Blik 1969/Úr sögu sjávarútvegsins
Af langri reynzlu veit ég, að margir lesendur Bliks hafa ánægju af að lesa og hugleiða með mér ýmis atriði sögulegs efnis.
Nú langar mig til að hugleiða með lesendum Bliks ýmsa kafli úr sögu íslenzka sjávarútvegsins og birta svo að lokum grein um útgerð frá
Ingólfshöfða, er Sigurður bóndi Björnsson á Kvískerjum hefur skrifað og sent Bliki. Við þökkum af alúð hinum þekkta bónda og merka
áhugamanni um náttúrufræði og sögu þessa grein hans.
Kaflar þessir, sem fjalla um atriði úr sögu sjávarútvegsins, verða hér 10 alls og greina fyrirsagnirnar efni þeirra að miklu leyti.
Svo hefur jafnan verið talið, að í lok Landnámsaldar (930) eða um það bil 60 árum eftir að landið tók að byggjast, hafi um 25 þúsundir manna búið í landinu. Þess var naumast að vænta, að allur þessi mannfjöldi gæti frá fyrstu tíð framfleytt sér og sínum á landbúnaði
einvörðungu á gjörsamlega óyrktu landi. Bar þar margt til.
Að sjálfsögðu var það miklum takmörkunum háð, hversu mikinn
bústofn landnámsmennirnir gátu flutt með sér á knörrum sínum yfir hafið, á opnum fleytum seglknúnum. Þar þurfti fyrst og fremst að rúmast nauðsynleg skipshöfn og
fjölskyldulið, — og svo venzlafólk, sem slóst í förina til nýja landsins. Þegar ég álykta svo um skiprúmið, hef ég í huga sjón, sem er sögu ríkari, nefnilega norsku fornaldarskipin á
Byggðeyjarsafninu í Osló. Kokstaðsskipið og Ásubergsskipið.
Fyrst í stað urðu því landnámsmennirnir að hafa framfærslu sína og sinna af öðru en bústofni eða landbúnaði eingöngu, þar sem landið var algjörlega óræktað, óyrkt, enda þótt það væri á ýmsa lund girnilegt til búskapar: graslendið mikið og vítt, og svo var það skógi vaxið „milli fjalls og fjöru“ með dálitlum frádrætti þó!
Veiðiskapurinn hefur orðið
landnámsmönnunum drjúg lind til matfanga og annarra þátta framfærslunnar. Þetta má glögglega lesa á milli línanna eða skýrum orðum í Íslendingasögunum, þó að öllu skýrast sé frá þessu greint í Egilssögu, þar sem sagt er frá iðju frumbýlingsins á Borg á Mýrum, Skallagríms bónda Kveldúlfssonar. Hann hafði öll spjót úti til öflunar fæðu eða matfanga handa heimilisfólki sínu, sem var margt.
Skallagrímur bóndi lét menn sína stunda útróðra, selveiðar og eggjatínslu. Vötn voru full af fiski og svo firðirnir á vissum tímum árs. Allar eyjar voru krökar af fugli, og gengd hvala og sela var mikil. Þessi margháttaði veiðiskapur heimilisfólksins á Borg átti sér stað úti á ströndinni, og út með ströndinni vestur af
Borgarbænum, og langt vestur á Mýrar.
Jafnframt veiðunum lagði bóndinn á Borg kapp á að fjölga kvikfénu á býli sínu upp við fjöllin, þar sem Gríss var bústjóri hans. Þar reyndist þeim beitilandið kjarnmeira en niðri á hinu votlenda sléttlendi Mýranna og í holtunum og borgunum þar um slóðir. En búhyggni þurfti til og forsjá, ef allt átti að takast vel, og þær guðsgjafir hafði bóndinn á Borg þegir í ríkum mæli.
Sauðfjárræktin gaf af sér ull í nær- og fjærfötin. Og einnig í rekkjuvoðirnar. Einnig gaf hún af sér
ljúffenga kjötið á borðið til hátíðabrigða, þó að sel- og hvalkjötið, — og svo auðvitað fiskurinn, — væri hin daglega fæða. Ekki má heldur gleyma hrossakjötinu, gleyma hrossakjötsátinu í heiðnum sið, þegar hrossaræktinni óx fiskur um hrygg á
landareignum Borgar og útjörðum bóndans þar. Meginið af mat þessum var etið vindþurrkað og fiskurinn hertur og barinn.
Mikil líkindi eru til þess, að Íslendingar á Landnámsöld hafi nærzt á mjólkurmat af skornum skammti sökum skorts á ræktuðu landi. Þess er heldur hvergi getið, að Skallagrímur bóndi hafi kunnað þá list „að bera skarn á hóla“ eins og Njáll bóndi á Bergþórshvoli 110—130 árum síðar.
Skemmtileg og listræn er frásögnin í Egilssögu um þessa fæðuöflun Skallagríms Kveldúlfssonar. Þar segir svo: „Skalla-Grímur var iðjumaður mikill. Hann hafði með sér jafnan margt manna, lét sækja mjög föng þau, er fyrir voru og til atvinnu mönnum voru, því að þá fyrst höfðu þeir fátt kvikfjár, hjá því sem þurfti til fjölmennis þess, sem var. En það sem var kvikfjárins, þá gekk öllum vetrum sjálfala í skógum.
Skalla-Grímur var skipasmiður mikill, en rekavið skorti eigi vestur fyrir Mýrar. Hann lét gera bú á Álftanesi og átti þar bú annað, lét þaðan sækja útróðra og selveiðar og
eggver, og þá voru gnóg föng þau öll, svo rekavið að láta að sér flytja. Hvalkomur voru þá og miklar og skjóta mátti sem vildi. Allt var þar þá kyrrt í veiðistöð, er það var óvant manni. It þriðja bú átti hann við sjóinn á vestan verðum Mýrum. Var þar enn betur komið að sitja fyrir rekum, og þar lét hann hafa sæði og kalla að Ökrum. Eyjar lágu þar úti fyrir, er hvalur fannst í, og kölluðu þeir Hvalseyjar.
Skalla-Grímur hafði og menn sína uppi við laxárnar til veiða ...“ „... En er fram gekk (þ.e. fjölgaði) mjög kvikfé Skalla-Grímss, þá gekk féð upp til fjalla allt á sumrum. Hann fann mikinn mun á, að það fé varð betra og feitara, er á heiðum gekk ... “
Já, svona var þetta hjá frumbýlingnum á Borg, Skallagrími bónda Kveldúlfssyni. Með svipuðum hætti hefur lífsbaráttan verið háð um allt landið á fyrstu áratugum búsetunnar í landinu. Landbúnaðurinn hefur naumast verið undirstaða atvinnulífsins á Íslandi fyrr en um og eftir lok Landnámsaldar (930).
Þar sem ekki varð náð til sjávar til fiskveiða, seladráps eða hvalfanga, svo sem í fjallasveitum eða uppsveitum, þá hafa menn lagt sig því meir eftir veiði í ám og vötnum.
Ekki var hin hafnlausa og hættulega sandströnd Suður-Íslands girnileg til útróðra, þó að þaðan muni snemma hafa hafizt sjósókn. Matfangaskortur hefur auðvitað átt sinn ríkasta þátt í því. Og bændur þar um allar sveitir sáu brátt sitt óvænna um fæðuöflunina úr sjónum nema vinna saman, láta hönd styðja hönd, leggja afl við afl í lífsbaráttunni upp á líf og dauða.
Ekki var langt liðið á Landnámsöld, er bændur á sunnanverðu landinu, í suðursveitum landsins, uppgötvuðu litla hafnarvoginn í
Vestmannaeyjum, — þarna hálfa aðra mílu sjávar „suður af Eyjasandi“, — ákjósanlega höfn handa útvegi sínum vissan tíma ársins, síðari hluta vetrar og vortímann, meðan fiskur gekk mestur og beztur á sundið milli lands og Eyja og á hraungrynningarnar umhverfis Eyjarnar. Og þessa uppgötvun notuðu þeir sér vissulega, enda þótt þeir yrðu þess brátt áskynja, að vogsmynnið var stórlega viðsjárvert, já hættulegt, þegar þeir áttu leið um „Leiðina“, vogsmynnið, í austan stormi.
Í Hauksbók segir um Vestmannaeyjar og landnám Herjólfs Bárðarsonar þar:
„ ... Þær liggja fyrir Eyjasandi, og áður var þar veiðistöð og engra manna veturseta ...“ Áður þýðir hér tíminn fyrir 930, þ.e. Landnámsöldin, því að Herjólfur Bárðarson mun ekki hafa byggt sér bæ í Eyjum fyrr en við lok þess tímabils, sem venjulega er kallað Landnámsöld í sögu þjóðarinnar.
Þannig byggði þá íslenzka frumþjóðfélagið afkomu sína að mjög miklu leyti á veiðiskap fyrstu áratugina, meðan það var að myndast og mótast.
Með auknum sauðfjárfjölda landsmanna og annarri kvikfjárrækt breyttist íslenzka
frumþjóðfélagið í svo að segja einlitt
landbúnaðarþjóðfélag, ef ég mætti orða það þannig. Landbúnaðurinn, —
kvikfjárræktin með nokkurri jarðyrkju, t.d. kornrækt, verður aðalatvinnuvegur íslenzku þjóðarinnar upp úr lokum Landnámsaldar. Öld landbúnaðarins er gengin í garð með hinum
miklu kostum sínum og líka nokkrum göllum. Kaupeyrir þjóðarinnar verður vaðmál, klæðaefni. Þá myndast hugtökin söluvoð, gjaldvoð og
vöruvoð. Vaðmálsalinin verður lögð til grundvallar kaupeyrinum, og svo kúgildið, verð góðrar kýr, sem jafngildi 6 ám í ullu með lambi á
vordegi, sex ám loðnum og lembdum, eins og það hét og heitir enn.
Á landbúnaðaröldinni, eins og kalla mætti tímabilið í sögu
þjóðarinnar frá 930—1300, var kaupeyririnn þannig vörur til fæðis og klæðis, — landbúnaðarframleiðsla.
Sumir fræðimenn þjóðarinnar telja íslenzka landbúnaðarþjóðfélagið líða undir lok um 1300, eða nokkrum tugum ára eftir lok þjóðveldisins. Þá hafði það staðið um 370 ára skeið.
Tímaskeið landbúnaðaraldarinnar, ef við megum orða það svo, hafði í för með sér ýmis mikilvæg og varanleg áhrif á íslenzku þjóðina í heild bæði til góðs og miður góðs. Á vissum tímum þessa skeiðs ríkti friður og sæld í landinu. Þá undirbjó forsjónin þjóðina til að vinna þau fremdarverk, sem síðan hafa haldið í henni lífinu sem þjóðarheild og verið sverð hennar og skjöldur í hennar andlegu og þjóðernislegu tilveru. Hér á ég við ritstörf hennar, sem innt voru af hendi á landbúnaðaröldinni að megin hlut.
En þetta tímabil í þjóðarsögunni á líka sínar skuggahliðar. T.d. varð þjóðin í heild afhuga siglingum, sem síðar hafði affararík áhrif á sjálfstæði hennar og alla tilveru. Eyþjóð hættir að sigla til annarra landa, einangrar sig, verður háð öðrum þjóðum um allar samgöngur á sjó, hvílík ógæfa, hvílík fásinna, hvílíkur þjóðarvoði. Enda varð það ástand þjóðinni að fótakefli samhliða ýmissi annarri fásinnu og framtaksdeyfð.
Sökum þessarar geigvænlegu hnignunar í atvinnulífi þjóðarinnar og tilveru á landbúnaðaröldinni
einlitu, afréðu framámenn hennar að koma þeim ákvæðum inn í Gamla-Sáttmála, að norski konungurinn skyldi tryggja henni sex skipsfarma af erlendum nauðsynjum hvert ár. Þessi ákvæði sanna okkur betur en flest annað hnignunina og deyfðina, drungann og sinnuleysið, sem bjó með þjóðinni, er fram leið á
landbúnaðaröldina einlitu eða undir lok hennar. Eyþjóð reynir að skuldbinda útlendinga til þess að sigla í hennar eigin þágu sökum þess, að hún hefur hvorki hug né dug til þess að stunda sjálf þennan atvinnuveg, þó að hann sé henni lífsnauðsyn til framfærslu og sjálfstæðis, grundvöllur efnalegs og stjórnarfarslegs sjálfstæðis. Í ljósi þessarra staðreynda sögunnar mættum við gjarnan hugleiða gildi íslenzku farmannastéttarinnar í nútíð og framtíð og allt framtak til eignar og reksturs eigin skipastóls.
Með síaukinni sauðfjárrækt annars vegar og látlausum skorti
eldiviðar í íslenzka landbúnaðarþjóðfélaginu einlita á miðöldum gengu skógarnir til þurrðar. Eftir það tók landið sjálft að blása upp. Gengið var þannig óþyrmilega á náttúruauðlegð landsins sjálfs á kostnað framtíðarinnar.
Þetta allt eru þyrnar hinnar glæsilegu bókmenntaaldar, hinnar rauðu rósar í íslenzka hnappagatinu, meðan þjóðin svo að segja lagði allt annað framfærsluframtak á hilluna en landbúnaðinn.
Á landbúnaðaröldinni var hinn litli og fábreytti útflutningur þjóðarinnar svo að segja einvörðungu landbúnaðarvörur, svo sem ull, vaðmál, skinn og húðir. Prjónles var þá ekki til, því að prjóniðjan var þá ekki „fundin upp“. Prjónlesið varð því seinna útflutningsvara íslenzku þjóðarinnar, svo sem peysur, sokkar, vettlingar o.s.frv.
Ýmsir mætir fræðimenn okkar, svo sem Dr. Þorkell Jóhannesson, telja aðdragandann að gjörbreytingunni í atvinnuháttum þjóðarinnar verða á 14. öldinni. Þá breyttist
íslenzka þjóðfélagið smám saman úr einlitu eða einhæfu landbúnaðarþjóðfélagi í sjávarútvegs- eða fiskveiðaþjóðfélag, — öðrum þræði að minnsta kosti. Fiskveiðar verða þá annar meginþáttur atvinnulífsins og annar aðalhyrningarsteinn afkomunnar eða þjóðarbúsins.
Oft gerum við okkur ekki fulla grein fyrir því, hvað veldur hinum snöggu og affararíku breytingum, sem eiga sér stað á vissum tímaskeiðum í þjóðfélaginu okkar. Oftast eiga þær sér rætur á erlendum vettvangi.
Þannig var því einmitt varið, þegar fiskveiðarnar ruddu sér verulega til rúms í atvinnulífi íslenzku þjóðarinnar eftir 1300 og þróuðust hægt og bítandi næstu öldina, næstu 100 árin, þar til gjörbyltingin á þessu sviði átti sér stað um og upp úr 1400.
Og hvaða „byltingar“ erlendis ollu svo þessum mikilvægu og affararíku breytingum hér heima á þessu afskekkta og einangraða eylandi, eins og það var þá, svo að heimilisfeður flytja með fjölskyldur sínar að
sjávarsíðunni og grundvalla afkomu sína og sinna einvörðungu á sjósókn og fiskveiðum, mynda þéttbýli eða þorp við „víkur og voga“ og treysta svo á sjávaraflann annars vegar og erlenda og innlenda vöruskiptaverzlun hinsvegar um viðunandi efnalega afkomu og framfærslu? Já, hvaða
átök og breytingar erlendis ollu öllu þessu hér heima?
Freista vil ég þess að skýra það í sem fæstum orðum.
„Mikil er náttúran í Eyjum, sagði frúin, hugtekin og heillandi. Það hafði hún séð með eigin augum, er hún leit á landslagið í kring um sig. Og líklega hefur hún reynt þetta sjálf í sérlegri merkingu, blessuð eiginkonan.
Og mikil er „náttúran“ í hafinu kring um Eyjarnar, þegar líður fram á útmánuðina. Þá er mér ríkust í huga náttúra „þess gula“, þegar hann flykkist „heim að landi ísa“
til þess að hrygna og skjóta um leið óafvitandi traustustu stoðunum undir atvinnulífið okkar og alla afkomu. Blessuð náttúran, lofuð sé hún í öllum sínum breytileik og öllum sínum myndum! En hún krefst jafnan taumhalds, ef vel á að fara fyrir okkur.
Eins og við getum lofað „náttúruna“ í hafinu kring um Eyjarnar, eins gátu útvegsbændur og
fiskveiðimenn í Norður-Noregi lofað og prísað sama náttúrulögmálið í hafinu þar norður frá á fjærstu miðöldum og svo allar aldir til þessa dags. Í sama tilgangi og hér kom „sá guli“ þar upp að landinu í þéttum torfum, er á veturinn leið og fyllti flesta firði þar í Norður-Noregi. Þessar þorsktorfur kalla Norðmenn „skreid“. Orðið er skylt sagnorðinu að skríða. Þeir eiga því enn í móðurmálinu sínu frummerkingu þessa orðs og nota þann dag í dag. Hér hefur orðið breyting á, því að í móðurmálinu okkar þýðir skreið harður þorskur óflattur.
Svo sem kunnugt er, áttu Norðmenn og eiga víðáttumikla skóga, sem gáfu þeim ríkulega timbur eða efnivið í skip og báta. Fyrir okkar landnámstíð voru
báta- og skipasmíðar í Noregi komnar á hátt stig og ekki veigalítill þáttur í atvinnulífinu þar. Þegar á miðaldir leið, höfðu þeir lært að smíða þilfarsskútur, sem bæði voru notaðar til fiskveiða og flutninga.
Náttúra „þess gula“ olli því að norskir fiskimenn, sem lengi voru jafnframt bændur og búaliðar eða vinnumenn, „mokuðu upp“ þorskinum, þegar á veturna leið og hertu hann í stórum stíl. Þegar svo á vorin leið eða sumrin, hlóðu þeir skútur sínar skreið og sigldu með framleiðsluna suður til Björgvinjar, sem þegar á 12. öld var orðin miðstöð skreiðarverzlunarinnar í Evrópu og þar með öllum heiminum. Á öðrum sviðum var Björgvin þá orðin ein allra mesta verzlunarborgin í allri Evrópu.
Útlendur maður, sem var á ferð í Björgvin um árið 1200, lét á sínum tíma í ljós hrifningu sína yfir athafna- og verzlunarlífinu í borginni. — Hér eru miklar birgðir af öllu, segir hann, — skreiðarbirgðir svo miklar, að hann kveðst engan mælikvarða eiga á það. Í Björgvin er látlaus umferð skipa, segir hann, og menn komnir alls staðar að, frá Íslandi, Grænlandi, Englandi og Þýzkalandi. Þarna hitti hann Dani og Svía og Gotlendinga o.fl. þjóða menn. Í Björgvin fæst hunang í ríkum mæli, segir hann, hveiti, góð klæði, silfur o.fl. „Hér er nóg af öllu.“ Þannig endar þessi útlendi Björgvinjargestur skrif sín um dýrðina í stærstu verzlunarborg Norðurlanda á þessu tímaskeiði. (Sjá Noregskonungasögu Dr. Asbj. Överås).
Inn í Voginn í Björgvin og að löngu bryggjunni þar komu norsku skreiðarskúturnar í tugatali fermdar hinum dýra farmi, sem svo var seldur og honum dreift suður um alla Erópu, til Þýzkalands, Frakklands, Eystrasaltslandanna, og Englands. Þarna myndaðist í skreiðarverzluninni einhver harðvítugasta samkeppni, sem sögur fara af í verzlunarsögu allrar Evrópu. Hún átti sér fyrst og fremst stað milli enskra kaupsýslumanna og kaupmanna Hansasambandsins þýzka. Það eru engar ýkjur, þó að fullyrt sé, að keppinautarnir hafi borizt svo að segja á banaspjót í þeirri
verzlunarsamkeppni. Og það gerðu þeir síðar hér á landi.
Á öndverðri 14. öld höfðu þýzku Hansakaupmennirnir borið algjöran sigur úr býtum í samkeppninni um skreiðina. Englendingarnir urðu að hörfa frá Björgvin til annarra „skreiðarstöðva“, svo sem til Íslands. Einnig þar reyndu
Hansasambandskaupmennirnir að bægja Englendingunum burt frá skreiðakaupum. Sumstaðar tókst þeim það hér á landi, annars staðar ekki, svo sem í Vestmannaeyjum.
Áhrif þessarar gífurlegu og harðvítugu samkeppni um skreiðina og aðra verzlun yfirleitt, olli tímamótum í íslenzku þjóðlífi. Nýtt tímabil atvinnusögu okkar gekk í garð, sjávarútvegstímabilið.
Samkeppnin um skreiðina olli geipilegri verðhækkun á henni.
Um 1200 jafngiltu 10 vættir skreiðar kúgildinu eða einu hundraði á landsvísu (100).
Um 1300 jafngiltu 8 vættir skreiðar kúgildinu eða hundraðinu. Hækkun 25%.
Á árunum 1350—1400 jafngiltu 6 vættir kúgildinu eða hundraðinu. Hækkun 67%.
Á árunum 1420—1550 eða eftir að sjávarútvegstímabilið hefst hér að nokkru marki jafngilti 3 1/2 vætt kúgildinu eða hundraði á landsvísu. Hækkun 186%.
Þessi gífurlega verðhækkun á skreiðinni kveikti í sjálfum Íslendingunum, þessu gróna landbúnaðarfólki og fremur framtakslitlu landkröbbum, enda lögðu erlendu kaupmennirnir og fésýslumennirnir óspart að þeim að venda nú sínu kvæði í kross, hætta að sýta tapað frelsi og minnast borgarastyrjaldar og
blóðsúthellinga og snúa sér alhuga að skreiðarframleiðslunni, framleiða verðmikinn þorsk og svo lýsi í stað kjöts, mjólkur og skinna.
Ekki lítill hluti íslenzku þjóðarinnar hlustaði á þessi hvatningaryrði og lét tilleiðast, — breytti háttum og högum, atvinnu sinni og öflun hins daglega brauðs og annarra efnalegra nauðþurfta, — flutti búferlum að sjávarströndinni, byggði sér þar kofaræksni, myndaði ver og þorp og tók að stunda sjávarútveg á minni og stærri árafleytum. Svo varð þetta um Suðvesturland, Vestfirði, austur um Norðurland og í fjörðum eystra.
„Fiskur“ varð þá verðmæliseining jafnhliða vaðmálsalininni og síðar næstum einvörðungu samhliða eða jafnframt kúgildinu eða einu hundraði á landsvísu, sem jafngilti 240 málfiskum eða 120 álnum, með því að tveir fiskar giltu jafnt einni alin vaðmáls.
Sjávarútvegsöldin á Íslandi var gengin í garð, og samkeppnin um íslenzkar sjávarafurðir leiðir af sér ófrið og blóðsúthellingar, en jafnframt verðhækkun og batnandi afkomu alls almennings.
Í tveim íslenzkum annálum er getið óspekta útlendra kaupmanna í Vestmannaeyjum. Það var árið 1397. Þá lágu á voginum í Vestmannaeyjum eða við vogsmynnið 6 erlend verzlunarskip eða kaupför. Meira segja annálarnir ekki um þessar óspektir. Við verðum því að geta í eyðurnar eins og svo víða og álykta eftir því sem vit og þekking hrekkur til, þegar allar heimildir skortir að öðru leyti.
Meðan umboðsmenn konungsvaldsins létu viðskipti Íslendinga og erlendu kaupmannanna afskiptalaus, fór yfirleitt vel á með landsmönnum og erlendu kaupsýslumönnunum, því að báðir aðilar sáu sér hag í viðskiptunum. Fyrir 1400 voru afskipti valdsmannanna af viðskiptum landsmanna við útlendingana lítil eða engin, svona á frumstigi. Þess vegna eru miklar líkur til þess, að óspektirnar í Vestmannaeyjum 1397 hafi verið á milli þýzkra kaupmanna annars vegar og enskra hins vegar. Þar mun þá hafa verið rifizt og ribbaldazt um skreið Eyjaskeggja.
Ef við gætum miðað þetta tímabil Íslandssögunnar, sjávarútvegstímabilið, við eitthvert sérstakt ártal, yrði það helzt árið 1413. Þá gerðist atburður í Vestmannaeyjum, sem markaði spor í atvinnusöguna í heild og þjóðhagssöguna.
Í Nýja annál segir svo við árið 1413:
„ ... Komu 5 skip ensk til Íslands og lögðu öll inn til Vestmannaeyja. Komu þar út bréf send af kónginum í Englandi til almennings og til allra beztu manna í landinu, að kaupskapur væri leyfður með hans menn, sérlega í það skip, sem honum tilheyrði. Var fyrst talað um Björgvinjarskip; vildu enskir þar ekki til hluta; síðan keypti hver sem orkaði eftir efnum ... “
Vissulega virðist svo, að koma þessara kaupfara til Vestmannaeyja og viðskiptin, sem þá áttu sér stað við ensku kaupmennina og
sjómennina, marki að einhverju leyti tímamót í atvinnulífinu, ekki aðeins Eyjabúa, heldur engu síður bænda, sveitabænda, sem búa í námunda við
Suðurströnd landsins, frá Vikarskeiði í vestri og alla leiðina austur í Hálsahöfn í Suðursveit.
Eftir dvölina og viðskiptin í Vestmannaeyjum sumarið 1413 afráða ensku kaupmennirnir að gera Eyjarnar að föstum verzlunarstað sínum sumar hvert. Hér var nóga skreið að fá og afbragðs góða skreið, og útlendan varning skyldu Eyjabúar fá við hagstæðu verði. Báðir aðilar voru ánægðir, og þá var vel.
Viðlegusjómenn úr Rangárvalla- og Skaftafellssýslu hinni vestari nutu góðs af viðskiptunum og „hvalsagan“ barst um sveitir og ból og glæddi vonir um batnandi hag.
Ekki líða nú mörg ár, þar til ensku kaupmennirnir og farmennirnir kenna Eyjafólki að herða þorsk að norskri fyrirmynd. Fiskherzlu Norðmanna höfðu Englendingarnir kynnzt all rækilega, er þeir keyptu ákaft norsku skreiðina og seldu á enska markaðnum, áður en Hansakaupmennirnir náðu undirtökunum í þeirri samkeppni og útrýmdu bókstaflega þeim ensku af norska skreiðarmarkaðnum, ráku þá burt úr Björgvin.
Á þessu tímaskeiði atvinnusögunnar finna Eyjabúar upp fiskigarðana sína sérlegu, sem þeir notuðu æ síðan fram á síðari hluta 19. aldar. Með notkun þeirra urðu Eyjamenn samkeppnisfærir um framleiðslu 1. flokks skreiðar þrátt fyrir rakt loftslag og rigningasama veðráttu.
Verkunaraðferðin var þessi: Hausaður og slægður var þorskurinn fluttur inn í girðinguna umhverfis fiskigarðana, kasarreitinn og króna. Þar var hann kasaður að norskri fyrirmynd, lagður í hrúgu eða kös á sérstakan reit, sem gerður var úr hraungrýti. Þar lágnaði fiskurinn. Þannig þótti hann bragðbetri harður. Þegar slegið hafði í hann lítilsháttar, var hann breiddur á herzlugarðana innan girðingarinnar. Hálfharður var hann síðan settur inn í króna, hraungrýtiskofann, sem hlaðinn var þannig í topp að loka mátti fyrir ofanregn með einni hraungrýtishellu. Í krónni þornaði eða harðnaði fiskurinn til fulls án þess að rigna eða veðrast eða slá sig á milli í hinu raka sjávarlofti Eyjamanna og regnsömu veðráttu. Þannig sigruðust Eyjabúar á þeim erfiðleikum og gátu notið hins háa skreiðarverðs á enska markaðnum eins og aðrir, sem bjuggu við hagfeldari veðráttu til að herða fisk, svo að góð vara yrði.
Um þetta bil finna Eyjabændur einnig upp þá list að nota bergsyllur Fiskhellanna til skreiðarherzlu og skreiðargeymslu.
Þegar fiskigarðar Eyjabænda voru flestir og mestir, þöktu þeir megin hluta Heimaeyjar norðan frá Skildingafjöru suður í Agðahraun eða svæðið suður fyrir Olnboga á Ofanleitisvegi. Oftast mun einn jarðarvöllur, tvær jarðir, hafa átt einn fiskigarð saman. Það er vitað, að konungur leigði því hærra verði hvern jarðarvöll, sem honum fylgdi stærri og stæðilegri fiskigarður. Svo mikilvægur „fylgifiskur“ þóttu þeir jörð hverri.