Blik 1976/Akurdraugurinn og forirnar í Eyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1976



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Akurdraugurinn og forirnar í Eyjum


„Margir voru vættarstaðir í Eyjum,“ segir Sigfús M. Johnsen í bók sinni Yfir fold og flæði. - Einn draugur á Heimaey var hinn svokallaði Akurdraugur. Sigfúsi M. Johnsen og Sigga Fúsa (Sigurði Vigfússyni tómthúsmanni á Fögruvöllum) ber saman um það, að þar hafi skapmikill drykkjusvoli gengið aftur, augafullur ólánspési, sem drukknað hafi í hlandfor austur á Gjábakka, eins og komizt er að orði í heimildum. „Nokkrum dögum síðar fannst hann fljótandi í hlandforinni á Miðhúsum,“ segir í frásögn Sigga Fúsa. (Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum. bls. 74, 2. útgáfa).
Þessi drukknun Þorsteins drykkjusvola og skapofsamanns í forinni á Miðhúsum nálægt ártalinu 1800, hefur vakið mig til íhugunar, af því að þær minna á vissar staðreyndir, vissa þætti í sögu byggðarlagsins.
Eftir gosið ber öllum málsmetandi mönnum, sem skrifuðu um Vestmannaeyjakaupstað, saman um, að bærinn sá hafi verið einhver hreinlegasti bær á öllu landinu með hreinar malbikaðar götur, vel hirtar húslóðir og snyrtileg hús.
Vegna skrifa þessara mætu manna og eigin reynslu og vitundar, þá dirfist ég að minnast á þann óskaplega sóðaskap, sem líklega um aldir var ríkjandi í verstöð þessari, þó að ávallt fyndust þar og væru myndarheimili innan um og saman við og hreinlæti ríkjandi utan veggja sem innan.
Öðrum þræði átti einangrunin sinn þátt í óhreinlætinu, vatnsskorturinn og fátæktin, þar sem engan var auðveldara að kúga fjárhagslega en hið einangraða fólk.
Þegar hér er komið máli mínu, leyfi ég mér að birta orðrétta heimild, sem segir sína sögu og ekki verður véfengd. Það er bréf hins setta héraðslæknis í Vestmannaeyjum, Magnúsar Stephensen, sem gegndi héraðslæknisembættinu í Eyjum frá 11. okt. 1863 til 12. febr. 1865, en þá lézt hann.
Bréf frá Magnúsi Stephensen héraðslækni í Vestmannaeyjum til Jóns Hjaltalíns landlæknis.

„Vestmannaeyjum, 24. sept. 1864.

Háttvirti herra jústizráð.

Úr þessum asnakjálka ætla ég til gamans að hripa yður fáeinar línur.
Fréttirnar eru héðan engar, eins og lög gera ráð fyrir, því að hér er ekki hugsað um annað en fýl og lunda, og svo að sóðast áfram eins og bezt má. - Já, svínaríið hérna, það tekur í hnúkana, að dónarnir skulu halda heilsu í þessum kofum og ódaun, það gengur yfir mig. Forirnar eru rétt við bæjardyrnar og fýlan úr þeim leggur svo inn í bæinn, sem undir er fullur af fýladaun og allskonar óþverra. En þarna hýrast þeir í þessum kompum og líður vel, nema hvað lúsin ónáðar þá. Ef maður kemur nærri þeim, á maður á hættu að fá þess konar fénað. Og ég hefi auðgazt þannig eða réttara sagt fengið þær í honorar¹.
Ég er búinn að biðja sýslumanninn að skipa þeim að færa forirnar, en hvort þeir hlýða því, er nú eftir að vita, því að engin eru hér lög um óþverraskap og þess háttar, - því síður um, að þeir ekki megi búa í hvaða kompu sem er. Einn býr hér í gömlum hænsnakofa og þykir veglegt.
Af mér er ekki annað að segja, en heilsan er hin sama, þó ekki verri, og mér dauðleiðist innan um þetta, og svo heimska, indbildska kaupmenn, sem drekka og ráða hér öllu, því að allur helmingur bænda er svo skuldugur, að þeir hafa pantsett allt sitt til þeirra og lifa svo á þeirra náð.
Af því að ég er sendur héraðslæknir, og hér við embættið ekki nokkur stafur skrifaður, vildi ég biðja yður að segja mér lauslega, hvaða skýrslur ég á að senda og hvort indberetningen² um heilsu manna á að vera á dönsku? Forlátið þér nú þetta bull og sendið mér með ferð þessari fáeinar línur.
Ég bið kærlega að heilsa frú yðar og óska yður alls góðs.

Með vinsemd og virðingu
yðar Magnús Stephensen.“


Það er vitað af traustum heimildum, að lýsing læknisins á þrifnaði Eyjafólks í heild er ekki að öllu leyti réttmæt. Í Eyjum voru ávallt nokkur þrifnaðar- og myndarheimili á öllum tímum. Flest tómthúsheimilin voru vissulega óskaplega bágborin og svo fátækustu bændaheimilin. Eldsneytisskorturinn og vatnsleysið annars vegar og efnahagskúgunin hins vegar átti mestan þátt í þvi.
Skorturinn á þessum nauðþurftum var tilfinnanlegri í Vestmannaeyjum en annars staðar á landinu.
Hinar opnu forir við heimilin voru einna hvimleiðastar. Öllu var í þær dengt. Þar sem rennandi lækir voru jafnan notaðir til að flytja saur og þvag, skólp og skít í ýmsum myndum frá heimilum víðs vegar í byggðum landsins, þá var ekki slíku til að dreifa í Eyjum.
Dr. Schleisner dvaldist í Eyjum við ginklofarannsóknir árið 1847. Hann skrifaði bók um dvöl sína í Eyjum og reynslu sína af daglegu lífi Eyjafólks, húsakynnum og þrifnaði. Þar er að ýmsu leyti jafn djúpt tekið í árinni og gert er í bréfi læknisins hér að framan. Og þetta er kafli úr sögu byggðarlagsins. Þess vegna er fjallað um hann hér í ritinu að þessu sinni.

¹) Lækningalaun
²) Skýrsla

Þ.Þ.V.