Blik 1972/Lúðrasveitir í Vestmannaeyjum, síðari hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Lúðrasveitir í Vestmannaeyjum
(síðari hluti)


IV
Lúðrasveit Vestmannaeyja,
stofnuð 22. marz 1939


Eftir áramótin 1938/1939 tóku nokkrir Eyjamenn að bollaleggja um stofnun lúðrasveitar í kaupstaðnum. Þá hafði engin lúðrasveit verið starfrækt þar undanfarin 7-8 ár. Sex kunningjar og félagar ræddu þetta mál með sér nokkrum sinnum. Loks afréðu þeir að boða til stofnfundar, stofna lúðrasveit. Þessir sex félagar voru: 1. Heggviður Jónsson frá Hlíð í Eyjum. Hann hafði áður verið með í Lúðrasveit Vestmannaeyja, sem lék hér á árunum 1924-1931 og síðar leikið í hljómsveit í Reykjavík, Lúðrasveitinni Svan. 2. Oddgeir Kristjánsson frá Heiðarbrún í Eyjum. Hann hafði einnig leikið í Lúðrasveit Vestmannaeyja með Hreggviði Jónssyni á árunum 1924-1931, og síðan notið bæði náms og æfinga í hljómlistinni. 3. Karl Guðjónsson frá Breiðholti við Vestmannabraut (nr. 52). 4. Jóhann Gíslason frá Uppsölum við Vestmannabraut (nr. 51 B). 5. Kjartan Bjarnason frá Djúpadal við Vesturveg (nr. 15 A) og 6. Kristinn Jónsson frá Mosfelli við Túngötu (nr. 26). Kristinn var gamalreyndur lúðraþeytari frá tímum Helga tónskálds og hljómsveitarstjóra Helgasonar hér í kaupstaðnum.

ctr


Lúðrasveit Vestmannaeyja árið 1940 (Stofnuð 22. marz 1939).


Aftari röð frá vinstri: Sigurjón Kristinsson frá Hvíld, Hreggviður Jónsson frá Hlíð (formaður Lúðrasveitarinnar), Árni Guðjónsson frá Breiðholti, Kjartan Bjarnason frú Djúpadal, Jóhann Gíslason frá Uppsölum, Karl Guðjónsson frá Breiðholti, Björn Sigurðsson frá Hallormsstað, Jónas Þ. Dagbjartsson frá Jaðri, Gísli Kristjánsson frá Heiðarbrún, Sigurður Guðlaugsson frá Laugalandi.
Fremri röð frá vinstri: Haraldur Kristjánsson frá Heiðarbrún, Guðjón Hjörleifsson (síðar múrari), Oddgeir Kristjánsson frá Heiðarbrún, Guðlaugur Kristófersson, Bjarmahlíð (nr. 26 við Brekastíg). Öll húsnöfnin eru kunn í Eyjum.

Þessir sex félagar höfðu tryggt sér „að erfðum“ gömlu lúðrana, sem hér voru til frá lúðrasveitinni 1924-1931, hinni þriðju.
Hinn 22. marz um veturinn (1939) stofnuðu beir formlega félagsskap sinn og kusu sér stjórn. Formaður hinnar nýju lúðrasveitar var kjörinn Hreggviður Jónsson, ritari Karl Guðjónsson og gjaldkeri Oddgeir Kristjánsson, sem jafnframt var ráðinn stjórnandi lúðrasveitarinnar, eins og ráð hafði verið fyrir gert frá upphafi.
Ekki höfðu þessir sex piltar þeytt lengi lúðra sína, þegar þrír ungir menn og upprennandi í kaupstaðnum æsktu þess að fá að vera með og læra að „þeyta lúðra“. Þessir þremenningar voru þeir Haraldur Kristjánsson frá Heiðarbrún, bróðir Oddgeirs, Árni Guðjónsson frá Breiðholti, bróðir Karls Guðjónssonar, og Guðjón Hjörleifsson, síðar starfandi múrari í bænum.
Þegar hér er komið sögu, hafði Akogesfélagið í bænum byggt tveggja hæða félagsheimili eða fundarhús við Hilmisgötu. Efri hæð þessarar byggingar var ekki fullgerð innan veggja veturinn 1939. Þetta húsrými þarna á efri hæðinni fékk hin nýstofnaða lúðrasveit til afnota. Hún æfði sig þar sleitulaust fram í nóvembermánuð þetta haust. Þá skyldi ljúka að fullu við hæðina og varð því Lúðrasveit Vestmannaeyja að víkja. Þá vildi henni það til happs, að skólastjóri barnaskólans, Halldór Guðjónsson, skaut skjólshúsi yfir hana. Hún fékk ókeypis afnot húsnæðis til æfinga í barnaskólabyggingunni. Þetta húsnæði hefur Lúðrasveit Vestmannaeyja síðan haft til afnota þar til nú, að hún fyrir skömmum tíma fékk inni í Félagsheimili bæjarins við Heiðarveg. Þá hafði hún haft húsaskjól hjá barnaskóla bæjarins meir en 30 ár til ómetanlegs stuðnings þessu gagnmerka menningarstarfi í kaupstaðnum.
Ekki leið ýkjalangur tími frá því Lúðrasveit Vestmannaeyja, þessi hin fjórða, var stofnuð, þar til hún og starf hennar varð ómetanlegur þáttur í bæjarlífinu.
Lúðrasveitin var helzt alltaf fengin til að leika list sína, ef einhver viðhöfn átti sér stað í bænum. Svo hefur það verið undanfarin 32 ár, eða frá stofnun hennar. Þáttur hennar var hinn gildi, er sjómannastétt bæjarins hélt hátíðlegan dag sinn á Stakkagerðistúni sumar hvert. Þá var þáttur lúðrasveitarinnar hinn mikilvægasti í skemmtiatriðum Þjóðhátíðar Vestmannaeyja í Herjólfsdal ár hvert. Mörg árin var þá leikið nýtt þjóðhátíðarlag, sem stjórnandi lúðrasveitarinnar, tónskáldið Oddgeir Kristjánsson, hafði samið í tilefni hátíðarinnar.
Þegar bæjarfélagið hefur beitt sér fyrir hátíðahöldum til að minnast stofnunar lýðveldisins og svo afmælis Jóns forseta, hefur Lúðrasveit Vestmannaeyja jafnan lagt sinn markverða hlut til í dagskrá lýðveldishátíðarinnar. Svo hefur það einnig verið á degi verkalýðsins 1. maí ár hvert.
Ýmis fleiri tækifæri hafa gefið tilefni til þess, að lúðrasveitin hefur látið bæjarbúa til sín heyra og þeir notið þjónustu hennar í bæjarfélaginu, svo sem hljómleikar hennar undir berum himni á gamlaárskvöld, þegar veður hefur leyft, á þrettándakvöld, á páskadag, á jóladag, á afmæli ýmissa félagasamtaka í bænum, svo sem Sjómannafélagsins Jötuns, Verkakvennafélagsins Snótar, Vélstjórafélags Vestmannaeyja og Verkalýðsfélags Vestmannaeyja o.s.frv.
Þá hefur Lúðrasveit Vestmannaeyja oft lagt sinn þátt til á skemmtidagskrá Kvenfélagsins Líknar, þegar kvenfélagið hefur árlega í kringum áramót efnt til skemmtunar öldruðu fólki í sveitarfélaginu. Þá skal ekki barnadeginum (fyrsta sumardag) gleymt. Þá hafa börnin ekki síður en hinir fullorðnu notið hljómlistarinnar í ríkum mæli með þeirri kennd líka, að þau ættu daginn og hljómlistin væri helguð þeim.


ctr


Lúðrasveit Vestmannaeyja árið 1948 (vorið).


Standandi frá vinstri: Gísli Brynjólfsson, Hafsteinn Ágústsson, Svanur Kristjánsson, Hreggviður Jónsson, Karl Guðjónsson, Jóhann Gíslason, Erling Ágústsson, Alfons Björgvinsson.
Sitjandi frá vinstri: Sigurður Markússon úr Reykjavík, Guðlaugur Kristófersson, Erlendur H. Eyjólfsson, Oddgeir Kristjánsson, Guðjón Kristófersson, Baldur Kristinsson og Óskar Þór Sigurðsson.


Síðast en ekki sízt óska ég að nefna hljómleika lúðrasveitarinnar, hina almennu, í Landakirkju, þar sem hún hefur leikið sálmalög til óblandinnar ánægju og sálubótar bæði trúuðu og minna trúuðu safnaðarfólki.
Þannig hefur starf hennar verið í þágu almennings í sveitarfélaginu s.l. þrjá áratugina, og þó í mismunandi ríkum mæli eftir aðstöðu og ástæðum, og farið vaxandi fremur en hitt.
Árið 1954 mun það hafa verið, að Lúðrasveit Vestmannaeyja tók upp þann hátt að kjósa sér „styrktarfélaga“. Ekki veit ég annað sannara, en að þessir hinir kjörnu, sem nú skipta hundruðum í bæjarfélaginu, hafi gert skyldu sína og greitt styrktargjaldið árlega, refja- og eftirsjónarlaust, til þessa gagnmerka tónlistar- og menningarstarfs í kaupstaðnum. Til þess að sanna þessum bæjarbúum þakklæti sitt fyrir þennan ómetanlega fjárhagslega stuðning, hefur lúðrasveitin árlega efnt til hljómleika fyrir styrktarfélaga sína. Þannig hefur starfið lifað og dafnað ár frá ári við gagnkvæman skilning og gagnkvæma þjónustu milli almennings í bænum og lúðrasveitarinnar. Þetta á svo að vera og getur ekki ánægjulegra verið. Gagnkvæmt traust, gagnkvæmur skilningur.
Nú er það vitað mál, að allt of oft verður býsna stutt í mörgum félagsskapnum hjá okkur, og hin gagnmerkustu félög með göfugan og mannbætandi tilgang á stefnuskrá sinni líða undir lok löngu fyrr en ætla mætti, gefa upp andann, hætta að vera til.
Lengi olli það mér nokkrum vangaveltum, svona í kyrrþey, hvað héldi í rauninni svo lengi lífi í Lúðrasveit Vestmannaeyja hinni fjórðu og síðustu, því að ég hef lengi vitað nokkur deili á æviferli fyrri lúðrasveita í kaupstaðnum.
Þegar örlög þeirra eru hugleidd, hefur okkur jafnan verið það ráðgáta, hvað hefur haldið lífi í Lúðrasveit Vestmannaeyja, hinni fjórðu, nú í meira en þrjá áratugi.
Í fyrsta lagi kemur þar til greina hin einhuga og einlæga samstaða hljómsveitarstjórans Oddgeirs Kristjánssonar og formanns lúðrasveitarinnar nær þrjá tugi ára, Hreggviðs Jónssonar, og svo allra hinna fyrstu stofnenda, félaga þeirra um árabil.
Þeir skipulögðu alla starfsemi lúðrasveitarinnar á alveg sérstæðan hátt. Sumarferðalög voru t.d. fastur liður í starfseminni og tilveru hópsins. Þá voru oftast lúðrarnir hafðir með, og gert var hið ítrasta til að fá sem léttastan blæ yfir ferðalögin. Það kom mikið af sjálfu sér, þar sem forustuliðið var kátt, spaugsamt og skemmtið og gáskakarlar innan um og saman við. Endurminningar eftir ferðalögin voru hlýjar, léttar og lifðu í sálarlífinu.
Þá voru ýmsir þættir í starfseminni, sem gerðu kröfur til félagspiltanna og höfðu í för með sér ábyrgð gagnvart félagsskapnum, lúðrasveitinni. Margir fengu hlutverk til að inna af hendi utan við allan blásturinn. Þau hlutverk miðuðu fram til heilla starfinu í heild. Þarna var starfandi sumarferðanefnd, sem hafði mikilvægu hlutverki að gegna; skemmtinefnd til öflunar fjár handa samtökunum; afmælisnefnd, sem hafa þurfti fyrirhyggju um margt varðandi árlegt afmælishald, svo að sómi yrði að fyrir félagsskapinn. Þá voru vissir trúnaðarmenn kjörnir til þess að annast öll áhöld lúðrasveitarinnar. Þegar lúðrasveitin lék úti fyrir almenning, þá þurfti að undirbúa þá þjónustu í þágu almennings. Þar þurfti líka árvekni til. Sérstakir trúnaðarmenn voru kjörnir til þess að annast það starf frá ári til árs. Fleira kom til.
Þannig var leitast við að haga starfinu á þá lund og með því skipulagi, að sem allra fæstir yrðu dauðu hlekkirnir í félagsfestinni.
En þó er vissulega ónefnd enn sú kenndin, sem ávallt hefur búið með hljómlistarfólki þessu og orkað hefur mjög á það til samheldni, kenndin sú, að vera þátttakandi í mikilsverðu menningarstarfi í þágu byggðarlagsins, starfi, sem félagarnir fundu, að Eyjabúar voru í heild þakklátir fyrir, mátu, virtu og nutu.


ctr


Lúðrasveit Vestmannaeyja árið 1954.


Aftasta röð frá vinstri: Óskar Þór Sigurðsson, Hafsteinn Ágústsson, Karl Guðjónsson, Svanur Kristjánsson, Hreggviður Jónsson, Gísli Brynjólfsson, Baldur Kristinsson, Jóhann Gíslason.
Miðröð frá vinstri: Gísli Bryngeirsson, Haukur Gíslason frá Hóli Jóhannssonar, Steinar Júlíusson, Guðlaugur Kristófersson, Oddgeir Kristjánsson, Erlendur Hvannberg Eyjólfsson, Guðjón Kristófersson, Ágúst Ögmundsson frá Litlalandi, Einar M. Erlendsson.
Fremsta röð frá vinstri: Bjarni Jónasson, Kjartan Bjarnason, Sigurður Guðmundsson.


Árið 1940 afréð Lúðrasveit Vestmannaeyja kaup á sérstökum húfum handa félögum sínum til nota, þegar þeir léku fyrir félagssamtök í bænum eða almenning.
Hins vegar keypti lúðrasveitin ekki sérstaka búninga handa félagsmönnum sínum fyrr en 23 árum síðar. Árið 1963 voru búningarnir keyptir og notaðir fyrsta sinni á hljómleikum í Samkomuhúsi Vestmannaeyja fyrir styrktarfélaga lúðrasveitarinnar 29. nóv. 1963.
Jafnan hefur Lúðrasveit Vestmannaeyja notið nokkurs opinbers styrks, síðan hún var stofnuð. Árið 1940 fékk hún úr bæjarsjóði til að byrja með kr. 250,00. Haustið 1947 samþykkti bæjarstjórn kaupstaðarins að veita henni 25 þúsund króna framlag, sem greiðast skyldi þá næstu þrjú árin með jöfnum greiðslum á hverju ári. Þessu fé skyldi varið til kaupa á hljóðfærum.
Um skeið vissi ég til þess, að árlegur styrkur til lúðrasveitarinnar nam kr. 5.000,00 og kom þá árlega jafnhá upphæð úr ríkissjóði.
Árlegt framlag til lúðrasveitarinnar nemur nú kr. 65.000,00 úr bæjarsjóði og kr. 25.000,00 úr ríkissjóði.
Þó að samheldni hafi jafnan verið ríkjandi með piltum lúðrasveitarinnar, hefur þó meginstarfið í heild jafnan hvílt á nokkrum mönnum eins og gengur í öllum félagssamtökum. Hreggviður Jónsson frá Hlíð var formaður lúðrasveitarinnar tæp 30 ár. Hann æfði félagana við hlið hljómsveitarstjórans og var alltaf hinn vakandi hugur um velferð og viðgang félagssamtakanna og tilgang. Hann var að loknu dagsverki sæmdur heiðursmerki lúðrasveitarinnar úr gulli fyrir óvenjulega langa og gifturíka þjónustu. Karl Guðjónsson frá Breiðholti var ritari lúðrasveitarinnar í hartnær 20 ár samfleytt. Einnig höfðu þeir Jóhann Gíslason og Kjartan Bjarnason unnið lúðrasveitinni ómetanlegt gagn með ötulleik sínum og tryggð við starfið. Þessir þremenningar hlutu á sínum tíma heiðursmerki lúðrasveitarinnar úr silfri fyrir dyggðir sínar við málefni hennar og markmið.

Martin Hunger, tónlistarmaður.

Þegar Oddgeir Kristjánsson hljómsveitarstjóri og tónskáld féll frá, 18. febrúar 1966, tók tengdasonur þeirra hjóna, Martin Hunger, organisti og tónlistarmaður, við stjórn Lúðrasveitar Vestmannaeyja. En við áramótin 1969/1970 fluttist hann burt úr bænum. Var þá góðkunnur Eyjapiltur, sem starfað hafði í lúðrasveitinni um árabil, ráðinn stjórnandi hennar, Ellert Karlsson Guðmundssonar frá Reykholti við Urðaveg. Blik árnar honum allra heilla í þessu markverða starfi og mikilvæga þætti í menningarlífi bæjarins. Góður orðstír Lúðrasveitar Vestmannaeyja er heiður Vestmannaeyjakaupstaðar og Eyjabúa í heild.

Hreggviður Jónsson frá Hlíð í Eyjum, form. Lúðrasveitar Vestmannaeyja frá stofnun hennar 1939 til ársloka 1967.


Karl Guðjónsson frá Breiðholti í Eyjum, ritari Lúðrasveitar Vestmannaeyja frá stofnun hennar 1939 til 1959 eða í 20 ár.
Erlendur H. Eyjólfsson, formaður Lúðrasveitar Vestmannaeyja síðan í jan. 1968.
Jóhann Gíslason, gjaldkeri Lúðrasveitar Vestm.eyja frá 1954-1963.
Einar M. Erlendsson, gjaldkeri Lúðrasveitar Vestmannaeyja frá 1963.
Sigurður Sveinbjörnsson, ritari Lúðrasveitar Vestmannaeyja síðan 1959.
Kjartan Bjarnason frá Djúpadal. Hefur verið félagi í Lúðrasveit Vestmannaeyja frá stofnun hennar.
Ellert Karlsson hljómsveitarstjóri, núverandi stjórnandi Lúðrasveitar Vestm.eyja.


Félagaskrá

Hér birtist skrá yfir „lúðraþeytara“ Lúðrasveitar Vestmannaeyja, hinnar fjórðu, frá stofnun hennar 22. marz 1939, til dagsins í dag. Erfitt er að segja nákvæmlega, hvenær hver og einn gerðist félagi í lúðrasveitinni. Fyrst tekur skráin yfir félagana á árunum 1939-1961, en Oddgeir heitinn Kristjánsson hafði tekið þá skrá saman handa Bliki, er hann féll frá.
Af ásettu ráði nefnum við starf félagsmanns, er hann varð þátttakandi lúðrasveitarstarfinu, og heimili hans þá.
Nöfnunum er raðað eftir stafrófsröð.
1. Alfons Björgvinsson, vélvirki, Klöpp.
2. Ari Pálsson, bifreiðastjóri, frá Þórlaugargerði.
3. Árni Elvar, píanóleikari, Rvík.
4. Árni Guðjónsson, námsmaður, frá Breiðholti.
5. Ágúst Pétursson, húsgagnasmiður, Jómsborg.
6. Ágúst Ögmundsson, sjómaður, Litlalandi.
7. Baldur Kristinsson, vélstjóri, Herjólfsgötu 7.
8. Birgir Sveinsson, námsm., frá Norðfirði.
9. Bjarni Jónasson, skipstj., Bröttugötu 1.
10. Björn Sigurðsson, trémíðameistari, frá Hallormsstað.
11. Brynjólfur Jónatansson, rafvirki, frá Breiðholti.
12. Einar Guðnason, bifreiðastjóri, Illugagötu 3.
13. Einar M. Erlendsson, trésmíðameistari, Seljalandi.
14. Ellert Karlsson, námsmaður, frá Reykholti við Urðaveg.
15. Erlendur Hvannberg Eyjólfsson, járnsmiður, frá Jaðri.
16. Erlendur Friðrik Ólafsson, vélstjóri, frá Gilsbakka.
17. Erling Ágústsson, söngvari, Brekastíg 24.
18. Gísli Ágústsson, rafvirki, frá Ásnesi.
19. Gísli Bryngeirsson, úrsmíðam., frá Búastöðum.
20. Gísli Brynjólfsson, málari, Boðaslóð 4.
21. Gísli Kristjánsson, verzlunarm., frá Heiðarbrún.
22. Guðjón Hjörleifsson, múrari, Búrfelli.
23. Guðjón Kristófersson, húsgagnasmiður, Brekastíg 26.
24. Guðlaugur Kristófersson, verzlunarmaður, Brekastíg 26.
25. Hafsteinn Ágústsson, húsasmíðameistari, frá Varmahlíð.
26. Haraldur Guðmundsson, prentari, frá Vilborgarstöðum.
27. Haraldur Kristjánsson, rakari, frá Heiðarbrún.
28. Haraldur Ragnarsson, loftskeytamaður, frá Litla-Hvammi.
29. Haukur Gíslason, rakari, frá Hlíðarhúsi.
30. Herbert Sveinbjörnsson, bifvélavirki, Brekastíg 18.
31. Hjálmar Guðnason, loftskeytamaður, frá Vegamótum.
32. Hreggviður Jónsson, bifvélavirki, frá Hlíð.
33. Högni Ísleifsson, viðskiptafræðingur, frá Helgafellsbraut 19.
34. Jóhann Gíslason, húsasmiður, frá Uppsölum.
35. Jóhann Vilmundarson, verkam., frá Hlíð.
36. Jón Þorgilsson, járnsmiður, frá Grund.
37. Jónas Dagbjartsson, fiðluleikari, frá Jaðri.
38. Karl Guðjónsson, kennari, frá Breiðholti.
39. Kjartan Bjarnason, vélvirki, frá Djúpadal.
40. Kristinn Jónsson, lúðraþeytari, frá Mosfelli.
41. Kristján Linnet, námsmaður, frá Tindastóli.
42. Lárus Guðmundsson, bifreiðastjóri, frá Landlyst.
43. Marinó Guðmundsson, loftskeytamaður, frá Hilmisgötu 1.
44. Óskar Guðjónsson, verkamaður, frá Baldurshaga.
45. Óskar Þór Sigurðsson, kennari, frá Hásteinsvegi 31.
46. Ragnar Sigurðsson, prentari, frá Skuld.
47. Rúrik Haraldsson, síðar leikari, frá Sandi.
48. Rútur Hannesson, hljóðfæraleikari, frá Reykjavík.
49. Sigurður Guðlaugsson, verzlunarmaður, frá Laugalandi.
50. Sigurður Guðmundsson, trésmiður, frá Háeyri.
51. Sigurður Jónsson, skrifstofumaður, frá Vopnafirði.
52. Sigurður Markússon, málari og fagotleikari, frá Aðalvík í N.-Ísafjarðarsýslu.
53. Sigurður Sveinbjörnsson, múrarameistari, frá Brekastíg 18.
54. Sigurjón Kristinsson, kennari, frá Hvíld.
55. Sigurþór Margeirsson, bifreiðarstjóri, Drangey.
56. Steinar Júlíusson, feldskeri, Hilmisgötu 1.
57. Sturla Þorgeirsson, verzlunarm., Helgafellsbraut 18.
58. Svanur Kristjánsson, verzlunarmaður, Arnarnesi.
59. Sveinn Tómasson, sjómaður, Faxastíg 11.
60. Tómas Ólafsson, vélvirki, Brekastíg 22
61. Úlfar A. Njálsson, vélvirki, Hásteinsvegi 29.
62. Þórarinn Sigurðsson, skipasmiður, frá Hallormsstað.
Á árunum 1962-1971 gerðist þetta unga fólk „lúðraþeytarar“ Lúðrasveitar Vestmannaeyja:
63. Arnar Einarsson, námsmaður, Helgafellsbraut 6.
64. Auðbjörg Pálsdóttir, nemandi, frá Bólstað.
65. Garðar Júlíusson, rafvirki, frá Stafholti.
66. Gísli Jónatansson, nemandi, frá Brimhólum.
67. Guðni Guðmundsson, síðar tónlistarmaður, Landlyst.
68. Guðrún M. Einarsdóttir, nemandi, Faxastíg 10.
69. Henrý Ágúst Erlendsson, nem., Brimhólabraut 7.
70. Huginn Sveinbjörnsson, málari, Bröttugötu 7.
71. Höskuldur Stefánsson, nemandi, frá Norðfirði.
72. Jónas Bjarnason, nemandi, Brekkugötu 1.
73. Magnús Jónasson, skrifstofum., Grundarbrekku.
74. Ólafur Jónsson, nemandi, Austurvegi 3.
75. Sesar Sigmundsson, skósm., frá Nikhól.
76. Sigurður Óskarsson, trésm., frá Hvassafelli.
77. Tryggvi Jónasson, rennismiður, Hásteinsvegi 56.

Nokkur hluti þessa unga fólks fékk fyrstu þjálfun sína í meðferð og notkun lúðra og fleiri hljóðfæra í Lúðrasveit Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum, en Oddgeir heitinn Kristjánsson var einnig stjórnandi þeirrar lúðrasveitar frá fyrstu tíð. Við stofnuðum hana árið 1948. Stjórnandinn taldi Lúðrasveit Vestmannaeyja hafa mikinn stuðning af því samstarfi okkar. Þrásinnis gjörðust nemendur Gagnfræðaskólans félagar og virkir „lúðraþeytarar“ í Lúðrasveit Vestmannaeyja, er þeir höfðu lokið námi í skólanum og jafnvel fyrr.

Í Lúðrasveit Vestmannaeyja eru nú þessir hljóðfæraleikarar:

Clarenet:
Gísli Bryngeirsson,
Huginn Sveinbjörnsson,
Henrý Á. Erlendsson,
Óskar Björgvinsson,
Garðar Júlíusson.

Trompet:
Erlendur H. Eyjólfsson,
Hjálmar Guðnason,
Einar M. Erlendsson,
Lárus Guðmundsson.

Horn:
Baldur Kristinsson,
Jónas Bjarnason,
Úlfar Njálsson.

Tenorhorn:
Hafsteinn Ágústsson,
Jón Þorgilsson.

Tenor saxofon:
Ólafur Jónsson.

Básúnur:
Sigurður Sveinbjörnsson,
Karl Cesar Sigmundsson,
Snorri Jónsson.

Bassar:
Tryggvi Jónasson,
Magnús Jónasson.

Slagverk:
Kjartan Bjarnason,
Einar Guðnason,
Sigurður Guðmundsson.

Stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja er nú Ellert Karlsson.
Blik færir þessum hljómlistarfélögum góðar árnaðaróskir og biður þess og æskir, að hljómlistaráhugi þeirra megi vara sem lengst og hið mikilvæga starf þeirra í menningarlífi bæjarfélagsins haldast og vara um mörg ókomin ár með sífelldri endurnýjun starfskraftanna. Í þeim efnum geta skólar bæjarins verið mikilvæg trygging og traust öryggi.
Heill þeim, sem af heilhug starfa að heill og menningu bæjarfélagsins okkar.




ctr


Lúðrasveitarpiltarnir í hinum fögru búningum sínum við æfingu.


Aftast standa þeir Einar Guðnason og Kjartan Bjarnason og lengst til hægri hljómsveitarstjórinn, Martin Hunger.
Sitjandi: Aftari röð frá vinstri: 1. Hafsteinn Ágústsson, 2. Magnús Jónasson, 3. Jón Þorgilsson, 4. Sesar Sigmundsson, 5. Sigurður Sveinbjörnsson, ritari Lúðrasveitarinnar síðan 1959, 6. Tryggvi Jónasson, 7. Hreggviður Jónsson, formaður Lúðrasveitarinnar frá stofnun, 1939 til ársloka 1967.
Fremri röð frá vinstri: 1. Gísli Bryngeirsson, 2. Henrý Erlendsson, 3. Garðar Júlíusson, 4. Erlendur H. Eyjólfsson, formaður Lúðrasveitarinnar frá árslokum 1967, 5. Einar M. Erlendsson, gjaldkeri Lúðrasveitarinnar síðan 1963, 6. Hjálmar Guðnason, 7. Ellert Karlsson, nú hljómsveitarstjórinn, 8. Lárus Guðmundsson, 9. Úlfar Njálsson, 10. Baldur Kristinsson.

Til baka



Leiðréttingar
Nokkrar meinlegar villur höfðu slæðzt inn í grein frú Ingibjargar Ólafsdóttur, Bólstaðarhlíð, í síðasta hefti Bliks. Hér með skulu þær leiðréttar.
Bls. 150, síðari dálkur: Þessa skál gaf Tómas Sæmundsson Guðrúnu móður minni, en á að vera móður sinni.
Á bls. 153 í síðari dálk orðið Ljósbrá. Les: Ljósá. Og á sömu bls. í skýringu við myndina á bls. 152 stendur: Bakvið þessi hús voru: Baðstofa, Mjólkurhúsið og eldhúsið. Orðið Baðstofa falli burt. (Þetta hefur verið leiðrétt á Heimaslóð.is.)