa hugsun eilitla stund. Síðan opnaði ég hina helgu bók til þess að leita svarsins. Þarna blasti við mér 22. kafli Orðskviða Salomons konungs Davíðssonar. Kaflinn hefst á þessum orðum: „Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður“. - Þarna kom það! Þessa bendingu hef ég skilið á þá lund, að mér bæri að fórna fé til þess að endurheimta mannorð mitt og æru. Það geri ég bezt með því að hrekja efni „skattsvikabréfanna“, sem geymd eru í fórum íslenzka fjármálaráðuneytisins og þú færð að lesa hér í afriti.
Ég óska að endurtaka það við þig, kæri frændi, skýrt og greinilega, að þessi skrif mín inni ég af hendi og birti almenningi beiskjulaust úr því sem komið er, með góðlátlegu brosi á vör og léttleik í sinni.

Tilgangur minn með skrifum þessum til þín er fjórþættur: Í fyrsta lagi vil ég sanna með rökum þá spillingu, þá mannlegu græsku, sem stundum þróast með háttsettum embættis- og valdamönnum þjóðarinnar, ef t. d. pólitískir andstæðingar eiga í hlut. Þessi skrif mín vil ég að séu þeim viðvörun, svo langt sem þau ná. Embættis- og valdamenn þjóðarinnar verða að hafa öðlazt þann þroska, að þeir séu hafnir yfir slíkan og þvílíkan mannlegan breiskleika. Að öðrum kosti er hætta á, að þeir fyrr eða síðar verði embætti sínu og þjóð sinni til vanvirðu, svo að ekki sé fastara að orði kveðið.
Í öðru lagi óska ég að birta hér almenningi og geyma um leið síðari kynslóðum svör við bréfum, sem ætlast var til í upphafi að lægju í „ráðuneytinu“, í fórum þess eða skjalageymslum, ómótmælt og ósvarað síðari kynslóðum til fræðslu og íhugunar um manndóm minn og mannorð, - mannsins, sem gegndi því hlutverki meira en þriðjung aldar þar í kaupstaðnum að annast uppeldi og fræðslu uppvaxandi kynslóða i trássi við vilja og vald konsúla, kaupmanna og annarra andstöðuafla, sem þar höfðu ráðið einu og öllu, líka örlögum manna, svo að segja frá þeirri stundu að síðasti danski einokunarkaupmaðurinn geispaði golunni.
Á hinu leitinu skyldu svo bréf þessi liggja í stjórnarráðinu og vera þar órækar heimildir um heiðarleik og manndóm þess manns, sem Eyjafólk lét ginnast til að trúa fyrir tugum milljóna króna í starfi sparisjóðsstjóra um tugi ára, þar sem miklum fjármunum var velt árlega í þágu almennings i bænum þeim, fyrst og fremst alþýðuheimilunum til hagsbóta og margs konar menningarmálum til eflingar. - Spott og spé, háð og hlátur. - Litlum sálum fullnæging.
Í þriðja lagi óska ég hér að kynna lesendum mínum, hvernig ég kynntist samleik lögfræðings og embættismanns til hnekkis rétti leikmannsins, þegar hann einhverra hluta vegna skirrist við að notast við aðstoð hins löglærða stéttarbróður til sóknar og varnar í skollaleik.
Í fjórða lagi sannast hér, hvernig vissir embættismenn ríkisvaldsins reyna í lengstu lög að halda hlífiskildi yfir stéttarbróður eða valdamanni, og alveg sérstaklega ef hann er „góður flokksbróðir“.
Í skrifum þessum, sem er þáttur úr ævisögu minni, kem ég til dyranna eins og ég er klæddur og af „guði gerður" á manndóms- og baráttuárum mínum í kaupstaðnum, þegar setið var um mannorð mitt og æru og ég hundeltur, hvar sem þess gafst kostur. Þá var ég „þjóðníðingurinn mikli“, óferjandi og óalandi i augum einræðisherranna, arftaka gömlu einokunarkónganna dönsku í sinni lúalegustu mynd.
Aldarfjórðungur er nú liðinn og vel það, síðan þeir atburðir gerðust, sem ég greini þér hér frá. Jafnóðum og þessir atburðir áttu sér stað, safnaði ég skjölum til heimilda um þá, -keypti afrit af málskjölunum af bæjarfógetaembættinu í Vestmannaeyjum til þess síðar, ef líf og heilsa entust mér, að taka saman heildarfrásögn um mál þessi.
Eins og ég tók fram, þá vekja atburðir þessir mér nú kátínu. Satt að segja skil ég ekki vel enn, hvernig þeir hafa getað átt sér stað eins og þeir eru vaxnir og þeir hafa gerzt, þar sem virðulegir embættismenn íslenzka ríkisins eru potturinn og pannan í öllum þessum ósóma. Á ég þá fyrst og fremst við „skattsvikabréfið“ og höfund þess, og svo hina blindu þjónslund, sem upplestur þess sannaði. Þar voru höfð næstum óskiljanleg samráð um að svipta mig ærunni, því dýrmætasta og bezta, sem hver einstaklingur á og ber með sér, þ. e. óskert mannorð.
Aðalmennirnir, sem að þessum ósköpum stóðu, voru sem sé virðulegir embættismenn íslenzku þjóðarinnar, þáverandi fjármálaráðherra og skattstjórinn í kaupstaðnum, og svo nokkrir flokksbundnir og þægir þjónar, auðmjúkir „hjálparkokkar“, sem ég kem að síðar. Skattstjórinn var jafnframt héraðsdómslögmaður (það munaði ekki um það!) og málssvari ráðherrans.


Ég keypti kvikmyndavél og gaf hana gagnfræðaskólanum
Í skólastjórn minni og kennslustarfi lagði ég ávallt mikla vinnu fram til eflingar félagslífi nemenda minna í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum. Þar gafst mér kostur á að beita uppeldislegum áhrifum, glæða manndóm og mennilega hugsun, efla bindindi og námshug með nemendum mínum. Og árangurinn leyndi sér ekki að okkur fannst, kennurunum.
Um árabil hafði ég ámálgað þann vilja minn, þá ósk mína við ráðamenn skólamálanna í kaupstaðnum og fjárveitingavaldið í bænum að fá keypta kvikmyndavél handa skólanum til nota í fræðslu- og félagsstarfi. Skólanefnd samþykkti þessa tillögu mína ár eftir ár. En þegar kom til kasta fjárhagsnefndar kaupstaðarins, sem að lokum skyldi leggja blessun sína yfir fjárhagsáætlun skólanefndarinnar um rekstur gagnfræðaskólans, var framlagið til kaupa á kvikmyndavélinni ávallt strikað út. Slík sóun kom ekki til mála! Þar réði öllu hið gamla einræðisvald Flokksins með þingmann kjördæmisins að leiðarljósi. - Hvað var til ráða?
Kvikmyndavélina gat ég fengið keypta hjá fulltrúa fræðslumálastjórnarinnar, sem annaðist þá sölu á þeim tækjum skólanna, en peningana skorti til kaupanna. Sjálfur sá ég lengi vel engin tök á að kaupa tæki þetta fyrir eigið fé handa skólanum sökum fjárhagslegra erfiðleika okkar hjóna, sem bjuggu við launakúgun og misrétti, eins og ég greindi þér frá í síðasta bréfi mínu (1974). Mig sveið þetta. Mér hafði frá upphafi skilist, að starf hvers skóla væri eða skyldi vera tvíþætt, þ. e. fræðslustarf og uppeldisstarf. Báða þessa þætti skólastarfsins vildi ég geta rækt af alúð og einlægum hug, beita til þess öllum sálarkröftum mínum, enda voru þessir þættir báðir mér yndisgjafar í skólastarfinu.
Sæmilegar kvikmyndavélar til góðra nota í skóla kostuðu þá um fimm þúsundir króna auk annars, sem þeim hlaut að fylgja, svo sem sýningartjalds.


Launakúgun lokið
Eftir að fræðslulögin, sem samþykkt voru á alþingi 1946, gengu í gildi, var ekki lengur hægt að aftra því, að ég fengi greidda þóknun fyrir aukakennslu mína í skólanum. Þá hafði ég kennt 19 vetur við skólann og ávallt um 30 stundir á viku án aukagreiðslu. Þannig var kúguninni beitt, en ég neyddist til þess að leggja svona mikla vinnu á mig sökum skorts á hæfum kennurum. Völdin voru með lögum þessum tekin úr höndum fjárhagsnefndarmanna og klíkubræðra þeirra heima í héruðum og kaupstöðum.
Eftir skólaárið 1946-1947 fékk ég af þessum ástæðum greidd laun fyrir aukakennslu mína við skólann. Að skólaárinu liðnu 1947 greiddi bæjarsjóður mér kr. 4000,00 fyrir aukakennsluna.
Við hjónin afréðum að nota þessar aukatekjur okkar til þess að kaupa kvikmyndavél handa skólanum, gefa gagnfræðaskólanum tækið. En fleira þurfti með en vélina eina, eins og ég gat um. Ég seldi víxil og aflaði þannig þess fjár, sem á vantaði til kaupa á sýningartjaldi og ýmsum smámunum, sem fylgdu vélinni. Allur kostnaður nam um 7000 króna. Samkennarar mínir skrifuðu á víxilinn en ég samþykkti hann.
Þetta atriði allt verð ég að taka fram hér, því að þessar gjörðir okkar urðu svo sögulegar, að önnur eins ósköp höfðu aldrei og hafa aldrei fyrr eða síðar dunið yfir okkur eða heimili okkar. Það getur stundum kostað söguleg átök að ætla sér „að flá menn lifandi“ eða ná af þeim ærunni með öðrum orðum.


Framtal mitt fyrir árið 1947
Þegar ég taldi fram tekjur mínar eftir áramótin 1947/1948, komst ég í vanda. - Ég hafði gefið bæ og ríki aukatekjurnar mínar við skólastarfið, andvirði tímakennslunnar. Átti ég líka að greiða sömu aðilum skatt af þessari gjöf?
Ég afréð að telja þessar tekjur mínar ekki fram til skatts með þeirri vissu, að þær yrðu gefnar upp á launamiða frá bæjarsjóði kaupstaðarins, og síðan bæri skattstjóra skylda að kalla mig fyrir til þess að samþykkja tekjuupphæð þessa. Gæfist mér þá kostur á að skýra málið og leita samkomulags, ef þess yrði kostur. En þessi áætlun mín brást, með því að skattstjórinn ræddi aldrei við mig um aukatekjur þessar, heldur bætti hann þeim þegjandi og hljóðalaust við aðrar tekjur mínar. Þannig greiddi ég skatt af þessari gjöf okkar til ríkis og bæjar. Ég lét þetta gott heita, því að lög eru lög. Þar með hélt ég, að mál þetta væri úr sögunni. En það var nú eitthvað annað.


Bæjarstjórnarkosningarnar í aðsigi
Þegar leið á haustið 1949, var tekið að undirbúa bæjarstjórnarkosningarnar, sem fram skyldu fara í janúarlokin næsta ár (1950).
Mér hafði orðið mikið ágengt um framkvæmdir við byggingu gagnfræðaskólahússins á umliðnum 2-3 árum sökum velvildar hins ráðandi vinstrimeirihluta í bæjarstjórn kaupstaðarins (1946-1950).
Á undanförnum árum hafði samvinna okkar Helga kaupmanns og útgerðarmanns Benediktssonar verið góð og náin í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja og hann stutt mig og hugsjónir mínar af festu og dyggð í byggingarmálum gagnfræðaskólans og eflingu byggðarsafnsins í bænum.
Við Helgi afréðum að snúa bökum saman við bæjarstjórnarkosningarnar 1950. Við fengum því framgengt, að við skipuðum tvö efstu sætin á lista Framsóknarflokksins í kaupstaðnum. Helgi skipaði efsta sætið og ég hið næsta. Svo hófust átökin, sem fóru vaxandi eftir því sem á leið og kjördagurinn nálgaðist.


Ljótur draumur. „Fleginn lifandi“
Liðið var fram til jóla 1949. Þá bar gest að garði í Goðasteini, íbúðarhúsi okkar hjóna við Kirkjubæjarbraut. Aldraður og þekktur Vestmannaeyingur óskaði eftir að mega eiga skeggræður við mig undir fjögur augu. - Konu hans hafði dreymt draum, „ljótan draum“. Hann varðaði mig. Drauminn vildi hann ógjarnan segja mér, því að hann vildi ekki hrella mig, heldur aðeins aðvara mig, svo að ég væri við öllu búinn og umfram allt, að ég gætti mín færi varlega, ef á mig yrði sótt heiftarlega í kosningabaráttunni, sem framundan var. - Þau hjónin höfðu komið sér saman um að segja mér sögu frá liðinni tíð þar í kaupstaðnum.
Karl Einarsson, sýslumaður og alþingismaður, hafði verið mikill vinur þessara mætu hjóna og nágranna sinna. Hann var alþingismaður kjördæmisins á árunum 1914-1924. Og þessi hjón höfðu ávallt verið kjósendur hans og gott stuðningsfólk frá fyrstu tíð. - Við alþingiskosningarnar árið 1924 féll Karl Einarsson frá þingsetu. Þar olli mestu skipuleg árás á mannorð hans og störf í kaupstaðnum, þó að hann væri talinn mesti mætismaður af öllum þorra Eyjabúa og hafði yfirleitt reynzt þeim vel í hvívetna.
Þessum hjónum voru öll þau ósköp enn í fersku minni eftir liðinn aldarfjórðung, eins og gesturinn orðaði það. Þá hafði konu gestsins dreymt ljótan draum fyrir skollaleiknum þeim. Síðan höfðu þau hjónin aldrei neytt kosningaréttar síns í kaupstaðnum, sagði hann, en þó farið jafnan á kjörstað til þess að kaupa sér frið. Þau skiluðu ávallt auðu.
Hjónin höfðu sem sé komið sér saman um að segja mér þetta, aðvara mig, svo að ég yrði við öllu búinn, því að þau vildu mér vel. Meira óskuðu þau ekki að segja mér. Drauminn fengi ég ekki að heyra.
„Ég veit efni draumsins,“ segi ég. Ég hafði heyrt hann sagðan öðrum fyrir nokkrum árum. „Nú, ég hélt hann algjört leyndarmál,“ sagði gesturinn. „Var það ekki draumurinn um húðstrýkinguna miklu, þegar sýslumaðurinn var „fleginn lifandi?“ spurði ég kankvís. Þá brá gestinum. „Við nefnum það aldrei framar,“ sagði hann.
„En hvað er til ráða gegn öllum þeim ósköpum, sem yfir kunna að dynja?“ spurði ég. Þá sagði gesturinn með miklum alvörusvip: „Karl sýslumaður var prúður maður og drengur góður. Honum varð ráðafátt og hann skorti hörku gegn árásunum miklu, sem kaupmanna- og konsúlavaldið hér lét dynja á honum, þegar það þurfti að losna við hann, og þá alveg sérstaklega úr þingmannssætinu, sem það sóttist sjálft eftir. Hann lét þess vegna í minni pokann. Þegar við vorum strákar að alast upp hér í Eyjum, slógumst við stundum í illu. Þá fannst okkur sá strákur bera helzt sigur úr býtum, sem hæst lét smella í, þegar hann gaf á kjaftinn. Þá list kunni sýslumaðurinn, hann Karl vinur minn, ekki.“
Svo hvarf gesturinn snögglega, eins og hann kom.
Ég sat eftir hugsi og agndofa. Hvað var framundan?


Slysið mikla
Hinn 7. janúar 1950 gerðist átakanlegur atburður í Vestmannaeyjum. Vélskipið Helgi VE-333, stærsta skip, sem þá hafði verið smíðað hér innanlands, 120 rúmlestir að stærð, fórst við Faxasker um miðjan dag í afspyrnu veðri. Fólk horfði á hinn sorglega atburð felmtri slegið. Alls misstu 10 menn lífið, því að engri hjálp varð við komið sökum veðurofsans og óskapanna, sem á gengu. Helgi Benediktsson útgerðarmaður, átti skipið. Hann bar að vonum illa barr sitt næstu vikur og mánuði. Þó að hann virtist yfirleitt og að öllum jafnaði karlmenni hið mesta að þreki og kjarki, var hann tilfinningaríkur og viðkvæmur, þegar því var að skipta. Hann tók sér þennan sorglega atburð mjög nærri eins og vonlegt var.


Bæjarmálafundur í Samkomuhúsi Vestmannaeyja
Fulltrúaefni stjórnmálaflokkanna í bænum komu sér saman um almennan framboðs- eða bæjarmálafund í Samkomuhúsi Vestmannaeyja föstudaginn 27. jan. (1950), því að bæjarstjórnarkosningarnar skyldu fram fara 29. sama mánaðar. Ræðum manna á fundi þessum var varpað út til bæjarbúa, svo að þeir gætu hlustað heima hjá sér í sæld eða synd eftir ástæðum.
Ekki man ég röðina á ræðumönnum fundarins, enda er það aukaatriði. En Það man ég vel, að ég var í essinu mínu. Enda hafði mér orðið furðu mikið framgengt í framkvæmdunum við byggingu gagnfræðaskólans á undanförnum tveim árum.
Einnig hafði Sparisjóður Vestmannaeyja vaxið þó nokkuð að fjármagni og megnað að lána mörgum bæjarbúum þó nokkra peninga til endurbóta á gömlu húsnæði og til nýbygginga. - Þá höfðu einnig ráðandi bæjarfulltrúar í meiri hluta bæjarstjórnar sýnt byggðarsafnshugsjón minni velvild og skilning, svo að flest lék í lyndi fyrir mér, að mér fannst sjálfum. En nú var líka snörp hríð framundan, kollhríðin að vissu leyti, fannst mér. Bæjarstjórnarkosningar þessar hlutu að skera úr um það, hvort framhald yrði á þessari heillavænlegu þróun „minna mála“ í bæjarfélaginu næsta kjörtímabil. Mér hafði verið tilkynnt hið gagnstæða, ef óvinir þessara hugsjóna minna, ofsóknaröflin og niðurrifsmennirnir, næðu meiri hluta í bæjarstjórninni samkv. blaðagreinum þeim, sem ég birti þér í síðasta hefti Bliks (1974).
Þegar kom að okkur Helga Benediktssyni til að flytja mál okkar og orða stefnumið og málefni, fékk hann fyrst orðið. Þá var hann auðsjáanlega miður sín. Og ég vissi ástæðurnar. Hann tjáði fundarfólkinu og öðrum tilheyrendum sínum, að hann treysti sér ekki til að taka þátt í þeim hörðu umræðum og harðskeytta málflutningi, sem hér var stofnað til. - Hver var ástæðan?
Svo hafði borið við þennan fundardag, að töluverður hluti af yfirbyggingu V/s Helga hafði rekið á land vestur á Barðaströnd. Sá atburður hafði þau áhrif á kenndir eða tilfinningalif eigandans, að hann treysti sér ekki til þátttöku í bæjarmálafundi þessum. Þetta tjáði hann fundarfólki og hvarf síðan af fundi.
Enginn gat álasað Helga Benediktssyni fyrir það, þó að hann tæki ekki þátt í átökum þeim, sem stofnað var til með þessum fundi eins og á stóð. Þar gat hver og einn farið í eigin barm. Slík slys á sjómönnum okkar orkuðu og orka mjög á kenndir alls þorra Vestmannaeyinga, hvar í stétt sem þeir standa. Þá vorum við og erum öll eitt.
Ég stóð nú einn og mér var vissulega ekkert að vanbúnaði.
Já, þannig atvikaðist það, að ég varð einn að flytja, sækja og verja mál okkar á bæjarmálafundi þessum, kosta kapps um, að hlutur okkar yrði sem allra drýgstur og beztur. Það tryggði okkur m. a. framhald á byggingarframkvæmdunum við gagnfræðaskólabygginguna, sem nú þegar gnæfði við suðurloft úr bænum að sjá, ýmsum í bænum til hrellingar, og var þar þó mikið ógert, eins og myndin á bls. 53 sýnir og sannar.
Mörg fleiri voru áhugamálin mín, kæmist ég í aðstöðu til að beita mér fyrir þeim í bæjarstjórn kaupstaðarins. T. d. var mér það brennandi hugsjónamál, að hafinn yrði undirbúningur að lögn rafstrengs milli lands og Eyja. Til þess hafði þar engu verið um þokað og þó hafði framfaramál þetta verið til umræðu með Eyjafólki um árabil. Mörg fleiri voru þau áhugamál mín, þó að ég lengi ekki þessa frásögn mína um þau. En öll hlutu þau að kosta mikið opinbert fé ættu þau að komast í framkvæmd. Þá hlutu lika útsvörin að hækka í bænum.
Voru það nokkur undur, þó að skattgreiðendur í gróðastétt bæjarins kölluðu mig „hugsjónaangurgapa“ og hefðu orð á því á prenti, að ég „mundi ekki með öllum mjalla“. Það vakti mér óblandaða ánægju, að ég með þessum angurgapahætti mínum skyldi vera fleinn í holdi efnamannanna í kaupstaðnum, m. a. þingmanns kjördæmisins, sem var þar kaupmaður, útgerðarmaður og virðulegur konsúll.
Og svo var hann fjármálaráðherra íslenzku þjóðarinnar, þegar hér er komið sögu. Og nú færðu að kynnast valdinu og hvernig því var beitt, þegar angurgapar tóku að glenna sig og gera sig til, valdlausir amlóðar og „barnafræðarar“.
Þarna flutti ég framsöguræðu mína á bæjarmálafundinum eins og lög gerðu ráð fyrir. Hún var eins vel samin og byggð upp eins og ég hafði frekast vit og getu til. Áheyrendur mínir tóku henni vel.
Brátt gerðist atburður á fundinum. sem varð býsna sögulegur og dró svartan dilk á eftir sér næstu mánuði og misseri.


Lýst var yfir, að ég væri kunnur skattsvikari og þjófur
Guðlaugur nokkur Gíslason, kaupmaður og sænskur konsúll í kaupstaðnum, var einn af frambjóðendum Flokksins til bæjarstjórnar 29. jan. 1950. Hann var þá formaður Flokksins í bænum. Persóna mín og gagnfræðaskólabyggingin m. m. voru honum þyrnar í augum eins og ég sannaði þér með tilvitnunum í skrif hans, sem ég birti þér í síðasta bréfi mínu til þín (1974). Hann hafði um árabil rægt skólastarf mitt og spyrnt gegn því af fremsta megni með öðrum valdamönnum innan Flokksins, að gagnfræðaskólabyggingin yrði til í kaupstaðnum, meðan ég væri þar skólastjóri.
Að lokinni framboðsræðu sinni þarna á fundinum, las hann upp bréf, sem vakti mikla athygli og undrun þeirra, sem ólu með sér heilbrigða dómgreind.
Bréfið hafði honum borizt frá „ráðuneytinu“, eins og hann orðaði það. Og þar var umbúðalaust lýst yfir því, að ég væri kunnur skattsvikari með ráðandi mönnum þjóðarinnar, þar sem ég hefði reynt eftir megni að draga eða svíkja aukatekjur mínar við skólann, tímakennslukaupið mitt, undan skatti. Ekki hefði ég heldur talið fram til skatts alla þá vinnu, sem kona mín og börn hefðu innt af hendi við íbúðarbyggingu þá, sem við höfðum baslað við að koma upp á undanförnum fimm árum.
Það stóð skýrum stöfum í bréfi þessu „frá ráðuneytinu“, að það hefði neyðzt til að víkja mér úr yfirskattanefndinni í kaupstaðnum fyrir skattsvik þessi og þá auðvitað tilburði til þjófnaðar, en í yfirskattanefnd bæjarins hafði ég átt sæti og starfað öðrum þræði í sjö undanfarin ár. Ég var þess fullkomlega vitandi, að ég hafði alltaf verið þar fleinn í holdi stórgróðamannanna í bænum öll þessi ár, sem ég starfaði í yfirskattanefndinni, t. d. þingmannsins, sem nú var fjármálaráðherra þjóðarinnar, og sameignarmanns hans, kaupmannsins og konsúlsins á Tanganum.
Það var vissulega ekki án vissra kennda, að ég hlustaði á þennan boðskap í bréfinu, heyrði hann lesinn upp í eyru allra bæjarbúa, og honum varpað út til nálægra sveita á Suðurlandsundirlendinu. Þannig var ég þá „fleginn lifandi“, eins og Karl Einarsson árið 1924.
Og nú fannst mér ég vera sviptur mannorði mínu og æru með efni þessa bréfs og boðskap, lesnum í eyru almennings.
Upplesari þessa skattsvikabréfs fullyrti, að höfundur bréfsins væri „ráðuneyti“. Hvaða ráðuneyti?-það hlaut að vera fjármálaráðuneytið, þar sem um skattamál var rætt og starf mitt í skattanefnd. Enda var „höfuðið“ þar sjálfur þingmaður Vestmannaeyjakjördæmisins í allri sinni dýrð og mekt. Og nú skyldi flokkur hans vissulega fá að njóta hins virðulega embættis hans og aðstöðu til valda og valdbeitingar. - Æruskertur skyldi ég verða að koma fram fyrir nemendur mína m. a. að kosningahryðjunni lokinni. Það yrði mér þung raun. Og ef til vill gæti það ráðið aganum í skólanum að fullu. Gætu ungmennin virt og metið kennslu, lög og reglur manns, sem væri yfirlýstur skattsvikari og þjófur, og svo rekinn úr trúnaðarstarfi hjá ríkinu fyrir þessa lesti? Og voru ekki sterkar líkur fyrir því, að Eyjabúar veittu ekki slíkum vandræðamanni og óþokka brautargengi til setu í bæjarstjórn kaupstaðarins? - Nei, það voru vissulega engir Maggadonar, engir Ærutobbar, engir fjörulallar, sem leyfðu sér að skrifa svona æruskerðandi bréf gegn lögum og rétti og láta þjóna sína lesa upp í eyru almennings og útvarpa andstæðingum til æruskerðingar og álitstjóns.
Og svo var hér ótvírætt um gróft lagabrot að ræða jafnframt. Það er vitað, að í refsilögum þjóðarinnar eru skýr ákvæði um það, að embættismönnum hennar og öðrum trúnaðarmönnum skattstarfanna í landinu er með öllu og algjörlega óleyfilegt að flíka nokkru því, sem þeir verða áskynja um eða varðar störf þeirra og leynt skal fara, svo sem skattaframtöl og álagning skatta. En það er hins vegar vitað, að í embættismannakerfi landsins hafa ávallt leynzt menn, sem skirrast ekki við að brjóta landslög og troða undir fótum lög og rétt, þegar þeir telja sér hag í því á einn eða annan hátt, og virða þau að vettugi. - Ég minntist þess þarna á fundinum vegna starfs míns í yfirskattanefnd kaupstaðarins um árabil, að í refsilögum þjóðarinnar stendur þessi klausa í 13. greininni: „Opinber starfsmaður, sem segir frá nokkru, sem leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða varðar embætti hans eða sýslan, skal sæta varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári.“ Hvergi eru ákvæði um það, að ráðherrar þjóðarinnar séu hafnir yfir þessi ákvæði refsilaganna. Þetta hlýt ég að taka hér skýrt fram vegna beiðni dómsmálaráðherra síðar um miskunn til handa fjármálaráðherranum við endalyktir máls þessa.
Já, það var visulega ekki án sérstakra tilfinninga, að ég hlustaði á boðskap þessa bréfs frá „ráðuneytinu“, eins og upplesarinn orðaði það að lestri loknum. Mér flaug í hug, að óvandaðri yrði eftirleikurinn. Þá kom mér í hug „Faktúran í tunnunni“, hneykslismálið mikla, sem fyrirtæki þessa fjármálaráðherra og þingmanns kjördæmisins höfðu verið bendluð við í Reykjavík og skrifað hefði verið um í blöð landsins.
Annars neitaði upplesari bréfsins, Guðlaugur Gíslason, afdráttarlaust að greina frá, hver hefði sent honum bréfið til upplesturs á fundinum.
Skattstjórinn í bænum hlaut að eiga sinn gilda þátt í þessum ósóma öllum. Hann hafði aldrei kallað mig fyrir sig til þess að ræða við mig um þessar fjögur þúsund krónur, sem ég notaði til kvikmyndavélarkaupanna handa gagnfræðaskólanum. Þarna skyldu þær gjörðir mínar koma mér í koll, mannskemma mig og hnekkja persónu minni. Hér var sem sé ekkert hirt um gildandi ákvæði landslaga. Mannorðsvernd þeirra náði ekki til mín. - Mikils þurfti með. Ekki dró sú vitund úr kjarki mínum eða baráttuhug. Var ekki draumur konunnar að rætast?
Í sjálfsvitund minni leyndist eilítil hreykni yfir þeirri staðreynd, að sjálfum ráðherranum skyldi finnast svo mikils þurfa með til þess að hnekkja mannorði mínu og hugsjónum í bænum, að hann skirrðist ekki við að brjóta gildandi landslög, sem honum bar að vernda í hinu virðulega valda- og trúnaðarstarfi sínu.
Meðan Guðlaugur Gíslason, hinn sænski konsúll, síðar alþingismaður, var að lesa bréfið í eyru almennings og inna þannig af hendi þetta mikilvæga þjónustustarf fyrir Flokkinn og þingmanninn til þess að tryggja sér traust og virðingu forustunnar, flaug mér í hug: „Hinn vanginn verður ekki að þeim réttur.“ Öðru nær. „Nöðruafkvæmi,“ kallaði meistarinn mikli andstæðinga sína og ofsóknarmenn. Þá var hann ofur mannlegur í orði og á borði. Hví skyldi ég þá ekki mega vera það líka? Bréf þetta gaf mér tilefni til að álykta ýmislegt í þeim anda. Nú skyldi vissulega til skarar skríða og til stáls sverfa.
Þegar röðin kom aftur að mér í umræðunum, ræddi ég m. a. efni bréfsins. Jafnframt greindi ég tilheyrendum mínum frá því, hvernig ég hefði notað þessar aukatekjur mínar fyrir tímakennsluna í skólanum árið 1947. Þessar tekjur mínar hefði ég þess vegna ekki talið fram til skatts, en treyst því hins vegar að skattstjórinn ræddi þetta mál við mig, þegar honum bærist launaseðillinn frá bæjarsjóði. (Nú er ekki greiddur skattur af tekjum, sem varið er til góðgjörðastarfs eða líknarstarfsemi)! - Í þessu tilviki hafði skattstjórinn alveg brugðizt mér, þó að þessar gjörðir hans muni mega réttlæta á einn veg. Og nú sakaði fjármálaráðherrann sjálfur mig um skattsvik og þar með þjófnað í heyranda hljóði í skjóli þessara starfshátta skattstjórans og óvildar í minn garð. Hér mætti því með sanni segja, að hver silkihúfan væri upp af annarri. - Svo klykkti ég út með þessum setningum:
„Það situr sízt á núverandi fjármálaráðherra þjóðarinnar að skrifa slík bréf til mannskemmda öðrum á opinberum fundum, manninum, sem sjálfur hefur verið sakaður um að vera einhver stærsti faktúrufalsari og gjaldeyrisþjófur landsins með því að vera einn af þrem eigendum fyrirtækis í Reykjavík, sem frægt hefur orðið fyrir það að flytja inn „faktúru í tunnu“, skýla þar hinum eiginlegu vöruskjölum, fela þannig hið rétta verð varanna.“ Fundarmenn könnuðust allir við hneykslismálið mikla: „Faktúruna í tunnunni“. Það mál var þá á vitorði almennings í landinu og mikið rætt manna á milli sem glöggt dæmi um viðskiptaspillinguna í landinu. Þetta mál hafði þá sakadómarinn í Reykjavík haft til rannsóknar um lengri tíma.
Mér fannst bylgja fara um salinn, þegar ég hafði sagt þessi orð. Mér var vissulega heitt í hamsi, og mér hafði nú tekizt að vekja öldu heiftar-og hefndarhugar annars vegar, öldu hrifningar og kátínu hins vegar, svo að lífið vall og svall með áheyrendum mínum.


Við fengum tvo bæjarfulltrúa kjörna
Og svo rann kjördagurinn upp. Mikið var unnið og mikið var rætt, málin sótt og varin í áróðri og ásækni um kjósendur og kjörfylgi. Við bæjarstjórnarkosningarnar í Vestmannaeyjum, sem fram fóru 29. janúar 1950, fengum við Framsóknarmenn tvo fulltrúa kjörna í bæjarstjórnina. Við Helgi Benediktsson fengum þar báðir sæti.
Eftir kosningasigur þennan fullyrtum við og trúðum því, að hugsjónamálum til betra lífs og aukinnar menningar í bænum væri tryggður sigur og heillavænleg framþróun næstu fjögur árin, með því að samningar tókust milli okkar Helga Benediktssonar annars vegar og fulltrúa hinna vinstri flokkanna hins vegar um samvinnu og samstöðu í bæjarstjórninni.
Við kusum Helga Benediktsson forseta bæjarstjórnar. Það var tillaga mín. Þannig vildi ég bæta honum upp allt það misrétti, allar þær mannorðsskemmdir, sem hann hafði orðið að þola af opinberum aðilum á undanförnum árum. - Við réðum Ólaf Á. Kristjánsson bæjarstjóra. Það hafði hann verið umliðið kjörtímabil. Hann var Sameiningarflokksmaður. Þeir áttu þá tvo fulltrúa í bæjarstjórninni. Fimmti fulltrúinn var Alþýðuflokksmaður.


Unaðslegir tímar
Og nú fóru vissulega unaðslegir tímar í hönd. Framfaramálin fengu byr undir báða vængi. Framkvæmdum við gagnfræðaskólabygginguna var haldið áfram ötullegar en nokkru sinni fyrr. Þá gat meiri hluti bæjarstjórnar fljótlega fallizt á það, að ég fengi að útvega bát með hæfri skipshöfn til þess að rannsaka sjávarbotninn milli lands og Eyja til þess að finna góðan legubotn fyrir rafstrenginn. En hann væri ekki auðfundinn sökum hins mikla hraunbotns milli Heimaeyjar og sanda suðurstrandarinnar. Það framtak er vissulega „saga til næsta bæjar“.
Ekki er því að neita, að ýmsir erfiðleikar steðjuðu að í bæjarmálum Vestmannaeyjakaupstaðar árið 1950. T.d. voru fjármál bæjarins i ömurlegu ástandi. Aðkallandi var að semja um miklar óreiðuskuldir við banka og fleiri stofnanir, t. d. tryggingarstofnanir. Mér var att á það foræði. Og mér er sannarleg ánægja að geta þess, að þetta starf allt gekk furðu vel. Forustu- og valdamenn þessara stofnana vildu af fremsta megni mæta okkur miðra garða og veita bænum viðráðanleg og viðunanleg greiðslukjör á óreiðuskuldunum. Þeirrar góðvildar og þess drengskapar minnist ég með ánægju. - Aðeins þær óreiðusk. námu krónum 1.750.000,00.
Þegar ég kom heim frá samningsgjörðum þessum, biðu min réttarhöld og málastapp, og þá fyrst vegna skattsvikamálsins og „Faktúrunnar í tunnunni“.
Já, þetta voru vissulega unaðslegir tímar. Þeir voru svo stórfenglegir, að þeir líða mér aldrei úr minni. Sérstaklega hafði ég mikla ánægju af hinni sálarlegu innsýn, sem mér veittist, þegar ég tók svo að segja að þreifa á meðferð löglærðra opinberra embættismanna á rétti leikmannsins og hagræðingu sannleikans, þegar valdamenn eða stéttarbræður þeirra eiga hlut að máli og hafa hendur sínar að verja, mannorð og virðingu. Mér gáfust nú tök á að sálgreina þessa háskólaborgara og klíkubræður, og sálarfræðin hefur alltaf heillað mig, þó að mér gæfist ekki kostur á að lesa hana til hlítar á námsárum mínum.


Málsóknirnar hefjast
Daginn eftir bæjarmálafundinn sendu fimm Flokksmenn fjármálaráðherra þjóðarinnar, bréfritaranum (eins og ályktað var), símskeyti og tjáðu honum, að ég hefði fullyrt á fundinum, að hann vœri talinn vera stœrsti faktúrufalsari og gjaldeyrisþjófur landsins. Þessir fimm Flokksmenn voru efsti maður lista Flokksins við bæjarstjórnarkosningarnar, þekktur brauðgerðarmeistari í bænum; í öðru lagi yfirlögregluþjónninn, sem var þá formaður fulltrúaráðs Flokksins; og svo þrír aðrir minniháttar „spámenn“ úr fulltrúaráðinu. Einn þeirra var bóndi, og af honum höfðum við hjónin keypt vatnsblandaða mjólk fyrir nokkrum árum. Við kærðum blandið það. Hann var enn í hefndarhug, aldraði bóndinn.


II. hluti