Blik 1969/Skrofa

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969


PÁLL STEINGRÍMSSON:


Skrofa í Vestmannaeyjum

Útvarpserindi, flutt í ágúst 1967
Páll Steingrímsson.


Á Íslandi eru fjórar tegundir fýlinga:
Fýll, skrofa, sjósvala og stormsvala.
Þrjár þær síðastnefndu verpa hvergi nema í Vestmannaeyjum.
Fáir vita um þessa sérkennilegu fugla, og mjög þröngur hópur hefur nokkurn tímann séð þá.
Í Eyjum er það venja, að hirða lundapysjur þær, sem fljúga á ljósin í bænum, og koma þeim á sjó. Sem strákur stundaði ég mjög þessa iðju. Í byrjun september, þegar pysjum fækkaði, rakst maður við og við á annan ófleygan fugl í skúmaskotum. Sá var töluvert stærri. Nefið var langt, dökkt og bitur krókur fremst á, höfuð, vængir og stél sótsvart, en bringan hvít. Það þurfti mikinn kjark til að taka upp þennan varg, sem bæði vældi og beit. En sárara var þó að láta stærri stráka hirða þetta fágæti frá sér og þola glósur fyrir ragmennskuna.
Gamall maður sagði mér, að fuglinn héti skrofa og kæmi úr Yztakletti. Síðan hefi ég leitað uppi skrofubyggðir í úteyjum og fylgzt nokkuð með háttum þessa merkilega fugls.
Líklega er Yztaklettsbyggðin stærst, en auk þess er töluvert af skrofu í Elliðaey, Bjarnarey, Suðurey og Álsey.
Eldri fræðibækur eru mjög villandi, þegar um er að ræða lífshætti skrofunnar. Sannleikurinn er sá, að það er fyrst á síðustu þrem áratugum, sem vísindamenn hafa gert þessu rannsóknarefni nokkur skil.



ctr


Skrofa.


Því var það, að fyrsta leit mín að skrofueggjum um 20. apríl bar ekki árangur. Síðastliðin sjö ár hefi ég gert mér ferð á hverju vori í Yztaklett og tekið fáein egg fyrir söfn og einstaklinga. Reynslan er sú, að það er fyrst viku af maí, sem vænta má erindis sem erfiðis. Skrofan grefur sér holur í svörðinn svipað og lundi. Í Vestmannaeyjum eru byggðir þeirra lítið eða alls ekki sundur skildar. Er því oft erfitt að segja til um, hvað sé lunda- og hvað sé skrofuhola. Sumir ætla, að hægt sé að sjá það á lögun opsins. Það virðist þó ekki einhlítt. Öruggara er að nota þeffærin. Komi maður að skrofuholu, leynir sér ekki fýlingalyktin.
Göngin eru oftast um metir að lengd. Innst er örlítil dæld. Í hana safna fuglarnir nokkru af hreiðurefnum, svo sem grasi, fjöðrum, rofalýju og snærisspottum. En ekki er hægt að segja, að smíðin sé vönduð. Nokkru framar er útskot eða hliðargangur. Þar liggur annar fuglinn oftast, þegar báðir eru í holunni.
Mökunin fer fram neðanjarðar. Ástarleiknum fylgja fjölbreytileg hljóð, urr, mal og ámátleg væl. Svörðurinn dempar og dreifir kliðnum, svo að erfitt er að staðsetja brímafuglana.
Eggið er eitt, snjóhvítt. Foreldrarnir liggja á til skiptis. Það undrar sjálfsagt engan, sem þekkir klaktímann. Hann er 52 dagar, en það er lengsti álegutími íslenzks varpfugls. Hreiðurdvöl ungans er einnig með fádæmum, eða 73 dagar. Foreldrarnir ala hann á hálfmeltu fiskmauki. Svo kjarngóð er fæðan, að á tímabili minnir krílið á blöðru með stút. Einhvern tíma gróf ég út skrofuunga fyrir fuglafræðing. Þegar greyið hafði verið svæft svefninum langa, lagði vísindamaðurinn hann á töskulok. Að stuttri stundu liðinni ætlaði hann að ganga frá fuglinum í safnskrínu, en það var um seinan. Dældin í lokinu var full af lýsi, og þar flaut þessi blýgrái hnöttur.
Sagnir eru til um það í Færeyjum, að skrofu -og sæsvöluungar hafi áður verið þurrkaðir, dreginn í gegnum þá kveikur og þeir notaðir sem týrur.
Á varpstöðvum eru skrofurnar eindregnir náttfuglar. Síðbúnir lundakarlar heyra þær sveigja yfir brúnir með hásu, skerandi veini.
Úti á sjó gegnir öðru máli. Við austurströnd Heimaeyjar má í júlí iðulega sjá stóra flokka af skrofum allt frá StakkabótGrasatanga baka sig á góðviðrisdögum. Hóparnir eru hljóðir og spakir, hrökkva ekki undan bátum, fyrr en frákast stefnisins úðar þá næstu. Tifa þá á sjónum, taka nokkur vængjatök og setjast aftur. Í kuli er háttur þeirra allur annar. Þá eru þær síkvikar, kafa og svífa á víxl, taka hliðarveltur með öldukömbum, svo að vængbroddarnir virðast rista sjávarflötinn. Síðast í ágúst afrækja foreldrarnir ungann. Hlutverki þeirra er lokið. Viku síðar knýr sulturinn ungann til að beita vængjum og leita sjávar.
Í september finna krakkarnir í Eyjum nokkrar skrofupysjur, sem látið hafa blekkjast af ljósadýrðinni í bænum, og sleppa þeim í sjó.