Blik 1972/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, 1. kafli

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja

með nokkrum sögulegum skýringum


„Það fagra, sem var, skal ei lastað og lýtt,
en lyft upp í framför, hafið og prýtt.
Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,
án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.“

Svo kvað Einar skáld Benediktsson við aldamótin síðustu, er hann hugleiddi sögu íslenzku þjóðarinnar og liðnar aldir frá Landnámstíð.
Byggðasöfnin víðsvegar úti um landið eru talin markverðar menningarstofnanir. Og hversvegna? - Sjón er sögu ríkari. Þau veita okkur haldgóða sögulega fræðslu. Þau skapa okkur aukin skilyrði til að hyggja að liðinni tíð, skilja lífsbaráttu þjóðarinnar og sögu. En sú fræðsla og sá skilningur er grundvöllur þjóðlegrar menningar.
Hin sögulega skýring mín hér í minjaskránni á hinum ýmsu og margvíslegu munum í Byggðarsafni Vestmannaeyja er svo stutt og knöpp, sem frekast verður komizt af með. Ýmissa hluta vegna er það svo.
Minjaskráin á jafnframt að vera eilítið minnisblað um marga þá menn og konur hér í byggðarlaginu, sem skapað hafa því söguna, átt hafa gripina og lifað hafa hér lífinu í samfélagi við þá, ef svo mætti orða það.
Nöfn þessa mæta fólks verða því nefnd eftir því sem efni standa til, ástæður gefa tilefni til um eignarrétt á hlutunum og notkun.
Sjálfsagt er að viðurkenna það, að mig brestur oft kunnugleika eða þekkingu til að skilgreina fyrrverandi eigendur margra minjagripanna og notkun þeirra, svo að hvergi skeiki. Þó vona ég, að skrá þessi geti orðið nokkur leiðarvísir ungum, öldnum og óbornum.
Minjaskráin er miðuð við áramótin 1971/1972, og eru þá knöpp 40 ár liðin, síðan fyrstu munirnir í safninu voru lagðir til hliðar til varðveizlu.
Munirnir í skránni eru dregnir í dilka, flokkaðir eftir atvinnuvegum, notagildi þeirra í atvinnulífinu, lífsbaráttunni, eða þá á heimilum í daglegu lífi fólksins.
Mununum er raðað eftir stafrófsröð í skrána og þá miðað við upphafsstaf í heiti því, sem var og er í mæltu máli fólksins hér í Vestmannaeyjabyggð.
Hver hlutur í Byggðarsafninu er tölusettur. Sama númer er á hverjum hlut í skránni.
Að sjálfsögðu á þessi minjaskrá safnsins eftir að aukast og vaxa með vexti þess og viðgangi.
Mættu orð skáldsins Davíðs Stefánssonar sannast á okkur Eyjabúum, þegar hann fullyrðir:

,,Vor forna saga er fólksins heilsulind,
frelsandi kraftur, ættanna helgigrunnur.“

Okkur sjálfum er það mesta gæfan og menningin að efla sem mest og bezt sambandsþráðinn milli fortíðar, nútíðar og framtíðar.
Þó að skráin sé birt í Bliki að þessu sinni og framvegis, verður hún sérprentuð handa gestum byggðarsafnsins, sem kynnu að vilja eiga hana sjálfstæða eða sérprentaða.

Vestmannaeyjum, 31. des. 1971
Þorsteinn Þ. Víglundsson.


1. kafli
Sjávarútvegurinn


1. Austurausa (kæna), íslenzk. Ólafur Magnússon, útgerðarmaður og bátasmiður í London við Miðstræti smíðaði ausuna og notaði á juli sínu.
2. Austurausa, sem Hans Biskupstöð, bátasmíðameistarinn færeyski, smíðaði, þegar hann dvaldist hér í Vestmannaeyjum við smíði á opnum skipum með færeyisku lagi á árunum 1901-1903.
3. Austurtrog (eysill) úr julinu Labba. Gefandi: Þórður Sveinsson skipstjóri frá Varmadal við Skólaveg. - Austurtrog voru af ýmsum stærðum, á teinæringum mjög stór og venjulega fjögur á hverju skipi á vetrarvertíð.
4. Áhnýtingartæki til þess gert að herða að hnút, þegar hnýtt var á, eins og það var kallað - öngullinn hnýttur á línutauminn. Kristján Sigurðsson á Brattlandi við Faxastíg fann upp tækið, smíðaði og notaði.
5. Ár af áttæring. Árin er um það bil 8 álnir á lengd eða rúmlega 5 metrar.
6. Ár af skjögtbáti. Þeir voru notaðir til ferða og flutnings milli bryggju og vélbáts, þar sem hann lá við legufæri sín (bólið) á höfninni.
7. Árabátur með Landeyjalagi. Það bátslag var vel þekkt í Eyjum á umliðinni öld a.m.k., með því að nokkur skip Eyjamanna og þau nafnkunnustu, svo sem Gideon, Trú og Ísak voru smíðuð á Ljótarstöðum í Landeyjum.
Upprunalega var bátur þessi fjórróinn, en síðar sett á hann þriðja ræðið. Þessi stærð báta er talin hafa verið algeng í Landeyjum og í Eyjum á sumarbátum svo kölluðum og voru þeir kallaðir jul hér í Eyjum a.m.k., meðan þeir voru aðeins fjórrónir.
Tómas bóndi Jónsson á Arnarhóli í Landeyjum smíðaði bát þennan árið 1872 og er hann því réttra 100 ára. Hann smíðaði einnig naglana í byrðinginn og allt annað, sem bátsins er.
Báturinn var upphaflega smíðaður handa Hvolshreppingum eða fyrir þá. Þess vegna var hann um árabil kallaður Hvolshreppsbáturinn. Hvolshreppingar stunduðu sjó á honum frá Landeyjasandi, og lágu þeir þá oftast við í Miðkoti eða á Arnarhóli.
Um 1920 hlaut báturinn fast nafn - nafnið Farsæll - sökum þess, hversu farsæll báturinn hafði alltaf reynzt. Aldrei höfðu slys eða meiðsli átt sér stað á honum við útgerð hans. Fengsæll hafði hann jafnan reynzt og var það alltaf.
Þessir menn voru formenn á Farsæl: 1) Einar bóndi í Garðsaukahjáleigu í Hvolhreppi. 2) Kristján bóndi á Árgilsstöðum í Hvolhreppi. 3) Ísak bóndi Sigurðsson í Miðkoti. Ísak eignaðist bátinn, þegar Hvolhreppingar hættu að nota hann. Síðasti eigandi bátsins var Jón bóndi Tómasson í Hvítanesi. Hann var tengdasonur Ísaks Sigurðssonar.
Jón bóndi fékk sér formann fyrir bátinn, Einar bónda Gíslason í Vestur-Fíflholtshjáleigu.
Aldrei voru notuð önnur veiðarfæri á bátnum en handfæri.
Árið 1930 var síðast stundaður sjór á bátnum, og var Jón bóndi Tómasson formaður á bátnum síðustu fimm árin, sem hann var notaður.
Bátnum var jafnan vel við haldið, tjargaður og að honum dyttað á hverju hausti. Báturinn var bæði notaður á vetrar- og vorvertíðum. Stundum var sóttur sjór á honum suður undir Þrídranga. Bátnum var oftast lent vestan við Afallsósa.
Byggðarsafnið keypti bátinn, þar sem hann hvolfdi í Hvítanesi í Landeyjum, lét flytja hann á bifreið til Reykjavíkur og svo þaðan með v/b Skaftfelling til Eyja. Hingað kominn kostaði báturinn kr. 900,00. Það var árið 1956. Síðan lét Byggðarsafnið gera mikið við bátinn, m.a. setja í hann ný bönd. Smíði þessi átti sér stað á efsta gangi Gagnfræðaskólabyggingarinnar sumarið 1956. Ólafur Eggertsson skipasmíðameistari framkvæmdi það verk. Síðan var báturinn geymdur á efsta gangi Gagnfræðaskólabyggingarinnar í 13 ár, þiljaður þar af innst í ganginum. Einar J. Gíslason verkstjóri frá Arnarhóli hér í Eyjum greiddi fyrir kaupum á bátnum handa Byggðarsafninu. Helgi Benediktsson útgerðarmaður lét flytja hann til Eyja Byggðarsafninu að kostnaðarlausu. Það gerði v/s Skaftfellingur, sem þá flutti vörur milli Reykjavíkur og Eyja.
8. Áttaviti, lítill og „þurr“ í kassa. Hann var notaður á opnu skipi hér á fyrstu árum aldarinnar.
9. Áttaviti, „þurr“ af venjulegri stærð, eins og þeir gerðust, sem notaðir voru á fyrstu vélbátunum á árunum 1907-1910. Þeir voru ýmist festir á lúgu vélarhússins eða lúgu afturlestar, aftan við vélarrúmið, en þá voru engin stýrishús á vélbátunum.
10. Áttaviti með vökva. Þennan áttavita átti Jón Stefánsson í Mandal (Njarðarstræti 18) og notaði hann á trillubátnum Nóa, sem hann gerði út. Frú Bergþóra Jóhannsdóttir, ekkja J.St., gaf Byggðarsafninu áttavitann.
11. Áttaviti, vökvaáttaviti. Þennan áttavita átti fyrst Sigurður útgerðarmaður og formaður Ingimundarson í Skjaldbreið við Urðaveg. Hann notaði áttavitann á v/b Gnoð, VE 143, sem hann hóf hér útgerð á á árið 1910. Þetta er fyrsti áttaviti hér, sem hafður var í stýrishúsi, því að Sigurður formaður setti hér fyrstur manna stýrishús á vélbát sinn, vélbátinn Gnoð, árið 1914.
12. Áttaviti í hulstri, vökvaáttaviti. Á hulstrinu eru hliðarop. Þar logaði ljós í hliðarhulstri og lýsti það inn á áttavitann.
13. Baujuljósker (baujulugt), ensk gerð. Ljósker þetta notaði á sínum tíma Vestmannaeyja-Þór, þegar hann vaktaði netjasvæði Vestmannaeyjabáta á árunum 1920-1929.
14. Baujuljósker (baujulugt) af útlendri gerð. Henni var upprunalega stolið af bauju útlends togara, sem veiddi í landhelgi inni á Ál á árunum 1906-1909.
15. Bátavinda (spil), sem bændur og búaliðar fyrir ofan Hraun notuðu um eitt skeið suður í Klauf til þess að létta sér setningu báta sinna, þegar þeir stunduðu sjó úr Klaufarvör suður í Vík.
16. Bátlíkan af áttæringnum Ísak, sem smíðaður var á Ljótarstöðum í Landeyjum árið 1836. Síðast var hann gerður hér út á vertíð 1907.
Þorkell skipasmiður og bóndi á Ljótarstöðum smíðaði skipið. Það var með svokölluðu Landeyingalagi og sést það vel á líkaninu. Ísak þótti með afbrigðum gott sjóskip. Þorsteinn Jónsson, útgerðarmaður og skipstjóri í Laufási, hóf hinn langa formennskuferil sinn á opna skipinu Ísaki (að frátöldu julinu Sjömpu).
Þ.J. var formaður á Ísak fimm vertíðir (1901-1905). Þá keypti hann og félagar hans fyrsta vélbátinn, sem nothæfur reyndist hér til fiskveiða, v/b Unni VE 80.
Ágúst Árnason, barnakennari hér, smíðaði líkanið. Hann var háseti á Ísak hjá Þ.J. Líkanið er gjöf frá þeim hjónum Á.Á. og konu hans frú Ólöfu Ólafsdóttur. Vertíðina 1906 var formaður á Ísak Magnús Þórðarson í Dal, en síðustu vertíð skipsins (1907) Guðmundur Magnússon á Löndum.
17. Bátlíkan. Lagið á bátlíkani þessu er sem næst hinu venjulega lagi á Vestmannaeyjaskipum þeim, sem hér voru byggð. Ólafur Ástgeirsson frá Litlabæ smíðaði líkanið fyrir Lifrarsamlag Vestmannaeyja, sem gaf Byggðarsafninu það.
18. Bátlíkan með færeysku lagi. - áttæringur. Færeysku áraskipin ruddu sér til rúms í Eyjum á árunum 1901-1906. Yfirburðir þeirra fram yfir íslenzku skipin opnu þóttu miklir, svo að þau um síðir hurfu fljótt í skuggann, voru lögð niður. Bátasmíðameistarinn Hans Biskupstöð kenndi Vestmannaeyingum að smíða sex- og áttæringa með færeysku lagi á árunum 1901-1903, eða þá að þeir voru fluttir inn frá Færeyjum.
Bátlíkan þetta smíðaði Ólafur Ástgeirsson fyrir Lifrarsamlag Vestmannaeyja, sem gaf Byggðarsafninu gripinn.


ctr


Teikning eftir Engilbert Gíslason, málarameistara.


19. Bátlíkan af vélbáti með danska laginu, eins og þeir voru á fyrstu árum válbátaútvegsins, enda flestir smíðaðir í Danmörku. Stærð flestra vélbátanna var frá 6-8,5 smálestir, og vélaaflið var venjulega eitt hestafl á lestina eða rúmlega það. Ekkert stýrishús var á bátunum fyrstu 7 ár vélbátaútvegsins, og siglutréð var jafnan lagt í mótvindi til þess að auka hraða bátsins og draga úr veltu.
20. Bátlíkan, (fyrirmynd, snið) af vélbátnum Blátindi VE 21, sem Gunnar M. Jónsson, skipasmíðameistari, smíðaði fyrir íslenzka ríkissjóðinn árið 1945.
21. Bátlíkan, „Hrönn“. Líkanið smíðaði Ólafur St. Ólafsson, vélsmiður og forstjóri Vélsmiðjunnar Magna, þegar hann stundaði vélsmíðanám á Ísafirði á árunum 1916-1919. Líkanið er smíðað eftir teikningu, sem Bárður Guðm. Tómasson, skipasmíðameistari, gjörði, og flestir útilegubátar Ísfirðinga voru á sínum tíma með þessu lagi.
Frú Dagmar Erlendsdóttir frá Gilsbakka hér í bæ, ekkja Ólafs heitins, og svo synir þeirra hjóna, Erlendur og Gunnar, gáfu Byggðarsafninu líkanið.
22. Bátlíkan af nýtízku togbáti. Bátlíkan þetta hafði Runólfur Jóhannsson, skipasmíðameistari hér Eyjum, smíðað að miklu leyti, þegar hann féll frá. Sigurður Jónsson frá Hallgeirsey í Landeyjum, „modelsmiður“ í Landsmiðjunni í Reykjavík, smíðaði yfirbygginguna, siglutrén og bjó til reiðann.
23. Bátshaki. Hann var notaður til að draga bát að bryggju, ýta bát frá bryggju, taka inn línuból á miðum úti og svo innbyrða festarhálsa á Höfninni, þegar bát var lagt við ból.
24. Bátshaki, innlendur með þrem krókum. Hann var m.a. notaður til að krækja í fiska, sem flutu af línu við borðstokkinn, þegar hún var dregin.
25. Bátshaki, lítill. Hann var notaður á litlum vélbát til þess að ná upp festarhálsi á Höfninni, þegar báti var lagt við ból, og svo til þess að halda báti við bryggju. Hann er frá fyrstu árum vélbátaútvegsins hér í Eyjum. Þessi fannst á reki á Eyjamiðum.
26. Bergmálsdýptarmælir (Bendix-gerð ). Þessi dýptarmælir er einn hinna allra fyrstu, sem hér var settur í bát.
Gefendur: Bræðurnir frá Engey við Faxastíg, Sigurður og Sigurjón Jónssynir.
27. Bitafjöl úr áttæringnum Ísak. Ekki verður annað lesið á bitafjölinni en ártalið 1836, en það ár var áraskip þetta smíðað á Ljótarstöðum í Landeyjum. Sigurður Ólason forstjóri að Þrúðvangi við Skólaveg (nr. 22), gaf Byggðarsafninu fjölina.
28. Bitafjöl úr hinu kunna aflaskipi í Eyjum og hákarlaskipi, áttæringnum Frið, sem Gísli verzlunarstjóri Engilbertsson við Júlíushaabverzlun átti hluta í og gerði út ýmist á þorskveiðar eða hákarlaveiðar á síðari hluta síðustu aldar. Við rannsókn Lúðvíks Kristjánssonar, rithöfundar, hefur komið í ljós, að þetta er yngsta bitafjölin, sem nú er á minjasöfnum í landinu.
Á bitafjölinni gefur að lesa fyrirbæn, svo sem venja var til á bitafjölum:

Frið leiði friður, farsæld og gæfa,
haldist í höndur - höpp úr sæ fanga-,
ráð, dáð og dugur drottins í nafni. (1906).

Bitafjalir voru oftast festar framan á þóftuna eða bitann milli skutar og austursrúms í opnu skipunum. Þar blöstu þær við skipshöfn allri.
Frú Katrín Gísladóttir verzlunarstjóra Engilbertssonar, gaf Byggðarsafninu bitafjöl þessa.
29. Bjalla, bátsbjalla, sem fylgdi fyrsta vélbátnum hér, sem hlaut nafnið Kap VE 272. Kap var byggð í Noregi 1919 og var fyrst gerð hér út 1925. Jón Jónsson útgerðarmaður í Hlíð við Skólaveg, keypti einn bátinn hingað. Þá var bjallan í bátnum og síðar gefin Byggðarsafninu.
30. Bjalla, sem fylgdi v/b Von VE 279, sem keyptur var frá Noregi árið 1929. Bát þennan áttu Holtsfeðgarnir, Vigfús Jónsson í Holti (Ásavegur 2) og synir hans Guðmundur og Jón. Þeir gáfu Byggðarsafninu bjölluna.
31. Bjalla úr enska togaranum Donwood, sem strandaði austan við nyrðri hafnargarðinn (Hörgeyrargarðinn) í Eyjum árið 1965. Jón Í. Sigurðsson, hafnsögumaður frá Látrum í Eyjum, o.fl., sem keyptu togaraflakið á sínum tíma, gáfu Byggðarsafninu bjölluna til minnis um atburð þennan.
32. Bjóð (línubjóð). Í bjóð eða þannig lagaða trékassa var línan (lóðin) beitt, áður en tekið var að nota stampa til að beita í og svo lagnarrennu. Þegar búið var að krækja agninu (beitunni) á önglana, voru beir lagðir í raðir í mjórri enda bjóðsins og línuásinn hringaður niður í breiðari enda þess. Úr bjóði var línan lögð með berum höndum.
Bjóðið er frá v/b Sæfara VE 11, sem hét áður Vorblómið. Var þá tekinn fyrir smygl á bannárunum. G.J.J. keypti þá bátinn. Gefandi: Jón Karlsson, Reykholti við Urðaveg.
33. Bjóð, lítið strengjabjóð. Á fyrstu árum válbátanna voru ýmis aukastörf á sjónum, svo sem lagning línunnar, vélgæzla o.fl., greidd með því að sjómaðurinn fékk að hafa sérstakan línustreng eða strengi og naut þá aflans, sem á kom. Bjóð þetta hefur verið notað til að beita í strengi slíka. Bjóðið er frá Mandal og er frá Gústavs-útgerð þeirra Jóns Ingimundarsonar og Stefáns Gíslasonar, en þeir hófu vélbátsútgerð sína árið 1908, v/b Gústav VE 129, sem Ástgeir Guðmundsson bátasmiður í Litlabæ smíðaði.
34. Björgunarbátur (gúmmbátur). Þessi björgunarbátur er einn af þeim fyrstu, sem hingað voru keyptir og settir í vélbát. Hann var notaður hér í 8 ár (1952-1960), en þá voru fullkomnari björgunarbátar komnir til sögunnar. Gefendur: Bræðurnir frá Engey við Faxastíg, Sigurður og Sigurjón Jónssynir.
35. Björgunarhringur af þýzkum kafbáti frá styrjaldarárunum (1939-1945). V/b Skaftfellingur VE 33 (skipstjóri var Páll Þorbjörnsson, nú kaupmaður hér í bæ), sigldi þá iðulega með ísaðan fisk til Bretlands. Eitt sinn bjargaði skipshöfn Skallagríms áhöfninni á þýzkum kafbáti, sem var að sökkva. Þetta gerðist árið 1942. Björgunarhringur þessi er af kafbátnum. Gefandi: Páll Þorbjörnsson.
36. Blakkir tvær, þrískornar, mjög stórar. Þær eru úr dánarbúi Sigurðar hreppstjóra Sigurfinnssonar. Hann notaði þær m.a. til þess að draga á land v/b Knörr.
Blakkirnar átti síðast Högni Sigurðsson í Vatnsdal (nr. 30 við Landagötu) sonur Sigurðar hreppstjóra. Synir hans, Haukur og Guðmundur, gáfu Byggðarsafninu blakkirnar að föður sínum látnum.
37. Blökk, tvískorin, hvítmáluð. Þessi blökk fylgdi og hafði fylgt tómthúsinu Garðstöðum við Strandveg frá því á fyrri öld. Það var rifið 1970 og var þá blökkin látin á Byggðarsafnið.
38. Blökk, einskorin járnblökk. Þessi blökk kom til landsins með v/b Knerri í september 1905, en Sigurður hreppstjóri keypti hann í Noregi, lét setja í hann vél í Danmörku og sigldi honum síðan heim til Vestmannaeyja.
Fyrsti vélbátur, sem hingað var keyptur til fiskveiða. Högni Sigurðsson í Vatnsdal, sonur Sigurðar hreppstjóra og skipstjóra, gaf Byggðarsafninu þennan sögulega hlut, þann einasta, sem við vitum að enn er við lýði úr v/b Knerri.
39. Blýsakka, gömul, teinlaus, sett kalkormahulstrum. Sakka þessi fannst á nokkru dýpi norður af Eiðinu. Kom þar upp á handfærisöngli. Guðjón Ólafsson, skipstjóri frá Landamótum (nr. 3 A við Vesturveg) gaf hana Byggðarsafninu.
Blýsökkur voru teknar í notkun um svipað leyti og pottsökkurnar, um og eftir síðustu aldamót. Blýið var keypt í verzlunum og selt eftir vigt. Stundum keyptu sjómenn sökkurnar í erlendum fiskiskipum, t.d. frönskum skútum. Algengt var, að íslenzkir sjómenn seldu frönskum skútukörlum prjónles (vettlinga og sokka) fyrir blýsökkur, t.d. Frökkum. Blýsökkur á handfæri voru eftirsóttar og taldar hafa mikla kosti fram yfir vaðsteininn.
40. Blýsakka af franskri gerð. Sögð er hún keypt í franskri skútu á Eyjamiðum á síðari helming síðustu aldar.
41. Blýsakka, teinlaus með forsendum, taumi og öngli, sem smíðaður var hér Eyjum (Guðmundur járnsmiður Ögmundsson í Borg í Stakkagerðistúni smíðaði).
42. Blýsakka með hálfteini (hálfás). Á fyrsta tugi aldarinnar var það orðið algengt að setja tein (ás) á sökkuna til þess að öngultaumurinn yndist síður upp á færið, þegar því var rennt.
43. Blýsakka með heilteini (heilás). Hún var almennt tekin hér í notkun um 1915. Fyrirmynd mun frá Færeyingum. Í örum fiski drögust þannig tveir fiskar í einu.
44. Blýsakka með heiltein. Þetta er sakkan af síðasta handfæri hins kunna formanns og fiskimanns hér í Eyjum, Magnúsar bónda Guðmundssonar á Vesturhúsum.
45. Blýsakka, frönsk í sniði. Þessa sökku átti Halldór héraðslæknir Gunnlaugsson og læknir Franska spítalans í Vestmannaeyjum frá 1906-1924 (dánardægurs). Franskir sjómenn gáfu honum sökku þessa. Gefendur: Börn læknishjónanna.
46. Blýsakka, stór og þung (ledda) með holu í neðri enda. Hún var notuð til þess að rannsaka sjávarbotn. Þorsteinn Jónsson, útvegsbóndi og skipstjóri í Laufási, gaf Byggðarsafninu gripinn, sem hann notaði sjálfur við sjávarbotnsrannsóknir á miðum Eyjamanna um margra ára skeið.
47. Botnvörpulíkan. Líkan þetta af venjulegri botnvörpu gerði Kristleifur heitinn Magnússon, netjagerðarmeistari, og er þetta sveinsstykkið hans í iðngrein þessari.
48. Dorgir tvær, líklega af erlendri gerð, ætlaðar til smokkfiskveiða. Tuttugu krókar steyptir í eitt og sama blýið. Blýið síðan málað rautt. Gefandi: Friðrik skipstjóri Ásmundsson, sonarsonur Friðriks útgerðarmanns Svipmundssonar á Löndum og k.h. Elínar Þorsteinsdóttur frá Dyrhólum.
49. Dorg, þrír önglar festir saman og síðan vafðir með rauðu klæði og festir við sigurnagla. Líklega notaðir við smokkfiskveiðar. Innlend smokkfiska- eða kolkrabbadorg?
50. Dragnótarkefli frá fyrstu árum dragnótarinnar hér í bæ eða um og eftir 1920. Gefendnr: Friðrik Ásmundsson og Ragnar Eyjólfsson, skipstjórar hér í kaupstaðnum.
51. Dragnótarlíkan. Sveinsstykki Erlends Stefánssonar, netjagerðarmeistara, Vallargötu 6.
52. Dregg alsett kalkhulstrum eftir sjávarstorma. Hún hefur auðsýnilega legið lengi í sjó. Á Suðurlandi munu dreggjar mjög oft hafa verið notaðar við endaból á línu Á Austurlandi var algengt að nota þær til að halda kyrrum síldarnetum, sem lögð voru út frá ströndinni, með landtógi svo kölluðu. Dreggjar voru þá notaðar við ytri enda netjanna. Þessi dregg kom upp í dragnót.
53. Dregg, línudregg frá útgerð Ársæls Sveinssonar útvegsbónda á Fögrubrekku.
54. Drykkjarkútur (blöndukútur). Kút þennan átti Sigurður Vigfússon (Siggi Fúsa) tómthúsmaður og sjómaður á Fögruvöllum (áður nr. 39B við Strandveg, nú Miðstræti 18). Eftir fráfall Sigurðar Vigfússonar var kútnum fleygt vestur af Hamrinum með öðrum fleiri föggum hans. Síðar kom kútur þessi upp í dragnót vestan við Hamarinn (Ofanleitishamar), og var hann þá hirtur og geymdur um árabil. Það gerði Maríus Jónsson í Framnesi (nr. 3B við Vesturveg). Hann gaf kútinn Byggðarsafninu nokkru áður en hann féll frá.
55. Festarkefi (festarkjafi, keðjukefi) af einum hinna fyrstu vélbáta, sem fluttir voru inn frá Danmörku á fyrsta tug aldarinnar.
56. Fiskdráttarkrókur. Þeir voru notaðir til að draga eða bera fisk ,,úr Sandi“, eins og það var kallað, draga fisk frá skiptistað upp að aðgerðarkró, sem flestar stóðu þá sunnan við Strandstíginn vestur af Hrófunum. Oftast voru það konur tómthússmannanna (hásetanna oftast) eða vinnukonur bændanna í Eyjum, sem inntu aðgerðarstarfið af hendi. Drógu þær þá fiskinn úr Sandi suður að aðgerðarkró.


ctr


Seil (nál, tóg og seilarbotn), fiskdráttarkrókur og bjóð.


Jafnframt urðu þær að bera sjó í fötum neðan frá höfn til þess að þvo fiskinn úr við aðgerðina. Þær gerðu að úti, hvernig sem viðraði alla vertíðina en söltuðu síðan fiskinn inni í krónni.
Tveir fiskar voru dregnir í hvorri hendi. (Sjá málverk Kristins Ástgeirssonar til frekari skýringar á þessum þætti atvinnulífsins hér í Eyjum um langan aldur, mynd nr ).
57. Fiskdráttarkrókur, einn krókur ætlaður unglingi við fiskdrátt. Krókurinn er úr dánarbúi Kristjáns Ingimundarsonar í Klöpp, hins kunna Eyjaformanns, útgerðarmanns og fuglaveiðimanns á sínu langa æviskeiði í byggðarlaginu. Gefendur: Dóttursynir Kristjáns, Theodór og Kristján Georgssynir.
58. Fiskdráttarkrókur, merktur F.B., þ.e. Finnbogi bóndi og skipstjóri Björnsson í Norðurgarði. Hann átti krók þennan.
59. Fiskdráttarkrókur, merktur F.J.D. þ.e. Friðrik Jónsson útvegsbóndi að Látrum við Vestmannabraut (nr. 44).
60. Fiskdráttarkrókur, sem frú Jónína húsfreyja Jónsdóttir í Gerði átti og notaði öll þau ár, sem hún ,,gekk í Sandinn“ og vann að aðgerð á vertíðum. Frú Jónína gaf Byggðarsafninu fiskdráttarkrókinn.
61. Fiskgoggur. Þegar vélbátarnir stækkuðu og hækkuðu á „borð fyrir báru“, voru goggarnir hafðir skaftlengri að sjálfsögðu. Þessi er af yngri gerðinni.
62. Fiskigarðar. Á miðöldum steig skreið mjög í verði á erlendum markaði. Þá reíð mjög á því fyrir Eyjabúa að geta framleitt góða og vel verkaða skreið til sölu erlendis. Annmarkar voru á því, sérstaklega vegna rakans í sjávarloftinu. Þá var tekið að herða fisk á syllum í móbergshömrum, t.d. Fiskhellum svokölluðum. En meira rými þurfti til. Þá fundu Eyjabúar upp gerð fiskigarðanna sinna. Hver jarðarvöllur (tvær jarðir) eignaðist afmarkað svæði, sem girt var hlöðnum grjótgarði til varnar sauðfé t.d., sem þá gekk í hundraðatali um alla Heimaey. Inni í gerðinu voru síðan hlaðnir reitir úr hraungrýti með bili á milli, svo að ekki þurfti að ganga á reitunum sjálfum (þurrkreitunum) meðan fiskurinn var breiddur til herzlu. En fleira var innan gerðisins en herzlureitirnir. Þarna var byggð kró úr hraungrýti, - hringmynduð kró, sem mjókkaði upp í toppinn, svo að loka mátti henni með dálítilli steinhellu. Að baki krónni var reitur, kallaður kasarreitur. Oftast var fiskurinn hertur flattur, tekinn úr honum hryggurinn.
Þegar fiskurinn var fluttur í gerðið, ýmist borinn á baki eða reiddur á hesti, var hann settur í kös á kasarreitinn. Þar var hann látinn liggja, þar til byrjaði að slá í hann. Þá var hann breiddur á herzlureitina. Lágnaður fyrir herzlu þótti fiskurinn bragðbetri og mýkri. Eiga Norðmenn að hafa fundið upp þessa verkunarferð á miðöldum.
Hálfharður var fiskurinn síðan settur inn í króna. Þar blés hann og fullharðnaði án þess að regn kæmist að honum. Loftstraumur lék um króna, þar sem hún var hlaðin upp úr hraungrýti með einföldum veggjum. Fyrir krónni var rimlahurð. Dyrnar voru lágar, svo að ganga varð hálfboginn um þær eða skríða nánast. Yfir dyragættinni var hvalbein, rifbein úr hval, sem er hvíta strikið fyrir ofan dyrnar á myndinni.
Í krónni geymdist skreiðin vel. Þaðan var hún flutt á verzlunarskipið, þegar hún var seld til útflutnings, og þangað sóttu menn skreið til heimilisnota.
Í Sögu Vestmannaeyja segir höfundurinn, Sigfús M. Johnsen, um fiskigarðana á Heimaey: ,,Garðarnir tóku yfir mikið svæði vestan frá Há, Brimhólum innri og niður frá Agðahrauni og vestur undir Stakkagerði og sumstaðar niður undir Sand. Til skamms tíma sáust leifar yngri fiskigarðanna; greinilegast vestur af Stakkagerði og víða annars staðar.
Fiskigarðarnir, sem eins og frá er greint í Sögu Vestmannaeyja, voru dreifðir um stórt svæði vestur á Heiðinni, vestur af Landakirkju, upp að Agðahrauni og niður að höfninni vestanverðri, Skildingafjöru.
Því stærri fiskigarðar, sem fylgdu hverjum jarðarvelli, þeim mun hærra gat kóngur haft afgjald jarðanna hverju sinni. Svo mikill fengur þótti það, fylgdu stórir fiskigarðar jarðarvellinum.
Þetta líkan af vestmannaeyískum fiskigörðum gjörði Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ. Það er gjört eftir frásögn Jóns Jónssonar frá Brautarholti (nr. 3 við Landagötu), síðast sjúkrahússráðsmaður hér í bæ. Hann var fæddur 1869 og mundi gerð síðasta fiskigarðsins, sem var rifinn um 1880.
Rétt er að geta þess, ef vekja mætti sögulega athygli; að það var í þvílíkri harðfiskkró vestur í hrauni, sem morðið mikla og sögukunna var framið hér í Eyjum árið 1692. Þess er getið í Alþingis- og réttarhaldsbókum frá næstu árum, og samfelld frásögn er um það í Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum eftir Jóhann Gunnar Ólafsson.
63. Fiskstingur. Áður en lyftitæki tækninnar komu til, var fiskstingurinn notaður hér í verstöðinni, útgerðarbænum mikla, til þess að kasta fiskinum upp úr lest á þilfarið og síðan af því upp á bryggju, síðan af bryggju upp í handvagninn og síðar flutningabifreiðina, sem aflinn var fluttur á upp að aðgerðarhúsinu eða fiskkrónni. Til þess að skemma ekki fiskinn sjálfan, útflutningsvöruna, stungu samvizkusamir sjómenn og aðgerðarmenn alltaf í haus en ekki bol fisksins.
64. Fiskþvottarstampur. Þessi er næsta óvenjustór, smíðaður úr eikartunnustöfum, olíutunnustöfum. Stamp þennan eða fiskþvottarkerald átti frú Guðrún Runólfsdóttir á Sveinsstöðum við Njarðarstíg (nr. 6). Hún rak hér útgerð um árabil og ræktaði jafnframt tún hér á Heimaey og stundaði heyskap. Hún var móðir Ársæls Sveinssonar útgerðarmanns að Fögrubrekku. Fengur er Byggðarsafninu að eiga þennan hlut til minja um atorku frú Guðrúnar á Sveinsstöðum. Gjöf frá sonarsonum hennar til Byggðarsafnsins.
65. Færarúlla. Að öllum líkindum er þetta fyrsta færarúllan, sem hingað var keypt til þess að nota við nælon-handfæri.
Emil skipstjóri Andersen gaf hana Byggðarsafninu.
66. Gervifiskur. Þetta tæki á uppruna sinn í Noregi. Af Norðmönnum höfum við lært að nota það eins og svo margt annað, sem lýtur að síldveiðum. Á norsku máli heitir tæki þetta skjelma (af nafnorðinu skjelm, þ.e. hrekkjalómur; gárungi). Þegar snurpað hafði verið og hin aðþrengda síldartorfa leitaði á munna nótarinnar, var gervifiski þessum stungið niður í sjóinn við nótarmunnann til þess að fæla síldina frá opinu, svo að hún tapaðist ekki út um það. Þessi gervifiskur er frá síldarútvegi Ársæls heitins Sveinssonar á Fögrubrekku (nr. 68 við Vestmannabraut).
67. Gervifiskur frá síldarútvegi Gunnars Ólafssonar og Co. (Tangabátunum).
68. Gildingarhlunnur (gilding, þ.e. áfella). Þetta er hlunnur smíðaður úr hörðu tré með hvalbeinsáfellu. Helzt voru þessir hlunnar hér notaðir við smærri fleytur, svo sem julin, þ.e. fjórrónu bátana. Gefandi: Gunnar Marel Jónsson, skipasmíðameistari.


ctr


Goggar með löngu og stuttu skafti.
Minnsti goggurinn er úrgreiðslugoggur (Sjá nr. 234).


69. Goggur, krókur á löngu skafti. Notaður til að krækja í fisk, sem flaut af línu við byrðing, þegar á drætti stóð.
70. Handfæraöngull, hvippulaus, íslenzkur. Þennan öngul smíðaði Guðmundur smiður Ögmundsson í Borg.
71. Handfæraöngull, hvippaður. Íslenzk smíði (G.Ö.).
72. Handfæraöngull með sigurnagla en „síldarlaus.“
73. (leiðr.) Handfæraöngull; stór, hvippulaus. Þessir stóru handfæraönglar voru kallaðir hneifar. Þær voru helzt notaðar á færin, þegar dreginn var sílfiskur „undir Sandi“.
74. Handfæri, fullgert, eins og þau gerðust upprunalega, eftir að tekið var að nota blýsökkur í stað vaðsteina. Sakkan er með forsendum í báðum augum hennar, og svo er taumur, öngull og sjálft færið, sem er þriggja punda lína. Það var oft um 60 faðmar á lengd. Öngullinn er smíðaður hér í Eyjum.
75. Handvaður, hákarlsveiðitæki, með vaðsteini, eins og þau gerðust hér á landi frá fyrstu tíð: Sóknin (hákarlsöngullinn), með sigurnagla; taumur, tengdur vaðsteininum með sigurnagla. Neðri lykkjan á vaðsteininum hét ístað. Vaðsteinninn var venjulega 5-7 kg á þyngd. Við efri lykkjuna á vaðsteininum var tengd allt að þriggja metra festi (keðja). Svo var það á Austfjörðum. Við hana var festur gildur kaðall, sem kallaður var bálkur. Lykkja var á efri enda kaðalsins. Var hún kölluð vaðarhald. Í hana var bundinn vaðurinn sjálfur, færið (handvaðsfærið, handvaðsstrengurinn). Oft var handvaðsstrengurinn þríþætta, undinn saman úr þrem línustrengjum 2-3 punda.
76. Handvaður með járnsökku. Að öðru leyti var hann að gerð líkur handvaði með vaðsteini. Sigurnagli var hafður beggja vegna við sökkuna, við báða enda hennar.
77. Hákarladrepur, þ.e. tvíeggjað stálblað í löngu skapti. Með hákarladrepnum var leitast við að stinga hákarlinn ýmist í mænuna eða hjartað, þegar hann kom upp að skipsborðinu. Hafsteinn Stefánsson, skipaeftirlitsmaður, gaf Byggðarsafninu hákarladrepinn.
78. Hákarlaífæra (geysistór krókur). Þegar unnið hafði verið á hákarlinum við skipssíðuna, var stóru ífærunni krækt upp í ginið á honum og hann dreginn upp í siglutréð, svo að auðveldara væri að ná úr honum lifrinni.
79. Hákarlaífærur, minni gerð. Þær voru notaðar til að hafa vald á þessum risafiski, meðan lifrinni var náð úr honum. T.d. var kviðhlutum skepnunnar haldið sundur með ífærum, meðan lifrin rann úr henni. Eins voru hinar minni ífærur notaðar meðan trompað var, hákarlsskrokkarnir settir á tromptógið eða trompfestina til þess að geyma þá undir kili, þar til heim var haldið úr hákarlatúrnum, eins og það hét á ,,tungu feðranna“ hér í Eyjum.
80. Hákarlasakka. Við Suður- og Vesturlandið var hákarlinn veiddur á „færi“, handvað svo kallaðan.
Meðan ekki fluttust til landsins járnsökkur, var notaður vaðsteinn á handvaðinn. Járnsakkan er um það bil 4 kg. Gefandi: Brynjólfur Einarsson, bátasmiður, Boðaslóð 4.
81. Hákarlaskálm (-sveðja). Þegar ráðið hafði verið niðurlögum hákarlsins og búið var að draga hann upp í siglutréð, var hann ristur á kviðinn að endilöngu til þess að ná úr honum lifrinni. Þessi skurður var gerður með sveðjunni miklu.
82. Hákarlaskutull smíðaður hér í Eyjum.
83. Hákarlaskutull af hákarlaskipi Jóns formanns og útgerðarmanns Ingimundarsonar í Mandal, íslenzk smíði. Jón var formaður á Mýrdæling, síðasta opna skipinu, sem héðan gekk til hákarlaveiða. Það var 14. apríl 1893.
84. Hákarlaskutull, erlend smíði. Skutullinn fannst í jörðu austur á Kirkjubæjum fyrir mörgum árum. Gefandi: Sigurbergur Jónsson bónda Valtýssonar.
85. Hákarlaönglar (hákarlasóknir), íslenzkt smíði. Haraldur Sigurðsson, sem bjó hér í húsinu Sandi við Strandveg, gaf Byggðarsafninu sóknirnar. Líklega smíðaðar af Guðmundi Ögmundssyni í Borg.
86. Hámeraröngull með taumi. Öngulinn gaf Jón Stefánsson í Mandal Byggðarsafninu. Er öngull þessi sagður vera frá útgerð Ingimundar hreppstjóra og formanns á Gjábakka, afa Jóns Stefánssonar, en hreppstjórinn var um árabil með opna skipið „Björgu yngri“.
87. Herpinótarlíkan (snurpunótarlíkan ). Þessi gerð og þetta snið þeirra var ríkjandi, þegar síldarskipin höfðu til nota tvo herpinótarbáta. Líkanið gjörði Finnbogi Ólafsson, netjagerðarmeistari frá Kirkjuhóli (nr. 4 við Bessastíg) og er það sveinsstykkið hans í greininni.
88. Hnísuskutull með tógenda. Skutulinn smíðaði Guðmundur Ögmundsson í Borg (í Stakkagerðistúni). Skutullinn er gjöf frá sonarsonum Guðmundar, sonum Ástgeirs Guðmundssonar í Litlabæ (nr. 35 við Strandveg, nú Miðstræti 16.
89. Hnísuskutull, líklega íslenzkur.
90. Hnísuskutull, útlendur að gerð og sniði. Einnig notaður til að skutla seli. Stefán Gíslason í Ási notaði skutul þennan við og hnísu- og selveiðar hér við Eyjar á yngri árum sínum. Gísli kaupmaður Stefánsson í Hlíðarhúsi, keypti hann eitt sinn erlendis, er hann var í vörukaupum.
91. Hraðamælir af v/b Emmu VE 219. Hraðamælar (logg) voru notaðir á „skútuöldinni“ og síðar á vélbátunum, hinum stærri a.m.k. Gefandi: Eiríkur Ásbjörnsson.
92. Hraðamælir af v/b Ísleifi VE 63, sem Ársæll Sveinsson átti. Synir hans gáfu Byggðarsafninu hraðamælinn.
93. Hvalbeinshlunnur merktur S. Hlunn þennan átti Stefán Gíslason frá Hlíðarhúsi og notaði hann við jul sitt eða skektu, þegar hann bjó suður í norðanverðum Stórhöfða og réri þar úr Víkinni til fiskjar.
94. Hvalbeinshlunnur, merktur G.H. Gefandi: Njáll vélsmiður Andersen.
95. Hvalbeinshlunnur, merktur K.E. Þessi hlunnur er frá Mýrdælingsútgerðinni, sem Jón Ingimundarson Mandal annaðist. Var hann formaður á áttæringnum Mýrdæling eftir að Þorsteinn Jónsson formaður og alþingismaður Eyjanna, féll frá árið 1886. Þá segir sagan, að einhver hásetinn á Mýrdæling hafi merkt hlunnann Kristínu Einarsdóttur í Nýjabæ, ekkju Þorsteins Jónssonar, bónda hennar, formanns og alþingismanns. Jón Stefánsson í Mandal, dóttursonur Jóns Ingimundarsonar, gaf Byggðarsafninu hlunnann.
96. Hvalskutull, útlend smíði. Þennan skutul keypti hingað á sínum tíma og notaði um skeið, Þorvaldur skipstjóri og útgerðarmaður Guðjónsson frá Sandfelli (nr. 36 við Vestmannabraut). Sumar eitt stundaði hann hrefnuveiðar á vélbáti sínum Leó VE, sem hann var eigandi að og skipstjóri á.


ctr


„Lækurinn“, athafnasvæði Eyjafólks við höfnina í Eyjum í 10 aldir. - Fiski landað og skipt. Verzlunarskip danskt liggur á höfninni. Laupur fylltur grjóti sést til vinstri á myndinni (ferningslöguð hleðsla). Þar standa menn uppi á. Þetta eru leifar af „Miðbúðarbryggjunni“, sem brotnaði annars í ofviðri eftir síðustu aldamót.

97. Hvalskutull, íslenzk smíði. Ásgeir Guðmundsson, smiður í Litlabæ, smíðaði hann um 1880.
98. Ífæra (lúðuífæra). Þær voru notaðar til þess að bera í stóra drætti við borð skipanna eða í sjólokunum, svo sem flakandi lúður. Gefandi: Gunnar Marel Jónsson.
99. Ílar - þrír lýsisílar. Þessi lýsisílát kenndi séra Oddur Gíslason, prestur í Grindavík (1878-1894) íslenzkum sjómönnum að nota til að draga úr slysahættu á sjó. Séra Oddur Gíslason ,,hinn ötuli framkvæmdagarpur þessa málefnis“, eins og komizt er að orði um hann í góðri heimild, hélt fyrirlestur um slysavarnir á sjó í Vestmannaeyjum 2. febrúar 1889. Fyrirlestur prestsins var fjölsóttur í Eyjum og sýndi Eyjafólk mikinn áhuga þessu málefni, sem fjallaði einvörðungu um „bjargráð í sjávarháska“. (Sjá 6. árg. Fjallkonunnar árið 1889). Eftir þessa heimsókn séra Odds Gíslasonar til Eyja voru ílar almennt notaðir á skipum Eyjamanna. Bezt þótti hákarlalýsi til nota í ílana. Þeir voru ýmist bundnir á síður skipanna eða dregnir á eftir þeim, þegar stormar og stórsjóar steðjuðu að.
Ílar þessir eru frá útgerð Ársæls Sveinssonar á Fögrubrekku.
100. Íll, lítill, fundinn í gamalli kró, sem rifin var fyrir fáum árum. Gefandi: Hávarður Sigurðsson, verkstjóri, Boðaslóð 2.
101. Íll, norskur að uppruna. Hann fylgdi v/b Þorgeiri goða VE 264 (áður hét hann Laxfoss). Bátur þessi var smíðaður í Noregi árið 1916 og keyptur þaðan. Íllinn er gjöf til Byggðarsafnsins frá Jóni Einarssyni í Berjanesi við Faxastíg (nr. 20).
102. Íshögg. Þetta íshögg var notað hér á árunum 1902-1908, þegar Ísfélag Vestmannaeyja rak íshús sitt eða frystihús og lét brjóta ís af Vilpu og Daltjörninni og flytja í ísgeymslu sína við Landagötu.
103. Járnrakkar tveir frá loggortuseglaútbúnaði stórskipanna í Vestmannaeyjum. Annar rakkinn er sagður vera af áttæringnum Gideon. Rakkar þessir eru járnhringir, sem „hlupu“ upp og niður siglutréð, þegar segl voru þanin eða felld. Við þá var seglráin fest með króki að neðan og einskorin blökk var fest við rakkann að ofan og í henni lék tógið, þegar seglið var dregið upp eða það var fellt.
104. Jómfrúr tvær úr tré. Þær eru sagðar leifar frá þilskipaútgerð Vestmannaeyinga frá s.l. öld. Þær fundust hér í gömlu íbúðarhúsi ónefndu og voru geymdar þar sem einskonar ættargripir.
105. Jómfrú úr eirblöndu.
106. „Kabyssa“, lítill ofn úr lúkar á einum fyrsta vélbátnum hér, sem slíkt upphitunartæki var sett í. Oft var settur prímuslampi inn í ofna þessa, þegar hita þurfti kaffi í skyndi.
107. Kálfsbelgur - línuból. Mikil líkindi eru til þess, að kálfsbelgir hafi verið íslenzk línuból frá upphafi línualdar þeirrar, sem talin er hefjast seint á 15. öld (sumir nefna ártalið 1482). Belgurinn var fleginn af nýbornum kálfi sem mest heill og óskorinn. Síðan var belgurinn verkaður og látinn liggja í blásteinsvatni. Settur var síðan spons í hvern skækil og tréklossi í strjúpann. Á honum var gat fyrir bólfærið. Á einum sponsinum var gat og hafður trétappi í. Þar var belgurinn blásinn upp. Væri um milliból að ræða, var bólfærið jafnan undið upp á belginn. Um leið og línustjórinn sökk til botns, vatt hann færið af belgnum. Kálfsbelgir voru einnig notaðir við lagvaði. (Sjá lagvað). Þennan línubelg bjó Austfirðingurinn Stefán Jónsson að Sléttabóli hér við Skólaveg (nr. 31), en hann er aldraður sjómaður af suðurfjörðum Austurlands, og m.a. hákarlaveiðimaður gamall og reyndur.
108. Keðjuhlekkir, - botnfestarhlekkir; gildir og þungir. Þeir eru úr einni af festum þeim eða keðjum, sem lágu á sínum tíma eftir Vestmannaeyjahöfn frá austri til vesturs. Öllum vélbátaflota Eyjamanna var raðað á þær botnfestar um áratugaskeið eða þar til bátakvíarnar urðu til í Eyjum. (Sjá mynd af Höfninni, sem tekin er árið 1938, og svo aðra tekna 1958 til samanburðar). Hlekkir þessir sanna okkur gildleika og styrk botnfestanna.
109. Keðjuklær, tvær að tölu, gildar og traustar frá dögum Hannesar Jónssonar hafnsögumanns og hafnarvarðar. Þá þurfti oft að lyfta gildri hafnarfesti frá botni eða lagfæra og treysta á bryggju. Þá voru keðjuklær notaðar til að fá gott tak á festarhlekkjunum.
110. Klaufhamar. Þennan klaufhamar notaði Hannes Jónsson, hafnarvörður hér um tugi ára og hafnsögumaður, til þess m.a. að berja ryð af ýmsum munum úr járni, sem voru í eigu Vestmannaeyjahafnar. Hamarinn kom upp úr höfninni 1964.
111. Klemma - eikarþvinga. Þær voru notaðar við smíði á súðbyrtum bátum, bæði opnum skipum og vélbátum, áður en skrúfuþvingurnar komu til sögunnar. Borðin voru sem sé klemmd saman með eikarþvingum þessum til þess að halda þeim föstum meðan þau voru seymd.
Þessa borðaklemmu átti Jón formaður og smiður Ingimundarson í Mandal, enda merkið „Jón“ á henni. Fóstursonur hans og dóttursonur, Jón Stefánsson í Mandal, gaf Byggðarsafninu gripinn.
112. Klemma - eikarklemma. Borðaþvingu þessa átti Ástgeir skipasmiður Guðmundsson í Litlabæ.
113. Kraki (dreki). „Akkeri“ þetta er íslenzkt að hugsun og gerð og táknrænt fyrir þjóð, sem reyndi eftir megni að bjarga sér í málmsnauðu landi. Krakinn hélt lagvaðnum kyrrum í sjónum. Kraki (dreki) af þessari gerð, var sumstaðar á landinu kallaður krossflaugardreki. Þennan kraka gerði að öllu leyti Stefán Jónsson að Sléttabóli við Skólaveg, en hann stundaði hákarlaveiðar með lagvað á hákarlamiðum Suð-Austurlands á yngri árum sínum.
114. Lagningarlukt. Hún er frá Emmu-útgerðinni hér í bæ. Í ljóskeri þessu logaði eitt einasta kerti. Þannig voru fyrstu ljóskerin á vélbátunum í Vestmannaeyjum. Við týru þessa urðu sjómennirnir að leggja línuna oft og tíðum og draga hana, ef þeir urðu seint fyrir. Þegar línan var lögð, var lugtin fest á tréstand aftan við miðjan bát stjórnborðsmegin og lýsti þá niður í bjóðið, sem línan var lögð úr. Þegar línan var dregin í skuggsýnu eða myrkri, var lugtin færð fram að línurúllunni. Þannig var þetta á mörgum litlu vélbátunum fyrstu í Eyjum, þar til gasluktir og síðan rafljósin komu til sögunnar.
115. Lagvaður, austfirzkur að gerð. Vaðtré þetta með fjórum sóknum, klóm og hluta af stjórafæri, fann skipshöfnin á Vestmannaeyja-síldarskipinu Gjafari (VE 300) á síðustu síldarárum langt austur í hafi austur af Austfjörðum. Hún færði síðan happafund þennan Byggðarsafninu að gjöf. Skipstjóri á Gjafari er sem kunnugt er Rafn Kristjánsson.
Byggðarsafnið hefur látið setja vaðinn upp að fullu. Sjón er sögu ríkari, og þar gefur á að líta og af að læra. Lagvaðir voru notaðir mikið við hákarlaveiðar á síðustu öld og ef til vill fyrr hér á landi, helzt á Austfjörðum og Norðurlandi, þar sem lítill sjávarstraumur var, svo sem innfjarða og í fjarðarmynnum.
116. Lifrarmál. Um árabil eftir að tekið var að bræða hér fisklifur og hún þá seld eins og hver önnur framleðisluvara, var hún mæld í pottatali. Til þess voru notuð mismunandi stór mál, sem til þess voru smíðuð. Hér á Byggðarsafnið 50 potta (lítra) lifrarmál. Það var lengi notað í lifrarbræðslustöð Gísla J. Johnsen, útgerðarmanns.
117. Línuból („línubelgur“), hnöttótt, svart. Erlend gerð. Þessi línuból tóku að flýtjast til landsins á fyrstu árum vélbátanna og útrýmdu fljótt kálfsbelgjabólunum.
118. Línukrókar (línuönglar) með gervibeitu, níu að tölu. Ólafur Sigurðsson skipstjóri og útgerðarmaður frá Skuld (nr. 40 við Vestmannabraut) lét setja þessa gervibeitu á önglana erlendis og gerði hér tilraun með línu þannig beitta. Árangur hafði reynzt furðu góður af tilraun þessari.
119. Línurúllur - alls sex rúllur af svipaðri gerð - frá fyrstu árum línunnar hér í Eyjum, en notkun línu hófst hér 10. apríl 1897. Þessar línurúllur voru einnig notaðar á fyrstu vélbátunum. Gefendur: Frú Kristbjörg Einarsdóttir, ekkja Guðmundar heit. Jónssonar í Málmey (nr. 32 við Hásteinsveg), en hann fluttist hingað 1903 og stundaði sjó hér í 40 ár; Björn Bergmundsson frá Nýborg við Njarðarstíg, Árni Jónsson verzlunarmaður í Odda við Vestmannabraut o.fl.
120. Línurúlla frá útgerð Magnúsar Guðmundssonar formanns á Vesturhúsum. Þessa línurúllu notaði hann í sumarbáti sínum Hannibal. (Sjá mynd af honum í Byggðarsafninu).
121. Línurúlla með andæfurum - hliðarkeflum. Þetta er yngri gerð af línurúllum. Andæfararnir hindruðu erfiðleika, þegar línan hafði ekki beina niðurstöðu. Þessi línurúlla kom upp á línu austur í Fjallasjó árið 1955.
122. Lugt, sem notuð var hér lengi á trillubáti. Ólafur Ástgeirsson, formaður og bátasmiður frá Litlabæ, gaf Byggðarsafninu lugtina.
123. Lugtir, þrjár stórar.
124. Lúðuönglar tveir. Þessa öngla smíðaði Guðmundur Ögmundsson smiður í Borg í Stakkagerðistúni, afi Ólafs Ástgeirssonar, sem gaf Byggðarsafninu önglana.
125. Lúðuífæra frá útgerð Friðriks útgerðarmanns og formanns Svipmundssonar á Löndum. Frú Elín Þorsteinsdóttir frá Dyrhólum, ekkja Fr.Sv., gaf Byggðarsafninu ífæruna.
126. Lyfjakassi. Þessi lyfjakassi er einn af hinum allra fyrstu, sem hér var látinn í vélbát. Lyfjakassinn er úr v/b Skuld VE 163, sem Ársæll Sveinsson, útgerðarmaður á Fögrubrekku, keypti til landsins árið 1913 og átti helming í, og var hann formaður á bátnum. Magnús Ísleifsson, trésmíðameistari í London við Miðstræti, smíðaði kassann. Hann var talinn listasmiður og vanda skyldi smíðina á fyrsta lyfjakassanum.


ctr


Þessi mynd er meira en 65 ára gömul. Vélbátur settur á land í Botninum. Til þeirra framkvæmda voru notaðar þrískornar blakkir og svo heimagert spil úr trjám, svo sem sýnt er á bls. 196. Sú mynd er af bátavindu frá gömlum útgerðartímum í Papey. En svipuð að gerð voru þá þessi hjálpartæki um allt land.

127. Lyfjakassi úr fyrsta vélbát, er Helgi útgerðarmaður og kaupmaður Benediktsson eignaðist hér í bæ. Það var vélbáturinn Auður VE 3, sem fyrst var gerð hér út árið 1926. Gunnar Marel Jónsson, skipasmíðameistari, smíðaði vélbát þennan og svo lyfjakassann.
128. Lýsiskrani. Þetta er sagður fyrsti lýsiskraninn, sem hér var notaður. Einokunarverzlun Bryde (Austurbúðin) lét setja hann á lýsisgeyminn sinn um 1870, og var hún þá svo að segja einráð um öll lifrakaup og alla lýsisframleiðslu í kauptúninu. Þennan lýsiskrana átti síðast Pétur bóndi Lárusson á Búastöðum og gaf hann Byggðarsafninu árið 1938.
129. Netjaflá úr tré. Þær voru algengar hér á landi fyrir aldamótin síðustu, þar sem erfitt var þá að fá kork keyptan til þess að búa til flár úr. 130. Netjakúlunálar úr látúni, gerðar til þess að riða utan um glerkúlur, sem um árabil voru notaðar á þorskanet hér á vélbátaflotanum.
131. Netjakúlur úr gleri í riðnum poka. Þær voru notaðar frá fyrstu tíð þorskanetjanna.
132. Netjanál úr beini - síldarnetjanál, sérleg. Netjanál þessa gaf Þórður H. Gíslason, netjagerðarmeistari, Byggðarsafninu. Á henni eru skelplötukinnar.
133. Netjanálar þrjár úr harðviði. Þessar nálar voru fyrst og fremst notaðar til að bæta og fella síldarnet. Gefandi: Þórður H. Gíslason.
134. Netjanál til þess gerð að bæta með botnvörpur.
135. Netjanálar úr tré - nokkrir tugir nála, sem geymzt hafa, síðan Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum lét kenna nemendum sínum netjagerð og netjabætingu í verkstæði skólans að Goðasteini.
136. Netjasteinamerki vélbátsins Skuldar VE 163. Stautur þessi með tölunni 163 var notaður til þess að merkja bátnum netjasteina um leið og þeir voru steyptir handa honum.
137. Netjasteinamerki, talan 219, einkennistala v/b Emmu. Gjöf frá útgerð hennar.
138. Netjasteinamót. Það var notað til að steypa í netjasteina, fyrstu og elztu gerð þeirra, sem hér voru steyptir. Mótið er frá Emmu-útgerðinni. Gefandi: Eiríkur Ásbjörnsson, útgerðarmaður.
139. Netjasteinamót, gömul stærð frá þeim árum, er þorskanetin voru aðeins 18 möskva djúp. Þessa gerð netjasteina gerði fyrstur Jón Einarsson, bóndi og hreppstjóri í Mundakoti á Eyrarbakka. (Sjá bókina Þorlákshöfn). Helgi Benediktsson, útgerðarmaður, gaf Byggðarsafninu mótið.
140. Netjasteinar tveir úr sæsorfnu blágrýti (fjörusteinar). Þannig voru fyrstu netjasteinar útvegsbænda hér á árunum 1913-1915. Gat var höggvið í steininn og þar festur hanki, eins og enn sést ljóslega. Þessa elztu netjasteina gaf Bergur Elías Guðjónsson, útgerðarmaður, Byggðarsafninu.
141. Netjasteinar, tveir rauðir leirsteinar. Þeir eru norskir. Norðmaðurinn A. Förland stundaði hér þorskanetjaveiðar á árunum 1914 og 1915 og gerði út frá Eiðinu í Vestmannaeyjum, þar sem hann átti hús. Hann flutti þessa netjasteina inn frá Noregi.
142. Netjasteinar - þrír hnöttóttir. Þessir netjasteinar voru kallaðir Ísólfssteinar, kenndir við Ísólf Pálsson organista á Stokkseyri, sem fann þá upp, steypti og seldi um skeið. Þeir þóttu ekki heppilegir og náðu því ekki hylli hér í Eyjum.
143. Netjasteinn af nýjustu gerð. Þegar þorskanetin dýpkuðu, þurfti þyngri netjasteina. Þá varð þessi stærð þeirra ríkjandi og hefur verið það síðan.
144. Plasthringur - nýtízkufyrirbrigði; notaður í stað glerkúlna á þorskanet.
145. Pottsakka. Sökkur af þessari gerð flutti Brydeverzlun til Eyja um aldamótin. Þá tóku vaðsteinarnir að hverfa af handfærunum.
146. Prímus af v/b Nóa, sem Jón í Mandal Stefánsson gerði út. Frú Bergþóra Jóhannsdóttir í Mandal gaf gripinn Byggðarsafninu. Prímusar voru notaðir til að hita upp „gashausa“ fyrstu bátavélanna.
147. Prímus, nýr og ónotaður. Gefandi: Helgi Benediktsson, útgerðarmaður.
148. Olíubrúsi frá Nóaútgerðinni í Mandal. Um nokkurt árabil eftir að útgerð vélbátanna hófst, var öll steinolía (vélaeldsneytið) flutt til landsins á tunnum (eikartunnum). Olíutunnan var að jafnaði höfð á stokkum í beituskúr eða aðgerðarhúsi og þar töppuð af henni olían á brúsa, sem ýmist var tæmdur í olíugeymi bátsins eða hafður með á sjóinn til vara um olíubirgðirnar. Þessi „Nóa-brúsi“ er þannig til kominn.


ctr


Gamla bátaspilið í Papey.
Þannig voru þau einnig í Vestmannaeyjum á fyrstu árum vélbátaútvegsins.


149. Rásegl af juli, mjög gamalt. Þannig sniðin segl voru notuð hér á áraskipunum frá landnámstíð. Þetta rásegl fannst hér í gamalli kró.
150. Rekakkeri frá útgerð Ársæls Sveinssonar útgerðarmanns á Fögrubrekku. Gripið var til rekakkerisins, ef halda þurfti vélbát upp í vind og öldu, ef þeir t.d. urðu fyrir vélabilun úti á rúmsjó. Eitt af bjargráðunum gegn slysahættu.
151. Reiðarlugt, rautt siglingarljósker. Gefandi: Helgi Benediktsson.
152. Ræði, íslenzk smíði. Allt gjört úr járni, þollarnir (tollarnir) og þrælkan (áfellan). Úr dánarbúi Jóns formanns Ingimundarsonar Mandal. Frá Mýrdælingsútgerðinni.
153. Ræði, íslenzk smíði. Eikarnefja og járnþollur, og áfellan (þrælkan) er úr hvalbeini. Ræðið er af sexæring.
154. Ræði, járnræði af erlendri gerð.
155. Sakka - nýtízkufyrirbrigði. Sakkan er notuð við nælon-handfæri, en þau voru tekin hér í notkun um miðja öldina eða fyrir um það bil 25 árum.
156. Seil (nál, tóg og seilarbotn).
Þegar að landi var komið með aflann á opnu skipunum, áður en bryggja var byggð í Eyjum, var fiskurinn seilaður og dreginn á seilinni upp í fjöru eða á klöpp, þar sem aflanum var skipt milli skipshafnarmanna og skipsins sjálfs (skipshlutir).
Seilað var þannig, að seilarnálinni var stungið undir kjalkabarðið á fiskinum og ýmist út um augað neðanvert eða ginið á fiskinum og fiskurinn þannig látinn renna eftir seilartóginu eða seilarólinni, því að stundum var notað nautsleður í stað tógs, og niður að seilarbotninum. Á eina seil komust 40-60 þorskar eftir stær. Seilin var síðan dregin á land. Þá var fiskurinn „þræddur af“ seilinni og aflanum skipt eftir nokkurnveginn föstum reglum. Alltaf var seilað, þegar komið var að í Læknum sökum útfiris. Flestar seilarnálarnar eru merktar eigendunum, ýmist með fangamarki eða rómverskri tölu. Sú tala táknar oftast upphafsstaf nafni eigandans. Ákjósanlegt þótti stundum að nota rómverskan tölustaf til þess að tákna upphafsstaf eigandans, því að hægara var að skera þær tölur á nálina sökum beinu línanna. T.d. talan 8, sem verður skorin VIII. Hún segir okkur, að eigandinn eigi G að upphafsstaf, því að G er áttundi stafurinn í stafrófinu.
Undantekning var það hér í Vestmannaeyjum, ef seilarnál var smíðuð úr öðru efni en hvalbeini.
Tvær seilar munu hafa fylgt hverju skiprúmi, sem fiskur var látinn í.
Aldrei var fiskur látinn í austurrúm og fyrirrúm. Þar var skipið ausið. Tvær til fjórar seilar voru í skut eftir stærð skipsins.
Vil ég nú gera grein fyrir fyrrverandi eigendum seilarnálanna, eftir því sem kostur er og mér hefur verið tjáð, þegar nálarnar hafa verið færðar Byggðarsafninu að gjöf.
Flestar voru upprunalegu eigendurnir kunnir sjómenn hér eða útvegsbændur í verstöðinni. Ef til vill er það öðrum þræði ástæðan fyrir því, að nálarnar hafa geymzt hér hjá afkomendum þeirra eða ættingjum um tugi ára til minnis um dugnað þessara manna og farsæld á sjónum. En hér hefur verið nokkrum annmörkum háð að grafa upp hið rétta, því að seilarnálarar eru í hópi elztu minjanna á Byggðarsafninu.
157. Seilarbotn, laus úr eik.
158. Seilarnálin á seilinni, sem við eigum í heilu lagi, er merkt Jóni, þ.e. nafn Jóns Ingimundarsonar í Mandal, og er nálin frá formennskuárum hans á Mýrdæling, hinu nafnkunna opna hákarlaskipi. Jón var mikill dugnaðarmaður og aflasæll, bæði á þorsk- og hákarlaveiðum.
159. Seilarnál, merkt M. Þessa nál eignaðist Magnús Guðmundsson formaður á Vesturhúsum um það bil, er hann gerðist formaður á áttæringnum Ingólfi. (Sjá Blik 1969). Hann gaf nálina Byggðarsafninu.
160. Seilarnál, merkt J.P., þ.e. Jón Pétursson, bóndi, smiður og formaður í Þórlaugargerði. Jón Guðjónsson frá Oddstöðum, fóstursonur hjónanna í Þórlaugargerði, Jóns og Rósu Eyjólfsdóttur, gaf Byggðarsafninu nálina.
161. Seilarnál, merkt E. Þessi seilarnál er mjög gömul. Var mér tjáð á sínum tíma, að hana hefði átt Einar bóndi og formaður Sigurðsson á Vilborgarstöðum, en hann var faðir hinna merku borgara hér í kauptúninu, frú Kristínar húsfreyju í Nýjabæ og Árna meðhjálpara og hreppstjóra á Vilborgarstöðum. Einar Jóelsson, sjómaður hér frá Sælundi, hafði átt þessa nál frá barnæsku og gaf hana Byggðarsafninu.
162. Seilarnál, merkt M.D. Hana átti Magnús Diðriksson, vinnumaður hjá bróður sínum, Árna hreppstjóra, bónda og formanni í Stakkagerði Diðrikssyni. Magnús Diðriksson var háseti á þilskipinu Hansínu frá Eyjum, er það fórst vorið 1864. Áður hafði hann róið með Árna bróður sínum, þegar hann var formaður á hinu nafnkunna Eyjaskipi Gideon, áður en Hannes Jónsson gerðist formaður á því.
163. Seilarnál, merkt krossi og svo 0 með lóðréttu striki þvert um það.
Þessa nál átti Ögmundur Ögmundsson sjómaður í Landakoti í Eyjum. Hann var, eins og mörgum er enn kunnugt, háseti á áttæringnum Gideon í 38 vetrarvertíðir og réri öll þau ár með sömu árinni á sömu þóftunni. (Sjá Blik 1963).
164. Seilarnál, merkt með ferhyrning, og svo er skorinn fiskur á nálina.
Þessa nál átti Ísleifur Jónsson tómthúsmaður og sjómaður í Nýjahúsi. Ef til vill hefur hann flutt hana með sér til Eyja, en hann var frá Leirum undir Eyjafjöllum.
165. Seilarnál, merkt IX. Þessa nál átti Halldór Brynjólfsson frá Gvendarhúsi. Hann stundaði hér sjó árum saman, þó að blindur væri frá barnsaldri. (Sjá Blik 1954). Stjúpdóttir hans, búsett í Hafnarfirði, sendi Byggðarsafninu nálina. H er níundi stafur stafrófsins.
166. Seilarnál, merkt G.Þ. Björg. Nálina átti Guðmundur Þórarinsson bóndi á Vesturhúsum og eignaðist hana, er hann var háseti á opna skipinu Björgu yngri hjá Ingimundi Jónssyni formanni á Gjábakka. Gefandi: Jón Sveinsson, Nýlendu við Vestmannabraut.
167. Seilarnál, merkt XI. Nálina átti Jón bóndi Jónsson í Gvendarhúsi og notaði hana m.a. þegar hann var háseti á Gideon hjá Hannesi Jónssyni. (Sjá Blik 1958). J er ellefti stafurinn í stafrófinu, ef i og í fellur í eitt, eins og oft gerðist.
168. Seilarnál, merkt H.F. Ekki er vitað, hver átti nál þessa.
169. Seilarnál, merkt E.S. Nálina átti Einar bóndi Sveinsson í Þórlaugargerði.
170. Seilarnál, merkt E. Þessa seilarnál gaf Jón Jónsson frá Brautarholti Byggðarsafninu. Hann var sonur Jóns hreppstjóra Jónssonar, sem bóndi var í Dölum um árabil og áður á Vilborgarstöðum. Jón bóndi var formaður á áttæringnum Eólusi um eitt skeið eftir miðja 19. öldina og á nálin að hafa verið merkt skipinu með stafnum E.
171. Seilarnál, ómerkt. Ekkert um hana vitað.
172. Seilarnál, ómerkt. Engin deili vitum við á seilarnál þessari.
173. Seilarnál, merkt XVIII (rómversku tölunni 18). Ólafur Magnússon, bátsmaður og formaður í London við Miðstræti (nr. 3), á að hafa átt þessa nál og notað hana í formannstíð sinni á áraskipinu Dreka. Rétt er það, að Ó er 18. stafur stafrófsins, ef breiðu sérhljóðin eru talin með, en é-inu þó sleppt.
174. Seilarnál, óvenjulöng seilarnál úr járni. Notuð við að kippa upp þorskhausa. Þessa nál átti Ágúst Gíslason frá Hlíðarhúsi, útgerðarmaður í Valhöll, tengdasonur Þorsteins læknis Jónssonar.
175. Seilarnál, merkt E.J. og XXV. Seilarnál þessa gaf Einar heitinn Jóelsson frá Sælundi Byggðarsafninu: Stafirnir hans eru skornir út á nálina, og svo tákntala fyrir upphafsstaf hennar, sem hann unni, þ.e. 25. stafur stafrófsins, sem er Þ, þegar öllum breiðu hljóðstöfunum er sleppt. Þetta atriði lét Einar heitinn mig skrá með seilarnálinni. Annars var nálin gömul, þegar hann eignaðist hana.
176. Seilarnál, mjög lítil úr beini með „seilaról“ til þess gerð að kippa upp þorskhausa eða smáfisk á klakk. Nálin er merkt Á.J., þ.e. Árni Jónsson, útgerðarmaður í Görðum.
177. Seilarnál, merkt IIII. Enginn deili vitum við á seilarnál þessari.
178. Seilarnál, merkt IM.
179. Seilarnál, merkt I.D.
180. Seilarnál, merki afmáð. Auðsjáanlega mjög gömul og slitin.
Síðustu þrjár seilarnálarnar eru sagðar vera úr „dánarbúi“ Jóns bónda og formanns Brandssonar frá Hallgeirsey og háseta hans, en þeir drukknuðu á álnum milli lands og Eyja 25. marzmánaðar 1893. Skipshöfnin bjó í Stíghúsi við Njarðarstíg og þar framkvæmdu hreppstjórarnir í Eyjum, Lárus Jónsson og Jón Jónsson, uppskrift á eftirlátnum munum þeirra Landeyinganna, miðvikudaginn 29. marz (1893). Þar fundust meðal margra annarra muna til útgerðar 15 seilar. Þær munu hafa dreifzt um verstöðina og eignaðist merkur Vestmannaeyingur þrjár þeirra. Þær eru þessar, sem síðast voru taldar. Sonur hins merka Eyjabúa afhenti Byggðarsafninu nálarnar með þagnarskyldu.
181. Seilarnál, merkt EK.
182. Seilarnál, merkt XXV.
183. Seilarnál, merkt XI VIII. Ekki veit ég deili á því, hver hefur átt þessar þrjár seilarnálar, sem hér eru skráðar.
184. Seilarnál, merkt VII.
Þessa seilarnál átti hinn kunni sjómaður hér um langt árabil, Guðmundur Ögmundsson í Batavíu, faðir Friðriks frá Batavíu.
185. Senditæki (sendistöð), innlend smíði. Þessar sendistöðvar framleiddi kunnur loftskeytamaður á sínum tíma í Reykjavík. Þær voru notaðar hér um eitt skeið í nokkrum vélbátum og ætlaðar til þess, að bátur gæti látið um sig vita, sérstaklega, ef eitthvað bjátaði á. Vissulega gerðu tæki þessi gagnið oft og tíðum en þóttu þó léleg, sérstaklega eftir að erlendu sendi- og móttökustöðvarnar ruddu sér til rúms og urðu algeng hjálpartæki í vélbátunum.
186. Síldarklippur (síldartöng). Klippur þessar voru notaðar til þess að kverka með síld, eins og það verk var kallað, áður en hún var söltuð til útflutnigs. Gefandi: Sigurður smiður Sæmundsson á Hallormsstað við Brekastíg (nr. 11 A).
187. Síldarklippur með vöfðum örmum. Gefandi: Guðrún Þórðardóttir, Framnesi (nr. 3B við Vesturveg). Sjálf notaði hún síldarklippur þessar, þegar hún stundaði síldarsöltun á Siglufirði.
188. Síldarmót úr alabastri; til þess gerð að steypa í þeim blý- eða tin„síldir“ á handfæraöngla. Mót þessi átti Jón formaður Ingimundarson í Mandal. Gjöf frá Jóni Stefánssyni, dóttursyni hans og fóstursyni.
189. Síldarmót úr sementsblöndu, notuð eins og frá er greint í fyrra númeri.
190. Síldarnetjanálar tvær með harðviðarkinnum. Gefandi: Þórður H. Gíslason netjagerðarmeistari.
191. Síldarnetjanál með kinnum úr skelplötu. Þ.H.G. gaf Bygðarsafninu nálina.
192. Sjópokalás.
193. Sjóskór úr erlendu leðri. Þennan sjóskó átti upphaflega Pétur bóndi Benediktsson í Þórlaugargerði. Jón Guðjónsson frá Oddstöðum, fóstursonur Jóns bónda Péturssonar Benediktssonar, gaf Byggðarsafninu skóinn.
194. Sjóskór með þveng úr hrosshári. Gefandi: Stefán heitinn Björnsson, útgerðarmaður í Skuld (nr. 40 við Vestmannabraut).
195. Skinnbrók saumuð úr hrosshá. Brókin var ný og ónotuð, þegar Guðjón bóndi Jónsson í Hallgeirsey í Landeyjum sendi Byggðarsafninu hana að gjöf.
196. Skinnklæðanálar, notaðar við skinnklæðasaum. Fyrirseyma hét önnur nálagerðin, sem notuð var. Það var fjaðranál. Eftirseyma hét hin nálagerðin. Hún var sívöl. Skinnklæðaþráðurinn var oftast ullarþráður.
197. Skinnklæði (stakkur og brók) úr sauðskinni. Skinn- eða sjóklæði þessi ,,eru ættuð“ frá Neðra-Dal í Mýrdal. Gefandi: Sigurgeir Sigurðsson, símaverkstjóri hér í bæ.
198. Skriðljós (stjórnborðs-„lanterna“) af v/b Ísleifi VE 63, sem bættist við bátaflota Eyjamanna 1928. Fyrsti bátur Ársæls Sveinssonar með þessu nafni. Guðjón smiður Þorleifsson í Fagurhóli (nr. 55 við Strandveg) smíðaði skriðljós þetta. Gefendur: Synir Ársæls Sveinssonar.
199. Skrúfuhnífur, gamall. Gefandi: Eyjólfur skipstjóri Gíslason á Bessastöðum hér í Vestmannaeyjum.
200. Smurolíukranar úr tré. Öll smurolía var flutt á tunnum til landsins, og höfðu sjómenn þær „á stokkum“ eins og steinolíutunnurnar. Síðan var smurolíunni rennt á brúsa. Til þess voru kranar þessir notaðir.
201. Smurolíukrani úr málmi.
202. Stangþollar (melspírur) tveir úr eirblöndu.
203. Stangþollur (melspíra) úr harðviði, ætlaður til að stanga saman svokallað grastóg eða stanga lykkju á það. Gefandi: Helgi Benediktsson, útgerðarmaður.
204. Stangþollur, lítill úr járni. Gefandi: H.B.
205. Stangþollur úr hvalbeini. Mjög sjaldgæf innlend smíði. Gefandi: Árni Jónsson, fyrrum verzlunarmaður við Tangaverzlun. Þollurinn mun kominn til Eyja af Suðurnesjum.
206-211. Steinolíukranar úr málmblendi. (Sjá skýringar við nr. 148 um olíubrúsa). Þessir steinolíukranar eru frá ýmsum útgerðarmönnum hér í bæ.
212. Steinolíukrani með sérstökum lykli (heimiliskrani). Krana þennan átti Árni gjaldkeri Filippusson í Ásgarði við Heimagötu (nr. 29).
213. Stjóri, ljós á litinn. Líklega erlend steintegund, sem flutzt hefur hingað seglfesta með erlendu skipi. Síðan gerður stjóri úr steininum.
214. Stjóri. Flatur blágrýtissteinn með gati í miðju. Í gegnum það var rekinn eikarstokkur, sem veitti viðnám við sjávarbotninn. Í brún stjórans er gat fyrir legufærið. Þessi ,,steinakkeri“ voru oft notuð á opnu hákarlaskipunum, þegar legið var með handvað á hafi úti dægrum saman.
215. Stokktré, tvö af gamalli gerð. Fimm strengja tré. Þessi gerð af stokktrjám mun vera hin upprunalega. Og voru línu-stokktré þessi í notkun fram yfir síðustu aldamót.
216. Stokktré, lítil, strengjastokktré svo kölluð, af elztu gerð. Vissir menn á vélbátunum höfðu aukaþóknun fyrir sérstök störf á bátnum, t.d. lagningu línunnar. Þá var þóknunin oft falin í afla á sérstakan línustreng eða -strengi, sem þeir áttu og fylgdi línunni á bátnum. Línustrengir þessir voru „stokkaðir upp“ í þessi litlu stokktré.
217. Stokktré af yngri gerðinni. Þóttu liðlegri en eldri gerðin. Fljótlegra að ná önglunum úr þeim, þegar línan var beitt.
218. Stýri. Þetta stýri er af „Prestsbátnum“, sem svo var kallaður, - íslenzkt jul, feræringur, sem séra Oddgeir Þórðarson (Guðmundsen) sóknarprestur að Ofanleiti átti og réri á til fiskjar úr Klaufinni, þegar blíð voru veður að sumrinu. (Séra Oddgeir var sóknarprestur hér 1889-1924).
219. Stýri af norskri skektu, sem Jónatan vitavörður Jónsson í Stórhöfða átti og réri á að sumrinu úr suðurvör í Vík suður (Stórhöfðavík).
220. Stýri af juli, fjögurra manna fari. Julið hét Valdimar og var róið á því til fiskjar að sumrinu um árabil á fyrri öld. Lárus hreppstjóri, bóndi og smiður á Búástöðum (d. 1895) smíðaði bát þennan heima á Búastöðum, eins og svo marga aðra báta, og hélt honum út á vor- og sumarfiski, eins og títt var um julin fyrrum.
Lárus Árnason, bifreiðarstjóri á Búastöðum, dóttursonur Lárusar hreppstjóra, gaf Byggðarsafninu stýrið.
221. Stýri af færeysku þriggjamanna-fari (sexæring), sem frú Guðrún Runólfsdóttir á Sveinsstöðum við Njarðarstíg átti og gerði út. Stýri þetta er brennimerkt G.R. Gefandi: Sveinn Ársælsson, sonarsonur frú Guðrúnar Runólfsdóttur.
222. Stýri af v/b Skuld VE 163, sem Ársæll Sveinsson flutti til landsins haustið 1912. Var það fyrsti vélbáturinn sem Ársæll eignaðist. Bátur þessi kom til Eyja með gufuskipinu Kong Helga 25. september 1912. V/b Skuld var 10 smálestir með 17 hestafla Danvél. Ársæll Sveinsson átti helming bátsins. Hann var formaður á bátnum 6 vertíðir og síðan Gunnlaugur Sigurðsson, formaður á Gjábakka, 13 vertíðir. V/b Skuld var rifin hér eftir 1936 og þess vegna er stýri þetta til enn. Gefandi: Frú Margrét Jónsdóttir, Sætúni.
223. Stýrishjól („rat“) úr v/s Helga VE 333, sem smíðað var hér í Dráttarbraut Vestmannaeyja.
Skipasmíðameistari var Gunnar M. Jónsson, sem smíðaði sjálfur hjólið. Vélskipið Helgi fórst á Faxaskeri 7. jan. 1950. Þá fyrir skömmu hafði hjólið verið tekið úr skipinu og annað minna látið í brúna. Gefandi: Helgi Benediktsson, eigandi skipsins.
224. Stýrishjól. Hjól þetta kom upp í dragnót fyrir nokkrum árum suður af Dyrhólaey. Við rannsókn hefur komið í ljós, að stýrishjól þetta er af færeyskri fiskiskútu, sem fórst suður af landinu fyrir mörgum árum, og hét hún Íslandsfarið.
225. Stýrissveif (stjórnvölur) af v/b Sigríði VE 113, sem kom til Eyja árið 1908, smíðuð í Friðrikssundi í Danmörku. Eigandi: Vigfús Jónsson í Holti o.fl. og var V.J. með bátinn 13 vertíðir.
226. Sveif, gangsetnigarsveif af 8 hestafla Danvél frá allra fyrstu árum vélbátaútvegsins hér í Eyjum. Hjólið fannst í dráttarbrautarhúsi Magnúsar Magnússonar, sem byggt var í Skildingafjöru, þar sem Skipasmíðastöð Vestmannaeyja er nú byggð.
227. Talstöð (loftskeytastöð). Þetta markverða tæki, sem er tvennt í einu: sendistöð og mótttökustöð, er okkur tjáð, að sé fyrsta tæki sinnar tegundar, sem sett er í vélbát hér á landi, a.m.k. í Vestmannaeyjum. Talstöðin var sett í vélbátinn Leó VE 294, en eigandi hans og skipstjóri var Þorvaldur heitinn Guðjónsson frá Sandfelli í Eyjum (nr. 36 við Vestmannabraut). V/b Leó var 39 smálesta bátur eða þar um bil, smíðaður í Danmörku 1916. Keyptur var hann hingað til Eyja frá Reykjavík árið 1932. Talstöðin mun hafa verið sett í bátinn 1938. Loftskeytamaður á bátnum var einn af hásetunum, Héðinn Vilhjálmsson gullsmiðs Brandssonar í Eyjum.
Óskar skipstjóri Matthíasson, sem á sínum tíma eignaðist bátinn, gaf Byggðarsafninu talstöðina.
228. Taumarokkur. Frumstæðasti taumarokkur Byggðarsafnsins. - Taumarokkur var notaður til þess að snúa tauma á línu. Þennan taumarokk átti Kristján Ingimundarson, útvegsbóndi og formaður í Klöpp við Strandstíg.
229. Taumarokkur úr járni. Þennan rokk átti Halldór Brynjólfsson, sem stundaði sjó hér árum saman og var þó blindur frá 13 ára aldri. (Sjá Blik 1958).
230. Taumarokkur. Þennan rokk átti Magnús Guðmundsson formaður og útvegsbóndi á Vesturhúsum. Hann hóf hér þorskveiðar með línu 10. apríl 1897. Eftir það var taumarokkurinn algengt áhald í útvegsbændaheimilum hér og ýmsir utan þeirra heimila höfðu atvinnu af því að snúa öngultauma. (Sjá Blik 1969).
231. Taumarokkur úr dánarbúi Símonar útgerðarmanns Egilssonar á Stað hér við Helgafellsbraut (nr. 10).
232. Taumarokkur úr dánarbúi Stefáns Guðlaugssonar útvegsbónda og skipstjóra í Gerði. Um áratugi voru snúnir öngultaumar á hina kunnu Halkion-útgerð hér á þennan taumarokk.
233. Trompjárn. Það var a.m.k. trú hákarlaveiðimanna, að hákarlinn væri alveg sérstaklega lyktnæmur fiskur. Þeir þóttust líka hafa reynslu fyrir því, að hákarl væri alveg sérstaklega gráðugur í bræður sína, ef hann ætti þess kost að éta þá. Þetta var ástæðan fyrir því, að hákarlaformaður, sem ætlaði sér í hákarlatúr, eins og það var kallað, leitaði sér fræðslu um það, hvar síðast var rennt niður hákarlsskrokkum á miðum úti. Þangað eða í nánd við þau mið þýddi ekki að liggja til hákarla. Þeir tækju ekki beitu, jafnvel ekki blóðúldið hrossakjöt vætt í rommi, vegna þess, að þeir hefðu etið sig sjúka af hákarli, sem þar hafði verið sökkt til botns.
Þetta var ástæðan fyrir því, að hákarlaveiðimenn söktu ógjarnan hákarlsskrokk, þar sem þeir lágu yfir handvað, fyrr en farið var í 1and. Þess vegna voru hákarlsskrokkarnir „settir á tromp“ meðan á veiðinni stóð, þ.e.: stungið var gat í gegnum hausinn á þeim og tóg eða mjó járnfesti þrædd í gegnum það. Þannig voru hákarlsskrokkarnir „kippaðir upp“ á festi þessa eða tóg. Síðan var taug þessi bundin undir kjöl og endar festir á sitt hvort borð skipsins. Þannig lágu hákarlsskrokkarnir undir kili skipsins, þar til haldið var í land. Þá var taugin dregin inn í skipið, og sukku þá skrokkarnir til botns. Alls staðar var það kallað að „setja á tamp“, þegar hákarlsskrokkarnir voru „þræddir“ upp á taugina (festina, tampinn). En hér í Vestmannaeyjum var þetta kallað að trompa. Og áhaldið, sem notað var til þess að setja gatið gegnum haus hákarlsins, var kallað trompjárn. Það er þetta áhald, sem Byggðarsafnið á. Tampjárn var það kallað annars staðar með sjómönnum. Á trompjárninu er ávöl egg, sem höfð var beitt, svo að léttara yrði að trompa. Gefandi: Árni J. Johnsen, Árdal.
234.(leiðr.) Úrgreiðslugoggar tveir. Þeir voru notaðir til þess að greiða fisk úr netjum.
235. Vaðbeygjur þrjár (vaðhorn). Vaðbeygjur voru smíðaðar ýmist úr eik eða eski. Þær voru til þess gerðar að verja hástokka áraskipanna frá að skaddast af núningi handfæranna. Vaðbeygjunum var stungið í gat í hástokknum og færið látið leika í þeim, meðan dorgað var eða keipað.
236. Vaðsteinar - nokkrir venjulegir vaðsteinar - handfærasökkur í málmsnauðu landi.
237. Vaðsteinn, lítill og léttur, sem notaður var á handfæri unglings.
Vaðsteinninn fannst í gömlu fiskbyrgi (fiskkró) fyrir aldamót í Ofanleitishrauni.
238. Vaðsteinn, fremur lítill, fundinn í öskuhaug „Tyrkja-Guddu“, Guðríðar Símonardóttur, nyrzt í Stakkagerðistúninu, sunnan við Hilmisgötu (16. maí 1968). Þarna sjást enn bæjartóftir. Vitað er með vissu, að þarna bjuggu þau hjónin Guðríður Símonardóttir, húsfreyja, og Eyjólfur Sölmundarson, þegar Tyrkir rændu Eyjarnar.
239. Vaðsteinn, venjuleg stærð, með fati og forsendum, taumi og íslenzkum öngli, sem Guðmundur smiður í Borg smíðaði á sínum tíma eða um miðja síðustu öld. Gefandi: Eyjólfur Gíslason, skipstjóri á Bessastöðum, sem bjó út vaðsteininn með fati, forsendum og taum.
240. Vaðsteinn, kalkaður utan. Hann hefur því legið lengi í sjó. Hann fannst við köfun í hafnarmynni Vestmannaeyja (Leiðinni) sumarið 1936. (Þarna á Hnyklinum, bjargi í hafnarmynninu, fórst teinæringurinn Þurfalingur 1834).
Bergsteinn Jónasson, hafnarvörður, gaf Byggðarsafninu steininn.
241. Vaðsteinn, sem fannst í hafnarmynninu sumarið 1950, er bjargið illræmda, Hnykillinn, var fjarlægður úr mynni hafnarinnar. Alda af Hnyklinum hvolfdi sex-æringnum Hannibal 4. febrúar 1895, þegar Lárus hreppstjóri á Búastöðum drukknaði. Hefur vaðsteinninn e.t.v. legið síðan þarna í hafnarmynninu? Hafnarvörðurinn B.J. gaf Byggðarsafninu steininn.
242. Vaðsteinn með fati og forsendum. Eyjólfur skipstjóri Gíslason setti fatið og forsendurnar á steininn fyrir Byggðarsafnið.
243. Vagnhjól af handvagni. Þessi vagnhjól eru úr dánarbúi Vigfúsar útvegsbónda Jónssonar í Holti (nr. 2 við Ásaveg). Handvagn var fyrst keyptur til Eyja haustið 1894. Þeir ruddu sér þá brátt til rúms í kauptúninu. Þeir voru síðan notaðir næstu 3-4 áratugi í verstöðinni til þess að aka línubjóðum á til skips og frá skipi, og svo var öllum fiski ekið á þeim að aðgerðarhúsunum og frá, þar til bifreiðar komu almennt til sögunnar.


ctr


Margskonar veiðitæki og fleira, sem lýtur að sjósókn, er að sjá í Byggðarsafni Vestmannaeyja. Á myndinni sjást hákarla-, hvala-, og hnísuskutlar, trompjárn, hákarlssókn með taumi og járnsökku, ræði, netjasteinar, sjáklæði o.fl. Þó er sjón sögu ríkari.


244. Vagnhjól. Hjól af handvagni Jóns Ingimundarsonar í Mandal - vagni Mýrdælingsútgerðarinnar. - Vagninn var keyptur til Eyja 1895.
245. Vatnsílát, legill eða vatnskútur frá Halkion-útgerðinni. Vatnsílát bátsins um tugi ára. Legill þessi var smíðaður á Stokkseyri og keyptur til Eyja árið 1919. Synir Stefáns Guðlaugssonar skipstjóra og útgerðarmanns í Gerði, gáfu Byggðarsafninu kútinn.
246. Vatnskútur, af v/b Ingólfi VE 216. Þannig vatnsílát, stærri og smærri, fylgdu hverjum vélbáti í verstöðinni fyrsta fjórðung aldarinnar. Þá var tekið að smíða vatnsgeyma í bátana. Gefandi: Sigurður Ólason, Þrúðvangi.
247. Vatnskútur (legill). Þessi kútur er mjög gamall. Hann var hér lengi notaður á opnu skipi á fyrri öld og þá stundum brennivínskútur á hákarlaskipi, þegar sjómenn höfðu með sér „hýrgu“ í hinar kalsasömu útilegur. Gefandi: Hjörtur Einarsson frá Geithálsi.
248. Þokulúður af v/b Ísleifi VE 63. Gömul gerð.
249. Þorskanet, hampnet.
250. Þorskanetjarúlla, ein allra elzta gerðin. Þessa netjarúllu fengu „Holtsbræður“ (Guðmundur, Jón og Guðlaugur Vigfússynir) upp á línu á Selvogsbanka fyrir um það bil 45 árum. Hún er talin vera af opnu skipi frá Þorlákshöfn eða Eyrarbakka, en þaðan voru stundaðar þorskveiðar með net á opnum skipum lengur en víðast í öðrum verstöðvum.


ctr


ctr


Óskar heitinn Kárason, byggingarfulltrúi, Sunnuhól, gaf Byggðarsafninu nokkrar teikningar af gömlum bæjum hér í Eyjum, teiknaði þær sjálfur samkvæmt heimildum. Les skýringarnar á myndunum með stækkunargleri. - Hér birtir Blik tvær af myndum Óskars. — Kastali, tómthús og Austurbærinn á Vesturhúsum 1875-1880.