Blik 1973/Fósturforeldrar mínir
Í greinarkorni mínu hér í ritinu „Bréf til vinar míns og frænda“, get ég fósturforeldra minna, hjónanna á Hóli í Norðfirði, Vigfúsar útgerðarmanns og smiðs Sigurðssonar og Stefaníu Guðjónsdóttur. Þess vegna þykir mér hlýða að gera þeim nokkur nánari skil hér í Bliki að þessu sinni.
Vigfús fóstri minn var Landeyingur að uppruna, fæddur að Austur-Búðarhólshjáleigu í Austur-Landeyjum (Krosssókn) 22. okt. 1862. Foreldrar hans voru bóndahjónin þar Sigurður Sigurðsson og Sigríður Pétursdóttir. Vigfús var skírður daginn eftir fæðinguna, eins og boðið var, ef þess var nokkur kostur, og hefur það vakið athygli mína, að eitt guðfeðginanna við skírnarathöfnina var Þorkell bóndi, skipasmiður og hreppstjóri Jónsson á Ljótarstöðum. Og hvers vegna er þessi bóndi mér svo hugstæður? Vegna þess að verksvit hans og handbragð, kunnátta hans og samvizkusemi við smíðar hinna opnu skipa þarna heima á Ljótarstöðum hefur orðið mér hugstætt, því að skipum hans fylgdi jafnan mikil gifta til öryggis og aflasældar. Vil ég þar geta þriggja frægustu skipanna í Vestmannaeyjum, Gideons, Trúar og Ísaks, en þau smíðaði hann öll sama árið (1836). Hann kunni þá list, sagði fólkið, að velja viðinn í skipin, svo að hvergi skeikaði. — Trúin flytur fjöll, ef hyggjuvit, samvizkusemi og reynsla er með í leiknum.
Hjónin á Austur-Búðarhólshjáleigu, foreldrar Vigfúsar fóstra míns áttu mörg börn og koma sum þeirra við sögu hér í Eyjum. Óska ég að nefna Sigurð skipstjóra eða formann Sigurðsson í Frydendal, sem drukknaði hér í höfninni fram af Læknum 10. janúar 1912 með skipshöfn sinni. — Þá harmafregn man ég enn frá uppvaxtarárum mínum. — Þá bjuggu hér tvær systur fóstra míns, Sigríður Sigurðardóttir, sem bjó á Þingeyri við Skólaveg, og Steinunn húsfreyja í Lambhaga.
Enn er fólk lífs, sem man þessi systkini hér frá Austur-Búðarhólshjáleigu eða Kúfhól, sem þau kenndu sig jafnan við, því að á þeirri jörð bjuggu foreldrar þeirra eftir 1870 eða þar um bil.
Sökum ómegðar hjónanna í Austur-Búðarhólshjáleigu eða á Kúfhóli, tók móðursystir Vigfúsar hann til fósturs. Hún var Ólöf húsfreyja Pétursdóttir í Vatnahjáleigu, gift Guðmundi bónda Guðmundssyni þar. Sveinninn var kornbarn, er þessi hjón tóku hann til fósturs. Hjá þeim ólst hann upp og var fermdur að Voðmúlastöðum vorið 1877. Þá bjuggu foreldrar hans á Kúfhóli, eins og ég drap á.
Vigfús Sigurðsson var vinnumaður í Miðey í Landeyjum um tvítugt. Þaðan flytur hann suður á Reykjanes til þess öðrum þræði að leita sér að smíðanámi eða smíðakennslu, því að hugur hans hneigðist til þess handverks. Þarna nam hann trésmíði.
Stefanía Guðjónsdóttir, fósturmóðir mín, fæddist 26. september 1859 í Reykjadalskoti í Hrunamannahreppi. Þar bjuggu þá foreldrar hennar, bóndahjónin Guðjón Bjarnason og Valgerður Jónsdóttir frá Bræðratungu í Biskupstungum. Áður höfðu þessi fátæku hjón búið að Hildarseli í Hreppum. Þegar Stefanía var fjögurra ára, fluttu foreldrar hennar að Hamarsholti, sem var efsta byggt ból í Hrunamannahreppi þá, nú í eyði um tugi ára, og sjást þar enn tættur býlisins austur og upp af Gullfossi.
Í Hamarsholti bjuggu hjónin í sex ár. Þá (1869) tóku þau ábúð á jörðinni Hlíð í sömu sveit (Tungufellssókn) Þar lézt Guðjón bóndi Bjarnason 22. október 1879.
Eftir fráfall föðurins tvístraðist þessi fátæka fjölskylda. Heimasætan í Hlíð, Stefanía Guðjónsdóttir, gerðist vinnukona á ýmsum bæjum í
Hrunamannahreppi, svo sem í Hruna hjá prestshjónunum séra Steindóri Briem og madd. Kamillu Sigríði Briem. Hann var þar þá aðstoðarprestur föður síns, séra Jóhanns Briem. Einnig vil ég nefna bæina Berghyl og Syðra-Sel.
Þegar hér er komið sögu hennar (1884—1885) óskaði hún að leita sér atvinnu suður á Reykjanes, eins og svo margt annað yngra fólk þá úr suðursveitum landsins, því að miklar sögur fóru af útgerð mikilli og atvinnulífi þar „suður með sjó“, því að þar voru víðfrægir stórkarlar á þessu sviði, sem mikið kvað að. Hún réðst vinnukona að Flekkuvík.
Á síðustu áratugum 19. aldarinnar var það almenn venja, að „ungt fólk“, þá flest á þrítugs og fertugs aldri, fór í hópum ríðandi á misjafnlega miklum gæðingum norður í land, norður yfir Holtavörðuheiði, á vorin og vann að heyskap hjá bændum þar sumarlangt. Það var kallað að fara í kaupavinnu. Þetta gerðu þau hvort í sínu lagi, Vigfús Sigurðsson frá Kúfhóli í Landeyjum (eins og hann vildi láta orða það) og Stefanía Guðjónsdóttir frá Hamarsholti, (eins og það hét á hennar máli).
Á þessum kaupavinnuferðum til Norðurlandsins kynntust þeir fósturforeldrar mínir, og afréðu með tíð og tíma að rugla saman reytum sínum, sem helzt voru þá ekki aðrar en sumarkaupið eftir dvölina þar norður frá. Þau voru á þessum sumrum kaupafólk í Húnavatnssýslu. Nefndi hún þar til bæði jörðina Tinda og Svínavatn. Hann var alltaf fátalaðri um þennan þátt í lífi þeirra, þó að þau gengju þá einmitt á vit örlaga sinna.
Um tíma bjuggu þau ógift á Ásláksstöðum á Vatnsleysuströnd. Var hann þá titlaður smiður og hún ráðskona.
Árið 1889 flytja þau að Gerðum í Útskálasókn. Þar voru þau gefin saman í hjónaband 7. febrúar 1891 og mynduðu sér heimili að Mjóanesi þar í sókninni. Þarna bjuggu þau tvö ár. En veturinn 1891 afréðu þau að flytja búferlum austur á Firði. Mikið orð fór af síldveiðum Norðmanna þar og öðrum öflugum þáttum í atvinnulífinu. Afli var þar þá mikill á línu, svo að Sunnlendingar sóttu þangað góða hýru sumar hvert, og enginn heyrðist þar hýrudreginn, ef hann komst þangað austur á annað borð. En samgöngur við Austfirði voru þá í lakara lagi, svo að ekki sé of djúpt tekið í árinni.
Vorið 1891 fluttu hjónin austur á Mjóafjörð og settust að í Sandhúsinu svo kallaða hjá hjónunum Kristjáni Lars og Maríu Hjálmarsdóttur frá Brekku. Árið eftir (1892) flytja þau til Norðfjarðar og fá þá inni í Naustahvammi. Þarna tók Vigfús að stunda sjó á árabáti af minni gerðinni, en fiskur gekk þá oft mjög mikill á grynnstu mið og jafnvel inn í firði þar austur frá.
Í Naustahvammi fæddist þeim hjónum eina barnið, sem þau eignuðust, sveinbarn, sem skírt var Óli Sigurjón. Hann fæddist árið 1892. Hann var um árabil togarasjómaður í Reykjavík. En flutti heim að Hóli árið 1923 og drukknaði við Norðfjarðarhorn síðla sama hausts.
Sumarið 1893 fluttu fósturforeldrar mínir frá Naustahvammi út í þorpið, sem þá var tekið að myndast utar við Norðfjörðinn, innan við Neseyrina og á Stekkjarnesinu. Við manntalið 31. des. 1894 búa hjónin á „Nesstekk“, eins og presturinn kallar þá hin fáu íbúðarhús á Stekkjarnesinu. Síðar kallar hann allt þorpið við Norðfjörð „Nesþorp“. Á Stekkjarnesinu þarna í Nesþorpi bjuggu hjónin í „moldarkofa“, þ.e. torfhúsi, þar til þau byggðu sér myndarlegt timburhús og kölluðu að Hóli. Þar voru þrjár stofur hlið við hlið við suðurvegg og tvö eldhús að norðanverðu í húsinu. Þar var á aðalhæð leiguíbúð. Fimm íbúðarherbergi voru á lofti hússins undir súð.
Aldamótaárið 1900 hófu þau að byggja íbúðarhúsið að Hóli, og þau fluttu í það árið eftir. Í húsi þessu bjuggu fósturforeldrar mínir í 20 ár. Hús þetta brann til kaldra kola í janúar 1920. Árið eftir byggðu þau Hólshúsið, sem nú stendur þar. Það er plankahús, sem Norðmenn byggðu á sínum tíma á Kolableikseyri í Mjóafirði. — Sameignarmaður fósturforeldra minna að þessu húsi var Helgi skósmiður Jónsson, nú búsettur á Akranesi.
Öll athafnaár sín stundaði Vigfús fóstri minn sjó að sumrinu. Hann hafði sum sumrin mikla útgerð á þess tíma mælikvarða. Árabáta gerði hann út mannaða Sunnlendingum sumar eftir sumar. Nálægt enduðum fyrsta áratug aldarinnar eignaðist hann lítinn vélbát. Þá gerði hann út válbátinn og fjögurra manna far jafnframt. Ýmsir kunnir Vestmannaeyingar voru formenn hjá fósturforeldrum mínum, svo sem Valdimar Árnason í Sigtúni, sem var gamall Norðfirðingur, fæddur að Borgum í Norðfjarðarhreppi, og Sveinn Jónsson á Landamótum. Eftir fleirum man ég ekki í svipinn. En áður en válbáturinn var keyptur, stunduðu kunnir sjómenn úr Vestmannaeyjum sjó á útvegi fóstra míns, t.d. Sigurður bróðir hans frá Frydendal, sem var formaður á árabátnum „Síldinni“, og með honum Einar Jónsson frá Garðstöðum í Vestmannaeyjakauptúni, eins og bærinn okkar hét þá manna á milli þar á austurslóðum.
Vigfús fósturfaðir minn lézt 25. apríl 1937 heima í Neskaupstað.
Eftir fráfall hans fluttist fósturmóðir mín hingað suður til okkar hjóna.
Hún andaðist hjá okkur í Háagarði 14. jan. 1943. Bæði hjónin urðu bráðkvödd.
Minningarnar um þau eru mér kærar.