Blik 1971/Saga Ísfélags Vestmannaeyja, IV. kafli, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1971ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga Ísfélags Vestmannaeyja


IV. KAFLI
(fyrri hluti)


Í Bliki 1960, 1961 og 1962 birti ég kafla úr sögu eins merkasta fyrirtækis í eigu Íslendinga. Það er Ísfélag Vestmannaeyja. Ef til vill þykir sumum, að ég taki hér helzt til djúpt í árinni. Mundi ekki ástæðan vera sú, að við þekkjum of lítið sögu fyrirtækisins, og svo er það svo nálægt okkur, „mitt á meðal vor“. Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla, stendur þar. E.t.v. getur það líka orðið staðreynd um fyrirtæki.

ctr


Vesturhlið og suðvesturhorn Ísfélagsbyggingarinnar.
Sjá grunnmyndir á bls. 182 og 186.


Tómas M. Guðjónsson, formaður Ísfélags Vestmannaeyja 1939-1957.
Ársæll Sveinsson.
Í stjórn Ísfélagsins
1939-1949.


Þegar Ísfélag Vestmannaeyja festi kaup á fyrstu frystivélum, sem fluttar voru til landsins, og tók þær í notkun, þá voru þau vélakaup og starfræksla hins fyrsta vélknúna frystihúss hér á landi svo markvert framtak í atvinnusögu þjóðarinnar, að vert er að minnast og skrifa um. Þetta framtak var vísir að þeirri tækni og vélvæðingu, sem öll afkoma okkar nú og atvinnulíf grundvallast á, og svo tilvera íslenzku þjóðarinnar í heild að því er lýtur að efnahagslegri tilveru hennar. Hvergi var framleiddur kuldi með vélum nema í Vestmannaeyjum.
Víða á landinu voru þá (1908) hin svokölluðu íshús, eftir að Ísak Jónsson úr Mjóafirði eystra og fl. fluttu þekkinguna á þeim til landsins vestan frá Ameríku. Þau voru víða rekin með atorku og árvekni sjómönnum og útgerðarmönnum til ómetanlegs hagræðis og stórbættra skilyrða til fiskveiða, eins og íshús Ísfélags Vestmannaeyja á árunum 1902-1908 (ársloka).
Í íshúsum þessum var kuldinn framleiddur með muldum ís blönduðum salti. Þessi ísblanda var látin falla í holrúm umhverfis kulda eða geymsluklefana, sem þá voru að innra borði gerðir úr járnþynnum. Í holrúminu fraus ísmulningurinn og varð að hellu, sem svo bráðnaði smámsaman. Þess vegna þurfti að bæta upp bráðnunina með ísmulningi og salti svo að segja daglega.

Kjartan Guðmundsson, í stjórn 1939-1949.
Helgi Benediktsson,
í stjórn 1939-1955.


Mörg eru þau fyrirtæki, sem stofnað hefur verið til á Íslandi og mörg framleiðslu og verzlunarfélögin risið og fallið þau 70 ár, sem Ísfélag Vestmannaeyja hefur verið við lýði, staðið af sér allar fjárhagskreppur á þessu tímaskeiði, þróazt og dafnað. Því miður hafa flest fyrirtækin okkar ekki orðið langlíf, gengið von bráðar fyrir stapann mikla, fallið og horfið. Þetta þekkjum við Eyjabúar af eigin reynslu undanfarna hálfa öld og vel það. Hér hefur miklu ráðið um stjórnleysi, skortur á hyggjuviti og gætni.
Í fyrra gaf Hagstofan út Skrá yfir fyrirtæki á Íslandi 1969. Í bók þessari eru skráð hvorki meira né minna en 360 fyrirtæki í Vestmannaeyjum og einstaklingar, sem reka sjálfstæða atvinnu í þágu almennings. Þegar við rannsökum skrá þessa, göngum við úr skugga um, að Ísfélag Vestmannaeyja er elzta atvinnufyrirtækið í bænum, já, langelzta. En tvö menningarfyrirtæki, sem ég vil kalla svo, eru eldri, nefnilega Lestrafélag Vestmannaeyja (nú Bókasafn Vestmannaeyja) og Skipaábyrgðarfélag Vestmannaeyja (nú Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja).
Ísfélag Vestmannaeyja er sem sé 70 ára á þessu ári, stofnað 1. des 1901.
Fróðlegt er það íhugulum lesanda að bera saman ákvæði laga þessa gamla fyrirtækis frá upphafi og fram á þennan dag, bera saman og hugleiða þær breytingar helztar, sem gjörðar hafa verið á lögum þess frá upphafi í samræmi við breytingar tímanna, fjölbreytilegri og vaxandi kröfur í starfrækslu og rekstri með hinum stórstígu framförum, sem orðið hafa á fiskveiðum og fiskverkun hér á landi á undanfarinni hálfri öld.
Í fyrstu lögum Ísfélagsins var svo að orði komizt, að fyrirætlan þess væri „að safna ís og geyma hann til varðveizlu á matvælum og beitu, verzla með hann og það, sem hann varðveitir, og styðja að viðgangi á betri veiðiaðferðum við þær fisktegundir og beitutegundir, sem ábatasamast er að geyma í ís.“
Þannig var þetta orðað í lögum félagsins, sem prentuð voru í febrúar 1902.
Árið 1927, er lögum Ísfélagsins var breytt og þau aukin, voru ákvæðin um verkefni félagsins og fyrirætlan orðuð þannig: „Aðalhlutverk félagsins er að hafa ávallt og selja næga og góða síld og aðra beitu; svo og að kaupa og selja kjöt og aðrar sláturafurðir. Félagið getur gjört út skip eða báta til síldarveiða, ef lögmætur félagsfundur er því samþykkur. Að öðrum kosti kaupir félagið síldina þar, sem hún fæst bezt og ódýrust. Matvæli, önnur en síld, má taka til geymslu, þegar húsrúm leyfir, kjöt þó því aðeins, að félagið sjálft hafi það ekki til sölu ...“ Þá hafði Ísfélagið opnað sölubúð, matvöruverzlun.

Georg Gíslason, í stjórn 1939-1955.

ctr

Guðni Grímsson,
útgerðarmaður
og skipstjóri,
í stjórn 1951-1955.

Árið 1949 var svo lögum Ísfélags Vestmannaeyja breytt í samræmi við kröfur tímans og breytt og aukin verkefni félagsins. Það er ekki ófróðlegt að bera saman 2. grein félagslaganna, sem samþykkt voru á aðalfundi félagsins 1949 og greinina fyrri um verkefnið, sem birt er hér að framan. Að baki orðalagsins felst heil saga um breytta atvinnuhætti og aukin verkefni í íslenzka þjóðfélaginu. Greinin orðast þannig 1949: ,,Hlutverk félagsins er að kaupa, vinna úr og hagnýta sem bezt hverskonar íslenzkar afurðir, svo og að flytja þær út og selja erlendis; að kaupa og flytja inn erlendar verzlunar- og efnivörur, og yfirleitt að verzla með hverskonar vörur, jafnt innlendar sem erlendar, taka til geymslu hverskonar matvæli og síld, eftir því sem ástæður leyfa og stjórn félagsins þykir hagkvæmt ... Félagið getur rekið útgerð, ef lögmætur félagsfundur er því samþykkur...“
Með þessum lagaákvæðum er Ísfélag Vestmannaeyja orðið útflutningsfyrirtæki, er framleiðir fiskafurðir á erlendan markað. Þarna var markvert spor stigið í samræmi við breytta tíma til að fullnægja auknum og vaxandi kröfum. Reynslan skar úr því og sannaði, að gera þurfti breytingar á valdaákvæðum félagslaganna með auknum rekstri og framkvæmdum og svo framleiðslu fiskafurða í stórum stíl á erlendan markað.

Filippus Árnason, útgerðarmaður og síðar yfirtollvörður, í stjórn 1956-1958.

ctr


Sigtryggur Helgason,
viðskiptafræðingur,
í stjórn 1955-1956.


Í fyrstu lögum félagsins frá 1901 voru þau ákvæði, að „Aðalfundir félagsins hafa hið æðsta vald í öllum félagsmálum og ráða þeim til lykta innan þeirra takmarka, er lögin setja ...“ Þessi ákvæði eru að vísu teygjanleg, en yfirleitt munu fyrstu stjórnir félagsins ekki hafa tekið neinar meiri háttar ákvarðanir nema bera málin fyrst undir aðalfund, svo þunglamalegt og erfitt, sem það var um allar framkvæmdir. Enda hjakkaði allt starf félagsins og allar framkvæmdir í sama farinu fyrstu tvo til þrjá tugi aldarinnar, nema hvað Gísli J. Johnsen kærði sig stundum kollóttan um þessi lagaákvæði og ályktaði, afréði og framkvæmdi eftir sínu eigin höfði og svo samþykkt hinna stjórnarmannanna.
Með þeim breytingum, sem gjörðar voru á lögum Ísfélagsins árið 1927 voru þessi ákvæði sett inn í lögin til þess að gera allan rekstur félagsins eilítið liðlegri fyrir formanninn, sem þá var jafnframt hinn raunverulegi framkvæmdastjóri félagsins.
„Formaður hefur aðalumsjón með rekstri félagsins. Þó þarf hann samþykki meðstjórnenda sinna, þegar um meiri háttar ráðstafanir er að ræða, svo sem um innkaup á beitu, kjöti, byggingarefni, vélum, kolum og olíum. Einnig um verðlag á því, sem félagið hefur til sölu. Ennfremur um fyrirkomulag útlána og innheimtu þeirra, þegar þau eiga sér stað.“ Síðan koma þessi ákvæði: „Formaður hefur vald til þess sem prókúruhafi félagsins með því valdsviði, sem ákveðið er um prókúruhafa, að annast allt það, sem snertir rekstur félagsins og rita firma þess ... Að öðru leyti, „ræður meiri hluti atkvæða í stjórninni öllum félagsmálum milli funda, og getur stjórnin skuldbundið félagið og veðsett eignir þess með ályktunum sínum og samningum.“

Jóhannes Brynjólfsson frá Odda í Eyjum, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja frá 9. ágúst 1933 til ársloka 1956.

ctr

Eiríkur Ásbjörnsson,
útgerðarmaður,
varamaður í stjórn
1947-1955.

Svo sem þessi síðustu lagaákvæði bera með sér, hafði nú formaður félagsstjórnarinnar næsta óvenjulega mikið vald, ekki sízt ef góð samvinna, góð samstaða var með honum og meiri hluta stjórnarinnar um rekstur félagsins og framkvæmdir. Fullyrða má, að þessi ákvæði félagslaganna urðu Ísfélagi Vestmannaeyja til mikils happs, hvað sem segja má ella um mikið vald vissra einstaklinga í félagsskap, því að Ólafur Auðunsson og Tómas M. Guðjónsson kunnu báðir vel með þetta mikla vald sitt að fara. Þeir voru báðir því vel vaxnir að beita því til varnar félagssamtökunum á fjárhagskreppuárunum, stjórna þá með gætni og hyggindum, og svo til framsækni og eflingar félagsskapnum, þegar birta tók á fjármálasviðinu og félagið varð að samlaga sig breyttum tímum með vaxandi kröfum, véltækni og öðrum nýjungum til þess að geta framleitt fiskafurðir á erlendan markað. Til þess að það mætti takast á stuttum tíma, þurfti þó nokkra þekkingu á nýrri hagræðingu og kröfum, mikið lánsfé og umfram allt búhyggni, gætni og þó framtakshug. Allt þetta áttu þessir foringjar í ríkum mæli. Þess vegna flaut Ísfélag Vestmannaeyja yfir alla örðugleika kreppuáranna og reis eftir þá til vaxtar og viðgangs, svo sem við þekkjum öll, sem hér búum. Þegar þessir menn hættu svo afskiptum sínum af félagsskapnum eða féllu frá, komu aðrir og nýir menn, sem héldu áfram að byggja á gamla trausta grunninum. Allt gerðist þetta og hefur gerzt, meðan fjöldi íslenzkra fyrirtækja á þessum áratugum hefur farið á hausinn, sett upp tærnar fyrir illa stjórn, grunnhyggni og óreglu allskonar í stjórnarháttum og daglegu lífi.

Magnús Bergsson, útgerðarmaður, varaformaður stjórnar 1955-1956 og form. stj. 1956-1961.

ctr


Björn Guðmundsson,
útgerðarm. og kaupmaður,
varaform. í stjórn
1956-1961 og
form. síðan 1961.

Martin Tómasson, forstjóri, í stjórn síðan 1958.
Einar Sigurjónsson,
útgerðarmaður,
framkvæmdastjóri
Ísfélagsins síðan
í árslok 1956 og
varaform. stjórnar síðan 1963.


Á aðalfundi félagsins 29. sept. 1938 lét Ólafur Auðunsson af formennskunni, með því að hann gaf ekki kost á sér í stjórnina aftur. Þannig var það um fleiri af stjórnarfélögum hans.. Á þessum aðalfundi tóku þessir menn við stjórninni: Tómas M. Guðjónsson, útgerðarmaður í Höfn, Kjartan Guðmundsson útgerðarmaður, sem jafnframt var ljósmyndari að atvinnu, Helgi Benediktsson útgerðarmaður og kaupmaður, Ársæll Sveinsson, útgerðarmaður og kaupmaður og Georg Gíslason, kaupmaður. Stjórn þessi skipti þannig með sér verkum, að Tómas M. Guðjónsson var kjörinn formaður félagsins og Georg Gíslason ritari stjórnarinnar. Tómas varð þannig sá maðurinn, sem mest hvíldi á og áhrifamestu forustuna hafði í þeim mikilvægu og merku framfaramálum í þróun félagsins, sem þá voru á næsta leiti. Miklar breytingar til aukinnar tækni í framleiðslu sjávarafurða á erlendan markað voru í vændum og höfðu þá þegar skotið upp kollinum. Þetta hafði hin fráfarandi stjórn Ísfélagsins skilið og vitað, og vildi hefjast handa til að mæta nýjum tímum í þessum efnum, en mætti misskilningi og kulda alls þorra félagsmanna í þessum hugsjónamálum og kaus lausnina.

Jóhann Pálsson, útgerðarm. og skipstjóri, í stjórn 1956-1966.
Emil Andersen,
útgerðarm. og skipstjóri,
varam. í stjórn 1956-1966
og aðalmaður síðan.


Hin nýja stjórn undir forustu Tómasar M. Guðjónssonar brauzt í því að útvega félaginu stórlán til byggingarframkvæmda. Einnig festi hún kaup á nýtízku vélum o.fl. til aukins og fullkomnari fiskiðnaðar samkvæmt kröfum hins nýja tíma. Skilningur félagsmanna fór nú líka vaxandi á þeim kröfum, sem hinir nýju tímar gerðu til fiskvinnsluhúsa, enda þótt flestir erfiðleikar í þessum efnum yrðu næsta ósigrandi á sjálfum styrjaldarárunum: En þessi stjórn Ísfélagsins reyndist föst í sessi af því að hún ávann sér traust og skilning félagsmanna. Hún sat óbreytt í 10 ár eða þar um bil og alls gegndi Tómas M. Guðjónsson stjórnarforustu Ísfélagsins í 16 ár samfleytt.
Framtak þessarar stjórnar félagsins var svo risavaxið á þessum árum og þeim næstu eftir styrjöldina, að það hefur til skamms tíma markað veginn fram á við, spunnið hinn gilda þátt, er Ísfélag Vestmannaeyja hefur síðan átt í athafnalífi Eyjabúa um tugi ára og afkomu hundraða heimila í bænum á undanförnum áratugum. Hér væri það ósanngjarnt að þakka stjórn félagsins einvörðungu hið mikla framtak. Alþingi skildi þörfina á auknu fjármagni til eflingar sjávarútveginum, er á styrjaldarárin leið. Árið 1943, 2. apríl, samþykkti alþingi lög um Fiskveiðasjóð Íslands. Þar segir í 1. grein:
,,Tilgangur Fiskveiðasjóðs er að styðja fiskveiðar Íslendinga, einkum bátaútveginn, með hagkvæmum stofnlánum til skipa, fiskverkunarstöðva og verksmiðja til vinnslu úr sjávarafurðum.“
Þessi lög höfðu mikil áhrif til framtaks í þessum fiskverkunarmálum öllum bæði til aukinna veiða og verkunar aflans.
Stjórn Ísfélagsins undirbjó bráðlega lánabeiðni og kosti til lána úr Fiskveiðisjóði Íslands til stórframkvæmda.

Rafn Kristjánsson, útgerðarm. og skipstj., varam. í stjórn 1956-1964 og aðalmaður síðan.

ctr

Bergur Elías Guðjónsson,
útgerðarmaður,
varamaður í stjórn
síðan 1966.


Til þess nú að rísa undir vaxandi rekstri og auknum byggingarframkvæmdum þurfti auðvitað á auknu fjármagni að halda. Til þess að auka lánstraust félagsins með vaxandi dýrtíð og hækkandi upphæðum í öllum viðskiptum, sá stjórn félagsins sér ekki annað fært en að auka hlutafé félagsins. Til þess þurfti að breyta lagaákvæðum félagsins. Í 3. grein félagslaganna frá árinu 1927 var tekið fram, að stofnfé félagsins væri kr. 16.500,00, sem skiptust í 660 hluti á 25 krónur hver hlutur. En 1949 voru þessi ákvæði sett inn í 4. grein Ísfélagslaganna: ,,Hlutafé má auka að kr. 500.000,00 fimm hundruð þúsundir króna með samþykki löglega boðaðs félagsfundar ...“

Á árunum 1940-1945 voru inntar af hendi sérstakar framkvæmdir við höfnina. Mikill hluti gömlu fiskkrónna norðan við Strandstíginn í námunda við frystihús Ísfélags Vestmannaeyja var rifinn. Á sama tíma var gerður garður frá Bratta austur í Bæjarbryggjuna. Síðan var fyllt þarna upp, svo að stórt svæði myndaðist norðan við lóð Ísfélagsins. Þegar sýnt var, að þarna myndaðist ágætt athafnasvæði, sótti Ísfélagið um byggingarlóð norðan við gömlu lóðina sína og fékk þarna mikinn lóðarauka. Þarna var svo hafizt handa um byggingu hins nýja hraðfrystihúss. (Norðan við lóð Ísfélagsins fékk svo hið nýstofnaða hlutafélag Fiskiðjan, byggingarlóð, svo sem verkin sýna merkin þar í dag).

Sigurjón Auðunsson, yfirverkstjóri Ísfélags Vestmannaeyja frá árslokum 1953.

ctr

Kristinn Pálsson,
útgerðarmaður,
varamaður í stjórn
síðan 1967.


Þegar hin nýju lóðarréttindi voru fengin og þar með stærra athafnarými, sótti stjórn Ísfélagsins um tveggja milljóna króna lán til byggingar nýs hraðfrystihúss við hið gamla, frá Stofnlánadeild sjávarútvegsins í Landsbankanum. Endir þess máls varð sá, að Ísfélagið fékk kr. 900.000,00.
Haustið 1946 var svo hafizt handa um byggingarframkvæmdirnar. Gerðar höfðu verið byggingarteikningar um sumarið. Nú var dregið að sér efni, ráðnir fagmenn og verkamenn og unnið ötullega að byggingarframkvæmdunum það haust og fram að vertíð 1947. Svo langt var þessu starfi öllum komið á vertíð 1947, að 22. febrúar hafði Ísfélagið fryst 4.400 kassa af frosnum fiskflökum til útflutnings.
Að vertíð lokinni 1947 var haldið áfram með byggingarframkvæmdirnar og jafnframt fest kaup á nýju og fullkomnara kælikerfi í frystihúsið. Það eitt út af fyrir sig kostaði á hátt á þriðja hundrað þúsundir króna. Það var fúlga fjár árið 1947.

Eyjólfur Martinsson, skrifstofustj. Ísfélags Vestmannaeyja síðan vorið 1961.

ctr

Bogi Matthíasson
frá Litlhólum í Eyjum,
yfirvélstjóri hjá
Ísfélagi Vestmannaeyja
frá árinu 1932.

Halldór Eyjólfsson, Sunnuhlíð, vélstjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja 1933-1968.


Árin liðu í miklum athöfnum og framkvæmdum. Alltaf var Útvegsbankinn í Vestmannaeyjum reiðubúinn að koma á móti slíku atvinnufyrirtæki í kaupstaðnum, væru fjárreiður þess í lagi. Um áramótin 1947/1948 lánaði Útvegsbankinn í kaupstaðnum t.d. Ísfélagi Vestmannaeyja eina milljón króna og skyldi það lán greiðast með láni, sem Ísfélagið hafði þá fengið loforð fyrir frá Stofnlánadeild bátaútvegsins.
Enn hélt félagið við rekstri kjötbúðar sinnar, þótt rekstur þeirrar matvöruverzlunar yrði að segja má erfiðari ár frá ári vegna hins aukna reksturs í þágu sjávarútvegsins. T.d. þurfti félagið að fá kjöt sitt geymt hjá öðrum vegna hinna miklu byggingarframkvæmda.
Útvegsbankinn í Reykjavík gaf Ísfélagi Vestmannaeyja kost á láni til byggingarframkvæmdanna á árinu 1948, en þegar á reyndi fékk félagið ekki þetta nema stjórnarmennirnir gengju persónulega í ábyrgð fyrir láni þessu. Út á þá braut vildu þeir trauðla ganga að standa persónulega ábyrgir fyrir fjárhagslegum skakkaföllum, sem kynnu t.d. að stafa af snöggu verðfalli sjávarafurða á erlendum markaði. Þetta kostaði bréf milli stjórnar félagsins og bankans, þar til fjármálaráðuneytið skarst í málið, enda var fjármálaráðherra jafnframt, þingmaður Vestmannaeyinga.
Á þessum ákafatímum fór fram mat á húseignum Ísfélagsins vegna lánbeiðna og lántaka. Gamla frystihúsið var nú metið á kr. 875.000,00 og nýju byggingarnar á krónur 2.220.240,00. Tölurnar gefa til kynna betur en flest annað, hversu framkvæmdirnar voru miklar á þessum árum, síðustu 10 árunum, eftir að Tómas M. Guðjónsson gerðist formaður Ísfélagsins og hinn valdamesti maður þar.
Næstu árin héldu byggingarframkvæmdirnar áfram jafnt og þétt og jafnhliða þurfti að hreppa lán til þess að standa undir allri þessari fjárfestingu.
Þegar leið fram á árið 1954, hafði berlega komið í ljós, að framleiðslufyrirtæki sjávarafurða eins og Ísfélagið þurfti tilfinnanlega að eiga íbúðarherbergi handa nokkrum hluta starfsfólks síns, sem var aðkomufólk. Einnig þurftu skipshafnir á aðkomubátum, sem seldu félaginu afurðir á vertíðum, að hafa til afnota íveruhúsnæði í kaupstaðnum. Erfitt var að útvega leiguhúsnæði handa svo mörgu fólki, og sköpuðust af því vandræði nokkur.
Þetta mál var til umræðu með stjórnarmönnum Ísfélagsins þegar árið 1954, en úr framkvæmdum varð þó ekki þá sökum skorts á fé til þessarar fjárfestingar. Af þeim ástæðum varð þessari hugsjón ekki hrint í framkvæmd fyrr en 10 árum síðar eða 1964.
Á þessum árum ruddi sér til rúms mikil vinnuhagræðing í hraðfrystihúsum þjóðarinnar. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem Ísfélag Vestmannaeyja var aðili að, sendi sérfræðinga sína í hraðfrystihúsin til þess að rannsaka aðstæður til bættrar vinnuhagræðingar og leggja á ráðin. T.d. fór mjög í vöxt á þessum árum, að koma fyrir færiböndum og vélum til þess að hreyfa þau. Böndin léttu alla tilfærslu í húsunum og voru látin lyfta hráefninu og framleiðsluvörunni frá einu þrepi til annars meðan á vinnslu stóð, og svo milli hæða húsunum. Og loks að flytja afurðaúrganginn til hagkvæmra staða.
Öll þessi nýja tækni og bætta tilhögun sparaði vinnuafl og létti verkafólkinu daglegan starfa.

Síðari hluti